Á Þorláksmessu fyrir fjórum árum lagði maður sem við skulum kalla Bjarna, og er búsettur í Árósum, leið sína í bankann. Hann spurði gjaldkerann um stöðuna á bankareikningi sínum og sperrti eyrun þegar gjaldkerinn upplýsti hann um innistæðuna. „Þetta getur varla passað,“ sagði Bjarni og bað gjaldkerann að renna yfir seinustu færslur. „Þú ert varla búinn að gleyma að þú varst að kaupa bíl fyrir 200 þúsund (4,2 milljónir íslenskar) fyrir skömmu,“ sagði gjaldkerinn. „Svoleiðis sést nú á bankareikningnum“. „Ég er ekki farinn að tapa minni, en var ekki að kaupa bíl,“ svaraði Bjarni. „Greiðsla fyrir BMW stendur sem skýring,“ svaraði gjaldkerinn. Og þarna stóð það svart á hvítu, á tölvuskjánum. 200 þúsund, greiðsla fyrir BMW.
Bjarni fór heim en „bílakaupin“ urðu til þess að hann var algjörlega „úti að aka“ næstu daga. Purusteikin og brúnuðu kartöflurnar, dansinn í kringum jólatréð, pakkarnir og messan, allt var þetta á sínum stað en Bjarni var sífellt að hugsa um „bílakaupin“. Milli jóla og nýárs fór Bjarni í annan banka, þar sem hann er líka með bankareikning. Þar átti hann, samkvæmt mánaðargömlu yfirliti frá bankanum, 640 þúsund (13.3. milljónir íslenskar) á bókinni. En viti menn, innistæðan á bókinni var nú 0 krónur. Hver einasta króna sem sé á bak og burt.
Sagan af Bjarna er ekki einsdæmi. Í sjónvarpsfréttatíma danska útvarpsins, DR, síðastliðinn sunnudag, 6. desember, var fjallað ítarlega um sérkennilegt fjársvikamál, sem teygir sig yfir nokkurra ára tímabil. „Bílakaup“ Bjarna fyrir fjórum árum er einungis einn angi þess máls.
11 handteknir
Danska lögreglan var snemma á fótum 18. júní sl. Uppúr klukkan fimm um morguninn handtók lögreglan 11 menn á aldrinum 16 til 30 ára. Mennirnir voru að sögn lögreglu frá Árósum, Óðinsvéum, Norður- Sjálandi og af Kaupmannahafnarsvæðinu. Hinir handteknu reyndust ekki vera neinn englakór, eins og lögreglan orðaði það, margir þeirra höfðu áður komist í kast við lögin. Ástæða handtakanna var umfangsmikið fjársvikamál sem staðið hafði yfir árum saman. Annar tveggja bræðra, sem lögreglan kallar höfuðpaurana í því máli, var meðal hinna handteknu. Hinn hafði ekki átt heimangengt af þeirri einföldu ástæðu að hann sat í fangelsi. Árið 2019 hlutu bræðurnir dóma fyrir fjársvik, annar í þriggja og hálfs árs fangelsi, hinn fékk fimm ára dóm. Bræðurnir höfðu setið lengi í gæsluvarðhaldi áður en dómar féllu og það var ástæða þess að sá sem fékk styttri dóminn var laus úr prísundinni.
NemId kortið
Áður en lengra er haldið er rétt að útskýra í stuttu máli danska auðkennis- og aðgangskortið, NemId (Nem id).
Skilyrði þess að geta fengið NemId er að umsækjandi hafi danska kennitölu, svokallað CPR númer. Til þess að komast inn í „kerfið“, við flutning til landsins, er nauðsynlegt að fá kennitölu, sem er einungis úthlutað einu sinni. Þegar kennitalan er fengin (fæðingardagur, mánuður og ár plús fjórir tölustafir) er hægt að sækja um NemId.
NemId kortið fær umsækjandi sent heim í pósti, eins og hvert annað bréf. Til að virkja kortið þarf notandinn að skrá sig inn, lang oftast kennitölu og leyniorði. Á kortinu eru 176 númeraraðir, hver þeirra einungis notuð einu sinni. Í hvert skipti sem eigandi kortsins notar það sér hann jafnframt hve margar númeraraðir eru eftir á kortinu. Þegar örfáar númeraraðir eru ónotaðar fær eigandinn sent nýtt kort í pósti. Hægt er að loka kortinu, ef sérstök ástæða er til og þá kemur nýtt kort í póstinum.
Bankar og samskipti við hið opinbera
Stofnanir á vegum ríkisins „hið opinbera“ nota allar rafræn samskipti, engin hefðbundin bréf. Ef bankinn eða „hið opinbera“ vill tilkynna eitthvað fær viðkomandi tilkynningu í tölvupósti. Þá þarf viðtakandi tölvupóstsins að fara á heimasíðu sendandans og skráð sig þar inn með NemId. Einstaklingur sem ætlar að greiða reikninga, eða millifæra i heimabanka, skráir sig inn með NemId kortinu, og fær þá aðgang að eigin bankareikningi. Sama gildir ef hann fær tilkynningu í pósthólfið frá skattinum, þá þarf hann að fara á heimasíðu skattsins til að skoða tilkynninguna og til þess notar hann NemId. Í stuttu máli sagt NemId er lykillinn að ótal mörgu sem varðar persónuleg mál. Þess vegna er mikilvægt að passa vel uppá kortið og nota einungis „öruggar“ tölvur, þegar verið er að gera eitthvað sem krefst innskráningar með kortinu.
Tölvurnar á bókasöfnunum
Dönsk almenningsbókasöfn eru bæði mörg og stór. Þeim er skylt að hafa tölvur til afnota fyrir viðskiptavini. Ástæða þess er sú ákvörðun „hins opinbera“ að notast einvörðungu við rafræn samskipti, en ekki er hægt að skylda fólk til að eiga tölvur. Á söfnunum eru þess vegna tölvur, oftast margar. Þetta notfæra margir sér, þeir sem ekki hafa internet heima hjá sér, eða eiga jafnvel ekki tölvu fara á bókasafnið. Þótt tölvurnar þar séu einkum notaðar til að leita upplýsinga og „kíkja á netið“ eru margir sem nota þær líka til að fara í heimabankann.
Aðferðin er fremur einföld
Í áðurnefndum sjónvarpsfréttatíma DR var farið ítarlega yfir „bókasafnsþjófnaðina“ og aðferðir bræðranna og aðstoðarmanna þeirra. Eins og nefnt var hér að framan nota margir tölvurnar á bókasöfnunum til að sinna bankaviðskiptum. Þetta notfærðu þjófarnir sér. Aðferðin, trix nr. 1, var að stinga svokölluðum „keylogger“ í samband aftan á tölvunni. „Keylogger“ er eins konar minnislykill sem skráir allt sem slegið er á lyklaborð viðkomandi tölvu. Með þessu móti gátu þjófarnir séð aðgangsorð og lykilorð þess sem notaði tölvuna og líka beðið um að NemId kortinu yrði lokað. Þá fær eigandi kortsins tilkynningu um að kortinu hafi verið lokað en nýtt kort sé á leiðinni. Og þá kemur trix númer 2. Þjófarnir voru búnir að kynna sér hvar eigandi kortsins átti heima, og fylgdust svo með póstinum. Þegar pósturinn var búinn að stinga umslaginu með nýja NemId kortinu í póstkassann þurfti sá sem fylgdist með að ná umslaginu úr kassanum (oftast mjög auðvelt) og þar með var eftirleikurinn auðveldur.
Lengi verið vitað um aðferðina
Vitað er að þjófarnir hafa stundað þessa iðju á að minnsta kosti 46 bókasöfnum í Danmörku og upphæðirnar sem þeir hafa náð að svíkja út nema, varlega áætlað, 20 milljónum danskra króna. Dönskum bókasöfnum er skylt að hafa tölvur til afnota fyrir viðskiptavini. Sérfræðingar sem fréttamaður danska sjónvarpsins ræddi við sögðust undrandi á frágangi tölvanna á bókasöfnum, hægðarleikur einn að búa svo um að ekki sé hægt að komast að „bakhlið“ tölvunnar. Lengi hefði verið vitað að með minnislyklinum „keylogger“ væri auðvelt að nálgast upplýsingar sem ekki ættu að vera aðgengilegar öðrum en viðkomandi notanda.
Yfirmenn bókasafna sem fréttamaður DR hafði samband við vegna vinnslu fréttaskýringarinnar sögðu allir að nú stæði yfir vinna við að gera tölvurnar á söfnunum öruggari.
Í lokin er rétt að nefna að gefnar hafa verið út ákærur á hendur mönnunum 11 sem lögreglan handtók í júní. Ekki er vitað hvenær réttarhöldin hefjast.
Hvort fólk sem orðið hefur fyrir barðinu á þjófunum fær tjón sitt bætt liggur ekki fyrir.