Þegar blaðamaður Kjarnans hafði hug á að ræða við sóttvarnalækni þann 8. janúar þurfti hann að fletta nafninu upp á vef Landlæknis. Þórólfur Guðnason. Alveg rétt! hugsaði blaðamaður með sér, sendi honum tölvupóst og bað um viðtal.
Tilefnið var frétt í bandarískum fjölmiðli nokkrum dögum fyrr þar sem fullyrt var að inflúensan væri sérlega skæð þennan veturinn. Á upptökunni af viðtalinu má heyra að Þórólfur er hinn rólegasti og fær sér kaffisopa annað slagið. Hann talar af mikilli þekkingu og þylur upp faraldsfræðilegar staðreyndir: Kúrfa. Bóluefni. Veira sem smitast með úða. Snertismit. Handþvottur. Heimsfaraldurinn 1918 og annar árið 2009. Undirliggjandi áhætta. Viðkvæmir hópar.
Allt mjög áhugavert. En hann segir fréttir af því að hin árlega inflúensa sé óvenju skæð orðum auknar. Eftir nokkurra mínútna spjall spyr blaðamaður hvort eitthvað annað sé að frétta úr hans ranni. „Inflúensan er það sem við erum með hugann við núna,“ segir Þórólfur. „En það er alltaf eitthvað að gerast í þessu.“
Er eitthvað nýtt og spennandi – innan gæsalappa?
„Tja, við erum ekki með neina nýja sjúkdóma ...“
Kúrfa. Bóluefni. Veira sem smitast með úða.
Og svo framvegis.
Nú, 353 dögum eftir samtalið í byrjun ársins, gætu eflaust flestir landsmenn tekið krossapróf í faraldsfræðum og staðist það með prýði. Blaðamaðurinn sem staldraði ekki sérstaklega við orð sóttvarnalæknis um að „kúrfa“ tilfella af inflúensu virtist á uppleið í janúar man þegar hann sá fyrstu skýringarmyndirnar af því hvernig fletja þyrfti út kúrfu nokkrum vikum seinna til að varna því að heilbrigðiskerfið færi á hliðina.
Það kom nefnilega nýr sjúkdómur. Það varð nefnilega heimsfaraldur. Og sá sem menntað hefur þjóðina í sýkingavörnum og undirstöðuatriðum faraldsfræðinnar er Þórólfur Guðnason. Maðurinn sem hefur staðið í stafni aðgerða okkar gegn veirunni skæðu sem dúkkaði upp í Kína í desember en greindist fyrst hér á landi 28. febrúar. Enginn þarf lengur að hugsa sig um þegar spurt er um nafn sóttvarnalæknis á Íslandi.
En þrátt fyrir hið fordæmalausa ár með ótal upplýsingafundum, viðtölum við fjölmiðla, fjalli tölvupósta daglega, fjarfundum með kollegum um víða veröld, ítrekuðum samtölum við ráðamenn og svo mætti nær endalaust áfram telja, er Þórólfur hinn rólegasti. Hann segist engar andvökunætur hafa átt í faraldrinum þó að hann viðurkenni að lítið hafi orðið um frí á árinu. „Þetta er vinna nánast allan sólarhringinn,“ segir hann rólyndislega. Og aftur sýpur hann á kaffibollanum í viðtali við blaðamann Kjarnans og þylur upp staðreyndir um farsóttina sem fékk nafnið COVID-19 mörgum vikum eftir að sýkingin kom fyrst upp. Farsóttina sem sett hefur mark sitt á öll samfélög heimsins.
„Mig langar að hafa viðtalið á persónulegum nótum,“ segir blaðamaður við Þórólf sem er enn í sóttkví er viðtalið er tekið rétt fyrir jól. Smit kom upp á vinnustaðnum og sjálfur sóttvarnalæknir landsins varð útsettur og þurfti í vikulanga sóttkví. Hann hefur því þurft að bragða á eigin meðölum – ef svo má að orði komast – þó að hann hafi ekki þurft í einangrun eins og félagi hans úr þríeykinu, yfirlögregluþjónninn Víðir Reynisson, sem fékk COVID-19 á dögunum.
Það væri verulega orðum aukið, líkt og Þórólfur sagði um æsinginn í flensufréttinni í upphafi árs, að segja að væmni drjúpi af svörum hins rökfasta vísindamanns við spurningum um heimsfaraldursárið mikla, 2020. Þórólfur er líflegur viðmælandi og rekur aldrei í vörðurnar en hann er augljóslega síst upptekinn af sjálfum sér og sínum tilfinningum eftir allt sem á undan er gengið.
Hvernig leið þér þegar að .... hvað fór í gegnum huga þinn á þeim tíma ... hvernig varð þér við er þú heyrðir fyrst af ....
Ef blaðamaður hélt að Þórólfur myndi lýsa hugrenningum sínum á ýmsum tímapunktum í faraldrinum með hádramatískum hætti skjátlaðist honum hrapalega. Sóttvarnalæknir heldur sig aðallega við tölur og staðreyndir. Kemur þeim frá sér á mannamáli og af smitandi áhuga og virðingu fyrir sínu fagi. Er fljótur til svars og slær annað slagið á léttari strengi líkt og hann er orðinn landsþekktur fyrir. (Hver man ekki eftir svari hans á einum upplýsingafunda síðasta vetrar um að nú væri ekki rétti tíminn til að fá sér tígrisdýr?)
Hann talar um veiruna eins og slóttugan andstæðing sem þurfi að verjast með öllum tiltækum vopnum. Vopnin hafa slípast til með hverjum deginum og eru öll úr smiðju vísinda, þekkingar og reynslunnar. Með smá íblöndun af málamiðlunum og undanþágum. „Ég hef reynt að vera samkvæmur sjálfum mér,“ segir hann. „En ég hef líka skipt um skoðun í takti við nýjar upplýsingar um veiruna. Það er bara sjálfsagt og eðlilegt þó að sumir hafi viljað nudda mér upp úr því.“
Viðtal Kjarnans við Þórólf í byrjun janúar
Þegar þú tókst við starfi sóttvarnalæknis árið 2015, hvarflaði það einhvern tímann að þér að þú myndir þurfa að leiða baráttu gegn heimsfaraldri nokkrum árum síðar?
Ég hef oft hugsað um að til þessa myndi koma. Ég byrjaði að vinna hjá sóttvarnalækni árið 2002 og fljótlega fór af stað vinna við viðbragðsáætlanagerð. Þá vorum við að skoða vandlega faraldurinn 1918. Og allar áætlanir miðuðust eiginlega við hann. Við héldum margar æfingar, bæði hér innanlands en einnig með öðrum Evrópuríkjum og æfðum viðbragð við því ef drepsóttir væru að ganga.
Þannig að ég var búinn að máta mig inn í þetta og reyna að sjá fyrir mér alls konar hluti. Raunveruleikinn í þessum faraldri hefur kannski ekki verið alveg eins og við héldum en þetta var engu að síður verðmætur undirbúningur.
Aldrei hægt að undirbúa sig fyllilega við farsótt
Ég tók viðtal við þig út af inflúensunni 8. janúar – þá virtust engin merki um það sem átti eftir að gerast. Manstu þegar þú heyrðir fyrst af veirusýkingu í Kína?
Já, rétt fyrir síðustu áramót fóru að berast fréttir af torkennilegri lungnabólgu þar í landi. Þær ágerðust svo þegar leið á janúar. Þetta var allt mjög óljóst í byrjun, talið að veiran hefði borist í menn úr dýrum en að hún smitaðist ekki manna á milli. En í byrjun árs sendi ég engu að síður póst á umdæmis- og svæðislækna og alla smitsjúkdómalækna og benti þeim á upplýsingarnar um þessa lungnabólgu í Kína og bað þá að vera vakandi fyrir þessu, sérstaklega hjá fólki sem væri nýkomið hingað til Íslands frá því landi. Þá var ekki ennþá búið að greina veiruna. Það var ekki vitað hvað væri að valda þessari lungnabólgu.
Svo fóru upplýsingarnar smám saman að hrannast inn og breytast. Menn sáu allt í einu að sýkingin smitaðist auðveldlega manna á milli og þá varð málið alvarlegra. Við byrjuðum að prófa hér innanlands fyrir veirunni í febrúar og öll voru sýnin neikvæð þangað til að eitt þeirra reyndist jákvætt 28. febrúar. Þá fór nú boltinn að rúlla, heldur betur.
Við gátum brugðist hratt við af því að við höfðum lagt mikla vinnu í undirbúning árin á undan. Það er aldrei hægt að undirbúa sig fyllilega fyrir það sem svo gerist þegar farsótt er annars vegar. Við vorum snemma í startholunum og komin í ákveðnar stellingar og hvöttum alla til að dusta rykið af viðbragðsááætlun um heimsfaraldur inflúensu sem var nýbúið að uppfæra. Það mikilvægasta var að allir gátu mátað sig inn í þá áætlun, hvaða hlutverk þeir hefðu, hverjar boðleiðirnar væru, hverjir tækju ákvarðanir og þar fram eftir götunum.
Ef þú lítur til baka til þessa tíma, hefðum við eða önnur ríki getað undirbúið okkur með öðrum og betri hætti?
Viðbragðið þarf alltaf að vera í samræmi við hver sýkillinn er. Hvernig hann smitast milli manna skiptir öllu máli, hver meðgöngutíminn er og hvernig hann hagar sér að öðru leyti. Þessar mikilvægu upplýsingar lágu ekki fyrir í fyrstu og þær sem bárust voru stundum misvísandi. Þannig að við þurftum að aðlaga okkur að þeim upplýsingum sem voru fyrir hendi á hverjum tíma. Og af því að sýklar eru alls konar gátum við ekki séð fyrir hvort að heilbrigðiskerfið myndi standast álagið. Í þessu tilviki voru hvorki lyf né bóluefni til staðar.
Þegar vitað var hvernig veiran smitaðist var nokkuð augljóst í grundvallaratriðum hvað þyrfti að gera til að forðast smit. En þá felst áskorunin í því að fá fólk til að fara eftir leiðbeiningum um persónubundnar sóttvarnir.
Það sem kom hins vegar á óvart var það að í undirbúningnum hélt ég að þetta ástand myndi standa yfir í nokkrar vikur, færi svo kannski en kæmi upp aftur, en ég bjóst ekki við að þetta myndi standa svona rosalega lengi yfir og gat ekki ímyndað mér hversu lengi við þyrftum að vera með þessar samfélagslegu aðgerðir.
Það kom líka á óvart að á meðan það var enginn vandi að beita lokunum og takmörkunum var vandasamt að aflétta þeim. Undir það vorum við ekki búin og við gátum ekki sótt okkur ráðleggingar annað því það vissi enginn hvernig væri best að haga afléttingum.
Þannig að við höfum þurft að læra þetta smám saman og stundum að beita hyggjuviti og tilfinningu.
Veiran kom fyrst upp í Kína og er sennilega úr leðurblöku eða beltisdýri. Hvað hefði þurft að gera til að fyrirbyggja útbreiðslu um allan heim? Hefði það yfir höfuð verið hægt?
Ég held að það hefði verið mjög erfitt að koma algjörlega í veg fyrir hana. Veiran var greinilega búin að dreifa sér víða um héraðið og Kína áður en menn vissu almennilega hvað þetta var. Og þegar vissan fékkst þá var það orðið alltof seint. Það hefur sýnt sig í þessum faraldri að ekkert land getur lokað sig algjörlega af. Sumar þjóðir hafa lokað nær alfarið landamærunum en samt komst veiran inn.
Ég sagði strax í byrjun: „Heyrðu, ef við lokum þessu blessaða landi okkar þá þurfum við að hafa það algjörlega, 100 prósent, lokað í eitt eða tvö ár.“ Þá kemur það bara í ljós að nútíma samfélag virkar ekki með algjörri lokun. Það var annað sem kom mér á óvart, hvað við þurfum að leita mikið til útlanda um mjög marga hluti. Miklu fleiri hluti en liggja í augum uppi. Þannig að lokun okkar landamæra varð aldrei algjör. Og það hefði verið algjörlega vonlaust að gera það.
Þegar þú settist niður til að skrifa fyrsta minnisblaðið um takmarkanir á samkomum. Hvernig leið þér?
Ég man nú ekki sérstaklega hvað fór í gegnum huga mér þegar ég skrifaði fyrsta minnisblaðið. Ég hef skrifað svo mörg!
Það var nokkuð ljóst í byrjun að smitin voru að koma hingað frá tiltölulega takmörkuðu svæði, nánar til tekið skíðasvæðum í Ölpunum. Þá lá náttúrlega beinast við að setja alla sem voru að koma þaðan í sóttkví eða einangrun. Við hvöttum fólk einnig til að fara ekki á þessi svæði.
En auðvitað var það svo mjög skrítið að þurfa að leggja það til við stjórnvöld að þau beittu takmörkunum á ákveðna starfsemi og að fólk fengi ekki að gera þetta eða hitt. Það var mjög sérkennilegt.
Þegar við sáum að það dugði ekki til að hvetja fólk til persónulegra sýkingavarna, að faraldurinn var samt að fara upp á við, þá þurftum við að beita samfélagslegum takmörkunum. Að takmarka samskipti fólks til að lágmarka smithættu. Þegar við beittum þessum hörðu aðgerðum þá sá ég strax að það virkaði. Sumir vilja ganga lengra og loka öllu, aðrir vilja hafa sem mest opið. Sumir vilja svo sigla þarna á milli og reyna að beita markvissum aðgerðum sem skila árangri en eru ekki of íþyngjandi. Og það hefur verið mitt leiðarljós.
Og fólk fylgdi þessum takmörkunum mjög vel í fyrstu bylgjunni. Óttaðist þú að almenningur myndi ekki gera það?
Nei, ég óttaðist það ekki í byrjun. Það var þannig andrúmsloft í samfélaginu. Fólk var hrætt enda vissi það ekki hvað við var að fást. Þess vegna fóru langflestir eftir þessu, héldu sig heima og það var lítil umferð á götunum.
Við fengum margt fólk smitað hingað til lands en veiran náði aldrei alveg að grafa um sig í samfélaginu í fyrstu bylgjunni. Við náðum faraldrinum alveg niður og menn fóru að slaka á og lifðu fínu lífi í sumar. En svo fóru menn kannski að slaka of mikið á.
Veiran kom svo aftur til landsins með fólki sem var að koma erlendis frá. Það var að ég tel óhjákvæmilegt. Og þá fór hún að grafa um sig hér og þar og faraldurinn varð allt öðruvísi, útbreiddari og óútreiknanlegri. Þess vegna var miklu erfiðara að ná utan um þetta núna heldur en síðasta vetur.
Græna afbrigðið svokallaða komst inn í landið í sumar en við vitum ekki hvernig. Það komst inn áður en við fórum að beita skimunum á landamærunum. Sá veirustofn náði að grafa um sig og var ansi erfiður. En svo þegar við náðum tökum á honum kom þessi blái stofn sem við köllum. Við vitum að hann komst inn í landið með ferðamönnum í ágúst. Og það er hann sem hefur verið að valda okkur þessum vandræðum síðan. Einn fjárans stofn.
Kúrfan var mjög brött framan af í fyrstu bylgjunni. Hvernig var að fá tölurnar yfir smit á hverjum morgni?
Maður hafði áhyggjur af því frá degi til dags þegar tölurnar voru bara beint upp í loft. Þetta fór mjög hratt upp en svo mjög hratt niður líka og það er óvenjulegt. Það sem er að gerast núna er í raun miklu eðlilegra fyrir faraldur – að hann fari hratt upp en sé lengi að ná sér niður aftur.
Er hægt að undirbúa sig fyrir það í þínu starfi að það verði dauðsfall vegna farsóttar? Hvernig varð þér við þegar fyrsta dauðsfallið varð?
Við vissum að í Kína var dánartíðnin talin um tvö prósent í fyrstu. Það er hrikalega há tala ef þú ert að tala um mikla útbreiðslu. Nokkur hundruð manns á Íslandi, jafnvel nokkur þúsund. Alveg rosalegt. Ég sá fyrir mér að kerfið hér myndi allt leggjast í rúst. Auðvitað hafði ég miklar áhyggjur af því hvernig þetta myndi enda. Svo fórum við að sjá þessi miklu veikindi hjá sýktum, aðallega fólki með undirliggjandi sjúkdóma en einnig hjá fólki á miðjum aldri og jafnvel ungu fólki. Þannig að þetta var mikið áhyggjuefni á tímabili og því var auðvitað gríðarlega mikilvægt að ná tökum á smitunum í samfélaginu. Og það hefur verið meginmarkmiðið síðan.
Viðtal Kjarnans við Þórólf í byrjun apríl
Hópsýkingin á Landakoti varð stóra verkefnið í þriðju bylgjunni. Hvernig varð þér við að heyra af henni og hefði ekki þurft að hólfaskipta þessu gamla húsi meira?
Auðvitað vita allir hvernig staða Landspítalans hefur verið. Það er búið að vera að tala um það í fleiri ár að spítalinn yrði ekki í stakk búinn að eiga við heimsfaraldur. Til dæmis hvað varðar aðstöðu til að einangra sjúklinga og annað slíkt.
En það var auðvitað mjög slæmt að smit skyldi komast þarna inn, akkúrat á þessa deild. Það var eins slæmt og hugsast gat. Það skýrir þessa slæmu útkomu úr þriðju bylgjunni; sautján dauðsföll á spítalanum.
Í staðinn fyrir að skammast út í núverandi stjórnendur þá þurfa menn að mínu mati að horfa á þetta í samhengi. Það er búið að benda á þessa hættu endalaust og samt er það aðeins núna á allra síðustu árum sem menn tóku við sér og hafist var handa við byggingu nýs sjúkrahúss.
Svo greindist hann Víðir félagi þinn í þríeykinu með COVID. Það hlýtur að hafa verið áfall fyrir ykkur.
Jú, það var það vissulega. En það sýndi að smit getur orðið nánast hvar sem er, líka hjá fólki sem er alltaf að passa sig. Ég hringdi nokkrum sinnum í hann á meðan hann var í einangruninni og fylgdist með hvernig hann hefði það. Það var gott að heyra að hann væri að jafna sig og gott að sjá hann á síðasta upplýsingafundinum fyrir jól.
Hefur þú einhvern tímann fundið fyrir þrýstingi af hálfu stjórnvalda eða annarra varðandi þínar tillögur? Hafa verið átök um einhverjar ákvarðanir?
Nei, ég myndi ekki segja að til átaka hafi komið. Ég hef átt alveg einstaklega gott samband við heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra og reyndar einnig aðra ráðherra. Ég verð að hrósa Svandísi [Svavarsdóttur] sérstaklega fyrir einstaklega gott samstarf.
Auðvitað hefur ákveðinn þrýstingur verið en ég hef samt ekki tekið því þannig heldur litið á þetta sem eðlileg skoðanaskipti. Það er ekkert óeðlilegt við það að menn séu að verja sína hagsmuni. Það eru aðrir aðilar í samfélaginu en stjórnvöld sem hafa beitt miklu meiri þrýstingi. Þá er ég að tala um ákveðna starfsemi og fyrirtæki. Það er eitthvað sem við sáum heldur ekki fyrir í viðbragðsáætlanagerðinni. Þessi órói í samfélaginu. Ég hélt að það væri nóg að segja: „Nú lokum við þarna, við verðum að gera það.“ Að allir myndu fara eftir því. En það er ekki þannig. Það vilja allir fá sína eigin forskrift. Allir hópar vilja sínar leiðbeiningar.
Ég held að almenningur geri sér enga grein fyrir þeirri vinnu sem farið hefur í slík mál, til dæmis hjá starfsfólki almannavarna og hjá sóttvarnalækni og landlækni. Það hefur þurft að leggja dag við nótt allt árið við að útbúa leiðbeiningar fyrir alls konar fyrirtæki og starfsemi einstaklinga og svara fyrirspurnum. Þetta hefur þurft að gera í hvert skipti sem er hert og í hvert skipti sem slakað hefur verið á.
Þið hljótið nú að hafa ranghvolft einhvern tímann augunum yfir fyrirspurnum og óskum um undanþágur...
Sumar þeirra hafa kannski hljómað nokkuð undarlega í okkar eyrum en auðvitað er fólk að spyrja í einlægni. Það vill vanda sig, er óöruggt og þá sendir það póst. Frá upphafi opnuðum við á þessi samskipti og reyndum að svara öllum. Þessar fyrirspurnir voru upp undir þúsund suma dagana.
En við töldum nauðsynlegt að fara þessa leið, að fólk gæti spurt okkur spurninga. Til að skapa ró og samvinnu í samfélaginu frekar en að láta marga verða pirraða.
Þegar þú lítur til baka er eitthvað sem þú sérð núna að hefði verið hægt að gera öðruvísi í ykkar viðbrögðum?
Ég er nú ekki mikið að velta mér upp úr því. Ég held samt sem áður, alla vega frá mínum bæjardyrum séð, þá hafi þær aðgerðir sem við gripum til skilað mjög góðum árangri heilt á litið. Sérstaklega ef við berum okkur saman við aðrar þjóðir, þá getum við verið stolt af því sem við gerðum.
Ég hef tekið saman upplýsingar til dæmis í tengslum við afléttingar í þeim tilgangi að skoða hvort að það geti verið að farið hafi verið of bratt í þær. Var slakað of mikið á á einhverjum tímapunkti sem orsakaði það að faraldurinn fór aftur upp? Við þá skoðun kemur í ljós að það er nú ekki þannig. Það er aðeins í eitt skipti sem ég get séð að það hangi saman aflétting og uppsveifla kúrfunnar og það var þegar við leyfðum samkomur 200 manna og fórum niður í eins metra nálægðaregluna í stað tveggja metra áður. Þetta var í byrjun september. Viku seinna fór faraldurinn aftur mjög bratt upp. Ég veit ekki hvort að þarna sé beint orsakasamhengi en þetta eru einu tengslin sem ég sé.
Eiginlega alveg magnað
Hefur það komið þér á óvart hversu bókstaflega fólk hefur tekið orðum þínum?
Jú jú, það er dálítið merkilegt. Það er ótrúlegt hvað allir hafa fylgt því sem við höfum sett fram. Það er eiginlega alveg magnað. Ég hef reynt að vera sjálfum mér samkvæmur og ekkert að fara of mikið fram og til baka. En ég hef skipt um skoðun en það hefur byggt á rannsóknum sem hafa sýnt að betra sé að gera hlutina svona en hinsegin. Þá verður maður að fara eftir því. Margir hafa verið að nudda mér upp úr því að einhvern tímann sagði ég að grímur skiptu sennilega ekki miklu máli en svo komu nýjar niðurstöður sem sýndu hið gagnstæða og þá var ekkert annað en sjálfsagt að skipta um skoðun. Ég hef verið óhræddur við það.
Eitt af því sem hefur verið fróðlegt að fylgjast með í faraldrinum er mannlegt eðli og hegðun. Bæði hvað fólk er fljótt til samvinnu og eins hvað margir eru fljótir til andstöðu. Þetta hefur komið mér svolítið á óvart.
Þú sagðir í upphafi fyrstu bylgju, þegar sumir héldu því fram að bóluefni yrði tilbúið jafnvel um haustið, að það kæmi í fyrsta lagi árið 2021. Þar virðist þú hafa verið sannspár. En hefur hraðinn á þróun þess komið þér á óvart?
Klárlega. Það getur tekið tíu ár í heild að framleiða eitt bóluefni. Þegar menn voru að tala um hvenær bóluefni gæti komið þá vissi enginn hvernig þessi mál myndu þróast. Þetta voru allt saman ágiskanir.
Og þó að bóluefnið sé nú að koma finnst mér margir vera óhóflega bjartsýnir á að þetta muni gerast mjög hratt. En ég mun fagna ef ég hef rangt fyrir mér í því. Ég vil fara varlega, vera raunsær og stilla væntingum í hóf og geta þá glaðst ef hlutirnir ganga betur.
Þannig að þú sérð ekki nákvæmlega fyrir þér tímarammann hvað hjarðónæmi þjóðarinnar varðar?
Þegar við erum að tala um hjarðónæmi erum við að tala um bólusetningu 60-70 prósent þjóðarinnar. En það er mjög mikilvægt að hafa það í huga að þó að við náum því þá eru ennþá um 30 prósent landsmanna sem geta tekið veikina. Þannig að við getum fengið eftir sem áður litlar hópsýkingar og jafnvel alvarleg tilfelli þó að við fáum ekki útbreiddan faraldur og þurfum því ekki að vera með eins miklar samfélagslegar takmarkanir.
Við náum kannski góðum árangri um leið og við höfum náð að bólusetja viðkvæmustu hópana, eldra fólk og þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Þá mun heimurinn horfa allt öðru vísi við og við getum farið að slaka eitthvað á. Þetta er ástæðan fyrir því að við ætlum að bólusetja áhættuhópana fyrst.
En hvað tekur svo við eftir að hjarðónæmi næst? Þurfum við áfram að gæta okkar og gæti þurft að bólusetja fólk reglulega fyrir COVID-19?
Við vitum ekki hversu lengi vörnin sem bóluefnið veitir dugar. En við munum sjá það fljótlega þegar við höfum náð útbreiddri bólusetningu hvað mun gerast með faraldurinn. Við eigum eftir að sjá annað slagið tilfelli, jafnvel alvarleg, eins og við sjáum með marga aðra smitsjúkdóma. Þannig verður það með þessa kórónuveiru eins og aðrar veirur.
Bólusetning mun smám saman færa okkur eðlilegt líf, hvað sem felst í því.
Þessi veira mun klárlega fylgja mannkyninu lengi. Reynslan af þessum faraldri mun halda áfram að móta okkar líf, okkar lífsviðhorf og uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Það er enn mikið verk að vinna við að undirbúa okkur til framtíðar. Því að svona faraldur kemur aftur.
Hvenær?
Það er góð spurning. Við eigum alltaf von á heimsfaraldri inflúensu. Hann gæti komið þess vegna á næsta ári. En við vitum það ekki. Það sem við vitum er að það mun annar faraldur koma aftur einhvern tímann.
Það verða þá ekki endilega hundrað ár þar til svona alvarlegur faraldur mun geisa aftur?
Nei, alls ekki. Annar faraldur gæti komið aftur á okkar tíð.
Dreymir ekki COVID
Við verðum að ljúka viðtalinu á aðeins léttari nótum. Ætlarðu ekki að hvíla þig vel um jólin? Hefurðu náð að hvíla þig eitthvað að ráði á þessu ári?
Nei, það er nú ekki mikið. Ég hef tvívegis reynt að fara í frí, í eina viku í senn en ég var meira og minna í vinnu í símanum allan tímann. Annars er þetta bara vinna frá morgni til kvölds.
Hefurðu átt andvökunætur?
Nei, það er nú það góða, ég hef alltaf sofið mjög vel. Og mig dreymir ekki COVID á nóttunni.
Hvert finnst þér vera orð ársins?
Það eru tvö orð sem ég hafði notað lítið eða aldrei áður en hafa verið mikið notuð núna. Það eru „fordæmalaus“ og „fyrirsjáanleiki“. Effin tvö! Þetta eru orðin sem hafa komið skemmtilega á óvart í þessum faraldri.