Mikla hreyfingu má sjá á leigumarkaðnum þessi misserin. Á meðan húsnæðisverð hefur hækkað hefur leiguverð lækkað töluvert, en sérfræðingar benda á að hrun í útleigu húsnæðis til erlendra ferðamanna gæti skýrt þá þróun. Hagkvæmari leigumarkaður og aukin skólasókn gætu útskýrt hvers vegna fleiri hafa kosið að búa í leiguhúsnæði á síðustu vikum.
Kaupverð hækkar en leigan lækkar
Samkvæmt nýjustu mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) hefur verulega hægst á vexti leiguverðs á landinu öllu á síðustu mánuðum. Á höfuðborgarsvæðinu hefur vísitala leiguverðs lækkað milli mánaða frá því í apríl og er nú svipuð og hún var í upphafi árs.
Þessi þróun sést ekki á fasteignamarkaðnum, þar sem kaupverð íbúða var 4,5 prósentum hærra síðastliðinn ágúst, miðað við sama mánuð í fyrra á höfuðborgarsvæðinu. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins mældist árshækkunin svo 3,9 prósent. Verðhækkunin kemur á sama tíma og umsvif á fasteignamarkaðnum hafa aukist mikið, en eftir miklar vaxtalækkanir á húsnæðislánum í vor hefur fjöldi kaupsamninga aukist ört um allt land.
Samdráttur í leigu til ferðamanna
Í sögulegu samhengi er óvanalegt að leiguverð lækki á sama tíma og fasteignaverð hækki, en verðþróun hefur verið svipuð í báðum flokkum á höfuðborgarsvæðinu síðustu árin. Hagdeild HMS telur að samdráttur í Airbnb-íbúðum og öðrum skammtímaleiguíbúðumhafi líkast til haft neikvæð áhrif á leiguverð.
Eftir hrun í komu erlendra ferðamanna til landsins hefur markaðurinn fyrir skammtímaleigu íbúða minnkað til muna, á sama tíma og framboð á húsnæði til langtímaleigu hefur aukist. Einnig eru íbúðirnar sem áður voru leigðar til ferðamanna að meðaltali minni en aðrar íbúðir, sem þýðir að leigjendum standa nú ódýrari íbúðir til boða.
Leigusamningum fjölgar
Samkvæmt nýjum tölum Þjóðskrár fjölgaði þinglýstum leigusamningum töluvert í síðasta mánuði, miðað við mánuðinn á undan. Ekki hafa jafnmargir leigusamningar verið þinglýstir í áratug, er frá er talinn mánuðurinn eftir verkfall lögfræðinga hjá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu árið 2015.
Skiptir aukning námsmanna máli?
Lækkun leiguverðs á undanförnum mánuðum gæti útskýrt þessa miklu fjölgun leigusamninga í september. Hins vegar gæti fjölgun námsmanna einnig hafa leitt aukinnar aðsóknar í langtímaleiguíbúðir. Svipuð þróun má sjá á fjölda skráðra nemenda í Háskóla Íslands og fjölda þinglýstra leigusamninga í september. Enn eiga tölur um nýskráningar eftir að koma fyrir þetta skólaár, en búast má við áframhaldandi aukningu skráðra nemenda í skólanum miðað við kólnandi vinnumarkað á síðustu mánuðum.