„Við munum fá bóluefni fljótlega, kannski fyrir mjög sérstaka dagsetningu. Þið vitið hvaða dagsetningu ég er að tala um,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti í byrjun vikunnar. Hann ítrekaði svo enn einu sinni að bóluefnið kæmi á markað fljótt – kannski þegar í októbermánuði.
Þarna er forseti áhrifamesta ríkis heims að lofa löndum sínum vernd gegn veiru á undra skömmum tíma. Skemmri tíma en áður hefur nokkru sinni þekkst að bóluefni hafi verið þróað á. Þarna er líka forseti áhrifamesta ríkis heims að lofa kjósendum þessari vernd. Því hin „mjög sérstaka dagsetning“ sem hann nefndi er kjördagurinn 3. nóvember.
„Þetta er kapphlaupið um bóluefnið – endamarkið nálgast“ segir í nýrri kosningaherferð Trumps. Í auglýsingunni er myndavélinni rennt yfir tóm meðalaglös sem á stendur: „COVID-19 kórónuveiru bóluefni“.
Hvorki Trump né nokkur annar getur með vissu sagt hvenær bóluefni gegn COVID-19 verður tilbúið. Þó að vonir allra standi vissulega til þess að það verði tilbúið sem fyrst hafa vísindamenn ítrekað bent á að ekki sé hægt að flýta þróunarferlinu um of. Þegar sé verið að reyna að framleiða bóluefni við veirusýkingu hraðar en nokkru sinni hefur verið gert. En að enginn afsláttur verði gefinn þegar kemur að vinnubrögðum og öryggi efnisins.
Trump hafði varla sleppt orðinu á blaðamannafundinum á mánudag en skýrt var frá því að tilraunum með það bóluefni sem þykir lofa hvað bestu, var hætt tímabundið þar sem einn sjálfboðaliðinn sem tekur þátt tilrauninni fór að sýna óvænt og alvarleg einkenni út frá taugakerfinu. Heimildir New York Times herma að veikindin lýsi sér í bólgum sem hafi áhrif á mænu mannsins.
Enn er óvíst hvort einkennin tengjast bóluefni sem breska lyfjafyrirtækið AstraZeneca er að þróa í samstarfi við vísindamenn við Oxford-háskóla. Ef í ljós kemur að bóluefnið hafi eitthvað að gera með veikindi sjálfboðaliðans myndi það valda stóru bakslagi í þróun þess. Hins vegar hefur sú ákvörðun lyfjafyrirtækisins að hætta þegar í stað tilraunum á meðan málið verður rannsakað til hlýtar líklega aukið tiltrú almennings á því ferli sem lyf og bóluefni þurfa að fara í gegnum áður en þau eru sett á markað.
Þegar Donald Trump sagði að ferlið yrði stutt og að bóluefnis væri að vænta á næstu vikum vöknuðu enn á ný þær áhyggjur að pólitískur þrýstingur gæti orðið til þess að efni sem ekki væri nægilega prófað og mögulega ekki öruggt yrði markaðssett í flýti. En aðeins örfáir mánuðir eru síðan kórónuveiran SARS-CoV-2 tók sér fyrst bólfestu í mannslíkama. COVID-19, sjúkdómurinn sem hún veldur, er því enn ráðgáta að mörgu leyti.
Forstjórar níu stórra lyfjafyrirtækja, meðal annars AstraZenica, drógu verulega úr þessum áhyggjum í sameiginlegri yfirlýsingu sem þeir sendu út í vikunni. Þar hétu þeir því að „stóla á vísindin“ og hétu því að skuldbinda sig áfram til þess að þróa og prófa mögulegt bóluefni gegn COVID-19 í samræmi við ítrustu siðareglur og á grunni heilbrigðra, vísindalegra lögmála.
Vissulega urðu margir fyrir vonbrigðum með að AstraZeneca hafi þurft að hætta tímabundið prófunum með bóluefni sitt. En hins vegar þykir sú ákvörðun styrkja trú fólks á því að vel eigi að standa að verki. Anthony Fauci, helsti sérfræðingur Bandaríkjanna í smitsjúkdómum og einn af ráðgjöfum Trumps, kallaði ákvörðunina „öryggisventil“. Paul Duprex, yfirmaður bóluefnarannsókna við Háskólann í Pittsburgh, segir að klínískar prófanir séu nokkuð oft stöðvaðar. „Tímabundin stöðvun klínískrar rannsóknar er valkvæð en sýnir í raun að ferlið er að virka. Það er ekki keyrt áfram á fullu án þess að hafa bremsur.“
Lyfjafyrirtækið hefur fengið óháða nefnd sérfræðinga til að leggja mat á það hvort að einkenni sjálfboðaliðans tengist bóluefninu eða ekki. Sjúkrasaga sjálfboðaliðans verður könnuð ofan í kjölinn og farið verður í gegnum ógrynni upplýsinga úr rannsókninni. Í kjölfarið verður svo tekin ákvörðun um hvort og þá hvenær rannsóknin heldur áfram. Ekki er vitað hversu langan tíma sérfræðingarnir þurfa til að komast að niðurstöðu. Þá er líklegt að bandaríska lyfjaeftirlitið muni einnig safna gögnum og leggja sitt mat á málið. Á meðan þessari rannsókn stendur verður fleirum ekki gefið bóluefnið.
Líftölfræðingurinn Susan Ellenberg, sem hefur átt sæti í mörgum eftirlitsnefndum vegna lyfjaþróunar, segir í viðtali við Washington Post að hún hafi litlar áhyggjur af stöðvun prófananna. „Í raun er ég rólegri en áður. Þetta segir mér að fólk er að gæta sín mjög mikið.“
Tilraunir með bóluefni AstraZeneca voru komnar á lokastig. Á því stigi tekur stór hópur sjálfboðaliða þátt, sem samanstendur af fólki frá ólíkum löndum, á mismunandi aldri, öllum kynjum og þar fram eftir götunum. Sjálfboðaliðinn sem veiktist var í hópi 10 þúsund sjálfboðaliða í Bretlandi sem tóku þátt í prófununum á bóluefninu.
Í sumar voru prófanirnar einnig stöðvaðar, þó að það hafi ekki farið hátt. Þá hafði annar sjálfboðaliði veikst en óháð nefnd sérfræðinga komst að því að veikindi hans höfðu ekki orsakast af bóluefninu heldur vegna ógreinds taugasjúkdóms sem sjálfboðaliðinn var með.