Beinn kostnaður ríkissjóðs vegna úrræða sem kynnt hafa verið til leiks til að hjálpa fyrirtækjum og heimilum landsins fjárhagslega í yfirstandandi heimsfaraldri er 38,2 milljarðar króna til þessa. Til viðbótar hafa 19,5 milljarðar króna farið í frestun skattgreiðslna, 20 milljarðar króna í frestun aðflutningsgjalda og 6,6 milljarðar króna hafa verið lánaðir með ríkisábyrgð. Allt eru þetta þó fjármunir sem munu skila sér aftur í ríkiskassann. Því er samanlagður kostnaður vegna beinna greiðslna og tilfærslna eða ábyrgða ríkissjóðs um 85 milljarðar króna. Upphaflegt mat á heildarkostnaði aðgerðanna, sem sumar hverjar eru ekki á enda runnar, var 232,2 milljarðar króna.
Þótt enn eigi eftir að falla til kostnaður vegna aðgerðarpakkanna er ljóst að kostnaður ríkissjóðs vegna þeirra verður mun minni en kynnt var á blaðamannafundum stjórnvalda þegar pakkarnir voru kynntir til leiks.
Þetta kemur fram í skýrslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um nýtingu efnahagsúrræða vegna yfirstandandi heimsfaraldurs COVID-19.
Sú aðgerð sem kostað hefur mest er hlutabótaleiðin svokallaða. Beinn kostnaður vegna hennar til þessa er 19,8 milljarðar króna, en upphaflegt kostnaðarmat var að hún myndi kosta 34 milljarða króna. Flestir voru á hlutabótum í apríl, eða alls 33 þúsund manns, en síðan hefur fækkað verulega í þeim hópi. Í dag eru um 3.500 manns að nýta leiðina.
Fyrst voru hámarksgreiðslur allt að 75 prósent af launum upp að ákveðnu þaki, en það var síðar lækkað niður í 50 prósent. Samhliða þeirri lækkun var tekið fyrir að fyrirtæki sem ætluðu að greiða arð, kaupa eigin bréf, greiða óumsanda bónusa eða borga helstu stjórnendum yfir þrjár milljónir króna á mánuði gætu nýtt sér leiðina.
Tvær aðgerðir 80 prósent af beinum kostnaði
Búið er að greiða 10,5 milljarða króna í svokallaða uppsagnarstyrki. Þegar frumvarp um uppsagnarstyrki var lagt fram um miðjan maí var gert ráð fyrir því að bein útgjöld ríkissjóðs vegna úrræðisins yrðu 27 milljarðar króna. Því er upphæðin sem greidd hefur verið út enn sem komið er einungis 39 prósent af ætlaðri upphæð.
Styrkirnir fela í sér að ríkissjóðir veitir ákveðnum fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir umfangsmiklu tekjutapi, eða að minnsta kosti 75 prósent, styrki til að eyða ráðningarsamböndum þeirra við starfsfólk sitt.
Til viðbótar við þessar aðgerðir voru greiddir út þrír milljarðar króna í sérstaka barnabótaauka upp á 40 þúsund krónur fyrir hvert barn sem foreldri eða foreldrar sem eru með undir 11,1 milljón krónur í sameiginlegar tekjur, og 20 þúsund krónur til þeirra sem eru með tekjur yfir þeim mörkum. Þetta átti að gera vegna „raskana af völdum faraldursins“.
Þessi kostnaðartala stóðst að næstum öllu leyti enda um bein fjárútlát úr ríkissjóði að ræða og nokkuð einfalt að reikna út hvað hvert foreldri átti að fá út frá skattskýrslum þeirra.
Ferðagjöf og gistináttarskattur
Aðrir leiðir eru líka langt undir upphaflegu mati á heildaráhrifum. Greiðslur launa í sóttkví voru áætlaðar tveir milljarðar króna en eru um 300 milljónir króna.
Ferðagjöfin svokallaða hefur útheimt kostnað upp á 600 milljónir króna. Þegar aðgerðin var kynnt af stjórnvöldum kom fram að með þessu framtaki ætti að gefa Íslendingum eldri en 18 ára samtals 1,5 milljarð króna til að örva vilja þeirra til innlendrar neyslu og ferðalaga. Í dag hefur þjóðin samtals eytt um 40 prósent þeirrar upphæðar sem stjórnvöld kynntu að aðgerðin ætti að kosta.
Lokunarstyrkir voru metnir á 2,5 milljarða króna en fram til þessa er búið að greiða út einn milljarð króna. Niðurfelling gistináttarskatts var metin á 1,6 milljarða króna en hefur kostað 300 milljónir króna og niðurfelling tollafgreiðslugjalda átti að kosta 600 milljónir króna en hefur kostað 200 milljónir króna.
Mun færri frestuðu staðgreiðslu en talið var
Ein af fyrstu aðgerðunum sem íslensk stjórnvöld gripu til vegna efnahagslegra afleiðinga af kórónuveirufaraldinum var að veita fyrirtækjum í landinu frest á greiðslu á helmingi tryggingargjalds og staðgreiðslu opinberra gjalda sem voru á gjalddaga í mars. Þetta var ákveðið 12. mars, fjórum dögum áður en að eindagi þeirra gjalda átti að vera. Þeim eindaga var frestað um mánuð upphaflega, og síðar þangað til í janúar á næsta ári. Gert var ráð fyrir að þetta myndi seinka tekjum til ríkissjóðs upp á 22 milljarða króna.
Þegar ríkisstjórnin kynnti svo fyrsta efnahagspakka sinn 21. mars var ein dýrasta aðgerðin þar sú að fresta mætti þremur gjalddögum staðgreiðslu og tryggingargjalds á tímabilinu 1. apríl til 1. desember til viðbótar ef fyrirtæki gæti mætt ákveðnum skilyrðum. Áætluð áhrif þess voru 75 milljarðar króna.
Hingað til hefur frestun staðgreiðslu tálmað greiðslu á 19,5 milljörðum króna í ríkissjóð, eða um 26 prósent af upphaflegu matsupphæðinni.
Til viðbótar var boðið upp á að fresta greiðslu aðflutningsgjalda. Þar hefur nýtingin, alls 20 milljarðar króna, verið umfram upphaflegu áætlunina sem var 13 milljarðar króna.
Þá stendur eftir að fólki var gert kleift að taka út séreignarsparnað sinn, sem er í raun aðgerð sem eykur tekjur ríkissjóðs í dag þar sem útgreiðslurnar eru skattlagðar. Áætlað var að fólk myndi taka út 9,5 milljarða króna en reyndin er sú að upphæðin hefur verið 18,8 milljarðar króna.
Lánin sem voru ekki tekin
Ein helsta aðgerðin sem ríkisstjórnin kynnti til leiks í mars var að veita fyrirgreiðslu til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja. Þetta átti að gera þannig að ríkið semdi við Seðlabanka Íslands um að færa lánastofnunum aukin úrræði til að veita viðbótarfyrirgreiðslu til fyrirtækja, í formi brúarlána, sem orðið hefðu fyrir verulegu tekjutapi vegna yfirstandandi aðstæðna. Seðlabankinn myndi þannig veita ábyrgðir til lánastofnana sem þær nýta til að veita viðbótarlán upp að um 70 milljarða króna.
Aðalviðskiptabankar fyrirtækja áttu að veita þessa fyrirgreiðslu og aðgerðin var í heild metin á um 80 milljarða króna að teknu tilliti til aukinnar útlánagetu banka vegna lækkunar á bankaskatti, sem átti að aukast um tæplega 11 milljarða króna. Ríkið reiknaði sín áhrif af þessu á 35 milljarða króna.
Í dag hafa brúarlán verið veitt upp á 700 milljónir króna.
Svokölluð stuðningslán, einnig kölluð sérstök lán til lítilla fyrirtækja, voru kynnt í aðgerðarpakka tvö. Til að teljast til slíkra fyrirtækja þurfti að vera með tekjur undir 500 milljónum króna á ári. Lánin, sem njóta 100 prósent ríkisábyrgðar, standa einungis fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 40 prósent tekjufalli til boða, sem er sama skilyrði og gildir fyrir hin svokölluðu brúarlán til stærri fyrirtækja sem kynnt voru til leiks mánuði áður.
Lánin til fyrirtækjanna átti að verða hægt að sækja um með einföldum hætti á Island.is en þau nema að hámarki sex milljónir krónur á hvert fyrirtæki. Heildarumfang lánanna átti að geta orðið allt að 28 milljarðar króna í heild, að mati stjórnvalda.
Enn sem komið er nemur umfang þeirra 6,3 milljörðum króna.