Greiningaraðilar telja það tímaspursmál hvenær norska lággjaldaflugfélagið Norwegian verður tekið til gjaldþrotaskipta, en framtíðarhorfur þess versnuðu til muna þegar norska ríkisstjórnin neitaði því um frekari ríkisaðstoð fyrr í vikunni. Samkvæmt þeim stefnir félagið á gjaldþrot á næstunni og hluthafar þess ekki eiga neina undankomuleið á þessum tímapunkti, en mögulegt er þó að nýtt flugfélag gæti keypt vörumerki þess.
Faraldur og MAX-vandræði
Hlutabréfaverð Norwegian hefur lækkað um tæp 99 prósent frá ársbyrjun, en mestöll lækkunin átti sér stað á sama tíma og kórónuveiran tók að breiðast til Evrópu undir lok febrúarmánaðar og í byrjun marsmánaðar. Síðan þá hefur nær algjört tekjufall orðið hjá flugfélaginu, líkt og fjallað er um í breska blaðinu Financial Times.
Til viðbótar við það hefur flugfélagið verið í vandræðum vegna 18 Boeing 737 MAX-véla sem hafa verið kyrrsettar frá því í mars í fyrra. Norwegian hefur enn ekki fengið bætur frá flugvélaframleiðandanum, en samkvæmt norska miðlinum E24 hafa yfirstandandi deilur milli fyrirtækjanna orðið að dómsmáli í Bandaríkjunum sem tekið verður fyrir í desember.
Þrátt fyrir heimsfaraldurinn og erfiðleika vegna MAX-vélanna hefur flugfélagið þó náð að halda rekstri sínum áfram í ár, en það er fyrst og fremst stuðningi frá norska ríkinu að þakka. Líkt og Financial Times greinir frá náði Norwegian að breyta 18 milljarða norskra króna skuld í hlutafé, þökk sé björgunarpakka frá norska ríkinu í sumar. Sú upphæð samsvarar um 270 milljörðum íslenskra króna.
Ríkisaðstoð hafnað
Í kjölfar haustbylgju faraldursins hafa svo rekstrarhorfur flugfélagsins versnað stöðugt, en samkvæmt E24 bað forstjóri þess, Jakob Schram, norska atvinnuvegaráðuneytið um aukastuðning sem nemur 60 til 75 milljörðum íslenskra króna til að bæta lausfjárstöðu þess. Síðasta mánudag tilkynnti Iselin Nybø atvinnuvegaráðherra Noregs að ríkið hygðist ekki ætla að koma Norwegian til hjálpar, þar sem ekki væri verjandi að nýta opinbert fé í slíkan stuðning.
Fimm milljarða króna virði
Í kjölfar yfirlýsingar Nybø telja sérfræðingar að framtíð flugfélagsins sé svört. Í nýlegri greiningu bankans HSBC á stöðu flugfélagsins kemur fram að verðmiði þess sé nú í kringum fimm milljarðar íslenskra króna, eða innan við þrjú prósent af markaðsvirði sínu í maí síðastliðnum.
HSBC sagði einnig í greiningu sinni að ólíklegt væri að félagið næði að tryggja áframhaldandi rekstur sinn. „Norwegian hefur oft komið okkur á óvart með að finna nýtt fjármagn í rekstrarerfiðleikum. Við teljum ekki að slíkur glaðningur sé á leiðinni í þetta skiptið,“ er haft eftir bankanum í E24.
Gjaldþrot eða áframhaldandi starfsemi?
Lars-Daniel Westby, sérfræðingur hjá norska greiningarfyrirtækinu Sparebank 1 markets tók í sama streng í viðtali við Financial Times og sagði líklegt að félagið lýsti yfir gjaldþroti í næstu viku. Samkvæmt Westby hafa hluthafar félagsins enga undankomuleið. Hins vegar telur hann fyrirtækið geta lýst yfir gjaldþroti í Bandaríkjunum eða Írlandi og skipt svo flugfélaginu upp í tvö félög, þar sem annað þeirra gæti haldið áfram starfsemi sinni með styttri flugferðum milli áfangastaða í Evrópu.
HSBC telur líklegt að vörumerki Norwegian gæti haldið áfram starfsemi sinni þótt núverandi félag fari í þrot, en samkvæmt bankanum gæti nýstofnað og ónefnt flugfélag Braathens-fjölskyldunnar haft áhuga á að kaupa það.