Enginn einn flokkur hefur tekið til sín meira nýtt fylgi það sem af er kjörtímabili en sá flokkur í mælingum MMR sem á ekki fulltrúa á þingi, Sósíalistaflokkur Íslands. Meðaltal fylgis hans í síðustu tveimur könnunum MMR er 4,3 prósent. Sá flokkur á Alþingi sem hefur bætt mestu við sig á kjörtímabilinu, Píratar, hefur náð í 3,4 ný prósentustig af fylgi.
Það er eftirtektarverður árangur hjá Sósíalistaflokknum í ljósi þess að ekkert liggur opinberlega fyrir um hverjir verða í framboði fyrir hann haustið 2021. Eina sem liggur fyrir er skýr stjórnmálastefna og ákvörðun um að bjóða fram.
Í stefnunni segir meðal annars að markmið flokksins séu samfélag frelsis, jöfnuðar, mannhelgi og samkenndar. „Þessi markmið nást eingöngu með því að færa völdin í hendur fólksins í landinu. Sósíalistaflokkur Íslands er flokkur launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Andstæðingar Sósíalistaflokks Íslands eru auðvaldið og handbendi þess. Vettvangur Sósíalistaflokks Íslands er breið stéttabarátta sem hafnar málamiðlunum og falskri samræðu.“
Sterkastur á höfuðborgarsvæðinu
Sósíalistaflokkurinn var stofnaður 1. maí 2017. Hvatamaður að stofnun hans var Gunnar Smári Egilsson, blaðamaður og fyrrum ritstjóri.
Flokkurinn bauð í fyrsta sinn fram í sveitarstjórnarkosningunum 2018. Þar náði flokkurinn 6,4 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík og Sanna Magdalena Mörtudóttir tók í kjölfarið sæti í borgarstjórn fyrir hönd hans.
Sósíalistaflokkurinn var eini flokkurinn sem náði inn kjörnum fulltrúa sem er ekki með fulltrúa á Alþingi í dag, og hafði því ekki aðgengi að þeim hundruð milljóna sem hinir sjö flokkarnir sem náðu inn er skammtað af fjárlögum ár hvert.
Meðaltalsfylgi Sósíalistaflokksins í síðustu tveimur könnunum MMR var 4,3 prósent, sem er meira en Flokkur fólksins mælist með um þessar mundir. Hann nýtur mest fylgis á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann myndi fá slétt fimm prósent atkvæða ef kosið yrði í dag, eða rétt aðeins minna en þau 5,9 prósent sem Framsóknarflokkurinn myndi fá í dag. Þá er heldur ekki langt í Miðflokkinn (7,1 prósent) og Vinstri græn (7,6 prósent) á höfuðborgarsvæðinu.
Tekjur og menntun lykilbreytur
Menntun og tekjur eru breytur sem skipta máli þegar kemur að stuðningi við Sósíalistaflokkinn, enda skilgreinir flokkurinn sig beinlínis sem málsvari verkafólks í stéttabaráttu þess við auðvaldið. Hjá þeim sem hafa lokið skyldunámi og engu öðru mælist stuðningu við Sósíalistaflokkinn 5,7 prósent. Stuðningur við flokkinn fer svo lækkandi eftir því sem menntun eykst og mælist 3,1 prósent hjá þeim sem lokið hafa háskólanámi.
Fylgi Sósíalistaflokksins er langmest hjá þeim landsmönnum sem tilheyra lægsta tekjuhópum, þeim sem eru með undir 400 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði. Þar segjast 8,6 prósent að þeir myndu kjósa flokkinn. Stuðningurinn er líka yfir heildarfylgi, alls fimm prósent, hjá þeim sem eru með 400-799 þúsund krónur á mánuði í heimilistekjur en mjög lítill hjá tekjuhæstu hópunum tveimur (1,7-2,2 prósent).
Karlar (5,7 prósent) eru líklegri til að styðja Sósíalistaflokk Íslands en konur (2,4 prósent) og flokkurinn er mun vinsælli hjá yngra fólki en því eldra. Raunar er það svo að í aldurshópnum 18-29 ára mælist hann með sjö prósent fylgi og er fimmti stærsti flokkur landsins innan hans. Þar, líkt og á höfuðborgarsvæðinu, mælist stuðningur við Sósíalistaflokkinn meiri en stuðningur við Vinstri græn, þann flokk sem staðsetur sig næst lengst til vinstri.
Sósíalistaflokkurinn virðist ekki ná vel til eldri landsmanna en hjá 68 ára og eldri segjast einungis 1,6 prósent styðja hann.
Taka frá Vinstri grænum
Vinstri græn hafa átt svæðið yst til vinstri á hinum hefðbundna stjórnmálakvarða að mestu síðastliðna rúmu tvo áratugi. Sósíalistaflokkurinn sækir nú sitt fylgi í sama hólf. Í borgarstjórnarkosningunum fyrir rúmum tveimur árum tókst sú sókn vel upp og flokkurinn fékk meira fylgi en Vinstri græn, sem biðu afhroð og fengu einungis 4,6 prósent atkvæða. Alls fengu Sósíalistar rúmlega eitt þúsund fleiri atkvæði en hinn skilgreindi vinstriflokkurinn og, líkt og áður sagði, 6,4 prósent atkvæða.
Það sést vel að í þeim hópum sem Vinstri græn hafa tapað mörgum kjósendum, þar gengur Sósíalistum best og því eðlilegt að draga þá ályktun að síðarnefndi flokkurinn sé að taka umtalsvert vinstrafylgi af flokki forsætisráðherra.
Í yngsta kjósendahópnum, þeim sem eru undir þrítugu, er Sósíalistaflokkurinn (7,0 prósent) til að mynda með meira fylgi en Vinstri græn (5,4 prósent) og þar hefur síðarnefndi flokkurinn tapað 6,9 prósentustigum frá mælingum í kringum síðustu kosningar.
Þegar fylgi vinstriflokkanna tveggja er skoðað eftir menntunarstigi er Sósíalistaflokkurinn (5,7 prósent) líka stærri en Vinstri græn (3,8 prósent) hjá þeim sem lokið hafa grunnskólamenntun einvörðungu. Hjá þeim hópi hefur fylgi Vinstri grænna skroppið saman um 6,4 prósentustig frá 2017.
Að síðustu ber að nefna þá landsmenn sem eru með lægstu tekjurnar, undir 400 þúsund krónur á mánuði. Þar mælast Sósíalistaflokkurinn (8,6 prósent) og Vinstri græn (8,8 prósent) nánast jafn stór en stuðningur við Vinstri græn í þeim hópi hefur minnkað um alls 6,9 prósentustig það sem af er kjörtímabili.