Bruninn í Scandinavian Star árið 1990 hefur iðulega verið nefndur stærsta morðgáta á Norðurlöndum. Og ekki bara stærsta, heldur stærsta óleysta morðgátan. Ætíð er talað um dauða þeirra 159 sem létust af völdum brunans sem morð en fullvíst er talið að eldsvoðinn í skipinu hafi verið af mannavöldum.
Skipið var smíðað í Frakklandi árið 1971, hét þá Massalia. Var í senn farþega- og bílaferja, gat tekið tæplega 900 farþega og allt að 250 bíla. Árið 1984 fékk skipið nýtt nafn, Scandinavian Star, þá var það í siglingum á milli St. Pétursborgar og Mexíkó. Í marsmánuði árið 1990 tóku nýir eigendur við skipinu, ætlunin var að það myndi sigla milli Óslóar og Frederikshavn á Norður-Jótlandi. Nýjum eigendum lá mikið á að koma skipinu í notkun en auglýst hafði verið að reglubundnar siglingar milli Noregs og Danmerkur hæfust 1. apríl, innan við mánuði eftir eigendaskiptin. Tíminn var því naumur, nýju eigendurnir ákváðu að endurnýja margt, einkum í farþegarýmum skipsins, þar sem ýmislegt var orðið „lúið“. Jafnframt þurfti ýmsu að breyta, meðal annars hafði verið spilavíti á einni hæðinni. Það var því í mörg horn að líta og síðar kom í ljós að ýmislegt hafði farið úrskeiðis í flýtinum.
Óhappafleyta
Happafley er orð sem iðulega er notað um skip, sem aldrei lendir í óhöppum og ætíð skilar öllum heilum í höfn. Scandinavian Star var ekki í þeim hópi. Árið 1985 kviknaði eldur út frá djúpsteikingarpotti, enginn slasaðist en talsvert tjón varð í eldhúsinu. Í byrjun mars 1988 kviknaði eldur í vélarrúmi skipsins, orsökin talin sprungin vökvaleiðsla. Áhöfninni tókst að ráða niðurlögum eldsins, sem olli ekki miklu tjóni. Nokkrum dögum síðar, 15. mars 1988, varð aftur laus eldur í vélarrúmi skipsins sem þá var skammt undan ströndum Mexíkó. Um borð voru 439 farþegar og 268 manna áhöfn. Öllum var bjargað frá borði, en eftir á sögðu farþegar frá því að áhöfnin hefði ekki kunnað til verka og tungumálaerfiðleikar hefðu valdið misskilningi. Fjórði bruninn um borð í þessu óhappafleyi fékk ekki jafn farsælan endi.
Áhöfnin kunni lítt til verka
Eins og áður var nefnt komst Scandinavian Star í hendur nýrra eigenda í mars 1990. Þá hafði verið ákveðið að ferjan myndi sigla milli Óslóar og Frederikshavn. Áhöfnin, sem var nánast öll ný, fékk einungis nokkra daga til undirbúnings en venjulega tekur átta til tíu vikur að þjálfa nýja áhöfn. Kenna áhöfninni á skipið, ekki síst varðandi öryggi. Hver á að gera hvað ef skyndilega þarf að yfirgefa skipið, hvar eru björgunarbátar staðsettir, hvar eru eldvarnardyr sem á að loka, ef svo ber undir? Þessu og ótalmörgu öðru þarf áhöfnin að kunna skil á. Og til þess eru örfáir dagar ekki nægjanlegir, eins og glögglega kom í ljós aðfaranótt 7. apríl 1990.
Fjórir brunar, 159 mannslíf
Scandinavian Star lagði úr höfn í Ósló föstudagskvöldið 6. apríl 1990. Stór hluti farþeganna var fjölskyldufólk á leið í páskafrí, og höfðu litlar áhyggjur þótt brottför seinkaði um tvær klukkustundir. Um miðnætti höfðu flestir farþegar tekið á sig náðir.
Skömmu fyrir klukkan tvö um nóttina sáu farþegar að á fjórða þilfari logaði í teppum og sængurfatnaði. Fljótlega tókst að slökkva þann eld sem greinilega var, að sögn vitna, af mannavöldum.
Átta mínútum eftir að fyrsti eldurinn uppgötvaðist varð elds vart á farþegagangi á öðru þilfari, þessi eldur var síðar kallaður eldur númer tvö. Þar var verið að standsetja farþegaklefana og því engir farþegar á þeim gangi. Eldurinn breiddist mjög hratt út og baneitraður reykur og gufur áttu greiða leið um ganga þar sem eldvarnardyr stóðu allar opnar. Í skýrslu vegna brunans var fullyrt að á fyrsta hálftímanum eftir að eldurinn (númer tvö) kviknaði hefðu 158 manns látist, einn til viðbótar lést síðar á sjúkrahúsi. Síðar kviknuðu tveir eldar til viðbótar, sá fjórði eftir að skipið hafði verið dregið til hafnar í Lysekil í Svíþjóð.
Í pistli sem birtist hér í Kjarnanum í febrúar 2016 undir heitinu „Tekst loks að upplýsa stærstu morðgátu á Norðurlöndum“ má lesa ítarlega frásögn af brunanum og eftirmálum hans. Í þeim pistli var greint frá því að rannsókn, ein margra sem fram hafa farið, hefði verið fyrirskipuð. Rannsóknarnefndinni, sem var á vegum norsku lögreglunnar, var ætlað að komast að því hver bæri ábyrgð á eldsvoðanum og hver hefði kveikt í. Þeirri rannsókn lauk árið 2017 og er skemmst frá því að segja að líkt og í fyrri rannsóknum var niðurstaðan að ekki hefði tekist að upplýsa málið. Norska lögreglan lagði þetta mál á hilluna, flokkað sem óupplýst. En málinu var ekki lokið þar með og í apríl á síðasta ári samþykkti danska þingið að hvað Danmörk varðaði myndi Scandinavian Star málið ekki fyrnast og ef nýjar upplýsingar kæmu fram yrði lagt mat á mikilvægi þeirra, eins og ráðherra komst að orði. Í bréfi dómsmálaráðuneytisins til dómsmálanefndar þingsins, Folketinget, sagði að lögreglan hefði rannsakað hvort Scandinavian Star hefði verið tryggt fyrir um það bil tvöfalt raunvirði skipsins. Í bréfi ráðuneytisins kom fram að ekki væri hægt að sýna fram á að skipið hefði verið oftryggt (overforsikret), en því hafði reyndar margoft verið haldið fram.
Fyrrverandi lögregluþjónar segja frá
Í byrjun þessa mánaðar birti danska dagblaðið Politiken frásögn tveggja fyrrverandi yfirmanna í dönsku lögreglunni, þeir eru nú komnir á eftirlaun. Ummæli þeirra vöktu mikla athygli en þau stangast á við fullyrðingar dómsmálaráðuneytisins sem getið var um hér að framan.
Rétt er að nefna að eftir brunann í Scandinavian Star árið 1990 ákváðu norsk, sænsk og dönsk yfirvöld að skipta með sér rannsókninni á brunanum. Norðmenn skildu rannsaka upptök og orsakir, Svíar myndu annast rannsóknina á skipinu sjálfu og Danir öryggimál um borð í skipinu og ennfremur tryggingamál þess og eigendasögu.
Í frásögn lögregluþjónanna fyrrverandi kom fram að danska lögreglan hefði ekki lagt áherslu á, og ekki gert neitt, varðandi rannsókn eigenda- og tryggingamálanna, það hefði að mati þeirra dönsku verið á könnu Norðmanna. Það var þessi frásögn sem vakti mikla athygli danskra þingmanna. Peter Skaarup, talsmaður Danska þjóðarflokksins í dómsmálum, sagðist hafa hrokkið við þegar hann las frásögn lögregluþjónanna ,,það að ráðuneytið sendi frá sér rangar upplýsingar í jafn mikilvægu máli nær engri átt, og við þingmenn krefjumst þess að fá botn í málið“. Og nú er Scandinavian Star komið til kasta danska þingsins.
Eftir þrjá daga (21.10) fer fram opin umræða (høring) í danska þinginu. Þar mætir fjöldi fólks og svarar spurningum þingmanna, varðandi Scandinavian Star og athyglinni beint að tryggingamálum skipsins. Síðar verður málið rætt í fyrirspurnatíma þingsins. Þar á ríkisstjórnin að upplýsa þingheim um stöðu málsins og hvað stjórnin hyggist gera til að fá botn í hvað snúi upp og niður í tryggingamálum Scandinavian Star þegar bruninn varð. Hvort um tryggingasvik hafi verið að ræða og hvort bruninn hafi beinlínis verið skipulagður í gróðaskyni. Í umfjöllun Politiken síðustu daga hafa þingmenn sagt augljóst að framundan sé enn ein rannsóknin vegna Scandinavian Star. Danskur þingmaður sem ekki vildi láta nafns síns getið sagði, í viðtali við danska útvarpið, DR, þá staðreynd að tryggingaupphæð skipsins hefði verið hækkuð um 100 prósent nokkrum dögum fyrir brunann, og þannig langt yfir raunvirði veki óneitanlega grunsemdir.
Flókin eigendasaga
Viku fyrir brunann urðu eigendaskipti á Scandinavian Star. Þá keypti bandarísk útgerð skipið. Sama dag var Daninn Niels- Erik Lund skráður eigandi og annar Dani, Henrik Johansen, var síðan skráður eigandi skipsins nokkrum dögum síðar. Danskir dómarar töldu að Henrik Johansen hefði í raun átt skipið þegar bruninn varð. Eftir réttarhöld í Kaupmannahöfn árið 1993 hlaut hann sex mánaða dóm, vegna ófullnægjandi brunavarna um borð í skipinu. Norskur dómstóll komst hinsvegar að því, árið 2011 að eigandinn, þegar skipið brann, hefði verið Niels-Erik Lund.
Eins og nefnt var hér að framan er næsta víst að innan tíðar hefst enn ein rannsóknin á brunanum um borð í Scandinavian Star í apríl 1990. Hver niðurstaða þeirrar rannsóknar verður leiðir tíminn í ljós.
Við þetta má svo bæta að Scandinavian Star var endurbyggt eftir brunann en var selt í brotajárn árið 2004.
Að lokum má geta þess að um Scandinavian Star, og brunann hafa verið skrifaðar að minnsta kosti tíu bækur og ennfremur hafa verið gerðir margir sjónvarps- og útvarpsþættir um þessa óhappafleytu.