Aðgerðasinnar gegn arðráni

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fer yfir árið en hún segir að við getum kollvarpað því „helsjúka gangverki sem við höfum verið látin taka þátt í“. Við getum sjálf ákveðið forgangsröðunina – gildin.

Auglýsing

Lág­launa­konur í umönn­un­ar­störf­um, lægst laun­aða vinnu­afl hins dásamaða íslenska vinnu­mark­aðar í þess­ari dásam­legu íslensku jafn­réttispara­dís og félagar þeirra, ganga til atkvæða­greiðslu um að leggja niður störf. Þær hafa verið í hat­rammri kjara­deilu við Reykja­vík­ur­borg vikum sam­an. Nið­ur­staðan úr atkvæða­greiðsl­unni er afger­andi, met er sleg­ið: 60% þátt­taka, 95,5% segja já við verk­falls­að­gerð­um.

Stjórar borg­ar­inn­ar, meritókrasía íslenskrar jafn­að­ar­mennsku og nor­ræns kven­frels­is, hafa ekk­ert gert til að leysa deil­una og virð­ast raun­veru­lega hissa á því að allar þessar kon­ur, allt þetta fólk, allar þessar vinnu­konur og vinnu­menn séu svona langt leidd af andúð á eigin kjörum, svo langt leidd að þau ætli bara að hætta að vinna.

Verk­falls­að­gerðir hefj­ast og andúð borg­ara­stétt­ar­innar á kon­unum sem gæta barn­anna, kon­unum sem aðstoða gamla fólki, kon­unum sem umann­ast nær ótrú­legum hæð­um. Þær eru ógeðs­leg­ar, vond­ar. Þær taka börn í gísl­ingu í sjúkri her­ferð gegn borg­ar­stjóra. Þær eru knúnar áfram að ann­ar­legum hvöt­um, ann­ar­legum konu­hvöt­um. Þær eru geð­veik­ar; í jafn­réttisparadís­inni er það til marks um eðli­lega geð­heilsu lág­launa­konu að halda áfram að halda kjafti og þola ofur arðránið af þess­ari lág­stemmdu litlu-­konu fórn­fýsi sem öll hafa lært að njóta. Þegar hún réttir úr sér og sendir stjór­unum fing­ur­inn, svona rétt áður en hún stingur hönd­unum í vas­ann og neitar að vinna er hún orðin geð­veik. Bara ef það væri til upp­töku­heim­ili fyrir geð­veikar lág­launa­kon­ur. 

Auglýsing

Á meðan hefur heims­far­ald­ur­inn sest að á eyju tæki­fær­anna. Fjöldi verka og lág­launa­fólks missir vinn­una vegna sótt­varna­að­gerða stjórn­valda. En við erum öll í þessu sam­an. Tals­menn eig­enda atvinnu­tækj­anna, Sam­tök atvinnu­lífs­ins, byrja her­ferð sína gegn hags­munum fólks­ins á lægstu laun­un­um; ekk­ert er í ver­öld­inni mik­il­væg­ara en að lág­launa­fólkið fái ekki umsamdar launa­hækk­an­ir. Ekk­ert annað mun bjarga Íslandi; við erum öll í þessu saman og þess vegna hefur aldrei verið mik­il­væg­ara en nú að verka­fólk sýni ást sína á Íslandi með því að fórna sér. Ef þau vilja ekki fórna sér eru þau ekki öll í þessu saman og aug­ljós­lega geð­veik. Verka og lág­launa­fólk ætlar ekki að afsala sér samn­ings­bundnum hækk­un­um, ergo, þau eru geð­veik. Bara ef að til væri upp­töku­heim­ili fyrir allt þetta ógeðs­lega verka og lág­launa­fólk þar sem hægt væri að kenna þeim hvað það þýðir að vera öll í þessu sam­an. 

Seint í maí ber­ast fréttir af því að for­maður Sam­taka atvinnu­lífs­ins, helstu bar­áttu­sama­taka Íslands fyrir því að lág­launa­fólk afsali sér samn­ings­bundnum hækk­unum eða skuli ann­ars geð­veik talin vera, hafi ákveðið að veita sjálfum sér umsamdar launa­hækk­anir Lífs­kjara­samn­ings­ins fyrir stjórn­ar­setu í fast­eigna­fé­lag­inu Eik. Það er ekki talið til marks um hatur hans á Íslandi og hann er ekki kall­aður ógeðs­legur brjál­æð­ingur með ann­ar­legar hvatir í leið­urum dag­blaða. 

Hús brennur í hjarta borg­ar­inn­ar. Þrjár mann­eskjur láta lífið í elds­voð­an­um, tvær konur og einn karl. 22 ára, 25 ára, 26 ára. Mann­fólk að hefja sína full­orð­ins­til­veru. Öll komu þau hingað til að selja aðgang að vinnu­afl­inu sínu á besta landi í heimi. Slökkvi­liðs­fólk er heilan dag að berj­ast við eld­inn. Aðstæður eru hræði­leg­ar. Fólk kastar sér út um glugga húss­ins til að reyna að sleppa undan eld­in­um. „Sá mikli hraði sem var á eldút­breiðsl­unni og sú stað­reynd að fólk var fast inni í hús­inu gerði slökkvi­lið­inu erfitt fyr­ir. Þá voru á vett­vangi lífs­hættu­lega slasað fólk, slasað fólk og margir sjón­ar­vottar í miklu upp­námi,“ segir í opin­berri skýrslu um atburð­inn. Reyk­ur­inn berst í gegnum mið­bæ­inn og hann smýgur inn um glugga Alþing­is­hús­ins. Alþing­is­menn láta loka glugg­un­um. Að kvöldi hins skelfi­lega dags, hins óbæri­lega dags, dags hins mikla harm­leiks fer for­sæt­is­ráð­herra á Twitter og skrifar færslu fulla af fögn­uði yfir sigri fóboltaliðs í útlönd­um. Í ljós kemur að árum saman var full­komin vit­neskja um það alls­staðar í búrókrasín­unni að húsið væri óíbú­ar­hæft. Ekk­ert var þó að gert af þeim sem með völdin fara. Eng­inn gerði neitt, það var gríð­ar­legt og magnað sam­ræmi í aðgerð­ar­leysi allra. 

Í sum­ar­lok kemur félags­mála­ráð­herra á fjöl­mennan fund for­manna verka­lýðs­fé­laga. Þar lýsir hann því yfir að von sé á lang­þráðri við­bót við starfs­kjara­lög, þeirri við­bót er lofað var við und­ir­ritun Lífs­kjara­samn­ings­ins. Text­inn er alveg að koma, ég lofa því, segir hann. Sam­tök atvinnu­lífs­ins hafa fram að þessu lagst mjög gegn því að launa­þjófn­aður verði upp­rættur en nú er text­inn alveg að koma, sam­kvæmt ráð­herra. Text­inn sem um ræðir á að vera um févíti. Hann á að fjalla um að loks­ins muni það bera afleið­ingar á Íslandi að stela launum frá vinnu­afl­inu. Fyrir verka- og lág­launa­fólk er þetta stór­kost­lega mik­il­vægt mál. Mörg hund­ruð millj­ónum er stolið á hverju ári af fólk­inu sem vinnur vinn­una, einna helst aðfluttu verka­fólki, án afleið­inga. Besti vinnu­mark­að­ur­inn á besta land­inu þar sem við erum öll í þessu sam­an. Ég lofa því að þetta er alveg að koma, segir félags­mála­ráð­herra. 

Ekk­ert kem­ur. Um miðjan des­em­ber ber­ast af því fregnir að loks­ins sé text­inn alveg að verða til­bú­inn. Afrakstur vinnu sem staðið hefur yfir frá því árið 2019, vinnu sem til­komin er vegna afdrátt­ar­lausrar kröfu vinnu­aflsins um að launa­þjófn­aður verði upp­rættur á Íslandi er sam­kvæmt fregn­unum eitt­hvað á þessa leið: Ef þú verður fyrir launa­þjófn­aði þarftu fyrst að láta verka­lýðs­fé­lagið þitt vita. Það lætur þá Vinnu­mála­stofnun vita. Vinnu­mála­stofnun hugsar sig um. Þegar Vinnu­mála­stofnun er búin að hugsa sig um lætur hún kannski sér­staka nefnd vita. Ef sér­staka nefndin sér ástæðu til mun sér­staka nefndin hugsa sig um. Að því loknu tekur sér­staka nefndin kannski ákvörðum um að þú fáir eitt­hvað að því sem stolið var af þér. Ekki gleyma, við erum öll í þessu sam­an. Sam­staðan er svo mik­il­væg, manstu?

Fréttir ber­ast af því að aldrei hafi fleiri leitað á náðir íslenskra hjálp­ar­sam­taka vegna alls­leys­is. Þau sem strit­uðu á lág­marks­launum eru nú án vinnu og eiga ekk­ert. Þau gátu aldrei lagt fyrir af sínum lágu laun­um, allt fór í að borga leigu og kaupa mat. Nú eiga þau ekki lengur fyrir mat. Tals­menn hjálp­ar­sam­taka stíga fram hver á fætur öðrum: „Ástandið er hræði­legt, við höfum aldrei upp­lifað annað eins. Atvinnu­leysið hefur orsakað neyð­ar­á­stand.“ Full­trúar vinn­andi fólks krefj­ast þess að bætur verði hækk­að­ar. En þá heyr­ist blásið í her­lúðra í Húsi atvinnu­lífs­ins: Ekki kemur til greina að hækka bæt­ur. Því sjá­iði til: Ef að þær verða hækk­aðar er ekki lengur hvati til atvinnu­leit­ar. Ves­al­ing­arnir leggj­ast þá í leti. Við þurfum öll að vera saman í að koma í veg fyrir þann harm­leik.

Með­limir Lúðra­sveitar arð­ræn­ingja flytja ýmis verk sín við hvert tæki­færi og um tíma heyr­ist lítið annað en ofsa­feng­inn trumbu­sláttur og lúðra­þytur fremstu hljóð­færa­leik­ara sveit­ar­inn­ar. Lagið „Við erum öll í þessu sam­an, haltu kjafti og hlýddu, fíflið þitt“ nær gríð­ar­legum vin­sældum og kemst í efsta sæti spil­un­ar­-lista allra helstu ljós­vaka­miðla. Til að tryggja að fólk verði ekki þreytt á lag­inu eru kall­aðir til ýmsir gestaflytj­endur sem tvinna við text­ann að vild en við­lagið er ávallt hið sama: „Ekk­ert mun bjarga Íslandi nema að verka- og lág­launa­fólk sam­þykki að afsala sér kjara­samn­ings­bundnum launa­hækk­un­um.“ Þau sem ekki taka undir með Hall­elúja hrópum gospel-kórs­ins og gesta­sönga­var­anna eru sam­stundis kölluð ógeðs­legir geð­sjúk­lingar sem hata Ísland. Á end­anum sam­þykkir rík­is­stjórnin að borga 25 millj­arða og þá er lagið tekið úr stöðrugri spil­un. Það heyr­ist þó enn spilað við og við. Eitt­hvað verða menn að hressa sig við á þessum erf­iðu tím­um. 

„This shit is where we are“, hér erum við saman kom­in. Enn ein sölu-­sýn­ingin á verk­inu „Hverjir eiga og mega“ að klár­ast. Það er of seint að standa upp og ganga út. Það er of seint að púa á flytj­end­ur, hrekja þá af svið­inu. Við þurfum ekki að klappa en það er of seint að stoppa vit­leys­una. Upp­setn­ingin var öll­sömul ófor­svar­an­legt verk­efni, verri og ömur­legri en þær sem settar hafa verið upp síð­ustu ár og voru þær þó slæm­ar. Við sáum í gegnum hana en við sátum í gegnum hana engu að síð­ur. Því mið­ur.

Það er of seint að breyta því sem orðið er. Það vitum við öll, lífs­reynd og full­orð­in. En við getum sett upp sýn­ingu til höf­uðs þeirri sem við höfum verið látin taka þátt ár eftir ár eftir ár. Enda er hún úrelt og ömur­legt drasl, óbæri­leg að öllu leyti. Við getum tekið yfir sýn­ing­ar­stjórn­ina. Við getum sett upp sýn­ingu á verki sem við sjálf semjum, bylt­ing­ar­kenndu og fram­úr­stefnu­legu. Við getum sjálf samið eigin lín­ur, sjálf samið eigin frá­sögn. Við gerum koll­varpað því hel­sjúka gang­verki sem við höfum verið látin taka þátt í. Við getum sjálf ákveðið for­gangs­röð­un­ina, gild­in. Við getum sjálf ákveðið verð­mæta­mat­ið. Við gerum sjálf ákveðið virði okkar sjálfra. Við getum sjálf ákveðið hvað við eigum skil­ið. Við gerum sett upp verkið „Að­gerða­sinnar gegn arðrán­i“, bæði samið hand­ritið og stýrt upp­setn­ing­unni. Við öll sem þekkjum arðránið af eigin per­sónu­legu reynslu, getum öll verið saman í því. Og ég treysti mér til að full­yrða: Það væri sann­ar­lega til­raun­ar­innar virði. Á þessum tíma­punkti er nákvæm­lega ekk­ert annað meira virði en nákvæm­lega það. 

Höf­undur er for­maður Efl­ingar

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiÁlit