Skömmu eftir að ríkisstjórn Mette Frederiksen tók við völdum, í júní á síðasta ári, ákvað danska þingið, Folketinget, að fram skyldi fara rannsókn á embættisfærslum Inger Støjberg fyrrverandi ráðherra og núverandi varaformanns Venstre flokksins. Nánar tiltekið á einni ákvörðun frá árinu 2016 en þá var hún ráðherra innflytjendamála í ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen.
25. janúar 2016 greindu danskir fjölmiðlar frá því að meðal þeirra sem byggju í búðum hælisleitenda í Danmörku væru að minnsta kosti nokkur pör, þar sem annar aðilinn væri undir lögaldri, sem í Danmörku er 18 ár. Þegar Inger Støjberg sá þessa frétt á netinu var hún í bíl sem sat fastur í umferðarteppu í Brussel. Hún varð hoppandi ill og skrifaði á Facebook að þessu yrði strax að breyta og hún myndi skipa Útlendingastofnun að bregðast við, þegar í stað. Með ráðherranum í bílnum var Lykke Sørensen, þáverandi yfirlögfræðingur ráðuneytisins og helsti ráðgjafi ráðherrans, ásamt fleirum.
10. febrúar 2016 sendi ráðuneyti innflytjendamála í Danmörku frá sér fréttatilkynningu vegna hælisleitenda og flóttafólks. Í tilkynningunni sagði að sambýlisfólk, eða hjón, þar sem annar aðilinn væri yngri en 18 ára mættu ekki búa saman. Engu skipti þótt parið ætti barn. Án undantekninga. Embættismenn í ráðuneytinu sögðu ráðherranum að þessi ákvörðun stæðist ekki lög því samkvæmt þeim bæri að meta hvert tilfelli sjálfstætt. Þar að auki væri þetta brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. „Með þessu ert þú að taka ákveðna áhættu,“ sagði áðurnefndur yfirlögfræðingur, Lykke Sørensen. „Þá áhættu er ég tilbúin að taka,“ svaraði Inger Støjberg. Vitni voru að þessum orðaskiptum.
Þegar málið var rætt í þinginu, sem gerðist margoft, talaði ráðherrann ætíð um fréttatilkynninguna sem tilskipun. 24. febrúar 2016, hálfum mánuði eftir að tilkynningin (tilskipunin) birtist sagðist ráðherrann, á þingfundi, hafa fyrirskipað Útlendingastofnuninni (Udlændingestyrelsen) að breyta vinnulagi þannig að enginn hælisleitandi, undir lögaldri (18 ára) gæti búið með maka eða sambýlingi. Þetta gilti um alla. Þetta svar ráðherrans við spurningu þingmanns liggur fyrir í þingskjölum.
Rannsóknarnefndin
Peter Mørk Thomsen, dómari við Eystri-Landsrétt var formaður þriggja manna rannsóknarnefndar, sem skipuð var 20. janúar sl. Nefndinni var ætlað að athuga hvort ákvörðun ráðherrans hafi farið á svig við lög. Í skipunarbréfinu stóð að nefndin skyldi ljúka störfum innan 18 mánaða frá skipunardegi. Umboðsmaður þingsins hafði safnað saman öllum gögnum varðandi málið og þau voru mikil að vöxtum.
Inger Støjberg hefur margoft setið fyrir svörum, bæði í þingsal og hjá nefndum þingsins. Ótal minnisblöð og álitsgerðir vegna áðurnefndrar ákvörðunar ráðherrans fékk nefndin í hendur ásamt öðrum gögnum. Peter Mørk Thomsen dómari er ekki þekktur fyrir að liggja á meltunni og hann og samstarfsmenn hans í nefndinni hófust þegar handa. Rúmlega hundrað manns voru boðaðir í skýrslutöku.
Inger Støjberg og kanínan úr hattinum
Rannsóknarnefndin hafði heimild til að kalla hvern sem henni þóknaðist til skýrslutöku. Yfirheyrslur nefndarinnar hófust 14. maí og stóðu, með hléum fram á haust. Fremstir í yfirheyrsluröðinni voru embættismenn úr ráðuneytum og stofnunum. Yfirheyrslur yfir Inger Støjberg stóðu í tvo daga og fyrri daginn dró hún upp skjal, sem enginn hafði áður séð, né heyrt minnst á. „Eins og kanínu úr hatti sjónhverfingamanns“ var lýsing blaðamanns Berlingske á atvikinu.
„Kanínan“, eins og blaðamaðurinn orðaði það, var minnisblað (notat) sem Inger Støjberg sagðist hafa samþykkt að kvöldi 9. febrúar 2016, daginn áður en fréttatilkynningin var send út. Á minnisblaðinu stóð að hægt væri að skoða sérstaklega einstök mál (at der kunne ske en individuel sagsbehandling). Þetta skjal hafði hvorki Inger Støjberg, né nokkur annar nefnt. Því hafði heldur ekki verið skilað til umboðsmanns sem hafði farið fram á að fá afhent öll skjöl varðandi málið. ,,Af hverju fékk umboðsmaður ekki þetta skjal?“ var spurt.
Inger Støjberg svaraði að samskiptin við hann hefðu verið í höndum embættismanna. Formaður rannsóknarnefndarinnar benti Inger Støjberg strax á að innihald skjalsins væri í algjörri mótsögn við það sem hún hefði áður sagt. Inger Støjberg endurtók að þetta nýframkomna skjal, sem hún kallaði grundvallarskjal, sýndi og sannaði að hún hefði farið að lögum.
Minnisblað á skúffubotni
Lykke Sørensen, fyrrverandi yfirlögfræðingur í ráðuneyti innflytjendamála, var nú aftur kölluð fyrir rannsóknarnefndina. Hún sagðist ekkert muna eftir skjalinu enda skipti minnisblað af þessu tagi ekki máli, með tilliti til laga. „Enda hefði Inger Støjberg marglýst yfir að fréttatilkynningin, sem hún sjálf hefði undirritað væri tilskipun.“
„Minnisblað á skúffubotni getur ekki talist grundvallarskjal,“ bætti Lykke Sørensen við.
Útlendingastofnun fór að fyrirmælum ráðherrans
Við yfirheyrslur rannsóknarnefndarinnar kom fram að Útlendingastofnunin fékk aldrei nein fyrirmæli eða leiðbeiningar frá ráðuneytinu, aðrar en áðurnefnda fréttatilkynningu, frá 10. febrúar, en hófst þegar handa við að framfylgja því sem þar stóð. Frá 10. febrúar 2016 til 25. apríl sama ár voru samtals 32 pör neydd til að flytja sundur. Á lista Útlendingastofnunar má lesa að mesti aldursmunur var 13 ár, maðurinn 30 ára en stúlkan 17 ára, minnsti aldursmunur 1 ár. Yngstu stúlkurnar á listanum (6 talsins) voru 15 ára, yngstu piltarnir (3 talsins) 17 ára.
Kvartað til Umboðsmanns þingsins
25. apríl 2016 barst Útlendingastofnun bréf frá Umboðsmanni þingsins. Þar var spurt um framkvæmd „aðskilnaðarfyrirmælanna“. Þá hafði par, sem hafði verið neytt til að flytja í sundur, án þess að mál þess væri skoðað og metið sérstaklega, kvartað til Umboðsmanns og vísað í lög. Útlendingastofnun tilkynnti að framkvæmdinni yrði samstundis breytt. Kvörtunin var kveikjan að þeirri rannsókn sem nú er lokið.
Ráðherrann ábyrgur fyrir lagabrotum og laug að þinginu
Rannsóknarnefndin skilaði skýrslu sinni sl. mánudag. Skýrslan er mikil að vöxtum, samtals um 3500 síður, auk fylgiskjala upp á 1800 síður.
Niðurstaða nefndarinnar eru afdráttarlaus og gefur lítið fyrir skýringar Inger Støjberg og segir þær hreint og klárt yfirklór. Í vitnisburði hennar standi ekki steinn yfir steini og sama gildi um skýringar þeirra embættismanna sem studdu skýringar ráðherrans fyrrverandi. Leita þarf áratugi aftur í tímann til að finna jafn afdráttarlausan áfellisdóm yfir störfum dansks ráðherra.
Skipta má niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar niður í þrjá meginþætti:
Í fyrsta lagi vildi Inger Støjberg að fylgt yrði reglum hennar, sem stönguðust á við lög, og lét sig í engu varða aðvaranir embættismanna. „Minnisblaðið á skúffubotninum“ skipti þar engu þrátt fyrir yfirlýsingar ráðherrans fyrrverandi.
Í öðru lagi segir í skýrslunni að Lene Skytte Mørk Hansen, deildarstjóri í innflytjendaráðuneytinu, hafi hringt til Útlendingastofnunarinnar og uppálagt starfsfólki að fylgja tilkynningu ráðuneytisins um aðskilnað para. Við yfirheyrslur hjá rannsóknarnefndinni sagðist Lene Skytte Mørk Hansen aftur á móti hafa hringt til að segja að ekki ætti að fylgja tilmælunum í tilkynningunni til hins ýtrasta, heldur gera undantekningar. Þessar skýringar taldi rannsóknarnefndin í meira lagi ótrúverðugar enda gengu þær þvert á yfirlýsingar þriggja starfsmanna Útlendingastofnunar, sem höfðu heyrt áðurnefnt símtal. Starfsfólk Útlendingastofnunarinnar sagði að Lene Skytte Mørk Hansen hefði sagt að ráðherrann teldi mjög mikilvægt að tilmælunum yrði fylgt,í öllum málum. Þar með eru tilmælin orðin tilskipun segir í skýrslunni.
Í þriðja lagi hefði Inger Støjberg, að minnsta kosti sex sinnum, beinlínis sagt ósatt við yfirheyrslur þingnefndar (samråd). Það að ljúga í þinginu væri mjög alvarlegt. Ennfremur hefðu svör og útskýringar embættismanna í innflytjendaráðuneytinu við spurningum umboðsmanns verið „út og suður“ og fyrir þeim væri ráðherrann ábyrgur.
Rétt er að geta þess að eftir að skýrslan var birt tilkynnti Mattias Tesfaye, að Lene Skytte Mørk Hansen hefði verið leyst frá störfum, ótímabundið, en ráðuneytisstjórinn sem sat á þeim tíma sem um ræðir er kominn á eftirlaun.
Hvert verður framhaldið?
Rannsóknarnefndin sem vann skýrsluna er ekki dómstóll. Hlutverk hennar var einungis að skera úr um hvort ákvarðanir og embættisfærsla Inger Støjberg hafi brotið í bága við lög. Sú niðurstaða liggur nú fyrir, ráðherrann braut lög. Nú er það þingmanna að ákveða framhaldið. Fulltrúar þriggja flokka vilja að málið fari fyrir landsdóm (rigsret). Landsdómur er dómstóll sem dæmir eingöngu í málum sem varða starfandi, eða fyrrverandi, ráðherra. Landsdómstóll í Danmörku hefur aldrei komið saman á þessari öld. Á öldinni sem leið gerðist það fjórum sinnum, seinast árið 1993 í svonefndu Tamílamáli.
Um það hvort mál Inger Støjberg fari fyrir landsdóm eru skoðanir skiptar. Þingmenn í flokki Inger Støjberg, Venstre (sem er þrátt fyrir nafnið hægri miðjuflokkur) skiptast í tvær fylkingar: hluti þingmanna vilja gjarna sjá hana fá á baukinn og helst losna við hana úr flokknum, aðrir óttast að þá myndu kjósendur sem eru sammála Inger Støjberg yfirgefa flokkinn og færa sig annað.
Kratar í vanda
Nú kann einhver að spyrja: styðja ekki Sósíaldemókratar, flokkur forsætisráðherrans kröfuna um landsdóm, varla hafa þeir hag af því að hlífa Inger Støjberg? Svarið við því er að þótt kratar myndu gjarna vilja losna við Inger Støjberg hangir fleira á spýtunni. Nefnilega minkamálið svonefnda. Sumir þingmenn hafa nefnt að það klúður og ákvarðanir, sem kannski voru teknar í trássi við lög, eigi að fara fyrir landsdóm.
Það yrði býsna erfitt fyrir Mette Frederiksen og flokk hennar að samþykkja að mál Inger Støjberg fari fyrir landsdóm en leggjast svo gegn því að sama gildi um minkamálið. Á sama hátt yrði það erfitt fyrir Jakob Ellemann- Jensen og Venstre að styðja að minkamálið fari fyrir landsdóm en leggjast gegn því að mál Inger Støjberg fari þangað.
Nefnd skoði skýrslu nefndarinnar
Síðastliðinn fimmtudag, (17.12.) urðu Sósíaldemókratar og stuðningsflokkar þeirra (rauða blokkin svonefnda) sammála um hugmynd. Hugmyndin var að fá utanaðkomandi ráðgjafarnefnd til að meta hvort leggja skuli mál Inger Støjberg fyrir landsdóm. Þessi hugmynd var eins og himnasending fyrir Venstre enda lýsti formaðurinn því strax yfir að flokkur sinn styddi þessa hugmynd.
Stjórnmálaskýrendur dönsku blaðanna voru á einu máli um að þarna hefðu verið slegnar tvær flugur í sama högginu og Mette Frederiksen og Jakob Ellemann- Jensen hefðu bæði haldið á flugnaspaðanum (orðalag blaðamanns Politiken). Á meðan ráðgjafarnefndin skoðar mál Inger Støjberg minnist enginn á landsdóm í minkamálinu. Hvort það er rétt mat danskra blaðamanna er svo annað mál.