Noregur, Svíþjóð og Danmörk hafa kynnt stórhuga áætlanir til þess að bregðast við efnahagslegum áhrifum kórónuveirunnar í vetur og á næsta ári. Fjármálaráðherra Svíþjóðar segir að peningar séu engin hindrun fyrir hið opinbera, á meðan starfsbróðir hennar í Danmörku talar um „stríðskistu“ og Norðmenn beina sjónum sínum að ferðaþjónustunni.
Peningar engin hindrun
Fjármálaráðherra Svíþjóðar, Magdalena Andersson, lagði í dag fram fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar á sænska þinginu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir innspýtingu að andvirði 200 milljarða sænskra króna, eða um 3 þúsund milljarða íslenskra króna, fyrir næstu tvö árin.
í viðtali við sænska ríkisútvarpið SVT er haft eftir Anderson að faraldurinn krefjist fordæmalausra aðgerða til að sporna gegn enn frekari hækkun atvinnuleysis og fá hjól sænska hagkerfisins til að snúast aftur. „Peningar munu ekki standa í vegi þess,” segir hún.
Fjárlögin gera ráð fyrir að um 105 milljarðar sænskra króna verði notaðar í efnahagsaðgerðir gegn kórónukreppunni á næsta ári, en það jafngildir tveimur prósentum af landsframleiðslu landsins í fyrra. Sömuleiðis er gert ráð fyrir 85 milljörðum sænskra króna fyrir árið 2022.
Fjárlögin innihalda meðal annars lækkun skatta á unga starfsmenn og flýtingu á fjárfestingum í umhverfisvænum verkefnum, sem ríkisstjórnin reiknar með að geti skapað allt að 75 þúsund störf í landinu.
Vegna aukinna útgjalda ríkissjóðs er búist við hallarekstri á næstu árum, þannig að hlutfall opinberra skulda af landsframleiðslu muni hækka úr 35 prósentum í 42 prósent.
Innspýting fyrir ferðaþjónustuna
Á sama tíma og fjárlagafrumvarp sænsku ríkisstjórnarinnar var lagt fram í morgun tilkynnti iðnaðarráðherra Noregs, Iselin Nybø, ásamt sveitarstjórnarráðherranum Linda Helleland, sérstakan krísupakka fyrir ferðaþjónustuna þar í landi. Pakkinn inniheldur lækkun virðisaukaskatts, lengingu brúaralána og styrki fyrir föstum kostnaði, eins og greint er frá á vef Túrista.
Ráðherrarnir bentu á að þessi krísupakki kæmi ekki í staðinn fyrir áður tilkynntar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem eru að andvirði 124 milljarða norskra króna, eða um 3,5 prósent af landsframleiðslu landsins.
Hins vegar er nýi pakkinn, sem mun gefa ferðamannaiðnaðinum rúman milljarð norskra króna, eða 15 milljarða íslenskra króna, lagður fram til að komast til móts við versnandi skilyrði í atvinnugreininni. Í því samhengi nefndu ráðherrarnir sérstaklega fækkun ferðamanna í kjölfar fjölgunar smita í Evrópu í ágústmánuði.
Fjárlög norsku ríkisstjórnarinnar verða svo kynnt þann 7. október, en samkvæmt norska miðlinum E24 ríkir mikil óvissa um hvers eðlis hann verður. Fjármálaráðherra Noregs, Jan Tore Sanner, sagði það vera sérstaklega erfitt að gera fjárlög á krepputímum. Samkvæmt honum verður þó lögð áhersla á að viðhalda atvinnustiginu í landinu.
Opin stríðskista í Danmörku
Með fyrirheitum sínum um aukin útgjöld hins opinbera til að draga úr áhrifum kórónukreppunnar feta Norðmenn og Svíar í fótspor Dana, sem kynntu fjárlagafrumvarp sitt um síðustu mánaðarmót.
Frumvarpið inniheldur neyðarsjóð, sem ríkisstjórnin kallar „stríðskistuna“, að andvirði 9,2 milljarða danskra króna, en það jafngildir um hálfu prósenti af árlegri landsframleiðslu landsins.
Stríðskistan svokallaða á að fara í efnahagsaðgerðir til að sporna gegn kórónukreppunni í vetur, en ekki liggja fyrir frekari útfærslur á það hvert peningarnir muni fara. Nicolai Wammen, fjármálaráðherra Danmerkur útskýrir hins vegar að ríkisstjórnin vilji nota peningana í heilbrigðiskerfið og atvinnulífið, þar sem áherslan er sett á að draga úr atvinnuleysi.
„Þetta eru mjög miklir peningar sem eru klárir til að hjálpa dönskum fyrirtækjum. Og sem renna til heilbrigðiskerfisins okkar, sem stendur frammi fyrir miklum áskorunum. Það gæti til dæmis komið bóluefni sem þyrfti að eða peningum í. Við vitum ekki hvaða áskorun við stöndum frammi fyrir en við höfum peningana tilbúna,” segir Wammen.
Danska ríkisstjórnin reiknar með fjárlagahalla sem nemur 0,4 prósentum af landsframleiðslu, sem er hámark þess sem gera má ráð fyrir samkvæmt fjármálastefnu landsins. Með því hefur ríkisstjórnin niðurfært spá sína um rekstur fjármála um 0,8 prósentustig frá síðustu spá sinni.
Búist er við 4,5 prósenta samdrætti í landsframleiðslu Danmerkur í ár, miðað við síðasta ár. Atvinnuleysi í landinu stóð í 4,8 prósentum í júlí og hafði þá lækkað frá yfir 5 prósentum yfir vormánuðina.