Tveir stjórnarþingmenn úr Sjálfstæðisflokki, Sigríður Á. Andersen og Brynjar Níelsson, hafa talað með afgerandi hætti gegn sóttvarnarráðstöfunum stjórnvalda undanfarið. Þau eru á meðal hóps fólks sem skrifaði undir yfirlýsingu sem ber yfirskriftina „Út úr kófinu!“ og er birt á heimasíðunni kofid.is.
Í yfirlýsingu þrýstihópsins segir meðal annars að þeir sem skrifi undir hana telji að ef „haldið er áfram á sömu braut og nú verði skaði aðgerða mun meiri en skaði af völdum COVID-19. Skaðinn mun leggjast af miklum þunga á yngri kynslóðir, tekjulága, og jaðarsetta hópa samfélagsins. Við teljum nauðsynlegt að dýpka umræðu um kórónuveirufaraldurinn og viðbrögð við honum. Stefnan nú virðist vera að stöðva veiruna hvað sem það kostar og bíða eftir bóluefni. Við teljum þetta ekki vera góða nálgun.“
Sigríður hefur í nokkurn tíma lýst því yfir opinberlega að hún hafi áhyggjur af því að opinberar sóttvarnaráðstafanir gangi of langt og hafi skaðleg áhrif, jafnvel áhrif sem eru skaðlegri en faraldurinn sjálfur auk mikilla skerðinga á borgaralegum réttindum fólks í för með sér. Þann 6. október síðastliðinn fjallaði hún um hina svokölluðu Great Barrington-yfirlýsingu. Þegar talið víkur að hjarðónæmi er það útbreiddur misskilningur að með því sé verið að boða að “ekkert sé gert”. Það er hins vegar fjarri lagi. Heldur er markmiðið að verja þá viðkvæmu,“ skrifaði Sigríður á Facebook og vísaði til viðtals við þremenninganna sem settu yfirlýsinguna saman. Hún var svo í hópi þeirra sem settu hópinn sem stendur að „Út úr kófinu!“ yfirlýsingunni saman.
Brynjar sagði í grein sem hann birti á Vísi 9. nóvember að hann væri „sannfærðari en áður að við og flest önnur ríki höfum ekki brugðist rétt við í baráttunni við veiruna“ og gagnrýndi það sem hann kallaði „alræði sóttvarna“ á Íslandi. Nú væri svo komið að meðvirkni hans með sóttvarnaraðgerðum væri lokið.
Brynjar var svo gestur Kastljóss í fyrrakvöld. Þar ítrekaði hann afstöðu sína og sagði að það væri hlutverk stjórnmálamanna að efast.
Landsmenn treysta upplýsingum fjölmiðla
Í yfirlýsingu þrýstihópsins sem Sigríður og Brynjar skrifuðu undir segir einnig að „hræðsluáróður í fjölmiðlum styður ekki við upplýsta og skynsamlega ákvarðanatöku. Upplýsingar opinberra aðila snúast að mestu leyti um sjúkdóminn og beinar afleiðingar hans, en mun minna fer fyrir umfjöllun um stórfelldar efnahagslegar og heilsufarslegar afleiðingar aðgerða gegn honum, sem verða verri og verri eftir því sem faraldurinn dregst á langinn.“
Íslendingar telja sig líka vel upplýsta um veiruna og sjúkdóminn sem hún veldur, en um og yfir 80 prósent sögðust telja sig vel upplýsta í könnunum Maskínu, en í samanburði sögðust 58 prósent Bandaríkjamanna vera vel upplýstir um kórónuveiruna í könnun sem Gallup framkvæmdi þar í landi.
Eiga mestan hljómgrunn hjá minnihluta kjósenda Miðflokks og Sjálfstæðisflokks
Gallup hefur frá upphafi faraldursins framkvæmd reglulegar kannanir þar sem afstaða landsmanna til ýmissa hliða hans er mæld, og sú afstaða framsett á grunni ýmissa bakgrunnsbreyta. Í niðurstöðum Gallup er meðal annars hægt að sjá hjá hverjum málatilbúnaður Sigríðar og Brynjars gæti fundið sér hljómgrunn.
Í könnunum Gallup kemur til að mynda fram að 93 prósent landsmanna treysta almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum til að takast á við COVID-19. Í byrjun apríl, þegar fyrsta bylgja faraldursins stóð sem hæst hérlendis, var það hlutfall aðeins hærra eða 96,4 prósent og þegar sóttvarnaaðgerðir voru hertar um síðustu mánaðamót var það aðeins lægra, eða 92,5 prósent. Þeir landsmenn sem treysta almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum verst er annars vegar að finna á meðal kjósenda Miðflokksins (níu prósent segjast treysta þeim illa) og Sjálfstæðisflokks (sex prósent segjast treysta þeim illa).
Þá telja níu af hverjum tíu landsmönnum að hæfilega mikil eða of lítið sé gert úr þeirri heilsufarslegu hættu sem stafi af COVID-19, en tíu prósent telja að of mikið sé gert úr henni. Þar skera kjósendur Miðflokksins (17 prósent telja að of mikið sé gert úr hættunni) og Sjálfstæðisflokksins (16 prósent telja að of mikið sér gert úr hættunni) sig aftur úr.
Þegar spurt er að hvort almannavarnir séu að gera nægilega mikið til að takast á við faraldurinn segja 91 prósent landsmanna að þær séu að gera hæfilega mikið eða að þær ættu að gera meira. Einungis níu prósent telja að það ætti að gera minna. Þar eru það kjósendur Viðreisnar sem eru helst á því að yfirvöld séu að gera of mikið (16 prósent) en kjósendurMiðflokksins (15 prósent) og Sjálfstæðisflokks (13 prósent) eru ekki langt undan.
Miðflokksfólk hefur mestu efnahagslegu áhyggjurnar
Þrýstihópurinn sem stendur að kofid.is hefur einnig áhyggjur að því að sjónum sé ekki beint nægjanlega að efnahagslegum afleiðingum faraldursins.
Í nýjustu könnun Gallup kemur fram að það eru kjósendur Miðflokksins sem hafa mestar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum COVID-19, en 81 prósent þeirra hafa slíkar áhyggjur. Kjósendur Pírata eru líklegastir til að hafa litlar áhyggjur af efnahagslegu áhrifunum, en 16 prósent þeirra eru á þeirri skoðun.
Traust á íslensku ríkisstjórnina til að takast á við efnahagsleg áhrif COVID-19 hefur haldist nokkuð stöðugt í gegnum faraldurinn. Í dag segjast um 67 prósent treysta henni fullkomlega eða vel til að gera það, 16 prósent hvorki né og 17 prósent alls ekki eða illa.
Hlutfall þeirra sem treystu henni fullkomlega eða vel var 73,9 prósent í byrjun apríl, 64,7 prósent um miðjan september.
Það kemur kannski ekki á óvart að kjósendur stjórnarflokkanna þriggja treysta ríkisstjórninni best 83-86 prósent, Kjósendur Miðflokksins (31 prósent treysta ríkisstjórninni illa) og Píratar (26 prósent treysta ríkisstjórninni illa) treysta henni hins vegar minnst til að takast á við efnahagslegu áhrifin.