Root

Hvar stendur Samherjamálið?

Meintar mútugreiðslur, skattasniðganga og peningaþvætti Samherja og tengdra aðila eru til rannsóknar víða. Rannsóknirnar eru mismunandi að umfangi og komnar mislangt, rúmu ári eftir að Samherjamálið var fyrst opinberað.

Í nóvember í fyrra opinberuðu Kveikur, Stundin, Wikileaks og Al Jazeera hvernig viðskiptahættir Samherja í Afríku, nánar tiltekið í Namibíu og Angóla, voru á síðustu árum á meðan að fyrirtækið náði undir sig mjög verðmætum hrossamakrílskvóta í löndunum. Samkvæmt umfjölluninni var það gert með mútugreiðslum til ráðamanna og annarra manna úr þeirra nánasta hring. Upphaflega var sagt að þær hefðu numið 1,4 milljarði króna hið minnsta og hófust með því að reiðufé var afhent í íþróttatöskum en tóku svo á sig faglegri mynd og fóru fram í gegnum millifærslur á reikninga í Dúbaí. 

Frá því að málið var opinberað hefur það verið til rannsóknar víða um heim. Hér er staða þess í þeim þremur löndum sem mest er vitað um rannsóknir á því. 

Í Namibíu

Á vefnum eJUSTICE Namibia er hægt að nálgast greinargerð ríkissaksóknara Namibíu í málum þar sem krafist er kyrrsetningar á eignum Samherja sem metnar eru á nokkra milljarða króna og kyrrsetningar á eignum sex Namibíumanna sem sitja í gæsluvarðhaldi, og tíu félaga á þeirra vegum. Þetta er meðal annars gert á grundvelli laga um varnir gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Auglýsing

Í grein­ar­gerð­inni er sex­menn­ing­unum og fimm Íslend­ing­um, undir for­ystu Þor­steins Más Baldvinssonar, annars forstjóra Samherja, lýst sem skipu­lögðum glæpa­hóp.

Auk þess er fjöldi manns grunaður um að hafa framið víðtæk hegningarlagabrot, meðal annars með því að hafa þegið mútur í skiptum fyrir að afhenda Samherja fiskveiðikvóta. 

Þeir sem hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því á síðasta ári í sakamálarannsókn namibískra yfirvalda eru Bern­hard Esau fyrr­ver­andi sjáv­ar­út­vegs­ráð­herra, Sacky Shanghala fyrr­ver­andi dóms­mála­ráð­herra, James Hatuikulipi fyrr­ver­andi stjórn­andi rík­is­út­gerð­ar­innar Fischor og Tamson Hatuikulipi frændi hans, sem einnig er tengda­sonur Bern­hard Esau, og þeir Ricardo Gustavo, Pius Mwatelulo og Mike Nghipunya. Flestir þeirra hafa þegar verið ákærð­ir og réttarhöld yfir þeim eiga að hefjast í apríl 2021. 

Þrír menn til við­bótar verða ákærðir í mál­inu. Þeirra á meðal er lög­fræð­ingur að nafni Maren de Klerk, sem fór til Suð­ur­-Afr­íku í upp­hafi árs og hefur verið þar síð­an. Hann fer enn huldu höfði. Hinir tveir, Namibíumennirnir Phillipus Mwapopi og Otniel Shuundifonya, gáfu sig fram við spillingalögregluna ACC í Namibíu í desember. 

Engin samningur um framsal er í gildi milli Íslands og Namibíu og engar fréttir hafa verið fluttar af því að stjórnendur Samherja hafi verið yfirheyrðir í Namibíu. 

Um tvö aðskilin mál að ræða. Ann­ars vegar er um að ræða Fishcor-­málið og hins vegar Fis­hrot-­mál­ið.

Auglýsing

Fishcor-mál­ið lýtur að mis­notkun stjórn­mála­manna og ann­arra ákærðra á aðstöðu sinni, til þess að hagn­ast sjálfir á úthlutun afla­heim­ilda með því að þiggja mút­ur.

Í Fis­hrot-­mál­inu er hins vegar sér­stak­lega til umfjöll­unar sá vafa­sami milli­ríkja­samn­ingur sem gerður var á milli Namibíu og Angóla um hrossa­makríl­kvóta. Rík­is­sak­sókn­ari Namibíu segir samn­ing­inn svika­myllu sem sett hafi verið upp með virkri þátt­töku Sam­herja. Í því máli hefur rík­is­sak­sókn­ari Namibíu sagt ætlan sína að ákæra félög tengd Sam­herja og stjórn­endur þeirra.

Í  frétt namibíska fjölmiðilsins Informanté um miðjan desember kom fram að sak­sókn­ari hafi sagt fyrir dómi að rík­is­sak­sókn­ar­i Namibíu hafi í hyggju að slá mál­unum tveimur saman í eitt.

Á Íslandi

Embætti héraðssaksóknara á Íslandi rannsakar atvik sem tengjast Samherja hf., Samherja Holding ehf. og félögum í samstæðu Samherja, einkum í tengslum við starfsemi hennar í Namibíu og Angóla, frá árinu 2011 til dagsins í dag. 

Til rannsóknar eru meintar mútugreiðslur starfsmanna og fyrirsvarsmanna Samherja og tengdra félaga til opinberra starfsmanna í Namibíu og Angóla eða til manna sem gátu haft áhrif á ákvörðunartöku slíkra manna. Grunur er um að mútugreiðslur hafi runnið til félaga í eigu þessara manna í tengslum við úthlutun fiskveiðikvóta í Namibíu og Angóla. Auk meintra mútubrota er uppi grunur um að einstaklingarnir sem eru til rannsóknar hafi gerst sekir um peningaþvætti og auðgunarbrot. Þá eru mál Samherja og fyrirsvarsmanna samstæðunnar til skoðunar hjá embætti skattrannsóknarstjóra vegna gruns um að skattasniðganga hafi átt sér stað í tengslum við atferli Samherja í Afríku. 

Kjarninn greindi frá því í byrjun september að sex einstaklingar væru með réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara. Þeir voru meðal annars kallaðir til yfirheyrslu vegna málsins í sumar. 

Embætti héraðssaksóknara kallaði þá sem eru með réttarstöðu sakbornings í málinu til yfirheyrslu í sumar.
Mynd: Bára Huld Beck

Þor­steinn Már Bald­vins­son er á meðal þeirra sex ein­stak­linga sem eru með rétt­ar­stöðu sak­born­ings í rann­sókn hér­aðs­sak­sókn­ara. Hann hefur lýst sig saklausan af þeim brotum sem hann er grunaður um að hafa tekið þátt í að fremja. 

Hinir fimm sem kall­aðir hafa verið inn til til yfir­heyrslu og fengið rétt­ar­stöðu sak­born­ings við hana eru Ingvar Júl­í­us­son, fjár­mála­stjóri Sam­herja á Kýp­ur, Arna McClure, yfir­lög­fræð­ingur Sam­herja og ræð­is­maður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árna­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­herja í Namib­íu, Aðal­steinn Helga­son, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Sam­herja í Namib­íu, og Jóhannes Stef­áns­son. RÚV greindi frá.

Jóhannes var fram­kvæmda­stjóri Sam­herja í Namibíu um tíma en lék lyk­il­hlut­verk í því að upp­ljóstra um meintar mútu­greiðsl­ur, pen­inga­þvætti og skatta­snið­göngu Sam­herja í umfjöllun Kveiks, Stund­ar­innar og Al Jazeera um málið sem birt­ist í nóv­em­ber í fyrra. 

Í Noregi

Norska efnahagsbrotadeildin Økokrim er með millifærslur sem greiddar voru út af reikningum Samherja hjá norska bankanum DNB, sem er að hluta í eigu norska ríkisins, og inn á reikning í Dúbaí, í eigu þáverandi stjórnarformanns ríkisútgerðar Namibíu, til rannsóknar. 

Økokrim var að rannsaka hvort að DNB hefði tekið þátt í glæpsamlegu athæfi vegna hlutverks hans í því sem „virðist vera mútugreiðslur sem greiddar voru af bankareikningum félaga Samherja hjá DNB,“ samkvæmt því sem fram kemur í bréfi Økokrim sem finna má í skjölunum, og er dagsett 29. apríl 2020.


Økokrim var að rannsaka hvort að DNB hefði tekið þátt í glæpsamlegu athæfi vegna hlutverks hans í því sem „virðist vera mútugreiðslur sem greiddar voru af bankareikningum félaga Samherja hjá DNB,“ samkvæmt því sem fram kemur í bréfi Økokrim sem finna má í skjölunum, og er dagsett 29. apríl 2020.

Rannsóknin snýr enn sem komið er að uppistöðu að því að komast til botns í því af hverju DNB tilkynnti ekki greiðslur til umrædds félags, Tundavala Invest, til norska fjármálaeftirlitsins sem grunsamlegrar millifærslur.

Auglýsing

Í svari við fyrirspurn Kjarnans fyrr í desembermánuði, í tengslum við umfjöllun um rannsókn norskra stjórnvalda, sagði Björgólfur Jóhannsson, annar forstjóri Samherja, að fyrirtækið neiti því alfarið að félög tengd Samherja hafi greitt mútur eða aðrar óeðlilegar greiðslur. „Hvort sem það er í tengslum við reksturinn í Namibíu eða annars staðar. Við lítum svo á að greiðslur, í tengslum við reksturinn í Namibíu, séu lögmætar frá sjónarhóli félaga sem tengjast Samherja. Gildir það um allar greiðslur til félagsins Tundavala Invest.“

DNB lauk viðskiptasambandi sínu við Samherja í lok síðasta árs vegna þess að stjórnendur dótturfélaga sjávarútvegsrisans, sem áttu reikninga í bankanum, svöruðu ekki kröfu bankans um frekari upplýsingar um starfsemi þess, millifærslur sem það framkvæmdi og tengda aðila, með fullnægjandi hætti. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar