Mynd: Samsett samsettatvinnulifid3112.jpeg

Ferðaþjónustu lokað, lífskjarasamningur á bláþræði og ósk um nýja atvinnustefnu

Árið 2020 verður lengi í minnum haft sem fordæmalaust. Tugir þúsunda sáu fram á að verða án atvinnu á árinu og mörg fyrirtæki stóðu frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau kæmu til með að lifa eða deyja. Kjarninn hitti á haustmánuðum fulltrúa atvinnulífs og fékk sýn þeirra á stöðu mála og hvernig best væri að komast út úr því ástandi sem upp var komið.

Kjarninn ákvað að taka ítarleg viðtöl við þetta fólk um ástandið vegna veirunnar og mesta atvinnuleysi sem þjóðin hefur upplifað. Viðtölin sem vísað er í hér að neðan birtust frá lokum ágúst og til loka septembermánaðar. Þriðja bylgjan svokallaða var ekki skollin á Íslandi af þunga, en ljóst var að einhverjar hömlur myndu þurfa að vera á mannlífi áfram um sinn. Nýbúið var að herða aðgerðir á landamærum.

Hagsmunir ferðaþjónustunnar, hagsmunir samfélagsins

Fyrstur í röðinni var Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, atvinnugreinar sem nánast var búið að loka í sóttvarnaskyni. Samtalið hverfðist því að nokkru leyti um það og hertar aðgerðir á landamærum sem frá því 19. ágúst hafa falið í sér að ferðamenn þurfi að fara í tvær skimanir með sóttkví á milli áður en þeir megi fara að blanda nokkru geði við þá sem hér á landi búa.

Jóhannes Þór sagði að taka þyrfti langtímaáhrif fjöldaatvinnuleysis inn í þær sviðsmyndir sem stjórnvöld væru að setja upp varðandi efnahagsleg áhrif mismunandi sóttvarnaaðgerða. Hann sagði ferðaþjónustuna verða að ná viðspyrnu eins fljótt og mögulegt væri, annars myndi Ísland verða lengur að ná sér upp úr kreppunni.

Auglýsing

„Þú getur ekki talað um hagsmuni ferðaþjónustunnar án þess að tala um hagsmuni samfélagsins um leið. Hagsmunir ferðaþjónustunnar eru í rauninni þeir að halda 25 þúsund manns í vinnu. Að ná inn tekjum sem hafa haldið fyrirtækjum á lífi sem hafa staðið undir hátt í 40 prósent af verðmætasköpun þjóðarinnar í gjaldeyri undanfarin ár. Hagsmunir samfélagsins eru að þessi atvinnugrein geti haldið áfram að standa undir einum þriðja af öllum innflutningi vöru og þjónustu til landsins, eins og í fyrra,“ sagði Jóhannes Þór.

Jóhannes Þór nefndi í viðtalinu að þegar hann starfaði við kennslu í grunnskóla eftir hrun fjármálakerfisins árið 2008 hefðu hann og kollegar hans í kennarastétt séð áhrifin af atvinnuleysi og öðrum vandamálum heimilanna koma fram löngu síðar.

„Það er ekki fyrr en haustið 2010 sem við fórum að sjá, til dæmis í unglingadeildinni þar sem ég var að kenna, stóraukningu á hegðunarvandamálum, vímuefnavandamálum og alls kyns agavandamálum sem fylgja því augljóslega að það eru erfiðleikar á heimilunum; langvarandi atvinnuleysi, fjárhagserfiðleikar eða annað. Þetta eru bara áhrifin á börnin,“ sagði Jóhannes Þór.

Sagðist neita að horfa á vinnumarkaðinn sem stríðsvöll

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins var næstur í röðinni og tók á móti blaðamanni Kjarnans í Húsi atvinnulífsins í byrjun september. Atvinnuleysi og vinnumarkaðsmál – lífskjarasamningurinn – voru aðalumræðuefnið.

„Við tveir getum reynt hérna að rýna í kristalskúlu og spurt okkur: „Mun atvinnuástandið á Íslandi batna í september, október og nóvember?“ Ég skal bara gefa þér mitt afdráttarlausa svar, að atvinnuleysið mun halda áfram að aukast alla þessa mánuði,“ sagði Halldór Benjamín – og reyndist sannspár.

Kröfur verkalýðshreyfingarinnar um hækkun grunnatvinnuleysisbóta voru til umræðu í samfélaginu þarna í sumarlok. Samtök atvinnulífsins höfðu lagst gegn slíkum hækkunum og Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands sakað SA um mannfjandsamlega afstöðu.

„Mér finnst svona munnsöfnuður ekki sæmandi forseta ASÍ,“ sagði Halldór Benjamín um þau orð Drífu. Hann sagðist hafa farið hringinn um landið í sumar og alls staðar fengið að heyra sömu sögu frá atvinnurekendum: Þværi erfitt, þrátt fyrir atvinnuástandið, að fá fólk til vinnu.

Stjórnvöld kynntu 20. nóvember síðastliðinn að grunnatvinnuleysisbætur næsta árs yrðu hækkaðar um rúmlega 7.000 krónur frá því sem áður var áætlað, með sérstöku viðbótarálagi. Þær verða því 307.430 krónur.

Í viðtalinu ræddi Halldór Benjamín um að Íslendingum hefði sem þjóð mistekist að ná fram hagkvæmni. „Við erum föst í viðjum vanans og erum of hrædd við að gera drastískar breytingar, sama hvort við horfum inn í heilbrigðiskerfið, menntakerfið eða stjórnkerfið. Ég vil meina að skipulag á vinnumarkaði sé ekki ákjósanlegt heldur og það sé kostnaðarsamt og búi til sóun í kerfinu,“ sagði Halldór Benjamín.

Í því samhengi benti hann á að eitt og hálft ár væri liðið frá því að lífskjarasamningurinn var undirritaður, en að ekki væri enn búið að ljúka kjaralotunni. Möguleiki væri þannig á að samningnum yrði sagt upp án þess að búið væri að semja við öll félög á hans grunni. Það gerðist þó ekki – þrátt fyrir að Samtök atvinnulífsins lýstu yfir forsendubresti – sem leiddi til mikillar störukeppni á vinnumarkaði. 

Segja má að ríkisstjórnin hafi á endanum orðið fyrst til að blikka, en kynning 25 milljarða króna aðgerðapakka þann 29. september leiddi til þess að Samtök atvinnulífsins ákváðu að láta kjarasamninga standa.

Stjórnvöld verði að hætta að velja sigurvegara

„Það eru mjög stórar ákvarðanir og strategískar sem bíða þess að vera teknar, um það á hverju við ætlum að byggja verðmætasköpunina,“ sagði Sigurður Hannesson við blaðamann Kjarnans í viðtali sem birtist 14. september. 

Auglýsing

Þar lýsti hann þeirri skoðun sinni að ferðaþjónustan hefði á árunum eftir hrun fengið of mikla athygli stjórnvalda á sama tíma og önnur vaxtartækifæri hafi farið forgörðum. Það sama megi ekki gerast nú – stjórnvöld þurfi að hætta að velja sigurvegara.

„[É]g held því fram, og við hjá Samtökum iðnaðarins, að á næstu einum til tveimur árum verði teknar ákvarðanir sem muni ráða því hvernig framtíðin til næstu tíu, tuttugu og jafnvel þrjátíu ára verði í þessu samhengi,“ segir Sigurður og bætir við að Samtök iðnaðarins hafi árum saman kallað eftir því að stjórnvöld móti hér atvinnustefnu.

„Það hrökkva ýmsir í kút þegar þetta orð er nefnt, því það er ekki vel skilgreint hugtak og hefur breyst í tímans rás. Ef við förum langt aftur í tímann, segjum 100 ár, þá byggði atvinnustefna – ekki bara hér á landi heldur víðar – á miklum ríkisafskiptum og eignarhaldi ríkisins á atvinnurekstri. Síðan kom tímabil þar sem stjórnvöld völdu sigurvegara og þar á eftir kom tímabil einkavæðingar og kannski afskiptaleysis,“ sagði Sigurður. Atvinnustefna stjórnvalda í dag ætti hins vegar að snúast um að auka samkeppnishæfni með umbótum.

Sigurður sagði að efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins sýndu „svart á hvítu“ að stjórnvöld væru með atvinnustefnu af öðrum toga en þá sem hann teldi æskilega.

„Sú atvinnustefna gengur út á það að velja sigurvegara og þar er raunar einn sigurvegari sem er á blaði og það er ferðaþjónustan. Aðgerðir stjórnvalda miða fyrst og fremst við að bjarga ferðaþjónustunni. Það er skiljanlegt, með hliðsjón af því hvaða vægi hún hefur haft, þar eru fjölmörg störf undir og greinin mun sannarlega ná fyrri styrk, það er bara spurning um tíma, en á sama tíma eru tækifæri sem fara forgörðum vegna þess að athygli stjórnvalda beinist ekki að þeim,“ sagði Sigurður. 

Alltaf til að taka umræðuna

Kjarninn hitti Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi undir lok mánaðarins. Á meðal þess sem var til umræðu var staðan á útflutningsmörkuðum fyrir íslenskan fisk og sú viðvarandi umræða sem er í samfélaginu um sjávarútveg og það hversu miklu atvinnugreinin skilar, eða ætti að skila, í fjárhirslur ríkisins.

Heiðrún Lind sagði ágætt að talað væri um sjávarútveg, það sem hann skapaði og skilaði til samfélagsins. „Allt er þetta eðlileg umræða og við eigum að taka hana, sama á hvaða tíma hún kemur. En það er hins vegar mikilvægt, nú sem fyrr, að við séum með traustar stoðir undir efnahag landsins,“ sagði Heiðrún Lind og nefndi að tvær hinar stóru stoðirnar, ferðaþjónustan og álið, ættu undir högg að sækja.

„Þá hefði ég talið þeim mun mikilvægara að umræðan snerist um það hvernig við skjótum styrkari stoðum undir sjávarútveg. Hvernig getur hann skapað meira verðmæti? Umræðan, því miður, er stundum á þann veg eins og einu verðmætin geti falist í veiðigjaldi eða gjaldi fyrir nýtingu auðlindarinnar,“ sagði Heiðrún Lind.

„Það að skattleggja greinina úr hófi mun leiða til þverrandi samkeppnishæfni. Það mun draga úr fjárfestingum, það verður minna svigrúm til að fjárfesta í nýsköpun og markaðsstarfi, öllu því sem á að leiða til verðmætasköpunar. Vel má vera að aukin gjaldtaka leiði til þess að meiri fjármunir fara í ríkissjóð til skamms tíma, en til lengri tíma litið mun það þýða þverrandi samkeppnishæfni og minni verðmæti. Og þannig að endingu minni verðmæti til bæði ríkissjóðs og samfélagsins.

Mér finnst umræðan oft einfölduð að þessu leyti, eins og að verðmætin verði til með því að við fáum skatt í formi auðlindagjaldsins. Ef að tekjur ríkisins á ári eru ríflega 900 milljarðar króna, þá hefur einn milljarður til eða frá í formi veiðigjalds ekki úrslitaáhrif í því hvort okkur takist að reka Landspítalann þannig að sómi sé af eða byggja tvær Hörpur á ári eða hvað sem að menn vilja að verði gert fyrir gjald af nýtingu auðlinda,“ sagði Heiðrún Lind.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar