Framsóknarflokkurinn hefur upplifað stormasama tíma á undanförnum árum. Ríkisstjórn sem hann leiddi þurfti að boða til snemmbúinna kosninga 2016 og þáverandi formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, að segja af sér sem forsætisráðherra vegna opinberana sem fram komu í Panamaskjölunum.
Kjarninn hefur fengið aðgang að gögnum um bakgrunnsbreytur þeirra sem svarað hafa könnunum MMR um fylgi stjórnmálaflokka. Þær breytur sem um ræðir eru kyn, aldur, búseta, menntun og heimilistekjur. Gögnin eru annars vegar úr síðustu tveimur könnunum MMR, sem gerðar voru 23-28. október og 6-11. nóvember 2020 (samtals 1.858 svarendur), og hins vegar úr tveimur könnunum sem gerðar voru öðru hvoru megin við síðustu þingkosningar árið 2017. Með því að skoða þær kannanir, sem framkvæmdar voru 26-27. október og 14.-17. nóvember 2017 (samtals 1.924 svarendur), er hægt að sjá þær breytingar sem orðið hafa á bakgrunnsbreytum stuðningsmanna flokkanna frá þeim tíma. Næstu daga mun Kjarninn birta umfjöllun um alla þá átta flokka sem mældir eru í könnunum MMR og í kjölfarið ýmis konar aðra umfjöllun byggða þeim upplýsingum sem gagnasafnið geymir.
Framsókn vann þó ákveðinn varnarsigur fyrir rúmum þremur árum og náði í 10,7 prósent atkvæða, sem dugði til að skila flokknum í ríkisstjórn. Það var samt sem áður versta niðurstaða Framsóknar í þingkosningum í Íslandssögunni.
Kannanir MMR fyrir og eftir síðustu kosningar sýndi nákvæmlega kjörfylgið, 10,7 prósent. Þar mældist fylgi Framsóknar á höfuðborgarsvæðinu átta prósent, sem er mjög í takt við niðurstöðu kosninganna 2017 í Reykjavík suður, þar sem vonarstjarnan og varaformaðurinn Lilja Alfreðsdóttir leiddi lista flokksins, og í Suðvesturkjördæmi nágrannasveitarfélaga höfuðborgarinnar, þar sem Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, var í fyrsta sæti.
Mikil ánægja með Lilju
Lilja hefur ítrekað mælst í hópi þeirra ráðherra ríkisstjórnarinnar sem mest ánægja er með. Í könnun sem Maskína gerði á vormánuðum 2019 var Lilja í efsta sæti yfir þá ráðherra sem mest ánægja var með, en alls sögðust tæplega 68 prósent aðspurðra vera ánægð með hennar störf. Þegar sú könnun var gerð var skammt um liðið frá því að Klausturmálið svokallaða átti sér stað. Lilja, sem var ein þeirra sem var til umræðu í niðrandi og óviðurkvæmilegu tali nokkurra þingmanna Miðflokks og Flokks fólksins á Klausturbar í nóvember 2018, hlaut mikið lof fyrir framgöngu sína í kjölfarið þar sem hún kallaði framferði fólksins „ofbeldi“. Í könnun Gallup frá því í maí 2020 sögðust 54 prósent aðspurðra vera ánægðir með störf hennar.
Ánægja er eitt, en traust er annað. Og það er líka mælt. Zenter og Fréttablaðið hafa framkvæmt könnun á því hvaða ráðherra landsmenn treystu best annars vegar sumarið 2019 og hinsvegar í byrjun október 2020. Í fyrri könnuninni mældist Lilja sá ráðherra sem flestir treystu best, en alls nefndu 20,5 prósent hana í fyrrasumar. Það þýðir að hún naut meira trausts en forsætisráðherrann Katrín Jakobsdóttir.
Í síðari könnuninni, rúmu ári síðar, hafði traust á Lilju næstum helmingast og var farið niður í 10,7 prósent. Í sömu könnun sögðust 6,2 prósent landsmanna treysta Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins.
Í baráttu fyrir tilveru á höfuðborgarsvæðinu
Í gögnum MMR sem sýna meðaltalsstöðu Framsóknarflokksins úr síðustu tveimur könnunum fyrirtækisins eftir ýmsum bakgrunnsbreytum kemur fram að heilt yfir virðist flokkurinn á svipuðum slóðum og í síðustu kosningum. Fylgi við hann mælist 10,1 prósent og hann er sá stjórnarflokkur sem hefur tapað minnstu fylgi á stjórnarsamstarfinu.
Fylgið hefur hins vegar dalað á Vesturlandi og Vestfjörðum og á langfjölmennasta svæði landsins, höfuðborgarsvæðinu, þar sem tveir af hverjum þremur íbúum Íslands búa. Þar, í kjördæmum þar sem varaformaðurinn og menntamálaráðherrann annars vegar og formaður fjárlaganefndar hins vegar, leiða lista flokksins mælist fylgi hans nú 5,9 prósent. Í könnunum MMR fyrir og eftir síðustu kosningar mældist það átta prósent á svæðinu sem er í takt við það fylgi sem Framsókn fékk í kosningunum 2017 í Kraganum annars vegar og í Reykjavík suður hins vegar, þar sem flokkurinn náði inn þingmönnum. Í Reykjavík norður fékk flokkurinn 5,3 prósent atkvæða og engan mann kosinn.
Framsókn er í dag með minna fylgi en Miðflokkurinn og Vinstri græn og aðeins rétt meira fylgi en Sósíalistaflokkur Íslands, sem hefur aldrei boðið fram til þingkosninga og á eftir að kynna hverjir verða í framboði fyrir flokkinn í næstu kosningum, á höfuðborgarsvæðinu.
Ánægja og traust á Lilju er því ekki að skila sér í auknum fjölda líklegra kjósenda Framsóknarflokksins. Þorri þeirra sem eru ánægðir með störf hennar og treysta henni ætla sér alls ekki að kjósa þann flokk.
Lengi verið erfið staða í Reykjavík
Það er því raunhæfur möguleiki að Framsóknarflokkurinn nái ekki inn manni á höfuðborgarsvæðinu í næstu kosningum. Erfið staða hans í Reykjavík sérstaklega, þar sem flokkurinn hefur nú einn þingmann af 22 úr kjördæmunum tveimur, hefur raunar legið fyrir í lengri tíma og birtist meðal annars í síðustu borgarstjórnarkosningum.
Þar fékk flokkurinn 3,2 prósent atkvæða og náði ekki inn manni. Fyrir 14 árum síðan, í borgarstjórnarkosningunum 2006, fékk flokkurinn 6,1 prósent atkvæða. Í kjölfarið ákvað þáverandi formaður flokksins, Halldór Ásgrímsson heitinn, að draga sig í hlé úr stjórnmálum. Halldór sagði meðal annars að hann væri að axla ábyrgð á lakri stöðu flokksins í þeim kosningum með því að stiga til hliðar.
Aldur er ekki ráðandi breyta á meðal stuðningsmanna Framsóknarflokks og það er menntun eða tekjur ekki heldur. Karlar eru hins vegar hrifnari af flokknum en konur.