Félag í eigu Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, sem heldur á 13,41 prósent hlut í útgáfufélagi Morgunblaðsins, er ógjaldfært og með neikvætt eigið fé. Félagið, sem heitir Ramses II, fékk seljendalán frá félagi í eigu Samherja til að kaupa hlut sjávarútvegsrisans í útgáfufélaginu árið 2017. Það lán var á gjalddaga í mars 2020 en hefur ekki verið greitt.
Í ársreikningi Ramses II, sem skuldar tæplega 383 milljónir króna, segir að eigið fé félagsins sé neikvætt og að lán þess séu gjaldfallin. „Stjórnendur vinna að endurskipulagningu félagsins og gera ráð fyrir að geta staðið skil á skuldbindingum félagsins og er ársreikningurinn settur fram með þeirri forsendu. Óvenjulegar aðstæður hafa skapast vegna kórónuveirunnar COVID-19. Óvissa er um hvaða áhrif þær munu hafa á félagið. Vegna þessa ríkir einnig ákveðin óvissa um rekstrarhæfi félagsins.“
Í samtali við Kjarnann segir Eyþór að honum þyki ólíklegt að eignarhluturinn í útgáfufélagi Morgunblaðsins færist aftur til Samherja, í ljósi þess að seljendalánið er gjaldfallið. Hluturinn sé til sölu, nú sem fyrr.
Eyþór segir það líka vera klassíska spurningu hverjir eigi að eiga fjölmiðla. „Lengi vel var nú talað um að það væri gott að hafa fjölbreytt eignarhald á fjölmiðlum en þessi umræða gerir það að verkum að það vill enginn eiga í fjölmiðlum, þeir fá bara þessa neikvæðu ímynd.“
Segir spurningar um viðskiptin pólitíska taktík
Eyþór hefur verið gagnrýndur af pólitískum andstæðingum fyrir að útskýra ekki með greinargóðum hætti hvernig á því stendur að hann hafi eignast hlut Samherja í Árvakri án þess að greiða krónu fyrir.
Borgarfulltrúinn fullyrðir að þeir sem tali um að viðskiptin hafi verið persónuleg gjöf frá Samherja til sín hafi rangt fyrir sér og segir einnig að því sé oft ranglega haldið fram að hann hafi verið stjórnmálamaður þegar félag hans eignaðist hlutinn. Það hafi hann hins vegar ekki verið og svo hafi hann stigið til hliðar í stjórn Árvakurs um leið og hann fór í framboð.
„Enginn af þessum aðilum hefur sér ástæðu til að biðjast afsökunar á að halda röngum hlutum fram. Þetta er ákveðin taktík, að halda áfram að tala um þetta mál í stað þess að tala um borgarmálin,“ segir Eyþór.
Ætlaði að hagnast
Eyþór segist þetta ekki vera í fyrsta sinn sem hann eigi hlut í fjölmiðli. „Ég átti fyrst í fjölmiðli þegar ég var 11 ára, þá keypti ég hlut í Dagblaðinu og vann líka í útvarpinu sem krakki og hef alltaf haft áhuga á fjölmiðlum. Ég vildi óska að það væru fleiri sem hefðu áhuga á fjölmiðlum heldur en færri því þeir eiga mjög undir högg að sækja. Þeir eru ekki bara fréttir heldur líka umfjöllun um menningu og annað og ég kannski vonaði á þessum tíma að rekstrarumhverfi fjölmiðla yrði betra, en það hefur ekki batnað, það hefur versnað.“
Aðspurður hvort að hann hefði vonað að fjárfestingin í útgáfufélagi Morgunblaðsins myndi skila honum hagnaði, segir Eyþór svo vera. „Hún er hugsuð náttúrlega sem slík, en rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur versnað fyrir kórónuvírusinn og er enn þyngra í dag.“
Eyþór segist ekki muna nákvæmlega hversu mikill áhugi hans hafi verið á því að kaupa hlut í Árvakri, þegar viðskiptin áttu sér stað. Greint var frá því að Eyþór hefði stigið inn sem kjölfestufjárfestir í Árvakri í byrjun apríl árið 2017, en þá keypti hann 18,43 prósent hlut sem Samherji átti í gegnum félagið Kattarnef ehf. og til viðbótar keypti hann 6,14 prósent hlut Síldarvinnslunnar hf. og 2,05 prósent hlut Vísis hf. í útgáfufélaginu, alls 26,62 prósent.
„Það er allavega ljóst að einhverjir hluthafar höfðu ekki áhuga á að fylgja félaginu áfram og það hefur verið töluverð breyting á hluthafahópnum og það voru einhverjir sem vildu ekki vera áfram í útgáfunni. Fjölmiðlarekstur er langhlaup eða boðhlaup, á einhverjum tímapunkti hætta menn í því og aðrir taka við, tímabundið eða til langs tíma. Fjölmiðlarekstur hefur allavega versnað, við sjáum til dæmis bara Sýn, þar sem voru keyptir fjölmiðlar og þetta er akkúrat á þessum árum.“
Skuldirnar gjaldféllu í mars 2020
Eignarhlutur Ramses II í Þórsmörk var metinn á 93,3 milljónir króna um síðustu áramót og hafði þá lækkað um 28,3 milljónir króna á einu ári. Frá árslokum 2017, á tveimur árum, hefur virði eignarhlutar Eyþórs í Árvakri rúmlega helmingast.
Skuldir félagsins eru 382,7 milljónir króna. Í ársreikningnum kemur fram að skuldabréfalán Ramses II, upp á 382,1 milljónir króna, hafi verið á gjalddaga í mars 2020.
Lánin voru veitt af félagi sem heitir Kattarnef ehf., sem er í eigu Samherja. Kattarnef veitti félagið Eyþórs seljendalán árið 2017 til að kaupa hlut Samherja í Þórsmörk, móðurfélagi Morgunblaðsins. Því lagði Eyþór ekkert út fyrir þeim kaupum.
Kattarnef hefur þegar fært niður virði lánsins til Ramses II að öllu leyti.
Botnlaust tap árum saman
Samstæðu Árvakurs, sem samanstendur af útgáfufélagi Morgunblaðsins og tengdra miðla, Landsprenti og Póstmiðstöðinni, tapaði 291 milljónum krónum á árinu 2019. Tap móðurfélags Árvakurs, sem er allt tap utan taps Póstmiðstöðvarinnar, móðurfélags dreifingarfyrirtækisins Póstdreifingar, sem Árvakur keypti 51 prósent hlut í 2018, var 210 milljónir króna.
Á þeim áratug sem leið frá því að nýir eigendur tóku yfir móðurfélagið Þórsmörk á árinu 2009, og fram til loka árs 2019, tapaði félagið samtals um 2,5 milljörðum króna. Tap Árvakurs árið 2018 var 415 milljónir króna og dróst því saman á milli ára.
Hlutafé ítrekað aukið
Hlutafé í Þórsmörk ehf., félaginu sem á útgáfufélag Morgunblaðsins, var aukið um 300 milljónir króna fyrr á þessu ári. Hækkunin á hlutafé félagsins, sem fór út 606,6 milljónum í 906,6 milljónir, var öll greidd með peningum.
Hlutafé í Þórsmörk var síðast aukið í byrjun árs 2019, og þá um 200 milljónir króna. Dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga (KS), Íslenskar sjávarafurðir ehf., og félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja lögðu til 80 prósent þeirra 200 milljóna króna sem settar voru inn í rekstur Árvakurs. Alls lögðu þessar tvær blokkir til 160 milljónir króna af milljónunum 200. Þær 40 milljónir króna sem upp á vantaði dreifðust á nokkra smærri hluthafa en enginn nýr hluthafi bættist í hópinn við hlutafjáraukninguna.
Á sama tíma var samþykktum félagsins breytt á þann veg að stjórn þess er heimilt að hækka hlutaféð um allt að 400 milljónir króna til viðbótar með útgáfu nýrra hluta. Sú heimild gildir nú til ársloka 2024.
Þessar aukningar hafa þynnt út hlut Ramses á undanförnum árum.
Árvakur fékk 99,9 milljónir króna í síðasta mánuði þegar að rekstrarstuðningi við einkarekna fjölmiðla, til að mæta efnahagsáhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, var úthlutað. Um var að ræða fjórðung þeirrar upphæðar sem var úthlutað og hæsta einstaka styrkinn.