Ólíkar leiðir stjórnarandstöðuflokka út úr kreppunni
Hvað eiga tillögur um að gera Akureyri að borg, um að byggja mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu í stað borgarlínu og um aukna fjárfestingu í lýðheilsu þjóðarinnar sameiginlegt? Allt eru þetta tillögur sem komið hafa frá einhverjum þeirra þriggja stjórnarandstöðuflokka sem hafa lagt fram heildstæða áætlun til að takast á við efnahagslegar afleiðingar yfirstandandi kreppu.
Ríkisstjórnin hefur kynnt fjölmargar leiðir til að takast á við efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins. Í samantekt Kjarnans frá því fyrir um mánuði síðan kom fram að flestar þeirra hafi geigað. Helst hafi hlutabótaleiðin skilað tilætluðum árangri.
Til viðbótar við þær aðgerðir sem voru þar til umfjöllunar kynnti ríkisstjórnin aðgerðarpakka sem hún metur á 25 milljarða króna í byrjun síðustu viku. Hann taldi átta aðgerðir. Helstar voru þær að að tryggingagjald verður lækkað tímabundið í eitt ár, til loka árs 2021, um 0,25 prósent og er kostnaður ríkissjóðs við þetta metin á fjóra milljarða króna. Full endurgreiðsla á virðisaukaskatti undir hatti úrræðisins „Allir vinna“ verður framlengt út árið 2021 og er kostnaður við þá aðgerð metin á átta milljarða króna. Þá ætla stjórnvöld að beina frekari beinum styrkjum til fyrirtækja sem „orðið fyrir tekjuhruni vegna COVID-19 faraldursins“. Gert er ráð fyrir að styrkirnir geti numið um sex milljörðum króna.
Stjórnarandstöðunni hefur ekki verið kölluð til þegar efnahagsaðgerðir hafa verið ákveðnar. Á síðustu vikum hafa þrír flokkar innan hennar hins vegar lagt fram sínar eigin aðgerðaráætlanir sem þeir telja að gagnist betur við að takast á við þær aðstæður sem eru uppi. Þeir eru Samfylkingin, sem kynnti sinn pakka í morgun, Viðreisn, sem gerði það í byrjun september, og Miðflokkurinn, sem setti fyrst fram tillögur í apríl en ítrekaði þær svo á flokksráðsfundi í lok síðasta mánaðar. Hér að neðan er farið yfir þessar tillögur.
Samfylkingin
Samfylkingin kynnti aðgerðaráætlun sína til að fjölga störfum, stíga fastar til jarðar í loftlagsmálum og renna fjölbreyttari stoðum undir verðmætasköpun á Íslandi í morgun. Um er að ræða ítarlegasta pakka sem stjórnarandstöðuflokkur hefur sett saman, en hann telur 24 blaðsíður.
Heildarkostnaður við áætlunina er um 80 milljarðar króna á árinu 2021, eða um 2,6 prósent af landsframleiðslu. Þegar skatttekjur sem muni að mati flokksins falla til vegna aðgerðanna, og lægri útgjöld til atvinnuleysistrygginga eru talin til þá reiknast Samfylkingunni til að nettókostnaður ríkissjóðs verði um 50 milljarðar króna til viðbótar við þann fjárlagahalla sem þegar er fyrirséður. Því yrði hann um 314 milljarðar króna í stað 264 milljarða króna ef að Samfylkingin fengi að ráða. Flokkurinn segir að það sé þjóðhagslega ábyrgð að fjármagna þennan halla með lántökum, ekki skattahækkunum.
Tryggingagjaldslaust ár
Á meðal aðgerða sem taldar eru til í pakkanum er að lækka tryggingagjald tímabundið með þeim hætti að árið 2021 verði tryggingagjaldslaust ár hjá einyrkjum og smáfyrirtækjum ásamt því að skila „snarpri lækkun til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.“ Ekki er tilgreint hvar mörkin á milli þessara fyrirtækjahópa eigi að liggja. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs vegna tryggingagjalds, sem greiðir meðal annars fyrir atvinnuleysisbætur, eru 94,5 milljarðar króna á næsta ári.
Samfylkingin vill fjölga opinberum störfum með því að ráðast í átak gegn „undirmönnum í almannaþjónustu“. Í því felst að fjölga störfum í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu, löggæslu og velferðarþjónustu í nánu samstarfi við sveitarfélög. Áætlaður kostnaður við þetta er 15 milljarðar króna á næsta ári.
Hvata til fyrirtækja til að ráða atvinnulaust fólk
Þá vill flokkurinn skapa hvata fyrir fyrirtæki til að ráða fólk af atvinnuleysisskrá í stað þess að borga eigendum þeirra styrki til að segja upp fólki, líkt og sitjandi ríkisstjórn gerði í sumar. „Skilvirkasta leiðin til þess er að gera Vinnumálastofnun heimilt að greiða atvinnurekanda ráðningarstyrk sem nemur allt að 75 prósentum af grunnatvinnuleysisbótum í sex mánuði þegar ráðinn er atvinnuleitandi sem hefur verið á atvinnuleysisskrá í að minnsta kosti þrjá mánuði. Hafi atvinnuleitandi verið á atvinnuleysisskrá í meira en sex mánuði verði Vinnumálastofnun heimilt að veita styrk sem nemur 100 prósentum af grunnatvinnuleysisbótum í allt að níu mánuði,“ segir í aðgerðaráætluninni.
Samfylkingin vill lækka jaðarskatta á lífeyrisþega og barnafólk og hækka grunn atvinnuleysisbætur úr 289 þúsund krónum í 318 þúsund krónur og hækka ellilífeyri og örorku- og endurhæfingarlífeyri í samræmi við launaþróun til viðbótar við hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna. Auk þess vill flokkurinn að endurskoðun almannatrygginga lúti sömu lögmálum og þróun þingfarakaups, og haldi þar með í raunverulega launaþróun í landinu í stað áætlunar um hana.
Samfylkingin vill tvöföldun stuðnings við sveitarfélög sem kallar á fimm milljarða viðbótarframlag frá ríkinu árið 2021 og að framlög í tækniþróunarsjóð verði aukin um fimm milljarða króna.
Vilja gera Akureyri að borg
Hún vill líka að aðgerðaráætlun í loftlagsmálum verði endurskoðuð með það að markmiði að stefnt verði að 55 prósenta samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 og að því verði lýst yfir að það verði óheimilt að nýskrá bensín- og dísilbíla á Íslandi frá og með árinu 2025 og tryggja að hleðslustöðvar verði aðgengilegar við allar bensínstöðvar fyrir árið 2023. Þá vill flokkurinn flýta framkvæmdum við Borgarlínu, hækka endurgreiðslur til framleiðenda kvikmynda og sjónvarpsefnis úr 25 prósentum í 35 prósent af framleiðslukostnaði sem fellur til á Íslandi, auka framlög til launasjóðs listamanna um 1,2 milljarða króna og bæta menningarstofnunum upp hluta tekjutaps vegna samkomubanns.
Samfylkingin vill líka skilgreina Akureyri sem borg og endursemja í kjölfarið við sveitarfélagið um réttindi þess og skyldur.
Viðreisn
Viðreisn kynnti sín viðbrögð við efnahagssamdrættinum sem nú stendur yfir á blaðamannafundi 3. september síðastliðinn. Þau eru ekki nærri jafn ítarleg og það sem Samfylkingin kynnti í morgun en samhljómur er með flokkunum í mörgum áherslum.
Sá pakki sem Viðreisn kynnti snerist um að hrinda alls sjö aðgerðum í framkvæmd. Áætlaður kostnaður við aðgerðirnar, sem áttu að skila sér til baka í auknum hagvexti, var 123 milljarðar króna.
Tillögurnar sjö fólu í sér að opinberum framkvæmdum yrði flýtt og þær auknar, að auknir hvatar yrðu innleiddir í loftlagsmálum, að brugðist yrði við auknu atvinnuleysi með tímabundnum úrræðum fyrir fólk í atvinnuleit, að fjárfest yrði í lýðheilsu þjóðarinnar, að álögum yrði létt á fyrirtæki, að störf yrðu varin og nýsköpun efld.
80 milljarðar í flýtingu framkvæmda
Stærsti, og dýrasti, hluti tillögupakkans sneri að því að flýta framkvæmdum hins opinbera, en Viðreisn vildi verja 80 milljörðum króna í það á næsta ári. Borgarlína og aðrar samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu voru sérstaklega nefndar í því samhengi.
Varðandi loftlagsmálin þá lagði Viðreisn til að hraða þyrfti orkuskiptum og draga úr mengandi losun með jákvæðum fjárhagslegum hvötum. Kostnaður vegna þessa er áætlaður fimm milljarðar króna.
Flokkurinn vildi að fólki sem er á atvinnuleysisbótum yrði veitt meira svigrúm til tekjuöflunar á meðan að sú staða væri og lögðu einnig til að tekjutengdar bætur yrðu framlengdar tímabundið. Kostnaður vegna þessa er áætlaður tíu milljarðar króna.
Tryggingagjaldslækkun
Fjárfesting í lýðheilsu þjóðarinnar átti meðal annars að fela í sér að frumvarp sem fulltrúar úr öllum flokkum á þingi lögðu fram, og felldi kostnað við sálfræðimeðferð undir sjúkratryggingar, yrði fjármagnað. Ekki er gert ráð fyrir því í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi. Þá vill Viðreisn að viðbótarfjármagn sé tryggt inn í félagsþjónustu sveitarfélaganna. Þetta á samtals að kosta ríkissjóð fjóra milljarða króna.
Viðreisn vildi lækka álögur á fyrirtæki með því að lækka tryggingagjaldið. Kostnaður ríkissjóðs vegna þessa myndi verða 20 milljarðar króna samkvæmt útreikningum flokksins. Því mynda tvær aðgerðir: flýting fjárfestinga og lækkun tryggingagjalds, uppistöðu aðgerðarpakka Viðreisnar. Saman mynda þær 81 prósent af ætluðum heildarkostnaði pakkans.
Flokkurinn vill að tímabundnir beinir styrkir til atvinnurekenda sem búa við verulegan tekjumissi verði teknir upp og að fjárfesting í nýsköpun verði aukin um fjóra milljarða króna.
Miðflokkurinn
Miðflokkurinn lagði fram tillögur í apríl undir yfirskriftinni: „Miðflokkurinn vill neyðaraðgerðir strax“. Hann hélt svo flokksráðsfund 26. september síðastliðinn þar sem sá tillögupakki, sem er ætlað að koma til móts við þann bráðavanda sem steðjar að heimilum og fyrirtækjum landsins vegna veirufaraldursins, var ítrekaður. Ítrekað var í ályktunum Miðflokksins á flokksráðsfundinum að hann teldi efnahagsaðgerðir stjórnvalda „langt frá því að vera ásættanlegar.“
Markmið aðgerðanna sem flokkurinn vill ráðast í eiga að vera þau að verja kjör, auka ráðstöfunartekjur, verja störf, auðvelda atvinnulífinu sókn á erfiðum tímum, gera ferðaþjónustufyrirtækjum kleift að leggjast í dvala, efla innlenda matvælaframleiðslu, skýra eignarhald ríkisins yfir auðlindum þjóðarinnar og tryggja áframhaldandi nýtingu á þeim. Þá lagði Miðflokkurinn mikla áherslu á að nota tækifærið í yfirstandandi kreppu til að einfalda ríkisrekur og hagræða innan hans. Um leið væri hægt að veita meiru fé til uppbyggingar á innviðum.
Tillögur Miðflokksins voru ekki kostnaðarmetnar líkt og hjá Samfylkingu og Viðreisn, en slá má því föstu að þær séu mun kostnaðarsamari fyrir ríkissjóð. Þær eru líka af allt öðrum toga en tillögur hinna tveggja stjórnarandstöðuflokkanna og fyrirliggjandi að þessir þrír flokkar eiga lítið sem ekkert sameiginlegt þegar kemur að pólitískum áherslum.
Lækka staðgreiðslu skatta í 24 prósent
Á meðal þess sem flokkurinn vill gera er að lækka staðgreiðslu skatta, tekjuskatt og útsvar í 24 prósent til loka næsta árs. Staðgreiðsla skatta á launatekjur í fyrra var á á bilinu 35,04 til 46,24 prósent að útsvari meðtöldu. Því myndu skattar þeirra sem hæstu launin hafa, og greiða þar af leiðandi hæstu skattprósentuna, næstum helmingast.
Miðflokkurinn vill líka fella niður greiðslu vaxta og verðbóta á fasteignalánum atvinnulausra í allt að 18 mánuði, en ekki er sérstaklega tilgreint í tillögunum hver eigi að bera kostnaðinn af því. Helstu fasteignalánveitendur eru bankar og lífeyrissjóðir, ekki ríkissjóður. Þá vill flokkurinn banna vísitöluhækkanir tímabundið og afnema með öllu skerðingar á greiðslum til eldri borgara og lífeyrisþega.
Fella niður tryggingagjald og fasteignagjöldum frestað
Aðgerðapakki Miðflokksins fyrir atvinnulífið eru ekki síður stórtækur, og kostnaðarsamur. Þar er lagt til að tryggingagjald verði fellt niður í eitt ár, að vaxtaþak, sem verði ákvarðað með hliðsjón af stýrivöxtum Seðlabankans (þeir eru eitt prósent) verði lögfest á fryst lán fyrirtækja sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli og það það gildi í tvö ár.
Þá vill flokkurinn að rekstrarstyrkir verði greiddir til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli, að greiðslum fasteignagjalda (sem sveitarfélög innheimta) verði frestað til september 2022, að sérstök lán á mjög lágum vöxtum verði veitt litlum fyrirtækjum og fyrirtækjum á landsbyggðinni, og að launatengd gjöld verði lækkuð.
Banna innflutning á frosnu kjöti og byggja mislæg gatnamót
Miðflokkurinn vill auka stuðning við landbúnað og stöðva þegar í stað innflutning á ófrosnu kjöti og eggjum. Þá kallar flokkurinn eftir því að raforkuverði verði jafnað að fullu á milli dreifbýlis- og þéttbýlis.
Neyðaraðgerðir Miðflokksins í auðlindamálum snýr fyrst og síðast að orkumálum. Þar vill flokkurinn hafna frekari innleiðingu á orkustefnu Evrópusambandsins, afturkalla samþykkt þriðja orkupakkans svokallaða og koma í veg fyrir framsal ríkisvalds til erlendra stofnana.
Þegar kemur að óskum Miðflokksins um að einfalda ríkisreksturinn er ekki lögð fram eiginleg útfærsla á því verkefni, heldur sagt að vilji sé til að „farið verði í róttæka vinnu við að draga úr íþyngjandi regluverki og draga saman báknið.“
Þetta muni skila því að meira fé verði til staðar til að byggja upp innviði. Þeir innviðir sem flokkurinn vill leggja áherslu á eru allt kunn baráttumál hans, sem voru komin til skjalanna fyrir COVID-19 faraldurinn. Má þar nefna að Miðflokkurinn vill að nýtt þjóðarsjúkrahús verði byggt á Keldum, að stórútgjöldum til borgarlínu verði hafnað en áhersla lögð á greiðar stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu með mislægum gatnamótum, bættri ljósastýringu og lagningu Sundabrautar.
Þá vill flokksráð Miðflokksins að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars