Flestar efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar geiguðu
Hlutabótaleiðin hefur skilað tilætluðum árangri og landsmenn hafa tekið út mun meira af séreignarsparnaði sínum en stjórnvöld ætluðu. En flestar aðgerðir sem ríkisstjórnin boðaði vegna efnahagsáhrifa COVID-19 faraldursins, og áttu að kosta tugi milljarða króna, hafa ekki nýst með þeim hætti sem lagt var upp með. Kostnaður ríkissjóðs vegna þeirra er því einungis brot af því sem upphaflega var áætlað.
Þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur kynnti fyrsta aðgerðarpakka sinn vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins þann 21. mars var því haldið fram að pakkinn væri metinn á 230 milljarða króna. Þar af áttu um 60 milljarðar króna að vera bein innspýting úr ríkissjóði.
„Þetta eru stærstu einstöku efnahagsaðgerðir sögunnar,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á blaðamannafundi í Hörpu sem haldinn var vegna þessa.
Um var að ræða tíu aðgerðir sem áttu að tryggja varnir, vernd og viðspyrnu. Hluti þeirra var þess eðlis að langur tími mun líða þangað til að hægt verður að mæla árangur aðgerðanna. Það á til dæmis við 20 milljarða kóna fjárfestingaátak og aðgerðir til að greiða fyrir innflutningi með niðurfellingu tollafgreiðslugjalda og frestun á greiðslu á aðflutningsgjöldum. En aðrar aðgerðir áttu að hafa mikil mælanleg áhrif fljótt.
Mánuði síðar, 21., apríl, voru tíu aðgerðir í viðbótar kynntar til leiks. Heildarkostnaður við þann aðgerðarpakka átti að vera um 60 milljarðar króna. Þar skiptu mestu máli aðgerðir fyrir lítil fyrirtæki, bónusgreiðslur til framlínustarfsmanna og sértækur styrkur til fjölmiðla. Auk þess voru í pakkanum aðgerðir sem er erfitt að mæla eins og er, líkt og jöfnun tekjuskatts, sértækur stuðningur við sveitarfélög og ýmiskonar framlög til meðal annars geðheilbrigðismála og fjarþjónustu.
Viku síðar var þriðji pakkinn kynntur, en hann snerist að meginstefnu um að greiða hluta launa starfsfólks sem yrði sagt upp úr opinberum sjóðum.
Nú, fimm mánuðum síðar, liggja fyrir upplýsingar um hversu vel aðgerðirnar sem áttu að telja strax hittu í mark. Árangurinn af því er mjög mismunandi. Sumar hafa staðið undir þeim væntingum sem til þeirra, en aðrar hafa geigað.
Fyrsti pakkinn:
Hlutabótaleiðin: Átti að vera 22 milljarðar en er 18 milljarðar
Í kynningu stjórnvalda í mars var gert ráð fyrir að hlutabótaleiðin myndi kalla á 22 milljarða króna viðbótarþörf fyrir atvinnuleysistryggingasjóð. Í henni fólst að fyrirtæki gátu fengið, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, greiðslur úr opinberum sjóðum til að standa straum af launakostnaði starfsmanna. Fyrst voru hámarksgreiðslur allt að 75 prósent af launum upp að ákveðnu þaki, en það var síðar lækkað niður í 50 prósent. Samhliða þeirri lækkun var tekið fyrir að fyrirtæki sem ætluðu að greiða arð, kaupa eigin bréf, greiða óumsanda bónusa eða borga helstu stjórnendum yfir þrjár milljónir króna á mánuði gætu nýtt sér leiðina.
Það var gert vegna þess að mörg stöndug fyrirtæki höfðu gert slíkt. Gagnrýni vegna þess leiddi af sér að 61 fyrirtæki tilkynnti að það ætlaði sér að endurgreiða hlutabætur upp á 306 milljónir króna. Af þeim hafa 44 fyrirtæki nú þegar endurgreitt 210 milljónir króna.
Þegar mest var nýttu 33.637 manns hlutabótaleiðina. Í júlí var sú tala komin niður í 3.862 sem leiddi af sér 300 milljóna króna kostnað, samkvæmt minnisblaði fjármála- og efnahagsráðherra dagsett 14. ágúst sem lagt var fyrir ríkisstjórn fyrr í mánuðinum. Þar segir að búast megi við því að tæplega helmingur þeirra sem nýttu úrræðið í júlí hafi gert það í ágúst.
Hlutabótaleiðin átti að renna út um komandi mánaðamót. Hún hefur hingað til kostað 18 milljarða króna og viðbúið er að kostnaður í ágúst verði undir 150 milljónum króna. Því var raunnýting á leiðinni um 83 prósent af þeirri upphæð sem lagt var upp með að eyða.
Ákveðið var að framlengja leiðina í vikunni út októbermánuð. Í greinargerð frumvarps þess efnis kemur fram að áætlaður kostnaður sé um tveir milljarðar króna.
Brúarlán til atvinnulífsins: Átti að vera 80 milljarðar en er 1,2 milljarðar
Ein helsta aðgerðin sem ríkisstjórnin kynnti til leiks í mars var að veita fyrirgreiðslu til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja. Þetta átti að gera þannig að ríkið semdi við Seðlabanka Íslands um að færa lánastofnunum aukin úrræði til að veita viðbótarfyrirgreiðslu til fyrirtækja, í formi brúarlána, sem orðið hefðu fyrir verulegu tekjutapi vegna yfirstandandi aðstæðna. Seðlabankinn myndi þannig veita ábyrgðir til lánastofnana sem þær nýta til að veita viðbótarlán upp að um 70 milljarða króna.
Aðalviðskiptabankar fyrirtækja áttu að veita þessa fyrirgreiðslu og aðgerðin var í heild metin á um 80 milljarða króna að teknu tilliti til aukinnar útlánagetu banka vegna lækkunar á bankaskatti, sem átti að aukast um tæplega 11 milljarða króna.
Í dag hefur eitt brúarlán verið veitt. Það lán fékk Icelandair hótel frá Arion banka og lánið var 1,2 milljarðar króna. Vextir þess voru svimandi háir, en bankinn tók 25 prósent vexti af sínum hluta lánsins.
Frestun skattgreiðslna: Átti að vera 92 milljarðar en er 19 milljarðar
Ein af fyrstu aðgerðunum sem íslensk stjórnvöld gripu til vegna efnahagslegra afleiðinga af kórónuveirufaraldinum var að veita fyrirtækjum í landinu frest á greiðslu á helmingi tryggingargjalds og staðgreiðslu opinberra gjalda sem voru á gjalddaga í mars. Þetta var ákveðið 12. mars, fjórum dögum áður en að eindagi þeirra gjalda átti að vera. Þeim eindaga var frestað um mánuð upphaflega, og síðar þangað til í janúar á næsta ári. Gert var ráð fyrir að þetta myndi seinka tekjum til ríkissjóðs upp á 22 milljarða króna.
Þegar ríkisstjórnin kynnti svo fyrsta efnahagspakka sinn 21. mars var ein dýrasta aðgerðin þar sú að fresta mætti þremur gjalddögum staðgreiðslu og tryggingargjalds á tímabilinu 1. apríl til 1. desember til viðbótar ef fyrirtæki gæti mætt ákveðnum skilyrðum. Áætluð áhrif þess voru tæpir 70 milljarðar króna.
Þessar forsendur gengu ekki eftir. Umfang frestaðra greiðslna hefur þvert á móti verið 19 milljarðar króna frá marsmánuði og út júlí.
Laun í sóttkví: Átti að vera tveir milljarðar en er 191 milljón
Ríkisstjórnin, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands komust að samkomulagi um hvernig staðið verði að launagreiðslum til fólks sem þarf að vera í sóttkví vegna COVID-19 5. mars síðastliðinn, þegar kórónuveirufaraldurinn var farin að láta verulega á sér kræla hérlendis.
Í fyrsta efnahagspakka ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna launagreiðslna í sóttkví yrði um tveir milljarðar króna.
Í minnisblaði Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem inniheldur yfirlit yfir stöðu stærstu efnahagsaðgerða stjórnvalda vegna COVID-19, og var lagt fyrir ríkisstjórn fyrr í þessum mánuði, kemur fram að alls hafi verið greiddar út 191 milljón króna vegna launa fólks sem þurft hefur að fara í sóttkví. Hægt var að sækja um slíkar greiðslur til 1. júlí síðastliðins. Ákveðið var að framlengja þetta úrræði í liðinni viku.
Barnabótaauki: Átti að kosta 3,1 milljarð
Greiða átti út sérstakan barnabótaauka upp á 40 þúsund krónur fyrir hvert barn sem foreldri eða foreldrar sem eru með undir 11,1 milljón krónur í sameiginlegar tekjur, og 20 þúsund krónur til þeirra sem eru með tekjur yfir þeim mörkum. Þetta átti að gera vegna „raskana af völdum faraldursins“.
Í áætlun stjórnvalda var gert ráð fyrir því að stuðningurinn myndi nema 3,1 milljarði króna og ekkert hefur verið birt opinberlega sem gefur annað til kynna. Í ljósi þess að um bein fjárútlán úr ríkissjóði er að ræða, og að nokkur einfalt ætti að vera að reikna út hvað hvert foreldri ætti að fá út frá skattskýrslum þeirra, þá verður að ætla að þessi kostnaðaráætlun hafi staðist.
Úttekt séreignarsparnaðar: Átti að vera tíu milljarðar en verður 20 milljarðar
Líkt og eftir hrunið ákváðu stjórnvöld að heimila landsmönnum að nýta eigin séreignarsparnað til að takast á við yfirstandandi efnahagsþrengingar.
Heimildin felur í sér að einstaklingum er gert kleift að ganga á eigin sparnað, en þeir þurfa hins vegar að greiða skatt af honum við útgreiðslu líkt og ef þeir tækju hann út á efri árum. Aðgerðin er því tekjuöflunaraðgerð fyrir ríkissjóð. Margir landsmenn nýta nú þegar séreignarsparnað sinn til að greiða niður húsnæðislán, en ef sú leið er valin nýtur útgreiðslan skattfrelsis.
Í upphafi var reiknað með að umfang þessa úrræðis yrði tíu milljarðar króna á 24 mánaða tímabili. Alls hafa hins vegar tæplega sjö þúsund landsmenn tekið úr 14,5 milljarða króna af séreignarsparnaði sínum eftir að það var heimilað og fram til næstu áramóta er búist við að útgreiðslur verði 18 milljarðar króna. Í heildina eru áætlaðar útgreiðslur sem nema 19,8 milljörðum króna sem dreifast fram í mars 2022.
Því stefnir í að úttekt á séreignarsparnaði verði tvisvar sinnum það sem búist var við.
Styrking ferðaþjónustu: Ferðagjöfin átti að vera 1,5 milljarður en hefur kostað undir 500 milljónum
Alls átti styrking ferðaþjónustu að kosta á fimmta milljarð króna, samkvæmt kynningu ráðamanna í Hörpu í mars. Sá hluti þessa pakka sem vakti mesta athygli var það sem síðar fékk nafnið Ferðagjöfin. Í henni fólst að gefa Íslendingum eldri en 18 ára samtals 1,5 milljarð króna til að örva vilja þeirra til innlendrar neyslu og ferðalaga.
Samkvæmt síðustu birtu tölum hefur þjóðin samtals eytt 437 milljónum króna af ferðagjöfunum, eða tæplega þriðjungi af þeirri upphæð sem stjórnvöld kynntu að aðgerðin ætti að kosta.
Rúmur helmingur þeirra um 280 þúsund Íslendinga sem áttu rétt á fimm þúsund króna ferðagjöf stjórnvalda hafa sótt hana og af þeim hefur rúmlega helmingur þegar notað hana nú þegar sumarleyfistímabili Íslendinga fer að ljúka.
Ferðagjöfin gildir út árið 2020 og því verða þeir sem ekki nýta hana fyrir þann tíma af henni. Að meðaltali hafa um tvö þúsund ferðagjafir verið nýttar á dag.
Auk þess átti að fella niður gistináttagjald sem átti að kosta ríkissjóð 1,6 milljarða króna á tveimur árum. Sú tala er þó fengin úr fortíðinni þegar Ísland tók við um og yfir tveimur milljónum ferðamanna árlega. Fyrir liggur að gríðarleg fækkun hefði orðið á fjölda ferðamanna sem hingað mun koma í ár hvort sem gjaldið hefði verið fellt niður eða ekki, en það er 300 krónur á hverja gistinótt. Því til stuðnings voru ferðamenn í júní aðeins þrjú prósent af fjöldanum í fyrra.
Þá átti að eyða 1,5 milljörðum króna í alþjóðlegt markaðsátak fyrir Ísland sem áfangastað. Það verkefni verður líklega sett á ís á meðan landið er nánast lokað fyrir komu erlendra ferðamanna.
Útvíkkun á „Allir vinna“: Átti að vera átta milljarðar en eru um hálfur milljarður
Meðal þeirra ráðstafana sem stjórnvöld hafa gripið til í kjölfar kórónuveirufaraldursins er að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts tímabundið úr 60 prósentum upp í 100 prósent vegna endurbóta á íbúðarhúsnæði sem og að útvíkka endurgreiðsluheimildirnar.
Nú fæst til dæmis virðisaukaskattur sem greiddur hefur verið vegna vinnu við bílaviðgerðir og heimilishjálp og -þrif að fullu endurgreiddur.
Áætluð áhrif aðgerðarinnar voru metin á átta milljarða króna.
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að búið væri að afgreiða 1.631 umsóknir vegna bílaviðgerða upp 25 milljónir króna, en alls hafa rúmlega 5.200 umsóknir borist.
Vegna endurbóta og viðhalds á húsnæði hafði Skatturinn greitt út um 470 milljónir króna vegna 3.434 afgreiddra umsókna, en alls höfðu borist um átta þúsund umsóknir frá 1. maí.
Annar pakkinn:
Lokunarstyrkir: Átti að vera 2,5 milljarðar en eru 197 milljónir
Þegar stjórnvöld kynntu annan aðgerðapakka sinn vegna efnahagsáhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru var kynntur til leiks sérstakur pakki fyrir lítil fyrirtæki.
Í honum voru meðal annars svokallaðir lokunarstyrkir sem áttu að greiðast til fyrirtækja eða einyrkja sem þurftu að loka starfsemi sinni vegna lögboðs stjórnvalda í tengslum við sóttvarnaraðgerðir vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.
Styrkirnir voru í boði fyrir þau fyrirtæki sem gátu sýnt fram á að minnsta kosti 40 prósent tekjufall og að þau væru með opinber gjöld í skilum. Hver aðili myndi geta fengið allt að 800 þúsund krónur fyrir hvern starfsmann en 2,4 milljóna króna styrk að hámarki. Áætlað var að styrkirnir myndu geta náð til allt að tvö þúsund fyrirtækja og að þeir myndu kosta 2,5 milljarða króna.
28. ágúst höfðu 170 umsóknir borist með reiknuðum styrk upp á 196,5 milljónir króna. Af þeim hafa 125 umsóknir verið samþykktar og útgreiðslur nema 137 milljónum króna.
Stuðningslán: Áttu að vera 28 milljarðar en er 3,1 milljarður
Hitt megin úrræðið í aðgerðarpakka stjórnvalda fyrir lítil fyrirtæki voru svokölluð stuðningslán, einnig kölluð sérstök lán til lítilla fyrirtækja. Til að teljast til slíkra fyrirtækja þurfti að vera með tekjur undir 500 milljónum króna á ári. Lánin, sem njóta 100 prósent ríkisábyrgðar, standa einungis fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 40 prósent tekjufalli til boða, sem er sama skilyrði og gildir fyrir hin svokölluðu brúarlán til stærri fyrirtækja sem kynnt voru til leiks mánuði áður.
Lánin til fyrirtækjanna átti að verða hægt að sækja um með einföldum hætti á Island.is en þau nema að hámarki sex milljónir krónur á hvert fyrirtæki. Heildarumfang lánanna átti að geta orðið allt að 28 milljarðar króna í heild, að mati stjórnvalda.
Þann 28. ágúst höfðu alls 714 umsóknir um stuðningslán borist og heildarfjárhæð umsókna var 6,2 milljarður króna. Búið var að afgreiða 430 umsóknir og greiða út alls 3,1 milljarð króna í stuðningslán.
Styrkir til fjölmiðla: Átti að vera 350 milljónir en eru 400 milljónir
Ákveðið var að salta frumvarp um að koma upp árlegum styrkjagreiðslum til einkarekinna fjölmiðla og búa þess í stað til einskiptisaðgerð undir hatti neyðaraðgerða vegna COVID-19. Upphaflega átti að greiða 350 milljónir króna til þeirra sem uppfylltu sett skilyrði en sú upphæð var síðar hækkuð upp í 400 milljónir króna.
Stuðningurinn verður að hámarki 25 prósent af stuðningshæfum rekstrarkostnaði umsækjenda en stuðningur til hvers umsækjenda getur ekki orðið hærri en sem nemur 25 prósent af þeirri fjárveitingu sem Alþingi hefur úthlutað til sérstaks rekstrarstuðnings, eða 100 milljónir króna. Umsóknir áttu að afgreiðast fyrir 1. september 2020.
Alls sóttu 25 aðilar um styrki og samkvæmt heimildum Kjarnans er heildarupphæð umsókna hærri en sú upphæð sem er til útdeilingar. Því mun greiðsla til hvers fjölmiðils verða lægri en sem nemur 25 prósentum af stuðningshæfum rekstrarkostnaði en þó liggur fyrir að uppistaðan af upphæðinni mun fara til þriggja stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækja landsins: Árvakurs, Torgs og Sýnar.
Þótt 1. september sé á þriðjudag þá hafa fjölmiðlar sem uppfylla sett skilyrði enn ekki fengið upplýsingar um hversu háan styrk þeir fá, né hvenær hann muni berast.
Þriðji pakkinn:
Uppsagnarstyrkir: Átti að vera 27 milljarðar en eru 3,9 milljarðar
Þann 28. apríl var tilkynnt um að ríkisstjórnin ætlaði að veita ákveðnum fyrirtækjum, sem hefðu orðið fyrir umfangsmiklu tekjutapi, eða að minnsta kosti 75 prósent, styrki til að eyða ráðningarsamböndum þeirra við starfsfólk sitt.
Þegar frumvarp um uppsagnarstyrki var lagt fram um miðjan maí var gert ráð fyrir því að bein útgjöld ríkissjóðs vegna úrræðisins yrðu 27 milljarðar króna. Enn sem komið hefur því um 14 prósent af áætluðum kostnaði vegna uppsagnarstyrkja fallið til.
Þann 7. ágúst síðastliðinn höfðu alls 332 umsóknir borist um svokallaða uppsagnarstyrki úr ríkissjóði, en um slíka geta fyrirtæki sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli sótt um til að standa straum af 85 prósent af kostnaðinum við að segja upp fólki.
Þegar er búið að afgreiða 265 umsóknir vegna 158 rekstraraðila og af þeim umsóknum sem afgreiddar hafa verið nemur greiddur stuðningur um 3,7 milljörðum króna vegna launa og 160 milljónir króna vegna orlofs.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði