Zuism: Trúfélagið sem fjármagnaði ferðalög, áfengiskaup og hlutabréfaviðskipti tveggja bræðra
Héraðssaksóknari hefur ákært tvo menn, bræður, fyrir að svíkja sóknargjöld út úr ríkissjóði og nota þau svo í eigin þágu um nokkurra ára skeið. Það gerðu þeir með því að nota trúfélagið Zuism, sem hafið lofað öllum sem skráðu sig í það endurgreiðslu á sóknargjöldum. Lítið var um endurgreiðslur. Þess í stað fóru um 85 milljónir króna til bræðranna.
Vorið 2015 var birt auglýsing frá embætti sýslumannsins á Norðurlandi eystra í Lögbirtingablaðinu þar sem skorað var á meðlimi trúfélagsins Zuism að gefa sig fram. Þeir voru þá fjórir talsins. Tilgangur auglýsingarinnar var að kanna hvort einhver vildi kannast við félagið. Ef ekki yrði það lagt niður, enda fjöldi meðlima var langt frá því að uppfylla viðmið í reglugerð dómsmálaráðuneytisins um skráningu opinberra trú- og lífsskoðunarfélaga.
Hópur áhugafólks um trúarlegt jafnrétti og raunverulegt trúfrelsi sá sér leik á borði. Erfitt er að fá ný trúfélög viðurkennd og hópurinn, sem síðar kallaði sig öldungaráð Zúista, ákvað að safna lágmarksfjölda meðlima í Zuism, gefa sig fram við sýslumann og taka félagið einfaldlega yfir. Þann 1. júní 2015 fékk fulltrúi hópsins opinbera viðurkenningu embættis sýslumanns að hann væri forstöðumaður trúfélagsins og að þau færu nú með völd í þessu umkomulausa trúfélagi.
Hugmyndin sem hópurinn gekk með í maganum var að hvetja fólk til að skrá sig sem Zúista gegn vilyrði fyrir því að fá sóknargjöld sín, þá 10.800 krónur á mann, endurgreidd. Um borgaralega óhlýðni var að ræða, þar sem sniðugur hópur ætlaði að spila á kerfið til að sýna fáránleika þess og sýna í verki hversu mikil tímaskekkja núverandi trúfélagskerfi væri. Enginn átti að græða neitt og öllum fjármunum sem myndu koma í kassann yrði skilað til greiðenda, að frádregnum umsýslukostnaði.
Blóta IKEA og syngja ítölsk júróvisjónlög
Samkvæmt grein sem hópurinn birti á Kjarnanum um jólin 2015 ætluðu Zúistar að iðka trú sína með því að halda upp á sólstöðuhátíð. „Við hefjum hátíðina í september með því að blóta IKEA í sand og ösku fyrir að leyfa okkur ekki að syrgja sumarið almennilega áður en skrúfað er frá jólaauglýsingakrananum. Í nóvember er svo fárast yfir jólalögum og alltof snemmbúnum skreytingum á Laugaveginum. Þegar nær dregur jólum mildumst við þó aðeins og í desember hellist hátíðarandinn yfir okkur þegar við tilbiðjum skurðgoð á borð við neyslusamfélagið, jólasveina (þessa rauðu sem drekka bara kókakóla), og konfekt. Á aðfangadag opnum við gjafir sem eru faldar undir sýnishorni úr barrskógabeltinu, rétt eins og Jesús gerði forðum. Við hlustum einnig mikið á ítölsk júróvisjónlög sem eru sungin á íslensku af BÓ. Fyrst og fremst njótum við þó kyrrðarinnar á milli kaupæðanna og reynum að vera með fjölskyldunni, eins og flestir gerðu áður en þeir skráðu sig í Zuism.“
Í nóvember þetta sama ár, 2015, hafði hópurinn auglýst fyrirætlanir sínar og á tveimur vikum gengu um þrjú þúsund manns í félagið. Í byrjun desember voru Zúistar orðnir eitt stærsta trúfélag landsins.
Gjörningurinn virtist hafa gengið upp. Hann vakti raunar heimsathygli og fjallað var um hann í tugum fjölmiðla víða um heim.
En hann vakti athygli fleiri. Á meðal þeirra voru upphaflegu stofnendur trúfélagsins Zuism.
Kickstarter-bræður taka yfir trúfélag
Um var að ræða tvo bræður, þá Einar og Ágúst Arnar Ágústssyni. Þeir höfðu vakið athygli fyrir að safna háum fjárhæðum á hópfjármögnunarsíðunni Kickstarter á árinu 2015. Það gerðu þeir meðal annars til að koma framleiðslu á svokallaðri TOB-snúru á koppinn, til að framleiða sérstaka sólarrafhlöðu sem fest var á ólar á bakpoka og síðar til að fjármagna framleiðslu á ferðavindtúrbínum, einhverskonar vindmyllum til einkanota. Kastljós greindi frá því í október 2015 að bræðurnir væru til rannsóknar vegna meintra fjársvika vegna þeirrar safnana. Nýsjálenskur rafmagnsverkfræðingur sagði m.a. í samtali við Stundina skömmu síðar að ef vindmylluverkefni bræðranna, sem hafði safnað mestu fé, ætti að geta gert það sem þeir sögðu að hún gæti þá þyrfti að endurskoða nokkur náttúrulögmál.
Einar var síðar, nánar tiltekið á árinu 2017, dæmdur til þungrar fangelsisvistar, alls þriggja ára og níu mánaða, fyrir fjársvik vegna annars máls. Kjarninn greindi ítarlega frá því máli í fréttaskýringu í mars 2017. Sá dómur var staðfestur í Landsrétti síðla árs 2018. Hægt er að lesa um það mál í aukaefni hér að neðan.
Sveik tugi milljóna af fólki og færði peninga milli landa með ólögmætum hætti
Í málinu sem Einar Ágústsson hlaut þriggja ára og níu mánaða fangelsisdóm fyrir hafði Einar svikið alls 74 milljóna króna af fjórum einstaklingum. Það gerði hann með því að hafa „vakið og styrkt þá röngu hugmynd“ hjá þeim um að hann starfrækti fjárfestingarsjóð í Bandaríkjunum og tekið við fé af þeim til að fjárfesta. Í dómnum kom fram að þrotabú félags Einars, Skajaquoda ehf., myndi ekki fá aðgang aftur að 74 milljónum króna sem embætti sérstaks saksóknara hafði lagt hald á við rannsókn málsins.
Fénu sem Einar sveik af fólkinu, og átti að fara í fjárfestingarsjóð, ráðstafaði hann hins vegar, í eigin þágu eða annars „með þeim hætti að ekki tengdist eða gat samrýmst ætluðum fjárfestingum“. Einar var einnig ákærður fyrir meiriháttar brot gegn lögum um gjaldeyrismál með því að hafa í 18 tilvikum notað innstæður í íslenskum krónum, skipt þeim í erlendan gjaldeyri og látið senda þann gjaldeyri til útlanda með símgreiðslu. Greiðslurnar fóru inn á reikning erlends félags í hans eigu. Til þess að fá að gera þetta lét Einar sem að hann væri að greiða fyrir vöru og þjónustu. Vandamálið við þetta var að bæði kaupandinn og seljandinn voru í eigu hans sjálfs. Þegar viðskiptabanki Einars neitaði í eitt skiptið að framkvæma símgreiðslu framvísaði hann fölsuðum reikningi til að sýna fram á raunveruleika sýndarviðskiptanna.Ákæruvaldið taldi að fjármagnsflutningar Einars til Bandaríkjanna hafi tengst „hringstreymi fjármuna“ sem hafi skilað sér aftur til baka til Íslands. Endurkoma þeirra var í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, og þá með verulegri virðisaukningu. Þeir sem fengu að nota þá leið fengu að meðaltali 20 prósent virðisaukningu á það fé sem þeir komu með til landsins. Einar var einnig sakfelldur fyrir þessar ólögmætu fjármagnshreyfingar milli landa.
Í dómnum kom fram að Einar ætti sér engar málsbætur, brotavilji hans hafi verið einbeittur og brot hans „skipulögð og úthugsuð“ og staðið yfir í langan tíma, eða rúmlega tvö ár.
Eftir hina miklu athygli sem gjörningur öldungaráðs Zúista vakti, og þegar fyrir lá að tugir milljóna króna myndu streyma árlega inn í trúfélagið vegna þess hversu margir skráðu sig í það, gerðu bræðurnir kröfu um yfirráð yfir félaginu. Það gerðu þeir í krafti þess að þeir voru enn í forsvari rekstrarfélags á bak við það en Ágúst Arnar hafði verið einn af stofnendum þess árið 2013.
Í yfirlýsingu sem öldungaráð Zúista sendi frá sér í nóvember 2017 sagði að þarna, snemma í desember, hafi hafist „stjórnsýslumatröð“. Í ljós kom að nýju forsvarsmenn Zúista, þrátt fyrir að hafa fengið skýrar leiðbeiningar frá opinberum aðilum um hvernig þeir ættu að stofna nýtt rekstrarfélag, gátu ekki gert það. Án rekstrarfélags gátu þeir hvorki móttekið né ráðstafað þeim fjármunum sem félagið átti tilkall til. Í febrúar 2016 óskaði öldungaráðið eftir því að allar greiðslur frá Fjársýslu ríkisins til trúfélagsins yrðu frystar til að vernda hagsmuni meðlima trúfélagsins. Fjársýslan varð við þeirri beiðni og voru fjármunir félagsins í frystingu hjá ríkissjóði fram á haust 2017.
Í nóvember 2017 tapaðist málið þeirra hins vegar endanlega, og staðfest var að Einar og Ágúst Arnar, sem þá var skráður forstöðumaður Zúista, höfðu full yfirráð yfir félaginu. Í áðurnefndri yfirlýsingu sagði: „Við höfum því engin ítök eða völd lengur í trúfélaginu Zuism og getum þar af leiðandi ekki borið ábyrgð á því að sóknargjöld verði endurgreidd eða gefin til góðgerðarmála. Við frábiðjum okkur einnig tilraunir núverandi forráðamanna félagsins til að eigna sér upphafleg markmið okkar með gjörningnum, enda komu þeir hvergi að þeirri hugmyndavinnu.“
Fjársvik sem ollu ríkissjóði „fjártjóni í reynd“
Ágúst Arnar kom ítrekað fram í fjölmiðlum á þessum tíma og sagði að loforð um endurgreiðslur til félagsmanna myndi halda. Af því varð þó ekki. Að minnsta kosti sem neinu nemur. Í viðtali við mbl.is í desember 2019, þegar bræðurnir voru búnir að missa yfirráð yfir fjárráðum Zuism vegna kyrrsetningaraðgerða héraðssaksóknara, sagði Ágúst Arnar að í heildina hafi verið greiddar tæpar sjö milljónir króna til sóknarbarna Zuism.
Þess í stað, samkvæmt því sem fram í ákæru héraðssaksóknara á hendur bræðrunum, og er dagsett 4. nóvember síðastliðinn, frömdu bræðurnir, sem stjórnarmenn og prókúruhafar í félaginu Zuism, fjársvik. Þau hafi staðið frá árinu 2015, en þó „einkum frá október 2017, og fram á fyrri hluta árs 2019“. Á því tímabili hafi þeir „styrkt og hagnýtt sér þá röngu hugmynd starfsmanna íslenskra stjórnvalda að trúfélagið Zuism uppfyllti skilyrði fyrir skráningu trúfélags[...]og þar með rétt til fjárframlaga úr ríkissjóði.“
Frá október 2017 og fram til janúar 2019 greiddi ríkissjóður alls 36 sinnum in á bankareikning félagsins í Arion banka vegna sóknargjalda áranna 2016 til 2018. Alls var um að ræða 84,7 milljónir króna. Í ákæru segir að með athæfi sínu hafi bræðurnir ollið „íslenska ríkinu verulegri fjártjónshættu og fjártjóni í reynd.“
Í stuttu máli þá telur héraðssaksóknari að bræðurnir hafi blekkt ríkið til að fá ofangreinda fjármuni, með því að þykjast reka trúarlega starfsemi, þegar engin eiginleg trúariðkun fór fram í félaginu.
Peningunum var því ekki ráðstafað til rekstur trúfélagsins, eða til endurgreiðslu á sóknargjöldum, heldur meðan annars ráðstafað til bræðranna.
Styrktu „villu stjórnvalda um trúfélagið“
Blekkingarnar voru ýmiskonar samkvæmt ákæru. Þar segir að bræðurnir hafi meðal annars ekki upplýst stjórnvöld um að Zuism uppfyllti ekki lagaskilyrði fyrir skráningu sem trúfélag og átti þar með ekki rétt á fjárframlögum úr ríkissjóði. Auk þess hafi þeir veitt fjárgreiðslum úr ríkissjóði viðtöku, margítrekað og á löngu tímabili, þrátt fyrir að eiga ekki lögmætt tilkall til þeirra.
Í ákærunni segir enn fremur að Ágúst Arnar hafi útbúið og sent „röng og villandi gögn til stjórnvalda varðandi trúfélagið og málefni þess[...]Hann stóð jafnframt að því að gefa út, einkum á heimasíðu trúfélagsins, rangar og villandi yfirlýsingar um málefni þess sem voru til þess fallnar að styðja og viðhalda opinberlega gagnvart almenningi sömu röngu hugmynd um trúfélagið og ákærðu komu fram með fyrrnefndum blekkingum gagnvart stjórnvöldum í tengslum við lögskipti trúfélagsins með þau. Með því að stuðla þannig að því að opinber ásýnd trúfélagsins væri í samræmi við þá röngu hugmynd sem ákærðu styrktu og hagnýttu hjá stjórnvöldum stuðlaði Ágúst þannig um leið og enn frekar að því, með óbeinum hætti, að styrkja villu stjórnvalda um trúfélagið.“
Keyptu bensín, mat og áfengi
Bræðurnir eru líka ákærðir fyrir peningaþvætti fyrir að hafa flutt, umbreytt og nýtt þá peningar sem ríkissjóður greiddi til Zuism, og héraðssaksóknari segir að sé ávinningur af fjársvikabrotum þeirra, og nýtt þann ávinning að mestu í eigin þágu. Umræddir fjármunir voru meðal annars færðir inn á bankareikninga erlendra félaga sem Einar átti og stýrði. Fyrir peninganna keyptu bræðurnir meðal annars einingar í verðbréfasjóði hjá Íslandsbanka og hlutabréf í hlutafjárútboðum Heimavalla og Arion banka. Hluti þeirra var líka einfaldlega millifærður á bankareikna bræðranna, eða félaga í þeirra eigu. Þeir voru síðan notaðir til að kaupa vörur og þjónustu á veitingahúsum, í áfengisverslunum, bensínstöðvum, matvöruverslunum og af fjarskiptafyrirtækjum. Auk þess borguðu bræðurnir fyrir ýmis konar ferðakostnað með sóknargjöldunum úr ríkissjóði.
Eitthvað er eftir af peningunum. Á reikningi Zuism er tæplega 1,3 milljónir króna sem héraðssaksóknari lagði hald á í fyrra og krefst upptöku á. Þá er krafist upptöku á hlutabréfum í Arion banka að nafnvirði 2.275 krónur og söluandvirði hlutabréfa í Heimavöllum, sem var afskráð fyrr á þessu ári, upp á 564 þúsund krónur.
Héraðssaksóknari lét í fyrra kyrrsetja eignir félags sem Einar er í fyrirsvari fyrir hjá bresku verðbréfafyrirtæki í fyrra. Þær voru metnar á um 34 milljónir króna á núvirði í lok september síðastliðins. Auk þess er farið fram að eignir félags í raunverulegri Einars sem skráð er í Delaware í Bandaríkjunum upp á 9,5 milljónir króna sæti upptöku.
Þann 1. nóvember síðastliðinn voru enn 1.124 landsmenn skráðir í Zuism.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði