Nýr vinnupappír eftir hagfræðingana Jón Steinsson, Emi Nakamura og Jósef Sigurðsson um Vestmannaeyjagosið sýnir hvernig ytri áföll í einsleitum bæjarfélögum geta leitt til meiri atvinnutækifæra íbúa sem flytja þaðan. Höfundarnir segja eldgosið vera einstakan atburð sem gerir þeim kleift að finna orsakasamhengi, en Nóbelsverðlaunahafar hafa vitnað í greinina í umræðu um flóttafólk.
Nýjasta útgáfa pappírsins, sem ber heitið „The Gift of Moving“, var birt fyrr í mánuðinum, en fyrsta útgáfa hans var birt árið 2016. Samkvæmt honum hafði Vestmannaeyjagosið árið 1973 langvarandi áhrif á efnahag Eyjamanna sem settust að annars staðar í kjölfar þess. Þetta sést á skólagöngu barnanna sem fluttu frá Eyjum, en hún lengdist að meðaltali um fjögur ár vegna flutninganna.
Áhrifin voru þó ekki jákvæð fyrir alla íbúa Vestmannaeyja sem fluttu, en hagur foreldra í þeim fjölskyldum sem fluttu í kjölfar gossins versnaði nokkuð. Að mati Jóns Steinssonar, eins höfunda greinarinnar, virðist ástæða þess vera að foreldrarnir beri kostnaðinn af því að flytja á meðan börnin njóta ábatans.
Vestmannaeyjar ekki „slæmur staður“
Hins vegar bætir Jón við að niðurstöður rannsóknarinnar þýði ekki að öllum hefði vegnað betur ef þau hefðu flutt frá Vestmannaeyjum, þar sem meðaltekjur þar eru hærri en t.d. í Reykjavík. Hins vegar hafi atvinna í bænum verið einsleit og nær einungis tengd sjávarútvegi. Með gosinu var þeim sem ekki höfðu hæfileika í þeirri grein gefinn hvati til þess að færa sig um set, og höfðu þannig meiri tækifæri á að finna sér vinnu sér við hæfi.
Jósef Sigurðsson, annar höfunda greinarinnar, bætir við að eldgosið hafi verið einstakur atburður sem geri þeim kleift í að leiða í ljós ákveðið orsakasamhengi sem ekki hefði náðst ef einungis væri horft til tekjumunar þeirra sem flytjast búferlum og þeirra sem sitja eftir.
Afkomendurnir græddu meira
Til viðbótar við að skoða áhrif á íbúana sem fluttu vegna gossins skoðuðu greinarhöfundar áhrif á afkomendur þeirra. Þetta var gert með hjálp gagnasöfnunar frá Íslenskri erfðagreiningu, og er Kára Stefánssyni forstjóra fyrirtækisins þakkað sérstaklega fyrir hjálp sína. Samkvæmt niðurstöðunum voru afkomendur barnanna sem fluttu vegna gossins að meðaltali sex árum lengur í skóla en þau hefðu verið ef gosið hefði ekki átt sér stað.
Notuð í umræðu um flóttafólk
Nóbelsverðlaunahafarnir Abhijit Banerjee og Esther Duflo minntust á rannsókn Jóns, Jósefs og Nakamura í bók sinni Good Economics for Hard Times sem kom út í fyrra, sem sönnun þess að fólk flytji ekki auðveldlega frá heimilum sínum, þótt þeir ættu betri efnahagsleg tækifæri annars staðar. Samkvæmt Banerjee og Duflo er þetta mikilvægt innlegg í umræðunni um flóttafólk, sem sýnir að meira þurfi til heldur en hagrænir hvatar til þess að margir færi sig um set.
Jón Steinsson og Emi Nakamura eru hjón og hagfræðiprófessorar við Berkeley-skólann í Háskólann í Kaliforníu, en Jósef Sigurðsson er hagfræðilektor við Norwegian School of Economics. Nakamura vann í fyrra virtu John Bates Clark hagfræðiverðlaunin og Jósef vann Peggy & Richard Musgrave-verðlaunin í síðasta mánuði, líkt og mbl.is greindi frá.