Nú líður að forsetakosningum í Bandaríkjunum og eitt af því sem Donald Trump hefur reynt að halda á lofti í kosningabaráttunni er hversu miklum árangri hann hefur náð í friðarmálum. Hann segist m.a. hafa tekist að leysa ýmis erfið mál í Mið-Austurlöndum sem forverum hans hafi mistekist og stærir sig af friðarsamkomulögum sem marka eigi ný tímamót. Hann segist geta tryggt frið með því að sýna styrk, sem vissulega er hægt og hefur verið gert. Þegar málið er skoðað kemur hins vegar í ljós að hann virðist ekki fær um slíkt og raunveruleikinn er í algerri andstöðu við þá mynd sem hann vill mála upp.
Bandaríkin hafa lengi hlutast til um mál annarra ríkja og á stundum setið undir harðri gagnrýni vegna afskipta, í versta falli meintra ólöglegra innrása og stríðsrekstrar. Eftir misjafnan árangur í Afganistan, Írak og víðar reyndu bandarísk stjórnvöld undir stjórn Baracks Obama að beygja af leið og forðast slíkt eins og kostur væri. Þau vildu m.a. ekki fara fyrir innrás í Líbýu þó Bandaríkjaher neyddist á endanum til að taka yfir stjórn aðgerða.
Jafnframt var farið að notast meira við svokallaða dróna í stað þess að senda inn mannaðar sveitir. Það eru fjarstýrð loftför sem beina má með nokkurri nákvæmni að tilteknum skotmörkum, t.d. búðum meintra hryðjuverkamanna. Það er um margt ódýrari lausn og virðist hreinlegri á yfirborðinu, því eigið mannfall er lágmarkað og minni líkur eru á að dragast inn í endalaus stríð – nokkuð sem Bandaríkjamenn þekkja best allra. Hin hliðin er að með þessu verða gerendur fjarlægir skotmörkunum og þar með afleiðingunum – fórnarlömbunum. Þegar fjöldi saklausra borgara týndi lífi í drónaárásum, sem stundum misstu marks, urðu því margir til þess að gagnrýna þessa stefnu.
Yfirlýsingaglaður forseti
Í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum árið 2016 var orðræðan talsvert á þá lund að næði Donald Trump kjöri yrði horfið frá þessari drápsstefnu drónakóngsins Obama, að hin íhaldssama utanríkisstefna Donalds Trump myndi bæta þar úr. Þetta hefur leitt til þess skilnings sumra að Donald Trump hafi tekist – betur en fyrirrennurum hans – að halda Bandaríkjunum frá stríðsátökum og koma þeim út úr þeim ógöngum sem þeir virðast endalaust koma sér í, sérstaklega í Mið-Austurlöndum. Því er gjarnan viðkvæðið þegar Trump hefur verið gagnrýndur fyrir hin ýmsu afglöp að hann hafi þó alla vega ekki byrjað nein stríð og sé í raun friðarsinni. Þetta er þó mjög fjarri sannleikanum, í besta falli mikil einföldun.
Það er vissulega staðreynd að Donald Trump hefur lagt sig fram um að framfylgja í þaula stefnu sem kallast „America First“ – sem miðar að því að einbeita sér að innanríkismálum og vera ekki að vasast í málum annarra ríkja. Nóg sé af verkefnum heima fyrir sem krefjist úrlausna; hnignandi iðnaður og samkeppnisstaða Bandaríkjanna sem átti að hafa leitt til verri lífskjara almennings. Þessi stefna felur þó einnig í sér ákveðna einangrunarhyggju og að draga Bandaríkin út úr ýmsu alþjóðasamstarfi, -stofnunum og -samningum – því slík þátttaka, bindandi fjölþjóðasamningar o.þ.h. hefti fullveldisrétt Bandaríkjanna.
Rökstyðja má að til langs tíma sé slík stefna þó síst til að bæta hag, eða tryggja frið og öryggi, hvorki Bandaríkjamanna né annarra. Staðreyndin er einnig sú að þrátt fyrir að Trump hafi ekki hafið ný stríð hafa umsvif bandaríska hersins erlendis síst minnkað. Yfirstandandi stríðsrekstur hefur þvert á móti verið aukinn og hefur Trump með stefnu sinni verið nálægt því að koma af stað nýjum alvarlegum stríðsátökum.
Baráttan við Íslamska ríkið stóð sem hæst í aðdraganda forsetakosninga árið 2016 og Obama, sem mjög var gagnrýndur fyrir auknar drónaárásir, hafði unnið að því að gera ferlið við þær gagnsærra. Sér í lagi var reynt að setja reglur um notkun dróna á svæðum þar sem ekki voru bein stríðsátök, eins og í Sómalíu og Líbýu, en eins og gjarnan gerist með jafn flókin mál urðu þær reglur þó aldrei meira en viðmið.
Átti Trumpstjórnin því mjög auðvelt með að snúa frá því aðhaldssamara verklagi sem Obama hafði reynt að koma á. Hinn yfirlýsingaglaði Trump hafði sagt í kosningabaráttunni að leiðin til að ráða niðurlögum hryðjuverkamannanna væri að drepa fjölskyldur þeirra og hann myndi ekki fylgja eftir hinni „pólitískt réttu“ aðferðafræði forsetans næði hann kjöri. Stefna Trumps felur það m.a. í sér að herforingjar og lægra settir herstjórnendur hafa frjálsari hendur með að gera árás, telji þeir þess þurfa með, og þurfa ekki að fara í gegnum formleg ferli í Hvíta húsinu.
„Trump hefur ekki byrjað ný stríð“ – er það svo einfalt?
Donald Trump hafði uppi stór orð í aðdraganda kosninga um það hversu illa Barack Obama og Hillary Clinton héldu á málum er vörðuðu bandarískt herlið og stríðsrekstur, sér í lagi hversu illa gekk að enda viðveru Bandaríkjamanna í Afganistan og Írak. Eftir að Trump tók við embætti lofaði hann ítrekað að draga Bandaríkin út úr kostnaðarsömum stríðum, losa þau við íþyngjandi skuldbindingar erlendis og koma herliðum heim.
Nú þegar hillir undir lok fyrsta kjörtímabils Donalds Trump í embætti má segja að enn sé sami fjöldi herstöðva og hermanna á erlendri grund. Hefur jafnvel bæst við þá byrði, því hann jók ýmist eða viðhélt þátttöku Bandaríkjanna í átökunum í Afganistan, Sýrlandi og víðar – Trump vék nánast í öllum málum af leið þeirri sem forveri hans hafði farið nema þeirri sem snýr að hernaði og slíkum skuldbindingum erlendis, þar hefur hann haldið sömu stefnu – og gefið í.
Fljótlega eftir að Trump tók við völdum árið 2017 var tilkynnt að Bandaríkin myndu senda fleiri sveitir til Afganistan, sem fjölgaði bandarískum hermönnum um helming þegar mest var. Samkvæmt yfirstjórn Bandaríkjahers hefur fleiri sprengjum og eldflaugum verið skotið í Afganistan í valdatíð Donalds Trump en á fyrstu kjörtímabilum George W. Bush eða Baracks Obama. Náðu loftárásir þar sögulegu hámarki á árunum 2018–19, bæði hvað varðar magn og einnig mannfall.
Trump sendi einnig umtalsverðan fjölda bandarískra bardagasveita til Sýrlands og gaf Jim Mattis, fyrrverandi varnarmálaráðherra, frjálsar hendur til að beita bandarískum hersveitum og auka lofthernað gegn ISIS. Hann sendi jafnframt hundruð nýrra bandarískra hermanna til Íraks þar sem þeim var beitt nær víglínunum og veitti aukið frelsi til loftárása í landinu. Að sama skapi hefur forsetinn einnig tíst um að hefja fyrirbyggjandi eldflaugaárásir gegn Norður-Kóreu ef stjórnvöld haldi áfram að ógna Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra. Trump hefur einnig beitt neitunarvaldi gegn frumvörpum sem Bandaríkjaþing samþykkti til að draga bandarískt herlið út úr stríði Sádi-Arabíu í Jemen.
Jafnframt hefur hann hindrað lagasetningu sem átti að stöðva hergagnasölu, m.a. herþotur, eldflaugabúnað og sprengjur til Sádi-Arabíu vegna hörmungarástandsins í Jemen.Trump hefur heldur ekki náð að létta byrðum af Bandaríkjamönnum sem snúa að skuldbindingum um vernd til handa bandamönnum þeirra. Viðvera bandarísks herafla í Evrópu, undir merkjum Atlantshafsbandalagsins, hefur einnig aukist, svo og þátttaka í heræfingum á evrópsku landsvæði.
Nú síðast í september lofaði Trump því í ávarpi að liðsafli Bandaríkjamanna í Afganistan yrði kominn heim fyrir jól. Þetta kom flatt upp á hermálayfirvöld sem gáfu út um svipað leyti að mögulega væri hægt að fækka í herliðinu niður í 2500 manns snemma næsta ár. Trump-stjórnin hefur ítrekað talað um að verið sé að vinna í því að fækka niður í 4500 manns fyrir kjördag. Það mun þó ekki gerast og er ljóst að yfirlýsingar forsetans eru ekki sannleikanum samkvæmt, frekar en margt annað, og settar fram í þeim tilgangi styrkja stöðu hans meðal kjósenda.
Kjarnorkuvopnabúrið endurnýjað og uppfært
Að sama skapi hefur stjórn Trumps uppi áætlanir um að stórefla kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjanna. Það felur m.a. í sér í áætlanir um þróun nýrra meðaldrægra eldflauga en Trump dró Bandaríkin út úr samkomulagi við Rússa sem bannaði slík vopn, að sögn vegna þess að Rússar höfðu ekki virt samninginn og því ekki ástæða lengur fyrir Bandaríkjamenn að taka þátt.
Obama hafði lagt fram talsvert umfangsmiklar tillögur að endurnýjun og uppfærslu kjarnorkuvopnaviðbúnaðarins en það sneri meira að endurbótum á þeim vopnum sem til voru. Það sem nú er á ferðinni snýst um að þróa meðfærilegri kjarnavopn sem rökstyðja má að lækki þann þröskuld sem komið hefur í veg fyrir kjarnorkustríð. Hafa ber í huga að Bandaríkin hafa nú þegar getu til að eyða hvaða skotmarki sem er, hvar sem er á jörðinni. Sú viðbót og nýja tækni sem boðuð er mun ekki bæta neinu við eða fæla önnur ríki frá árásum á Bandaríkin, nema síður sé.
Friðarsamkomulög – eru þau einhvers virði?
Forsetinn hefur einnig reynt að styrkja sig í sessi sem sáttaforingi með því að ýmist reyna að hafa forgöngu um málamiðlun eða smeygja sér inn í samkomulag ríkja sem átt hafa í deilum. Friðarsamkomulag við Talibana sem gert var í febrúar s.l. og Trump stærði sig af er dæmi um hvernig hann telur sig geta, nánast af eigin rammleik, leyst flókin mál. Það var blásið út sem tímamótasamkomulag sem binda myndi enda á 19 ára löng átök í Afganistan. Ýmsir gagnrýndu samkomulagið fyrir að vera lítið annað en skipulegt undanhald og ekki leið á löngu áður en blóðug átök brutust út, einhver þau mannskæðustu frá upphafi.
Trump náði einnig að látast stilla til friðar í Mið-Austurlöndum. Sameinuðu arabísku furstadæmin og Barein undirrituðu nýlega í Hvíta húsinu samninga um stjórnmálasamband við Ísrael, en fyrir áttu Egyptaland og Jórdanía í slíku sambandi. Donald Trump forseti stýrði athöfninni og sagði þetta vera „mikilvægan dag fyrir frið“ og sá til þess hann allir vissu að hann hefði náð að gera „friðarsamning“ á milli Ísraels og arabaríkis, eins og nokkrum forsetum hefur tekist á síðustu 72 árum.
Þó þessir samningar séu í sjálfu sér sögulegir þá eru þetta alls engir friðarsamningar. Ísrael hafði ekki átt í neinum deilum hvað þá stríði við Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmin, eins og reyndin er með mörg önnur Arabaríki á svæðinu. Ríkin tvö höfðu þó haft horn í síðu Ísraels, eins og Arabaríki hafa gjarnan, en höfðu gert ýmsa samninga á bak við tjöldin á undanförnum árum. Samningurinn nú gerir ríkjunum kleift að eiga ýmsa opinbera samvinnu á sviði ferðamála með beinu flugi milli landanna og meiri viðskipti.
Talsmenn Palestínumanna segja samkomulagið vera sorglegt og eina raunverulega skrefið til friðar sé að enda hernám Ísraels í Palestínu og viðurkenna ófrávíkjanlegan rétt þeirra til sjálfsstjórnar. Trump segist hins vegar bjartsýnn á að fleiri arabaríki muni fylgja í kjölfarið og ná eðlilegu sambandi við Ísrael, en talsmaður stjórnvalda í Quatar sagði að styrking stöðu Ísraels á svæðinu geti ekki verið leiðin að lausn átakanna milli Ísrael og Palestínu.
Karim Sadjadpour, sérfræðingur í Miðausturlöndum sagði samning Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Ísraels vera runninn undan rifjum Bandaríkjanna, drifinn áfram af gagnkvæmum ótta við Íran. Hann líkti aðkomu Trumps að þessum samningum við að hann hefði smellt nafni sínu á hótel sem hafi í raun þegar verið byggt. Sérfræðingar hafa bent á að ef Bandaríkin vildu raunverulega beita sér fyrir friði þá gætu þau notað sér það vogarafl sem þau hafa gagnvart Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Sádi-Arabíu til að draga úr hernaði þeirra í Jemen, sem Bandaríkin styðja sjálf.
Hið sama má segja um samkomulag milli Kósóvó og Serbíu sem undirritað var nýverið í Hvíta húsinu, það virðist varla vera pappírsins virði. Jafnvel þó samkomulagið, sem virðist hafa verið klastrað saman í flýti, feli í sér lægsta mögulega samnefnara gátu ríkin tvö ekki komið sé saman um sameiginlega yfirlýsingu, enda var samkomulagið ritað á tvö ólík skjöl. Aleksander Vucic Serbíuforseti leit á samkomulagið sem tvíhliða viðræður undir stjórn Bandaríkjanna og virtist koma af fjöllum þegar Trump, sem notar samningana til að kaupa stuðning við Ísrael, tilkynnti að Serbía myndi flytja sendiráð sitt til Jerúsalem eftir að undirritun lauk.
Hafa ber í huga að ríkin á Balkanskaga eru í viðkvæmri stöðu eftir að Júgóslavía nánast tættist í sundur í blóðugu stríði á tíunda áratug síðustu aldar. Ríkin reyna því hvert um sig að fóta sig í alþjóðasamfélaginu með því að halla sér að tilteknum bandamönnum, en um leið forðast áhrif og yfirgang frá öðrum. Þarna reyna að teygja anga sína Rússar, Kínverjar, Bandaríkjamenn og ýmis ríki Mið-Austurlanda, sem toga úr öllum áttum og reyna að stíga inn í það tómarúm sem myndaðist.
Bent hefur verið á að Bandaríkin séu þarna að „Miðausturlandavæða“ Balkanskagann, m.a. með því að skilgreina Kósóvó sem múslimaríki, nokkuð sem það hefur forðast hingað til. Það sem hékk á spýtunni fyrir Kósóvó var að hljóta viðurkenningu frá Ísrael á sjálfstæði en baráttan fyrir sjálfstæði hefur staðið í 15 ár. En það sem Serbía sækist mögulega eftir er að verða megin bandamaður Bandaríkjanna á Balkanskaga í gegnum Ísrael.
Rétt er þó að hafa í huga að Slóvenía og Króatía eru þegar aðilar að ESB og þau ásamt Svartfjallalandi, Norður Makedóníu og Albaníu eru aðilar að NATO. Serbía, ásamt Albaníu, Norður Makedóníu og Svartfjallalandi, eru formleg umsóknarríki aðildar að ESB (candidate countries). Trump sætir þarna lagi og hættir sér inn í eldfimt ástand sem engan veginn verður lagað með einföldum lausnum – og allra síst með valdaplotti sem er líklegra til að gera illt verra. Tilgangurinn virðist ekki vera að stuðla að friði heldur að tryggja áhrif Bandaríkjanna og Ísraels á Balkanskaga. En ekki síður til að geta skreytt sig með fjöðrum friðarboðans í aðdraganda kosninga.
Trump elur á sundrungu og kyndir undir ófriði
Þegar kemur að ímynd, trausti og velvilja, sem þrátt fyrir allt hlýtur að vera ákveðinn grunnur að því að eiga í friðsamlegum samskiptum, skilur Trump eftir sig sviðna jörð. Þetta á ekki aðeins við um utanríkismál heldur einnig málefni heima fyrir, sem er afleiðing America First-stefnunnar. Segja má að hún hafi farið í handaskolum og valdið Bandaríkjunum talsverðum skaða því Trump hefur náð að útmála stórveldið Bandaríkin sem einhverskonar fórnarlamb sem hafi farið halloka í viðureign sinni við önnur ríki.
Í stað þess að sameina þjóðina notar Trump hvert tækifæri til að hella olíu á eld ófriðar sem hefur m.a. reynst Bandaríkjunum dýrkeypt í baráttunni við COVID-19. Fullyrða má að hegðun og framkoma Trumps þar hafi verið mjög skaðleg. Hann uppfyllti ekki hlutverk sitt sem leiðtogi fyrir hið margþætta dreifða stjórnkerfi Bandaríkjanna. Í stað þess að samræma aðgerðir og beita þeim styrk sem ríki eins og Bandaríkin búa yfir, kynti hann undir deilum við pólitíska andstæðinga í röðum ríkisstjóra og gróf undan því trausti sem þeir sannarlega þurftu á að halda á sínum heimavelli.
Honum hefur tekist að auka hættuna á stríði, komið Íran til þess að endurvekja kjarnorkuáætlun sína, tekist að vekja verulega efasemdir um dómgreind og áreiðanleika bandarískra stjórnvalda. Hann hefur sent traustum bandamönnum í Evrópu fingurinn og tekist að láta Rússland og Kína líta út sem vöggu réttlætis og stjórnvisku. Stjórn Trumps hefur látið í ljós að hún telji að morð á erlendum embættismönnum séu lögmæt og eðlilegur hluti af utanríkisstefnu ríkja. Einnig hefur Trump fundist eðlilegt að upphefja stríðsglæpamenn og hampa einræðisherrum.
Stríðstrumbusláttur Trump gagnvart Kína er síðan kapítuli út af fyrir sig þó framkoma Kína á alþjóðavettvangi og gagnvart minnihlutahópum innanlands sé um margt verulega aðfinnsluverð. Trumpstjórnin hefur, í misheppnuðu viðskiptastríði og með óhönduglegum aðferðum gagnvart vaxandi tækniforskoti Kína, sem jú byggir m.a. á hugverkastuldi, gert það að verkum að samskiptin milli Beijing og Washington hafa sjaldan staðið verr. Nýleg þjóðaröryggisstefna Bandaríkjanna beinlínis stillir Kína upp sem höfuðóvini Bandaríkjanna.
Það er ljóst að Donald Trump vék í engu frá þeirri stefnu sem Barack Obama var hvað mest gagnrýndur fyrir heldur gekk hann enn lengra en forveri hans. Í því ljósi verður fullyrðingin um að Trump hafi ekki hafið nein ný stríð hjáróma og villandi. Í raun má halda því fram að hann hafi komist mun nær því að hefja ný stríð en að binda endi á þau sem hann erfði frá fyrirrennurum sínum. Fullyrða má að Trump hafi með framferði sínu, hinni mistæku America First stefnu, gert illt verra. Ekki bara skaðað sína eigin þjóð heldur einnig hina frjálslyndu alþjóðlegu skipan heimsmála sem ríkt hefur síðan eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Það eitt og sér hefur stóraukið möguleika á ófriði – stríði.