„Þetta er komið. Engin U-beygja, engin breyting,“ sagði Gavin Williamsson, menntamálaráðherra Englands, í viðtali við the Times um ákvörðun sína um að meta útskriftareinkunnir menntaskólanemanda með umdeildri reikniformúlu á laugardaginn í síðustu viku.
Tveimur dögum síðar hafði ráðherranum þó snúist hugur og tilkynnti að kennaramöt yrðu leyfð í stað reikniformúlunnar. Williamsson segist hafa skipt um skoðun vegna nýrra upplýsinga um galla reikniformúlunnar, en breska blaðið The Guardian heldur því fram að hann hafi verið varaður við formúlunni nokkrum sinnum í sumar.
75 prósent rétt
Umrædd reikniformúla var búin til í kjölfar þess að samdræmdum prófum menntaskólanema, sem kölluð eru A-levels, var aflýst fyrr í vor vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og ráðherrann vildi finna leið til þess að einkunnadreifing útskriftarnema í ár yrði lík dreifingu fyrri ára.
Nefnd á vegum breska þingsins komst að þeirri niðurstöðu fyrr í sumar að reiknaðar einkunnir eftir dreifingu fyrri ára ætti á hættu að mismuna nemendum úr ýmsum minnihlutahópum sem að meðaltali fái lægri einkunnir. Þar að auki bárust áhyggjuraddir til menntamálaráðuneytisins um að reikniformúlan yrði aðeins rétt í 75 prósent tilvika.
„Einkunnir, ekki póstnúmer!“
Á fimmtudaginn í síðustu viku voru svo reiknuðu útskriftareinkunnir menntaskólanemanna birtar og kom þá í ljós að þær voru lægri en kennaramöt nemendanna í nær 40 prósent tilvika. Formúlan virðist hafa gagnast nemendum í einkaskólum sérstaklega, en hærra hlutfall þeirra fengu hæstu einkunn en í samræmdu prófunum árin á undan.
Formúlan veitti nemendum í ríkisreknum menntaskólum ekki jafnmikla hækkun, en hún refsaði sérstaklega þeim nemendum sem höfðu fengið lægri einkunnir á fyrri árum.
Niðurstöðurnar vöktu mikla reiði meðal kennara, sem sögðu þær vera ósanngjarnar og óskiljanlegar. Síðasta mánudag efndu nemendur svo til mótmælagöngu að menntamálaráðuneytinu, líkt og sjá má á Twitter-færslunni hér að neðan. Í göngunni hrópuðu nemendurnir meðal annars: „Einkunnir, ekki póstnúmer!“
chants of “fuck the algorithm” as a speaker talks of losing her place at medical school because she was downgraded. pic.twitter.com/P15jpuBscB
— huck (@HUCKmagazine) August 16, 2020
Beygt af leið
Þegar fjölmiðlar báðu um viðbrögð ráðherrans við einkunnirnar sagðist hann fyrst að stórar breytingar á fyrirkomulaginu kæmu ekki til greina. Hann væri öruggur með að formúlan leiddi til áreiðanlegrar og sanngjarnrar niðurstöðu.
Síðastliðinn mánudag skipti Williamsson svo um skoðun og leyfði einkunnum úr kennaramötum að gilda í stað útreiknaðra einkunna. Á sama tíma bað hann nemendur sem höfðu fengið verri einkunnir vegna reikniformúlunnar afsökunar.
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands hefur ekki tjáð sig um málið þar sem hann er í sumarfríi í Skotlandi þessa dagana. Hins vegar heldur The Guardian því fram að framtíð Williamsson í embætti menntamálaráðherra sé í hættu ef hann lendir í frekari vandræðum þegar skólarnir opna í haust.