Byggingarsjúsk

Ekkert byggingarleyfi, ótraustar undirstöður, gölluð steypa og mútumál. Slík lýsing hljómar ekki vel, allra síst þegar um er að ræða háhýsi sem skagar 86 metra upp í loftið, á Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn.

Njálsturn í uppbyggingu. Ljósu húsin hægra megin við turninn tilheyra Hafnarháskóla
Njálsturn í uppbyggingu. Ljósu húsin hægra megin við turninn tilheyra Hafnarháskóla
Auglýsing

Í ljóði Jónasar Hallgrímssonar „Alþing hið nýja“ segir „Traustir skulu hornsteinar hárra sala; í kili skal kjörviður“.  

Ljóð Jónasar, ort 1840, fjallar ekki um húsbyggingar og byggingarreglugerðir. En þessar tvær ljóðlínur fela hins vegar í sér grundvallaratriði sem fylgt skal þegar byggja á hús.  

Ólíklegt verður að telja að stjórnendur danska byggingafyrirtækisins Bach Gruppen þekki þetta ljóð Jónasar, þeir eiga hins vegar að þekkja dönsku byggingarreglugerðina. Þar er kveðið á um trausta hornsteina og vandaðar undirstöður. Og líklega þekkja þeir hjá Bach Gruppen byggingarreglugerðina. En það er ekki nóg að þekkja reglur og reglugerðir, það þarf líka að fara eftir þeim. 

Auglýsing

Njálsgata

Götuheitið Njálsgata, á Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn, hljómar kunnuglega í eyrum margra Íslendinga. Gatan dregur nafn sitt af Njáli Þorgeirssyni stórbónda,  lögspekingi og höfuðpersónu Brennu-Njáls sögu. Þessi staðreynd er kannski ekki höfuðástæða þess að svo margir Íslendingar þekkja þessa götu á Amager, heldur sú að Hafnarháskóli, Københavns Universitet, með sína tæplega 40 þúsund nemendur og 9 þúsund starfsmenn er þar til húsa. Eftir að skólinn (stofnaður 1479) hafði sprengt utan af sér húsnæðið í gamla latínuhverfinu við miðbæ Kaupmannahafnar eftir miðja síðustu öld, fluttist stór hluti starfseminnar út á Amager, í nýbyggingar við Njálsgötu. Þetta svæði þekkja þúsundir Íslendinga sem stundað hafa, og margir stunda enn, nám við Hafnarháskóla. Kaupmannahafnarháskóli Mynd: Wiki Commons

Njálsturninn 

Gegnt byggingum háskólans við Njálsgötu  er allstórt svæði, sem lengi stóð autt og óbyggt. Herinn hafði fengið þetta svæði til umráða árið 1775 og það fékk nafnið Faste Batteri, og var notað til æfinga. Árið 1947 voru byggingar hersins að mestu jafnaðar við jörðu og löngu síðar var hluti svæðisins friðaður. Í tengslum við lagningu Metro lestakerfisins um síðustu aldamót var friðlýsingunni að mestu aflétt og ákveðið að vinna nýtt skipulag fyrir þetta auða svæði við Njálsgötu. Í skipulagsmálum ganga hlutirnir ekki alltaf hratt fyrir sig, enda í mörg horn að líta og enn liðu allmörg ár áður en framkvæmdir hófust. Árið 2017 greindu danskir fjölmiðlar frá því að nú væru hlutir að gerast: við Njálsgötuna yrði, auk annarra bygginga, reistur turn. Framkvæmdir færu brátt að hefjast. Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að turninn, sem fengið hefur nafnið Njálsturn, yrði rúmlega 100 metra hár, en síðar var ákveðið að hæðin yrði 86 metrar, 23 hæðir. Í turninum verða 265 íbúðir og á jarðhæð er gert ráð fyrir verslunum og þjónustufyrirtækjum.

Bach Gruppen

Fyrirtækið sem byggir turninn heitir Bach Gruppen, með höfuðstöðvar í Viborg á Jótlandi. Fyrirtækið, sem dregur nafn sitt af eigandanum Finn Peter Bach, var stofnað árið 1967. Finn Peter Bach, sem er bifvélavirki að mennt (fæddur 1946)  hafði þá um skeið unnið hjá bílaumboði, en ákvað að freista gæfunnar á eigin spýtur. Auk þess að versla með bíla ákvað hann að reyna fyrir sér í byggingabransanum. Skemmst er frá því að segja að reksturinn gekk frá upphafi vel, og í dag er Bach Gruppen (ásamt 5 dótturfyrirtækjum, þar á meðal bílaleigu) stórfyrirtæki á danskan mælikvarða. Auk þess að byggja hús á fyrirtækið fjölda húsa sem leigð eru út, til einstaklinga og fyrirtækja. Eiginkona Finn Peter Bach heitir Ulla Bloch, þau eiga tvö uppkomin börn. Á lista dagblaðsins Berlingske yfir ríkustu Danina árið 2020 er fjölskyldan númer 83. 

Höfðu ekki byggingarleyfi

Eins og áður sagði hófust framkvæmdir við Njálsturn haustið 2017. Tímaáætlanir sem kynntar voru í upphafi gerðu ekki ráð fyrir neinu slugsi að sögn framkvæmdastjóra Bach Gruppen. 

Sumarið 2018 var botnplata turnsins steypt. Botnplatan (sem Jónas hefði ugglaust kallað hornstein) var höfð tveggja metra þykk. Steypan átti að uppfylla allar kröfur um styrkleika og járnabindingu sem gert er ráð fyrir í byggingarreglugerð. Fyrirtækið sem framleiddi steypuna heitir BG Beton og er eitt dótturfyrirtækja Bach Gruppen.

Á tilsettum tíma var svo byrjað að reisa turninn sjálfan og það verk gekk samkvæmt áætlun. 

Dag nokkurn þegar embættismaður hjá borginni var að yfirfara byggingarleyfisveitingar þótti honum sérkennilegt að á listanum yfir veitt leyfi sá hann hvergi byggingarleyfi vegna Njálsturnsins. Eftir að hafa leitað af sér allan grun, og hvergi fundið leyfið, lét hann yfirmann sinn vita. Í ljós kom að byggingarleyfi fyrir turninum hafði aldrei verið veitt, þótt umsóknin hefði borist á tilsettum tíma. Þetta þótti embættismanninum áðurnefnda undarlegt, hann hjólaði sjálfur daglega fram hjá byggingasvæðinu og hafði með eigin augum séð turninn og þegar þarna var komið voru hæðirnar orðnar sex. Hjá byggingareftirlitsdeild borgarinnar klóruðu menn sér í kollinum en ákváðu loks að gefa út byggingarleyfið. Fjölmiðlarnir, sem vissu um málið vildu fá nánari skýringar, og hvort ekki yrði sektað. Samkvæmt reglum varðar það sektum að byggja í óleyfi. Svör borgarinnar voru þau að leyfið hefði í raun löngu verið tilbúið, bara átt eftir að senda það. Og ekki yrði sektað. Og áfram mjakaðist turninn upp. 

Byggingareftirlitsdeild berst bréf 

26. febrúar síðastliðinn barst Byggingareftirlitsdeild borgarinnar bréf. Sendandinn, sem ekki lét nafns sín getið fullyrti að steypan sem notuð hefði verið í botnplötuna væri ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar væru um slíka steypu og ráðgjafafyrirtæki hefði tiltekið að notuð skyldi. Ljóst virtist að sendandinn nafnlausi væri málum kunnugur. 

Í framhaldi af áðurnefndu bréfi óskaði Tækni- og umhverfisdeild borgarinnar eftir gögnum, og vottorðum varðandi steypuna, frá Bach Gruppen. Þrátt fyrir eftirrekstur bárust slík gögn ekki og í lok mars tilkynnti Tækni- og umhverfisdeild borgarinnar málið til lögreglu. Farið var fram á að lögreglan myndi rannsaka steypuna í botnplötunni undir turninum, og krefjast gagna frá Bach Gruppen. Jafnframt var Tækni- og rannsóknarstofnun danska ríkisins beðin um að rannsaka steypuna. Á meðan þessu fór fram héldu framkvæmdir við turninn áfram. Í blaðaviðtali í ágúst sagði Lene Christensen framkvæmdastjóri Bach Gruppen að sér væri kunnugt um að notuð hefði verið annars konar steypa í botnplötuna en tilgreind væri í verklýsingu en væri fullkomlega sambærileg. Nørrebro í Kaupmannahöfn Mynd: Wiki Commons

Bach Gruppen kærir uppljóstrarann

Mitt í öllu þessu kærði Bach Gruppen uppljóstrarann til lögreglu. Hann hefði hótað að láta borgina og lögreglu vita um „steypumálið“ nema fyrirtækið semdi við sig um greiðslu. Ekki varð af þeim samningi og Bach Gruppen kærði manninn til lögreglu. Það mál liggur enn í skúffum lögreglu, hvað sem síðar verður.

Gölluð steypa og framkvæmdir stöðvaðar

18. september fyrirskipaði Byggingareftirlitsdeild Kaupmannahafnarborgar að framkvæmdir við turninn, sem kominn var í fulla hæð, skyldu stöðvaðar. Þá lágu fyrir skýrsludrög vegna steypunnar í botnplötunni. Endanlegri skýrslu vegna steypunnar var síðan skilað fyrr í þessum mánuði. Þar kemur fram að efsti hluti botnplötunnar sé úr steypu sem uppfylli kröfur um styrkleika. Stærstur hluti plötunnar sé hins vegar úr efni sem sé langt frá því að uppfylla kröfur. Þar hafi í bland við nýja steypu verið notuð gömul steypa, sem hafi verið mulin og enn fremur hafi verið blandað í steypuna ýmiss konar byggingarúrgangi, eins og það er orðað í skýrslunni. Niðurstaðan er sú að botnplatan uppfylli ekki skilyrði. 

Okkar eigið fyrirtæki laug að okkur

Bach Gruppen neitaði lengi vel að nokkuð væri athugavert við steypuna í botnplötu Njálsturnsins. Í ágúst sl. sendi Finn Peter Bach frá sér yfirlýsingu. Þar segir hann að yfirmenn í BG Beton (fyrirtæki í hans eigu) hafi beinlínis sagt sér ósatt og lagt fram gögn sem séu alls ófullnægjandi. „Við höfum þegar hafið okkar eigin rannsókn á því sem þarna gerðist, ef í ljós kemur að BG Beton hafi beinlínis falsað skýrslur til okkar og annarra mun það hafa alvarlegar afleiðingar“ segir í áðurnefndri yfirlýsingu. 

Hvað er til ráða?

Kaupmannahafnarborg vill ekki heimila að framkvæmdum við Njálsturn verði haldið áfram fyrr en fundin hefur verið lausn sem tryggir að botnplatan hafi nægan styrk. Í samvinnu við Bach Gruppen er unnið að því að finna slíka lausn. Í viðtali við dagblaðið Politiken, skömmu fyrir jól,  sagði Finn Peter Bach forstjóri að fyrirtæki sitt, Bach Gruppen legði mikla áherslu á að finna lausn sem tryggi að Njálsturn uppfylli allar öryggiskröfur. „Okkur er ljóst að verkið mun kosta umtalsverða fjármuni, en það skiptir engu“. 

Hvenær framkvæmdir við Njálsturn hefjast á ný er ómögulegt að segja til um.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Það er erfitt að ímynda sér að það snjói í Brasilíu en snjókoma er eflaust algengari þar en ætla mætti. Þessi mynd er tekin eftir snjókomu í Brasilíu í ágúst árið 2020
Snjór fellur í Brasilíu
Sumir íbúar í syðsta héraði Brasilíu hafa tekið snjónum fagnandi enda ekki á hverjum degi sem þar snjóar. Bændur gætu aftur á móti átt von á lakari uppskeru og verð á hrávörumörkuðum hefur hækkað í kjölfar kuldakastsins.
Kjarninn 30. júlí 2021
Landspítalinn er á hættustigi vegna kórónuveirufaraldursins.
Sjúklingur á krabbameinsdeild reyndist ekki með COVID
Sjúklingur og starfsmaður á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítalans, sem sagt var frá í gær að hefðu greinst með COVID-19 reyndust ekki smitaðir af kórónuveirunni.
Kjarninn 30. júlí 2021
Óli varð efstur í forvali VG í Norðausturkjördæmi en Bjarkey Olsen í öðru.
Óli Halldórsson hættur við að leiða lista VG í Norðausturkjördæmi
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir mun leiða lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi. Óli Halldórsson færist niður í þriðja sætið en hann stígur til hliðar úr oddvitasætinu vegna veikinda í fjölskyldunni.
Kjarninn 30. júlí 2021
Um 85 prósent Íslendinga sextán ára og eldri eru bólusett
Fjórðungur smitaðra óbólusettur
Að minnsta kosti 255 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með kórónuveiruna hér á landi á þremur vikum. Tæplega 750 smit, um 72 prósent, eru hjá fullbólusettum.
Kjarninn 30. júlí 2021
Þessir frambjóðendur skipa sjö efstu sæti Sósíalistaflokksins í Suðvesturkjördæmi.
María Pétursdóttir og Þór Saari leiða sósíalista í Suðvesturkjördæmi
María hefur starfað innan Sósíalistaflokksins í fjögur ár sem formaður Málefnastjórnar. Raðað er á lista flokksins af hópi flokksfélaga sem hefur verið slembivalinn.
Kjarninn 30. júlí 2021
Ísland og Ísrael örva bólusetta
Á Íslandi og í Ísrael er bólusetningarhlutfall með því hæsta sem fyrirfinnst á jörðu. Bæði löndin sáu smit nær þurrkast út en rísa svo í hæstu hæðir á ný. Og nú hafa þau, sama daginn, ákveðið að gefa þegar bólusettum borgurum örvunarskammt.
Kjarninn 30. júlí 2021
Stóru bankarnir þrír fækkuðu allir í starfsliði sínu á fyrstu sex mánuðum ársins.
Starfsmönnum stóru bankanna fækkaði um rúmlega 80 á fyrri helmingi árs
Í lok júní störfuðu 2.167 manns hjá stóru viðskiptabönkunum þremur, Íslandsbanka, Landsbanka og Arion banka. Samanlagður hagnaður bankanna nam 37 milljörðum á fyrstu 6 mánuðum ársins.
Kjarninn 30. júlí 2021
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar