Danska forsætisráðuneytið tilkynnti snemmsumars árið 1997 að Bill Clinton Bandaríkjaforseti væri væntanlegur til Kaupmannahafnar 11. júlí. Engin ástæða fyrir þessari fyrstu heimsókn starfandi Bandaríkjaforseta var tilgreind í tilkynningu ráðuneytisins. Stjórnmálaskýrendum fjölmiðlanna þótti tilkynningin snubbótt en nánari útskýringar fengust ekki.
Eins og til stóð lenti þota forsetans á Kastrup síðdegis 11. júlí. Tekið var á móti honum með þeirri viðhöfn sem tíðkast þegar um opinberar heimsóknir er að ræða. Á flugvellinum tóku Friðrik krónprins og Poul Nyrup Rasmussen forsætisráðherra á móti forsetanum, Hillary var ekki með í för. Að lokinni móttökunni á flugvellinum var flogið með forsetann að Marienborg höllinni þar sem gestgjafinn, Margrét Þórhildur drottning ,tók á móti forsetanum.
Þótt Bill Clinton hefði aldrei fyrr komið til Danmerkur, og ætti ekki þangað rætur að rekja, var hann mjög vinsæll meðal Dana. Þegar heimsóknin stóð fyrir dyrum var tilkynnt að Bandaríkjaforseti myndi flytja ávarp framan við dómhúsið á Nytorv, fast við Strikið, 12. júlí. Mikill mannfjöldi, eða um 80 þúsund manns, (tölur frá lögreglu) mætti til að heyra og sjá forsetann, og komust færri að en vildu. Í ávarpi sínu lagði Bandaríkjaforseti áherslu á nána vináttu Danmerkur og Bandaríkjanna, sagði að Danir væru vinir í raun. Þeir væru, þrátt fyrir að vera fámenn þjóð, öflugir liðsmenn í bandalagi vestrænna þjóða og gott fordæmi.
Svo liðu 23 ár.
Embættismenn sendir heim
24. ágúst síðastliðinn greindi danska varnarmálaráðuneytið frá því, í tilkynningu, að Lars Findsen yfirmaður leyniþjónustu danska hersins, FE, hefði verið leystur frá störfum ásamt tveimur starfsmönnum embættisins. Auk þessara þriggja var ráðuneytisstjóri Varnarmálaráðuneytisins, sem til stóð að yrði sendiherra Dana í Þýskalandi, sendur heim. Tilkynning ráðuneytisins var stutt og án nokkurra útskýringa en augljóst að eitthvað meira en lítið alvarlegt byggi að baki, háttsettir embættismenn eru ekki bara sendir heim, si svona.
Klukkutíma síðar þennan sama dag birtist önnur tilkynning frá varnarmálaráðuneytinu. Þar var sagt að fram hefðu komið ásakanir um alvarlega misbresti í starfsemi leyniþjónustu hersins. Þær hefðu komið fram í langri og yfirgripsmikilli skýrslu Eftirlitsstofnunar leyniþjónustunnar, TET.
24. ágúst birtist svo enn ein tilkynningin, að þessu sinni frá Eftirlitsstofnuninni, TET. Þar kom meðal annars fram að tölvusérfræðingur sem starfað hefur hjá leyniþjónustu hersins, FE, hefði um nokkurra ára skeið haft grun um að FE hefði farið langt út fyrir verksvið sitt með því að safna og dreifa upplýsingum um danska ríkisborgara til erlends „aðila“ en slíkt er bannað með lögum. Hann hefði reynt að koma þessum grun sínum á framfæri, lengi vel án árangurs.
Það reyndist ekki heiglum hent að átta sig á hvað þetta þýddi, og hver hefði sagt hvað við hvern hvenær og hvar. Og hver væri hin raunverulega ástæða þess að embættismennirnir fjórir voru sendir heim, án skýringa. Fyrir nokkrum dögum var einn til viðbótar, starfsmaður FE sendur heim. Sérfræðingar dönsku fjölmiðlanna voru fljótir að átta sig á því að á eftir A kemur B, eins og stundum er sagt, og ætluðu ekki að láta sér nægja yfirborðskenndar yfirlýsingar ráðamanna og stuttorðar tilkynningar.
27. ágúst greindi Danska útvarpið, DR, frá náinni samvinnu Leyniþjónustu danska hersins, FE, og National Security Agency (NSA) sem er ein stærsta, ef ekki stærsta leyniþjónusta Bandaríkjanna. FE hafði, samkvæmt frétt DR, heimilað bandarísku leyniþjónustunni aðgang að flutningslínum tölvugagna. Slíkur aðgangur gerir kleift að fylgjast með tölvupósti, sms skilaboðum og símtölum. Og nú varð allt í einu ljóst hvað það var sem Bill Clinton meinti þegar hann þakkaði Dönum á Nýjatorgi 12. júlí 1997, vináttu og gott fordæmi.
Tölvukapall í Kaupmannahöfn
Bill Clinton Bandaríkjaforseti hafði sérstaka ástæðu til að þakka Dönum gott fordæmi og náið vinasamband, eins og hann orðaði það í ræðu sinni fyrir framan 80 þúsund manns og í beinni sjónvarpsútsendingu 12. júlí 1997. Hann gætti þess hins vegar að segja ekki of mikið og það er fyrst nú sem komið er í ljós hvað hann átti við.
Snemma á tíunda áratug síðustu aldar hafði bandaríska leyniþjónustan NSA komist að því að í Kaupmannahöfn lægi fjarskiptakapall. Og það enginn smá kapall. Kapall þessi var í eigu dansks fyrirtækis og um hann komu geysimikil tölvu og símasamskipti frá Asíu, gegnum Rússland til tölvuvers í Danmörku og þaðan áfram um allar jarðir. Ónafngreindur heimildarmaður dagblaðsins Berlingske sagði að „þegar maður í Síberíu hringir í kunningja sinn í þarnæsta húsi fer símtalið um kapalinn í Danmörku“. Bandaríkjamennirnir áttuðu sig strax á því að með því að semja við Dani um „aftöppunarleyfi“ gætu þeir fylgst náið með rússneskum tölvu- og símasamskiptum. Og sömuleiðis kínverskum. Samningur við Dani yrði sannkallaður stórlax í njósnaheiminum.
En átti Danmörk að leyfa að leyniþjónusta erlends ríkis fengi aðgang að tölvukapli í eigu dansks fyrirtækis í Danmörku? Leyniþjónusta danska hersins sagði nei. En Bandaríkjamenn gáfust ekki upp. Bill Clinton forseti sendi Poul Nyrup Rasmussen forsætisráðherra bréf þar sem hann bað um að þessi ákvörðun yrði endurskoðuð. Og það gerði danski forsætisráðherrann. Hann og Hans Hækkerup, sem var varnarmálaráðherra á þessum tíma, voru báðir hlynntir nánu samstarfi við Bandaríkin og samvinnu NATO ríkjanna.
Skjalið í skápnum
Þegar Bill Clinton kom til Kaupmannahafnar í júlí 1997 hafði samningur um „aftöppunarleyfi“ verið frágenginn. Til þess að koma í veg fyrir að nokkur utanaðkomandi gæti komist í samninginn, t.d gegnum tölvu, var hann prentaður á ritvél (Smith Corona sagði eitt dönsku blaðanna) og hann er aðeins til í einu eintaki. Þetta eintak er varðveitt í skjalaskáp í húsakynnum leyniþjónustu danska hersins. Eins og gefur að skilja hafa dönsku miðlarnir ekki fengið að sjá samninginn sjálfan þótt þeir hafi komist á snoðir um innihaldið.
Að ýmsu var að hyggja varðandi samninginn. Mikilvægust var leyndin, hún yrði að vera algjör. Top secret. Ekki mátti safna upplýsingum um Dani, við það hefur ekki verið staðið eins og áður var nefnt. Mjög mikilvægt ákvæði í þessum samningi var að hann einskorðaðist ekki við þáverandi ríkisstjórn, heldur myndi gilda um alla framtíð (orðalag Berlingske). Ákveðið var að í hvert skipti sem nýr varnarmálaráðherra tæki við í Danmörku myndi hann setja nafn sitt á samninginn, sem síðan yrði aftur settur á sinn stað í sérstöku hólfi í skjalaskápnum. Þannig gæti nýr varnarmálaráðherra séð að forveri hans hefði ritað nafn sitt til samþykkis. Mjög strangar reglur gilda um aðgang að umræddum skjalaskáp. Auk varnarmálaráðherrans skal nýr forsætisráðherra hverju sinni upplýstur um samninginn og sömuleiðis utanríkisráðherra. Allir eru bundnir algjörum trúnaði.
Varnarmálaráðherrann gagnrýndur
Nokkrir stjórnarandstæðingar á danska þinginu, Folketinget, hafa harðlega gagnrýnt að Trine Bramsen varnarmálaráðherra skuli hafa heimilað Eftirlitsstofnun leyniþjónustunnar, TET, að birta upplýsingar varðandi „aftöppunarkapalinn“. Sumir þeirra taka stórt upp í sig og segja að Trine Bramsen hafi í fljótfærni stórskaðað samstarf bandarísku leyniþjónustunnar, NSA, og þeirrar dönsku, FE. Ráðherrann eigi ekki annarra kosta völ en segja af sér.