Í síðustu könnun MMR fyrir kosningarnar 2017, og þeirri fyrstu eftir þær, mældist meðaltalsfylgi Vinstri grænna 14,9 prósent. Það var aðeins lægra en flokkurinn fékk í kosningunum sjálfum, sem var 16,9 prósent. Munurinn var þó innan skekkjumarka.
Kannanir MMR sýndu að fylgi Vinstri grænna var mest á höfuðborgarsvæðinu, sem samanstendur af báðum Reykjavíkurkjördæmunum og Kraganum svokallaða, nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar. Þar búa tveir af hverjum þremur íbúum landsins. Meðaltal fylgis Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu í áðurnefndum tveimur könnnunum MMR var 16,3 prósent.
Hvergi á landinu mældist það meira enda hafði árangurinn í Reykjavík verið mjög góður í kosningunum. Í Reykjavík norður, þar sem Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, leiddi listann, fengu Vinstri græn 21,5 prósent atkvæða.
Það var mesta fylgi sem flokkurinn fékk í nokkru kjördæmi í síðustu kosningum.
Oddvitar lista Vinstri grænna í þessum þremur kjördæmum voru þrjár konur: formaðurinn Katrín, Svandís Svavarsdóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Tvær fyrrnefndu konurnar settust í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki að kosningum loknum sem leidd er af Katrínu.
Sú síðastnefnda studdi ekki stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar og sagði sig úr Vinstri grænum fyrr á þessu ári.
Fylgið ekki minna í sjö og hálft ár
Í síðustu tveimur könnunum MMR hefur fylgi Vinstri grænna mælst að meðaltali 7,9 prósent. Það er níu prósentustigum undir kjörfylgi.
Því er ljóst að miðað við þá stöðu hefur flokkurinn tapað miklum stuðningi á kjörtímabilinu.
Í könnuninni sem birt var í liðinni viku, og vigtar um helming af ofangreindu meðaltali, mældist fylgið 7,5 prósent. Það hefur ekki mælst lægra í könnunum MMR frá því í apríl 2013, nokkrum dögum fyrir þingkosningar þess árs, þegar fyrsta hreina tveggja flokka vinstristjórnin var að ljúka átakadrifinni valdasetu sinni sem feikilega óvinsæl minnihlutastjórn.
Það er merkilegt í ljósi þess að Katrín Jakobsdóttir er sá ráðherra sem flestir landsmenn segjast treysta, samkvæmt könnun Zenter fyrir Fréttablaðið sem birt var í síðasta mánuði. Þar sögðust 18,1 prósent landsmanna bera mest traust til forsætisráðherrans.
Það traust virðist hins vegar ekki skila sér í auknu fylgi Vinstri grænna. Þvert á móti.
Flótti kjósenda frá Vinstri grænum er fyrst og síðasta að eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu, þar sem formaðurinn leiðir lista flokksins í einu þriggja kjördæma. Þar segjast 7,6 prósent kjósenda styðja flokkinn í dag, eða 8,7 prósentustigum færri en í könnunum MMR í kringum kosningarnar 2017. Ef reiknað er meðaltalsfylgi Vinstri grænna í kosningunum sjálfum í þeim þremur kjördæmum sem mynda höfuðborgarsvæðið þá var það um 17 prósent. Flokkurinn hefur því tapað næstum tíu prósentustigum á þessu fjölmennasta, og þéttbýlasta, svæði landsins á þeim rúmu þremur árum sem hann hefur leitt ríkisstjórn.
Fylgið dalar víða
Vinstri græn tapa fylgi á öllum landsvæðum, nema á Vesturlandi og Vestfjörðum, á þeim slóðum þar sem Lilja Rafney Magnúsdóttir er oddviti flokksins. Þar eykst fylgið lítillega.
Flokkurinn hefur ætið átt sterkt vígi í Norðausturkjördæmi, þar sem stofnandinn og fyrrverandi formaðurinn Steingrímur J. Sigfússon hefur verið í forystu fyrir hann frá stofnun 1999. Steingrímur tilkynnti nýverið að hann ætlaði að hætta á þingi í aðdraganda næstu kosninga og því liggur fyrir að nýr oddviti mun leiða í kjördæminu. Óli Halldórsson hefur þegar tilkynnt framboð í það hlutverk.
Vinstri græn fengu 11,8 prósent atkvæða í Suðurkjördæmi í síðustu kosningum. um er að ræða víðfeðmasta kjördæmi landsins sem teygir sig frá Höfn í Hornafirði til Suðurnesja. Nú mælist stuðningur við flokkinn á Suðurlandi og á Suðurnesjum einungis 4,5 prósent. Það myndi ekki duga Vinstri grænum til að ná inn manni í kjördæminu.
Staðan var sterk hjá konum
Í könnunum MMR í kringum síðustu kosningar kom skýrt fram að Vinstri græn voru flokkur sem höfðaði mun frekar til kvenna en karla. Alls mældist stuðningur við flokkinn 21 prósent meðal kvenna en 9,6 prósent meðal karla. Einungis Sjálfstæðisflokkurinn, með 21,8 prósent kvennafylgi, var vinsælli hjá konum.
Í dag er staðan önnur. Fylgi Vinstri grænna á meðal kvenna mælist 12,4 prósent og karlafylgið hefur helmingast. Nú segjast fleiri konur kjósa Sjálfstæðisflokk, Samfylkingu og Pírata en Vinstri græn.
Þegar horft er á menntun og tekjur þá hefur stuðningur við Vinstri græn dregist saman í öllum flokkum. Samdrátturinn á stuðningi er meiri hjá tekjuhærri en tekjulægri en meiri hjá þeim sem eru með grunnskólapróf sem æðstu menntun en öðrum sem hafa lokið lengri skólagöngu.