Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram minnisblað á ríkisstjórnarfundi í gær um framlög til almannatrygginga. Samkvæmt því minnisblaði rennur sífellt aukinn hluti verðmætasköpunar hagkerfisins til tilfærslukerfa og fjárframlaga ríkissjóðs. Sérstaklega var fjallað um framlög til almannatrygginga, að frátöldum atvinnuleysisbótum, og sagt að þau hafi nær tvöfaldast frá árinu 2013 miðað við verðlag hvers árs.
Slík framlög nemi nú 642 þúsund krónum á hvern landsmann aldrinum 18-67 ára. Það hafi verið 356 þúsund krónur á hvern landsmann árið 2013. Samanlagt fari því um fjórðungur allra skatttekna og tryggingagjalda til almannatrygginga.
Kaka og kaka
Í stöðuuppfærslu sem Bjarni birtir á Facebook í dag segir hann að það sé mikið áhyggjuefni að á sama tímabili hafi þeim sem eru á örorkubótum eða endurhæfingarlífeyri fjölgað um 4.300 manns. „Það eru u.þ.b. jafn margir og búa í Vestmannaeyjum. Okkur er að mistakast að ná utan um þennan vanda og verðum að bregðast við.“
Þar hefur verið bent á að bilið á milli örorkulífeyris og lágmarkslauna hafi lækkað stöðugt frá árinu 2007. „Í valdatíð núverandi ríkisstjórnar hefur ekkert verið gert til að bregðast við þessari kjaragliðnun, heldur þvert á móti hefur bilið breikkað enn meira, þrátt fyrir að ríkisstjórnin segist vinna í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, hvar efst á blaði er að útrýma fátækt. Nú þegar Bjarni hefur lagt fram sitt síðasta fjárlagafrumvarp á kjörtímabilinu er enga breytingu að sjá,“ skrifaði ÖBI í stöðuuppfærslu sem birt var á Facebook 11. október. Með fylgdi auglýsing sem síðan hefur verið afar sýnileg víða, meðal annars í sjónvarpi.
Þar er verið að baka köku og er það vísun í frægt kosningabaráttumyndband sem Bjarni Benediktsson gerði fyrir kosningarnar 2016.
Segir rangt að öryrkjar fái sífellt minni sneið
Bjarni segir í stöðuuppfærslu sinni í dag að hann heyri ákall ÖBÍ um að hækka bætur enn frekar. „Myndband þeirra er hins vegar misheppnað, þótt kakan sé falleg eftirmynd af þeirri sem ég gerði. Það dugar ekki til, því það er rangt að öryrkjar fái sífellt minni sneið. Kakan hefur stækkað og almannatryggingar hafa fengið stærri sneið af stækkandi köku. Um það vitna staðreyndir. Og við tókum 4 milljarða til hliðar til að styrkja þessi kerfi enn frekar á þessu kjörtímabili. Enn er óráðstafað um fjórðungi þeirrar fjárhæðar en um að að ræða varanlega 4 milljarða hækkun á þessum lið almannatrygginga.“
Bjarni segir að helsta áhyggjuefni sé að ríkið muni ekki geta stutt nægilega við þá sem eru í mestri þörf ef sífellt hærra hlutfall landsmanna sé á örorku eða endurhæfingarlífeyri. „Eftir því sem þessi staða versnar dregur úr getu okkar til að standa myndarlega við bakið á þeim sem aldrei fengu tækifæri í lífinu eða urðu fyrir áföllum og þurfa á stuðningi að halda.“
Sífellt stærri hópur býr við sárafátækt
Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem Bjarni kynnti 1. október síðastliðinn, var lagt til að lífeyrir sem greiddur er úr almannatryggingakerfinu myndi hækka um 3,6 prósent um næstu áramót.
Samkvæmt útreikningum Öryrkjabandalags Íslands mun sú hækkun skila því að framfærsluviðmið almannatrygginga verði 265.044 krónur fyrir skatt, sem, að teknu tilliti til þeirra skattkerfisbreytinga sem koma til framkvæmda um áramótin. Það muni skila rétt tæpum 233 þúsund krónum í vasa þeirra sem lifa af örorkulífeyri.
Aðalfundur ÖBI samþykkti fyrr í október ályktun þar sem sagði að í þrjú ár hefði ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar ákveðið að auka fátækt fatlaðs og langveiks fólks í stað þess að bæta kjör þeirra. „Sístækkandi hópur öryrkja býr við sárafátækt. Það veldur aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands miklum vonbrigðum að um áramótin 2020-2021 verði munurinn á örorkulífeyri og lágmarkslaunum orðinn kr. 86.000.“
Ekkert gert til að bregðast við kjaragliðnun
Í ályktuninni sagði að frá árinu 2007 hefði bil á milli örorkulífeyris og lágmarkslauna stöðugt breikkað. „Í valdatíð núverandi ríkisstjórnar hefur ekkert verið gert til að bregðast við þessari kjaragliðnun, heldur þvert á móti hefur bilið breikkað enn meira, þrátt fyrir að ríkisstjórnin segist vinna í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, hvar efst á blaði er að útrýma fátækt. Nú þegar Bjarni hefur lagt fram sitt síðasta fjárlagafrumvarp á kjörtímabilinu er enga breytingu að sjá.“
Aðalfundurinn krafðist því þess að „ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína gagnvart lífskjörum fatlaðs og langveiks fólks og bæti kjör okkar án tafar. Skömm ríkisstjórnarinnar er að halda okkur í fátækt og skýla sér á bakvið COVID og slæmt efnahagsástand."
Vilji innan stjórnarandstöðu að bregðast við
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarp næsta árs sem felur í sér að lífeyrir almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækki í samræmi við hækkanir á lífskjarasamningi.
Samkvæmt því sem fram kemur í tillögunni, og byggt er á áætlun miðað við fyrirliggjandi gögn, myndu greiðslur vegna öryrkjalífeyris og atvinnuleysisbóta aukast um 10,5 milljarða króna samtals á næsta ári verði tillagan samþykkt.
Í aðgerðaráætlun sem Samfylkingin kynnti fyrr í þessum mánuði var meðal annars lagt til að hækka ellilífeyri og örorku- og endurhæfingarlífeyri í samræmi við launaþróun til viðbótar við hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna. Auk þess vill flokkurinn að endurskoðun almannatrygginga lúti sömu lögmálum og þróun þingfarakaups, og haldi þar með í raunverulega launaþróun í landinu í stað áætlunar um hana.