Íslenska bankakerfið lánaði atvinnufyrirtækjum landsins alls 809 milljónir króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins í nýjum útlánum, að frádregnum uppgreiðslum og umframgreiðslum.
Til samanburðar lánuðu bankarnir tæplega 209 milljarða króna til atvinnufyrirtækja árið 2018, eða 258falt það sem þeir hafa lánað það sem af er ári.
Í októbermánuði voru uppgreiðslur og umframgreiðslur atvinnufyrirtækja 16 milljörðum krónum umfram þá upphæð sem bankarnir lánuðu út í ný útlán og í síðasta mánuði voru ný útlán 19 milljónum krónum umfram það sem var greitt upp.
Á fyrstu ellefu mánuðum ársins lánuðu bankarnir sem einhverju nemur til atvinnufyrirtækja í þremur þeirra. Í mars voru 16,2 milljarðar króna lánaðir út nettó, í ágúst 12,5 milljarðar króna og í september átta milljarðar króna. Hina mánuði ársins hafa ný útlán annað hvort verið neikvæð eða hverfandi.
Bankar með of mikið eigið fé
Skortur á nýjum útlánum er ekki tilkominn vegna þess að bankarnir séu ekki með fé tiltækt til að lána. Í ársfjórðungsuppgjöri Arion banka fyrir fyrstu níu mánuði ársins og kom til að mynda fram, í tilkynningu frá bankastjóra sem fylgdi með, að bankinn væri með of mikið eigið fé. Ómögulegt væri að ávaxta það í takt við markmið Arion banka.
Hratt upp en enn hraðar niður
Mikill vöxtur var í útlánum innlánsstofnana landsins á uppgangstímum síðustu ára. Um er að ræða, að uppistöðu, útlán sem Landsbankinn, Íslandsbanki, Arion banki og Kvika banki veita.
Árið 2013 voru ný veitt útlán til atvinnufyrirtækja 79,2 milljarðar króna. Ári síðar voru þeir 30 prósent meiri og á árinu 2015 jukust þau um 52 prósent. Ári síðar var heildarumfang nýrra útlána komið í 196,5 milljarða króna og hélst á því róli út árið 2018, þegar það toppaði í 208,7 milljörðum króna.
Síðan þá hefur verið umtalsverður samdráttur í nýjum útlánum. Í fyrra voru þau 107,8 milljarðar króna og nánast helminguðust á milli ára.
Í ár hefur síðan orðið eðlisbreyting og bankarnir greinilega haldið að sér höndum í útlánum í þeirri heimskreppu sem nú gengur yfir.
Aðgerðir Seðlabankans skila litlu til fyrirtækja
Seðlabanki Íslands hefur gripið til ýmissa aðgerða vegna yfirstandandi ástands sem ætti að nýtast bönkum og viðskiptavinum þeirra. Sveiflujöfnunarauki, viðbótarkröfur á eigið fé fjármálafyrirtækja umfram lögbundnar eiginfjárkröfur, var afnumin sem losar verulega um það eigið fé sem bankarnir þurfa að halda á og stýrivextir voru lækkaðir úr 4,5 prósentum niður í 0,75 prósent, sem átti að skila miklu betri kjörum fyrir viðskiptavini banka.
Seðlabankinn sagði í Fjármálastöðugleikariti sínu sem kom út í júní að vaxtalækkunarferlið hafi hins vegar „ekki skilað sér alveg eins vel á innláns- og útlánsvexti KMB [kerfislega mikilvægir bankar] og sérstaklega hafa vextir nýrra útlána til fyrirtækja lítið lækkað.“
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans ákvað að halda sveiflujöfnunaraukanum á fjármálafyrirtæki í núll næstu þrjá mánuði með ákvörðun sem var birt um miðjan desember. Ef mikil hætta er á þenslu getur Seðlabankinn hækkað aukann til að koma í veg fyrir of mikinn útlánavöxt, en ef hætta er á samdrætti getur bankinn lækkað aukann til að efla útlánagetu fjármálafyrirtækjanna.
Hættan á virðisrýrnun og gjaldþrotum fer vaxandi
Fjallað var áfram um þessa þróun í nýjasta Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands, sem kom út í lok septembermánaðar. Þar segir að samdráttur í innlendum skuldum fyrirtækja bendi til þess að aðgengi fyrirtækja að fjármagni sé hugsanlega torveldara en áður, fyrst og fremst vegna aukinnar áhættu sem endurspeglast í hækkandi vaxtaálagi fyrirtækjaútlána bankanna. „Efnahagssamdrátturinn og aukin óvissa vegna farsóttarinnar hefur einnig dregið verulega úr eftirspurn eftir lánum þar sem samhliða dregur bæði úr áhættusækni fyrirtækja og framboði á arðbærum fjárfestingartækifærum.“
Seðlabankinn sagði þar að hann teldi að skuldir fyrirtækja sem nýta sér lánaúrræði stjórnvalda og fjármálafyrirtækja muni vaxa næstu mánuði. „Mörg fyrirtæki hafa orðið fyrir miklum tekjusamdrætti og munu fara skuldsettari inn í þann efnahagsbata sem vænta má þegar farsóttin verður um garð gengin. Áhætta fyrirtækja vegna vaxtabreytinga og/eða tekjufalls eykst með aukinni skuldsetningu. Lágt vaxtastig styður þó við skuldsett fyrirtæki að öðru óbreyttu og eykur sjálfbærni skuldsetningar.“
Versnandi útlánagæði lánastofnana endurspeglist hins vegar í breyttu áhættumati og vaxandi virðisrýrnun á öðrum ársfjórðungi. Enn sem komið er hafi aðeins lítill hluti útlána kerfislega mikilvægra banka til fyrirtækja verið færður á stig 3 samkvæmt IFRS-9-reikningsskilastaðlinum, en viðbúið sé að það breytist næstu misseri enda hafi orðið tvöföldun á kröfuvirði útlána á stigi 2 og virðisrýrnun þeirra fimmfaldast. „Hættan á enn frekari virðisrýrnun og fjölgun gjaldþrota fer vaxandi.“