Að tala tungum tveim og draga kanínu úr hatti

Danskir stjórnmálaskýrendur sem fylgjast með rannsókn á embættisfærslum Inger Støjberg, fyrrverandi ráðherra, segja hana hafa talað tungum tveim í yfirheyrslum vegna rannsóknarinnar. Minnisblað sem enginn hafði áður heyrt minnst á dúkkaði skyndilega upp.

Inger Støjberg, þáverandi ráðherra innflytjendamála í dönsku stjórninni, sést hér á fundi í Brussel 25. janúar árið 2016. Þann sama dag sá hún fréttir sem gerðu hana hoppandi illa og urðu kveikjan að þeim embættisfærslum sem nú eru til rannsóknar.
Inger Støjberg, þáverandi ráðherra innflytjendamála í dönsku stjórninni, sést hér á fundi í Brussel 25. janúar árið 2016. Þann sama dag sá hún fréttir sem gerðu hana hoppandi illa og urðu kveikjan að þeim embættisfærslum sem nú eru til rannsóknar.
Auglýsing

Í pistli sem birtist hér í Kjarnanum sl. sunnudag, 24. maí, var fjallað um yfirstandandi rannsókn á embættisfærslu Inger Støjberg í tíð hennar sem ráðherra innflytjendamála í Venstre stjórn Lars Løkke Rasmussen. Rannsóknin er gerð samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar Mette Frederiksen, og samþykkt af danska þinginu, Folketinget. Henni er ætlað að komast að því hvort tiltekin fyrirskipun, sem ráðherrann fyrrverandi gaf árið 2016, hafi verið í andstöðu við lög.

Rannsóknarnefndin hóf störf í janúar á þessu ári og fékk þá í hendur öll gögn (utan eitt sem síðar verður getið) sem Umboðsmaður þingsins hafði óskað eftir og varða málið. Gögnin eru mikil að vöxtum. Málið hefur margsinnis verið rætt í þinginu, á nefndafundum og í ráðuneyti innflytjendamála. Ráðherrann fyrrverandi, Inger Støjberg, hefur margoft setið fyrir svörum, bæði í þingsal og hjá þingnefndum og þar að auki hafa verið skrifuð ótal minnisblöð og álitsgerðir vegna þeirrar ákvörðunar ráðherrans sem nú er til rannsóknar. 

Yfirheyrslur rannsóknarnefndarinnar hófust 14. maí sl. og standa, með hléum, fram eftir sumri eða fram á haust. Fjölmargir hafa verið boðaðir í skýrslutöku hjá nefndinni og fremstir í yfirheyrsluröðinni voru embættismenn úr ráðuneyti og stofnunum. Síðastliðinn sunnudag, 24. maí, var komið að Inger Støjberg, yfirheyrslur yfir henni stóðu í tvo daga. Í öllum þeim gagnahaug sem rannsóknarnefndin hefur undir höndum er ekki að finna, skjal sem Inger Støjberg dró fram í dagsljósið á sunnudaginn „eins og kanínu úr hatti sjónhverfingamanns“ sagði blaðamaður Berlingske þegar hann lýsti því sem fram fór. En áður en lengra er haldið er rétt að rifja upp um hvað málið snýst.

Auglýsing

Tilkynning eða tilskipun

25. janúar 2016 greindu danskir fjölmiðlar frá því að meðal þeirra sem byggju í búðum hælisleitenda í Danmörku væru að minnsta kosti nokkur pör, þar sem annar aðilinn væri undir lögaldri, sem í Danmörku er 18 ár. Þegar Inger Støjberg sá þessa frétt var hún í bíl sem sat fastur í umferðarteppu í Brussel. Hún varð hoppandi ill og skrifaði á Facebook að þessu yrði strax að breyta og hún myndi skipa Útlendingastofnun að bregðast við, þegar í stað. Með ráðherranum í bílnum var Lykke Sørensen, þáverandi yfirlögfræðingur ráðuneytisins og helsti ráðgjafi ráðherrans, ásamt fleirum.

10. febrúar 2016 sendi ráðuneyti innflytjendamála í Danmörku frá sér fréttatilkynningu vegna hælisleitenda og flóttafólks. Í tilkynningunni sagði að sambýlisfólk, eða hjón, þar sem annar aðilinn væri yngri en 18 ára mættu ekki búa saman. Engu skipti þótt parið ætti barn. Án undantekninga. Embættismenn í ráðuneytinu sögðu ráðherranum að þessi ákvörðun stæðist ekki lög því samkvæmt þeim bæri að meta hvert tilfelli sjálfstætt. Þar að auki væri þetta brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. „Með þessu ert þú að taka ákveðna áhættu“ sagði áðurnefndur yfirlögfræðingur, Lykke Sørensen. „Þá áhættu er ég tilbúin að taka“ svaraði Inger Støjberg. Vitni voru að þessum orðaskiptum. 

Þegar málið var rætt í þinginu, sem gerðist margoft, talaði ráðherrann ætíð um fréttatilkynninguna sem tilskipun. 24. febrúar 2016, hálfum mánuði eftir að tilkynningin (tilskipunin) birtist sagðist ráðherrann, á þingfundi, hafa fyrirskipað Útlendingastofnuninni (Udlændingestyrelsen) að breyta vinnulagi þannig að enginn hælisleitandi, undir lögaldri (18 ára) gæti búið með maka eða sambýlingi. Þetta gilti um alla. Þetta svar ráðherrans við spurningu þingmanns liggur fyrir í þingskjölum.

Útlendingastofnun  fór að fyrirmælum ráðherrans

Við yfirheyrslur rannsóknarnefndarinnar hefur komið fram að Útlendingastofnunin fékk aldrei nein fyrirmæli eða leiðbeiningar frá ráðuneytinu, aðrar en áðurnefnda fréttatilkynningu en hófst þegar handa við að framfylgja því sem þar stóð. Frá 10. febrúar 2016 til 25. apríl sama ár voru samtals 32 pör neydd til að flytja sundur. Á lista Útlendingastofnunar má lesa að mesti aldursmunur var 13 ár, maðurinn 30 ára en stúlkan 17 ára, minnsti aldursmunur 1 ár. Yngstu stúlkurnar á listanum (6 talsins) voru 15 ára, yngstu piltarnir (3 talsins) 17 ára. 

Kvartað til Umboðsmanns þingsins

25.apríl 2016 barst Útlendingastofnun bréf frá Umboðsmanni þingsins. Þar var spurt um framkvæmd „aðskilnaðarfyrirmælanna“. Þá hafði par, sem hafði verið neytt til að flytja í sundur, án þess að mál þess væri skoðað og metið sérstaklega, kvartað til Umboðsmanns og vísað í lög. Útlendingastofnun tilkynnti að framkvæmdinni yrði samstundis breytt. Þetta var upphaf þess máls sem nú er til rannsóknar.  

Kanínan úr hattinum 

Við yfirheyrslur rannsóknarnefndarinnar yfir Inger Støjberg sl. sunnudag (24. maí) gerðist það að ráðherrann fyrrverandi dró fram minnisblað (notat) sem hún sagðist hafa samþykkt (godkendt) 9. febrúar 2016, daginn áður en fréttatilkynningin var send út. Á minnisblaðinu stóð, að hægt væri að skoða mál einstakra para (at der kunne ske en individuel sagsbehandling). Þetta skjal, minnisblaðið, hafði hvorki Inger Støjberg, né nokkur annar, áður nefnt. Og því hafði ekki verið skilað til umboðsmanns, sem þó hafði farið fram á að fá öll skjöl varðandi málið afhent. Augnablikinu þegar Inger Støjberg dró fram skjalið líkti blaðamaður Berlingske við það þegar kanína birtist í hatti töframanns. Þegar spurt var hvers vegna þetta skjal hefði ekki verið sent umboðsmanni sagði Inger Støjberg að samskiptin við hann hefðu verið í höndum embættismanna og á þeirra ábyrgð. 

Fréttamenn sem voru viðstaddir yfirheyrslurnar sögðu að rannsóknarnefndin hefði strax bent Inger Støjberg á að þetta sem á skjalinu stæði væri í algjörri mótsögn við allt sem hún hefði áður sagt. Því svaraði hún ekki beint, en endurtók margoft að þetta nýframkomna skjal sýndi og sannaði að hún hefði farið að lögum. 

Yfirlögfræðingurinn aftur kallaður fyrir

Eftir að Inger Støjberg hafði dregið fram hið áður óþekkta minnisblað kvaddi rannsóknarnefndin Lykke Sørensen, yfirlögfræðinginn fyrrverandi, aftur á sinn fund og spurði út í skjalið. Þar sagðist hún eiginlega ekkert muna eftir þessu skjali. Þótt það hafi verið skrifað og staðfest af ráðherra skipti minnisblað af þessu tagi ekki máli, með tilliti til laga. Einkum og sérílagi þegar ráðherrann hefði marglýst yfir að fréttatilkynningin, sem undirrituð var af ráðherranum sjálfum, væri tilskipun. „Minnisblað á skúffubotni getur ekki verið grundvallarskjal“. 

Fáorð flokkssystkini

Danskir stjórnmálaskýrendur, og fréttamenn, hafa fylgst náið með rannsókninni á embættisfærslum Inger Støjberg. Blaðamenn Politiken og Berlingske hafa ítrekað leitað viðbragða flokkssystkina hennar á þingi, vegna rannsóknarinnar, en lítt orðið ágengt. Einungis örfáir þingmenn hafa viljað tjá sig um málið og þeir sem á annað borð hafa fengist til að ræða við blaðamenn leggja áherslu á að þeir séu sammála þeim skoðunum Inger Støjberg að vilja koma í veg fyrir að ungar stúlkur séu þvingaðar í hjónabönd, eða sambúð. Blaðamenn segja augljóst að Inger Støjberg vilji beina umræðunni í samfélaginu í þessa átt. Rannsóknin snýst hins vegar um það hvort ráðherrann hafi brotið lög.

Safnað fyrir auglýsingum

Síðastliðinn þriðjudag (26. maí) hófst söfnun sem ætlað er að kosta auglýsingar til styrktar Inger Støjberg. Forsvarsmaður þessarar söfnunar er Pernille Vermund formaður stjórnmálaflokksins Nýju borgaralegu. Flokkurinn, sem var stofnaður 2015 og hefur fjóra þingmenn, fylgir harðri hægristefnu og telur stefnu annarra flokka á danska þinginu gagnvart útlendingum, sem aðhyllast múslimskar skoðanir og trúarviðhorf, og vilja flytja til Danmerkur, alltof linkulega. Slagorð söfnunnarinnar er „Danskerne støtter Støjberg”. Pernille Vermund segist þess fullviss að margir Danir styðji sjónarmið Inger Støjberg, og Nýju borgaralegu, varðandi útlendinga og barnahjónabönd.  

Rannsóknarnefndin er ekki dómstóll  

Búast má við að rannsóknin á embættisfærslum Inger Støjberg standi fram á haust. Fjölmargir embættismenn og einhverjir fyrrverandi ráðherrar eiga eftir að koma á fund rannsóknarnefndarinnar.

Að lokum er rétt að geta þess að rannsóknarnefndin er ekki dómstóll. Hennar hlutverk er einungis að skera úr um hvort ákvarðanir og embættisfærsla Inger Støjberg hafi brotið í bága við lög.

Verði niðurstaða rannsóknarnefndarinnar sú að Inger Støjberg hafi brotið lög er það þingsins að ákveða hvort málið fari fyrir landsdóm (rigsret). Slíkur dómstóll dæmir eingöngu í málum sem varða starfandi, eða fyrrverandi, ráðherra. Landsdómstóll í Danmörku hefur aldrei komið saman á þessari öld og á öldinni sem leið gerðist það fjórum sinnum.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Anna Dóra Antonsdóttir
Útskýring – leikrit í einum þætti
Kjarninn 14. maí 2021
Byggingar ratsjárstöðvarinnar á Heiðarfjalli hafa að mestu leyti verið jafnaðar við jörðu. Þó er enn mikið magn spilliefna á svæðinu.
Ríkið ráðist í hreinsun spilliefna við ratsjárstöð Bandaríkjahers á Heiðarfjalli
Á Heiðarfjalli er að finna í jörðu úrgangs- og spilliefni frá þeim tíma sem eftirlitsstöð Bandaríkjahers var í rekstri á fjallinu. Landeigendur hafa um áratuga skeið reynt að leita réttar síns vegna mengunarinnar.
Kjarninn 14. maí 2021
DV hefur ráðið nýjan ritstjóra til starfa.
Björn Þorfinnsson ráðinn ritstjóri DV
Blaðamaðurinn Björn Þorfinnson hefur tekið við starfi ritstjóra DV. Tobba Marinós lét nýverið af störfum sem ritstjóri miðilsins, sem er hættur að koma út á pappír.
Kjarninn 14. maí 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
„Af nógu að taka áður en höggvið er í sama knérunn um að laun séu of há“
Forseti ASÍ leggur til nokkrar lausnir áður en ráðamenn og fyrirtækjaeigendur hér á landi fara að gagnrýna slagorð verkalýðshreyfingarinnar „það er nóg til“.
Kjarninn 14. maí 2021
Ráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Bjarni Benediktsson eru stundum sagðir standa í stafni fyrir þær ólíku fylkingar sem rúmast innan Sjálfstæðisflokks og bítast þar um völd og áhrif.
Sjálfstæðismenn á höfuðborgarsvæðinu komnir í prófkjörsham
Tekist hefur verið á um grundvallaráherslur Sjálfstæðisflokksins á óvenjulega opinberum vettvangi að undanförnu. Fulltrúar ólíkra sjónarmiða innan flokksins keppast nú um að koma þeim að í aðdraganda prófkjöra á höfuðborgarsvæðinu.
Kjarninn 14. maí 2021
Innviðir á leiðinni út
Sýn og Nova hefur nýlega hafið sölu á fjarskiptainnviðum sínum auk þess sem Síminn hefur íhugað að gera slíkt hið sama. Aðskilnaður á innviðum og þjónustu þótti hins vegar ekki ráðlegur þegar einkavæða átti Landssímann fyrir 20 árum síðan.
Kjarninn 14. maí 2021
Auglýsingin sem birt var í Morgunblaðinu í gær var nafnlaus, en hafði yfirbragð þess að hún væri á vegum Lyfjastofnunar. Það var hún ekki.
Morgunblaðið biðst velvirðingar á birtingu auglýsingar þar sem efast er um bólusetningar
Konan sem keypti heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem varað var við aukaverkunum vegna bólusetningar gegn COVID-19 segist ekki skammast sín. Lyfjastofnun segir auglýsinguna villandi hræðsluáróður.
Kjarninn 14. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Aur lumar á góðri lífslausn
Kjarninn 14. maí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiErlent