Verðmiði íslenskra fyrirtækja í Kauphöllinni er að meðaltali 69 prósentum hærri en bókfærða virðið þeirra. Hlutfall markaðsvirðis þessara 19 fyrirtækja á móti bókværðu virði hefur aukist hér á landi á síðustu árum, en er þó ekki jafnhátt og í kauphöllum í Osló, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn og Helsinki.
Algengur mælikvarði á verðlagningu fyrirtækis er að meta markaðsvirði þess út frá eiginfjárstöðu, með svokölluðu P/B-hlutfalli. Lágt hlutfall milli þessara tveggja breytna gæti gefið til kynna litla trú fjárfesta á fyrirtækinu, á meðan hátt hlutfall er mögulegur mælikvarði á bjartsýni um vaxtamöguleika þess til framtíðar.
Hlutfallið á Íslandi mælist nú í 1,69, sem þýðir að fjárfestar telja fyrirtækin vera 69 prósent verðmætari en ársreikningar þeirra segja til. Á síðustu tíu árum hefur þetta hlutfall verið á bilinu 1,3 til 1,6 hjá fyrirtækjum í Kauphöllinni.
Sex fyrirtæki undir einum
Þó er nokkur munur á milli fyrirtækja, en hjá sex þeirra er hlutfallið undir einum, sem gefur til kynna að fjárfestar telja skráð virði þeirra ekki jafnhátt og raunverulegt virði þeirra. Lægst er hlutfallið hjá Arion banka, en Benedikt Gíslason bankastjóri sagði bankann vera með of mikið eigið fé í tilkynningu sem fylgdi síðasta uppgjöri þess. Markaðsvirðið á móti skráðu eigin fé bankans er 0,75.
Hlutfallið er einnig undir einum hjá fasteignafélögunum þremur í Kauphöllinni, Reitum, Regin og Eik. Kjarninn fjallaði í gær um gengi þeirra á fyrstu níu mánuðum ársins, en samkvæmt ársreikningum fyrirtækjanna er búist við að útbreiðsla kórónuveirunnar muni hafa neikvæð áhrif á rekstur þeirra út árið 2021.
Til viðbótar við þessi fjögur fyrirtæki mælist verðmiðinn á Icelandair einnig í 0,93 og svo 0,96 í Eimskip.
Fer eftir geirum
Í flestum tilvikum er hlutfallið svipað innan hvers geira sem fyrirtækið starfar í. Til að mynda eru fjarskiptafyrirtækin Sýn og Síminn bæði með hlutfall á milli 1 og 2, þótt hlutfallið hjá Símanum sé aðeins hærra. Sömu sögu má segja um sjávarútvegsfyrirtækin Iceland Seafood og Brim, sem bæði eru með hlutfallið á þessu bili. Tryggingafyrirtækin þrjú, tm,Sjóvá og Vís, eru einnig með mjög svipað hlutfall, en það er á milli 1,6 og 1,8.
Í smásölu og eldsneytissölu gætir þó nokkurs misræmis. Á meðan Skeljungur og Festi eru með svipuð hlutföll á bilinu 1,6 til 1,7 er það mun hærra hjá Högum, þar sem það er tæplega 2,5.
Hlutfallið er einnig hátt hjá tæknifyrirtækinu Origo, eða í 2,11. Langhæst er þó hlutfallið hjá Marel, þar sem það nær 3,87.
Lægst á Norðurlöndunum
Þrátt fyrir að hlutfall markaðsvirðis á móti bókfærðs virðis sé hærra hérlendis en það hefur verið á síðustu árum er það nokkuð lágt ef litið er til hlutabréfamarkaðarins annars staðar á Norðurlöndunum. Samanburðinn má sjá á mynd hér að ofan, en samkvæmt henni er hlutfallið hæst í kauphöll Kaupmannahafnar, þar sem það er rúmlega tvöfalt hærra en hér á landi. Í Stokkhólmi, Osló og Helsinki er svo hlutfallið nokkuð hærra en á Íslandi, eða rétt yfir tveimur.