Bach býr fyrir vestan

Auður Jónsdóttir gerir upp árið og segir að það sem hún muni helst sé fegurðin og hverfulleiki hennar. Í hverfulleikanum birtist fegurðin svo sterk.

Auglýsing

Ég gæti hafið þessa hug­leið­ingu á að skrifa: Guð býr í Bach. En það væri klisja. Frum­legra væri kannski að skrifa: Guð er dauður en Bach lif­ir. En það gæti farið skakkt ofan í ein­hverja, auk þess sem ég hef ekk­ert í hönd­unum sem sannar þá full­yrð­ing­u. 

En ég get þó full­yrt að laug­ar­dag­inn 20. júní árið 2020 hljóm­aði Bach sprell­lif­andi á Vest­fjörð­um. Og ég held að guð hafi líka spriklað af lífi á meðan Bach hljóm­aði, sam­kvæmt skiln­ingi hvers og eins sem á hlýddi. Guð í ein­hverri mynd. Í huga ein­hvers gljá­andi feitur fisk­ur, í huga ann­ars eitt­hvað óræð­ara, stærra ... eitt­hvað eins og Bach. Árið 2020 lifir guð í ótelj­andi ásýnd­um, þó að hann eigi að heita marg­dauð­ur. 

Þetta skrýtna, skrýtna ár ... sem var að líða. Eitt­hvað svo óvænt skreið inn í til­ver­una, í fyrstu í líki dul­ar­fullra frétta frá fjar­lægu Kína – ef eitt­hvað er til enn þann dag í dag sem heitir fjar­lægð. En frétt­irnar voru fjar­læg­ar, svipað að lesa um veiru í Kína og gam­alt morð á ein­hverjum James í Nebr­aska í saka­mála­dálkum dag­blað­anna, svo fjar­lægar að maður veltir vöngum yfir hvort téður James hafi verið til eða hvort það sé til­viljun að svo margir myrtir heiti einmitt James. En svo færð­ust frétt­irnar nær, skyndi­lega á ógn­ar­hraða. Allt í einu voru við öll lokuð inni, við blöstu myndir af fjölda­gröfum í kunn­ug­legum borg­um, í næstu götu mátti sjá sjúkra­liða í geim­veru­bún­ingum og á næt­urna heyrði kona búsett í mið­borg­inni hljóð í þyrlu eins og á stríðs­tíma. 

Auglýsing

Eitt augna­blik vissum við ekk­ert, vorum við kannski öll feig? Ein­hver voru það. Og kannski eiga fleiri eftir að deyja hér á landi áður en við verðum bólu­sett. Veiru sem gerði það að verkum að hvers­dags­legt atferli okkar var skyndi­lega orðið að áhættu­hegðun og í trássi við lög og regl­ur. 

Þjóð­arsálin

Og hvað stendur upp úr á þessu skrýtna ári? 

Feg­urð­in, hugsa ég – af ásetn­ingi því ef feg­urð er merk­ingin sem ég legg í veru­leik­ann, þá verður hún raun­veru­leik­inn. Eft­ir­minni­leg­asta augna­blik mitt þetta árið er ekki þyrlu­hljóð um nótt í aðþrengdri inni­lokun heldur sell­ótónar í gam­alli kirkju á Vest­fjörðum á sum­ar­sól­stöð­um, þegar víð­áttan var algjör og him­inn rann saman við sjó­inn í botn­lausum bláma. 

Ef ekki fyrir kóvid, þá hefði ég farið með son minn í sum­ar­frí til útlanda en fyrir sakir þess ferð­uð­umst við inn­an­lands og fórum á Bach-tón­leika fyrir vest­an. Ég leigði gam­alt timb­ur­hús á Ísa­firði fyrir mig, son minn, syst­ur­dóttur og vin­konu mína sem er spá­kona. Satt að segja eru hún mjög vin­sæl spá­kona sem annar aldrei biðlist­an­um, alls­konar fólki úr öllum stéttum og á öllum aldri, nokkuð sem segir heil­mikið um þjóð­arsál­ina, býst ég við. 

Ég fór í fyrsta skipti til hennar í inn­grónum mann­lífs­á­huga rit­höf­undar en for­vitnin ágerð­ist þegar hún eygði gamlar sögur í lífi mínu jafnt sem sögur sem áttu eftir að ræt­ast. Vin­kona mín er tölu­vert eldri en ég, komin yfir sex­tugt en spræk eins og bæj­ar­lækur með húð unga­barns og augu sem tindra lif­andi. Hún var dræver­inn á leið­inni vestur en börnin sátu aftur í og veltu fyrir sér hvernig firðir gætu verið enda­laus­ir, eins og leið­inni myndi aldrei ljúka, það sem eftir lifði yrðum við stöðugt að keyra innar og innar í fjörð fullan af sjó­fugl­um, blóð­bergi og sjó. Og svo allt í einu vorum við kom­in.

Við gistum í svo nota­legu húsi í Tang­ar­götu að mér leið strax eins og ég hefði alltaf átt heima þar, og kannski, ef tím­inn er afstæð­ur, hef ég það. Börn­unum leið svip­að, álíka fjörug og fugl­arnir sem tímdu ekki að fara að sof­a. 

Stuttu áður hafði ég rek­ist á kunn­ingja á förnum vegi, Greip Gísla­son, sem sagði mér að hann væri að skipu­leggja tón­leika fyrir vest­an, þar sem Sæunn Þor­steins­dóttir myndi leika sex sell­ósvítur Jóhanns Sebast­ian Bach í jafn mörgum kirkjum á norð­an­verðum vest­fjörð­um. Til­efn­ið: 300 ár síðan Bach skrif­aði þær og aftur virt­ist tím­inn afstæð­ur. 

Um leið og ég heyrði þetta varð ég stað­ráðin í að upp­lifa það. Og svipað gilti um spá­kon­una þegar hún heyrði af þessu; eitt­hvað, ég veit ekki hvað, hvísl­aði að hún yrði að fara vest­ur. 

Fyrir til­viljun örlag­anna, eins háfleygt og það hljóm­ar, voru mamma mín og bróðir stödd á gisit­heim­ili á Ísa­firði og um morg­un­inn heimt­uðu börnin að vera frekar með þeim en að fara á tón­leika í sól­skin­inu svo við spá­konan brun­uðum tvær til Þing­eyr­ar. 

Feg­urðin birt­ist í kóf­inu

Ver­öldin eins fögur og hún getur orð­ið, sólin bað­aði fjöll­inn, móana og sjó­inn, allt svo ferskt og nývaknað eins og við tvær. Fyrstu tón­leik­ar­arni liðu í transi í kirkju á Þing­eyri og þegar þeim lauk keyrðum við yfir að Mýrum handan Dýra­fjarðar og sett­umst inn í gamla kirkju. Þar sem ég sat á bekk við glugga og horfð á sjó­inn glitra í sól­inni, upp­numin yfir feg­urð­inni, trúði ég varla að aðeins fyrir stuttu síðan hefði ég verið lokuð inni heima hjá mér í ein­veru vikum saman í skamm­degi og hríð­ar­byl, yfir enda­lausum ham­fara­f­réttum tengdum dul­ar­fullri veiru, og fund­ist heim­ur­inn vera að enda. 

Dýrafjörður Mynd: Aðsend

Á þessu augna­bliki, að bíða tón­leika, nýbúin að upp­lifa fyrstu sell­ósvít­una, leið mér frekar eins og ég væri sjó­fugl og varð hugsað til þess að hafa sungið þessar línur í lagi þegar ég var lítil í kór: Í nótt mig dreymdi ham­ingj­una, hún var háfleyg eins og fugl, við kletta­brún ... 

Mér fannst ég standa á bjarg­brún og sjá feg­urð­ina blasa við, við­búin að geta hrapað á hverri stundu. Og ein­hvern veg­inn þannig endar skáld­saga eftir mig sem heitir Stóri skjálfti og kom út árið 2015. Önnur til­viljun örlag­anna hafði gert að verkum að tón­skáldið Páll Ragnar Páls­son hafði inn­blás­inn samið verk upp úr henni sem heitir Quake og var til­einkað selló­leik­ar­anum Sæunni Þor­steins­dóttur – sem hafði einmitt flutt það á sínum tíma. Þannig tengd­ist ég henni í gegnum orð og tóna. Og nú, allt í einu, stóð ég á þess­ari bjarg­brún, og skynj­aði svo kröft­uga feg­urð að mig sundl­aði um leið og ég fann, eftir vorið og vet­ur­inn, að ég gæti hvenær sem er hrap­að. 

Sæunn Þorsteinsdóttir Mynd: Auður Jónsdóttir

Og einmitt þessi stund, þegar feg­urðin birt­ist mér svo sterk og um leið svo hverf­ul, er það sem ég á eftir að muna helst frá árinu 2020. 

Spá­konan upp­lifði eitt­hvað svip­að, hún lygndi aftur aug­unum eins og hún væri horfin í annan heim. Raunar voru flestir á tón­leik­unum horfnir á yfir­skil­vit­legan stað meðan Sæunn lék á sell­óið og galdr­aði úr því eitt­hvað af öðrum heimi – eða kannski einmitt ekki – heldur einmitt af þessum heim­i. 

Seinna sagði spá­konan mér að Sæunn hefði verið umkringd hátíðni ver­um. Hún vildi meina, af því sem hún skynj­aði, að á ein­hvern hátt væri það ekki til­viljun að Sæunn hefði leikið einmitt þetta verk, á þessum stað. Ég sá ekki það sem hún sá, ég sé aldrei neitt nema bara merk­ing­una sem ég legg sjálf í veru­leik­ann, en á þess­ari stundu var skynjun mín svosem ekki ósvipuð henn­ar. Það sem við skynj­uðum báðar var botn­laus feg­urð – sem hvor um sig eygði á sinn hátt. 

Ég veit ekki hvernig nýja árið verð­ur, en ég veit að árið 2020 var þessi stund, svo sterk einmitt af því vorið hafði verið svo aðþrengt. Feg­urðin birt­ist mér í kóf­inu. Bjarg­brún­in.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá spítala í Manaus í gær. Þar skortir súrefni, sem hefur valdið ónauðsynlegum dauðsföllum bæði COVID-sjúklinga og annarra.
„Brasilíska afbrigðið“: Bretar herða reglur og súrefnið klárast í stórborg í Amazon
Faraldsfræðingur í Manaus í Brasilíu segir borgina að verða sögusvið eins sorglegasta kafla COVID-19 faraldursins hingað til. Súrefni skortir og nýburar eru fluttir í burtu. Á sama tíma grípa Bretar til hertra aðgerða til að verjast nýjum afbrigðum.
Kjarninn 15. janúar 2021
Eyþór Eðvarðsson
Þurfum stærri aðgerðir í loftslagsmálum
Kjarninn 15. janúar 2021
Telur mikilvægt að finna lausn sem gagnast ferðaþjónustunni betur
Starfshópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins telur að hægt sé að auka hagvöxt um sex prósentustig með því að biðja komufarþega að framvísa neikvæðu vottorði gegn COVID-19 á landamærum og sleppa við 5-6 daga sóttkví við komuna til landsins.
Kjarninn 15. janúar 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Segir ákall eftir sölu Íslandsbanka koma frá væntanlegum kaupendum, ekki almenningi
Forseti ASÍ bendir á að kannanir sýni lítinn stuðning almennings við sölu á banka í ríkiseigu. Í könnun sem gerð var við vinnslu hvítbókar um fjármálakerfið sögðust 61,2 prósent aðspurðra vera jákvæðir gagnvart því að íslenska ríkið sé eigandi banka.
Kjarninn 15. janúar 2021
Velferðarnefnd Alþingis hefur verið að funda stíft um breytingar á sóttvarnalögum undanfarna daga.
Vonast til að hægt verði að klára sóttvarnalögin í næstu viku
„Ég hef væntingar til þess að klára málið í næstu viku,“ segir Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður VG og varaformaður velferðarnefndar. Helga Vala Helgadóttir formaður nefndarinnar segist ekki skilja ákvörðun ríkisstjórnarinnar um skylduskimun á landamærum.
Kjarninn 15. janúar 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Tvöföld landamæraskimun verður skylda strax í dag
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag að afnema möguleikann á því að þeir sem til landsins koma fari í sóttkví í stað tvöfaldrar skimunar með 5 daga sóttkvi. „Neyðarúrræði“ sem tekur gildi strax í dag, segir heilbrigðisráðherra.
Kjarninn 15. janúar 2021
Auður Jónsdóttir
Góðborgarablindan
Kjarninn 15. janúar 2021
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir
Hey Siri, talarðu íslensku? En þú Embla?
Kjarninn 15. janúar 2021
Meira úr sama flokkiÁlit