Frá því í júní hefur átt sér stað flótti húsnæðislántakenda frá lífeyrissjóðum landsins og til viðskiptabankanna. Hann byrjaði hægt. Í fyrsta mánuði þessa tímabils drógust útlán umfram uppgreiðslur saman um nokkur hundruð milljónir króna. Í júlí var samdrátturinn vel á þriðja milljarð króna. Í ágúst var hann tæplega fimm milljarðar króna og í september um 3,5 milljarðar króna. Samanlagt greiddu sjóðsfélagar upp lán fyrir um 13,7 milljarða króna umfram ný útlán á þessum fjórum mánuðum.
Nýjar hagtölur Seðlabanka Íslands , sem sýna stöðu lífeyrissjóða í lok október, voru birtar í morgun. Þar kemur fram að sá mánuður sló öll met þegar horft er til samdráttar í húsnæðislánum til sjóðsfélaga. Alls drógust útlán sjóðanna saman um 8.955 milljónir króna í októbermánuði. Það er mesta lækkun sem orðið hefur í einum mánuði á útlánasafni lífeyrissjóða landsins frá því að Seðlabankinn fór að halda utan um, og birta opinberlega, þær tölur í byrjun árs 2009.
Nú hefur það gerst fimm mánuði í röð.
Lágir vextir og hækkandi verðbólga
Langstærstur hluti þeirra lána sem greidd hafa verið upp á ofangreindu tímabili eru verðtryggð lán. Alls hafa sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum greitt upp 24,7 milljarða króna af slíkum lánum umfram þau nýju lán sem hafa verið tekin á þessu fimm mánaða tímabili.
Ástæða þessa eru tvær. Í fyrsta lagi hafa stýrivaxtalækkanir Seðlabanka Íslands (bankinn lækkaði vexti niður í eitt prósent í vor og svo niður í 0,75 prósent við síðustu vaxtaákvörðun) leitt til þess að óverðtryggðir húsnæðislánavextir þriggja stærstu bankanna hafa hríðlækkað. Breytilegir óverðtryggðir vextir á húsnæðislánum Landsbankans eru nú til að mynda 3,3 prósent. Hjá Íslandsbanka eru þeir 3,4 prósent. Á sambærilegum lánum hjá Arion banka eru vextirnir 3,54 prósent. Í upphafi árs í fyrra voru breytilegir óverðtryggðir vextir bankanna á bilinu sex til 6,6 prósent. Þeir hafa því helmingast.
Við þessu hafa íslenskir lántakendur brugðist með því að færa lánin sín þangað sem bestu kjörin eru. Sömuleiðis hefur þessi mikla vaxtalækkun, sem þýðir einfaldlega að lánsfé er hún helmingi ódýrari en það var fyrir tæpum tveimur árum, hleypt miklu lífi í fasteignamarkaðinn.
Í öðru lagi hefur verðbólga farið vaxandi og mælist nú 3,5 prósent. Íslenskir lántakendur hafa sýnt það á síðustu árum að þeir hafi margir hverjir lært sína lexíu af bankahruninu og er fljótir að skipta yfir í óverðtryggð lán þegar verðbólgan fer yfir markmið Seðlabankans, sem er 2,5 prósent. Síðustu mánuðir hafa ekki verið undantekning frá þeirri reglu.
Bankarnir hafa lánað tvöfalt meira
Frá haustinu 2015 og fram á vordaga 2020 þá kepptu viðskiptabankar landsins ekki um hluta þeirra húsnæðislántakenda sem mynda íslenskan fasteignamarkað. Þeir gátu boðið hærra lánshlutfall en lífeyrissjóðirnir, og náðu þannig til þeirra sem þurftu að skuldsetja sig meira til að eignast þak yfir höfuðið, en vaxtakjörin á lánum bankanna voru í órafjarlægð frá því sem stóð til boða hjá lífeyrissjóðunum.
Það hefur breyst. og breyst hratt, líkt og rakið var hér að ofan.
Á þessu ári nema ný útlán viðskiptabanka til heimila landsins umfram uppgreiðslur og umframgreiðslur, þar sem veð er tekið í fasteign, alls um 260,5 milljörðum króna. Til samanburðar voru þau 128,2 milljarðar króna allt síðasta ár. Það þýðir að á fyrstu tíu mánuðum ársins 2020 hafa bankarnir lánað tvisvar sinnum meira í húsnæðislán til heimila en þeir gerðu allt árið í fyrra.
Ásóknin hefur öll verið í óverðtryggð lán. Umfang nýrra slíkra er um 282 milljarðar króna það sem af er ári, sem þýðir að meira hefur verið greitt upp af verðtryggðum lánum en tekið af þeim. Tæplega 96 prósent allra óverðtryggðu lánanna hafa verið tekin á breytilegum vöxtum.