Aðgerðasinnar gegn arðráni

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fer yfir árið en hún segir að við getum kollvarpað því „helsjúka gangverki sem við höfum verið látin taka þátt í“. Við getum sjálf ákveðið forgangsröðunina – gildin.

Auglýsing

Láglaunakonur í umönnunarstörfum, lægst launaða vinnuafl hins dásamaða íslenska vinnumarkaðar í þessari dásamlegu íslensku jafnréttisparadís og félagar þeirra, ganga til atkvæðagreiðslu um að leggja niður störf. Þær hafa verið í hatrammri kjaradeilu við Reykjavíkurborg vikum saman. Niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni er afgerandi, met er slegið: 60% þátttaka, 95,5% segja já við verkfallsaðgerðum.

Stjórar borgarinnar, meritókrasía íslenskrar jafnaðarmennsku og norræns kvenfrelsis, hafa ekkert gert til að leysa deiluna og virðast raunverulega hissa á því að allar þessar konur, allt þetta fólk, allar þessar vinnukonur og vinnumenn séu svona langt leidd af andúð á eigin kjörum, svo langt leidd að þau ætli bara að hætta að vinna.

Verkfallsaðgerðir hefjast og andúð borgarastéttarinnar á konunum sem gæta barnanna, konunum sem aðstoða gamla fólki, konunum sem umannast nær ótrúlegum hæðum. Þær eru ógeðslegar, vondar. Þær taka börn í gíslingu í sjúkri herferð gegn borgarstjóra. Þær eru knúnar áfram að annarlegum hvötum, annarlegum konuhvötum. Þær eru geðveikar; í jafnréttisparadísinni er það til marks um eðlilega geðheilsu láglaunakonu að halda áfram að halda kjafti og þola ofur arðránið af þessari lágstemmdu litlu-konu fórnfýsi sem öll hafa lært að njóta. Þegar hún réttir úr sér og sendir stjórunum fingurinn, svona rétt áður en hún stingur höndunum í vasann og neitar að vinna er hún orðin geðveik. Bara ef það væri til upptökuheimili fyrir geðveikar láglaunakonur. 

Auglýsing

Á meðan hefur heimsfaraldurinn sest að á eyju tækifæranna. Fjöldi verka og láglaunafólks missir vinnuna vegna sóttvarnaaðgerða stjórnvalda. En við erum öll í þessu saman. Talsmenn eigenda atvinnutækjanna, Samtök atvinnulífsins, byrja herferð sína gegn hagsmunum fólksins á lægstu laununum; ekkert er í veröldinni mikilvægara en að láglaunafólkið fái ekki umsamdar launahækkanir. Ekkert annað mun bjarga Íslandi; við erum öll í þessu saman og þess vegna hefur aldrei verið mikilvægara en nú að verkafólk sýni ást sína á Íslandi með því að fórna sér. Ef þau vilja ekki fórna sér eru þau ekki öll í þessu saman og augljóslega geðveik. Verka og láglaunafólk ætlar ekki að afsala sér samningsbundnum hækkunum, ergo, þau eru geðveik. Bara ef að til væri upptökuheimili fyrir allt þetta ógeðslega verka og láglaunafólk þar sem hægt væri að kenna þeim hvað það þýðir að vera öll í þessu saman. 

Seint í maí berast fréttir af því að formaður Samtaka atvinnulífsins, helstu baráttusamataka Íslands fyrir því að láglaunafólk afsali sér samningsbundnum hækkunum eða skuli annars geðveik talin vera, hafi ákveðið að veita sjálfum sér umsamdar launahækkanir Lífskjarasamningsins fyrir stjórnarsetu í fasteignafélaginu Eik. Það er ekki talið til marks um hatur hans á Íslandi og hann er ekki kallaður ógeðslegur brjálæðingur með annarlegar hvatir í leiðurum dagblaða. 

Hús brennur í hjarta borgarinnar. Þrjár manneskjur láta lífið í eldsvoðanum, tvær konur og einn karl. 22 ára, 25 ára, 26 ára. Mannfólk að hefja sína fullorðinstilveru. Öll komu þau hingað til að selja aðgang að vinnuaflinu sínu á besta landi í heimi. Slökkviliðsfólk er heilan dag að berjast við eldinn. Aðstæður eru hræðilegar. Fólk kastar sér út um glugga hússins til að reyna að sleppa undan eldinum. „Sá mikli hraði sem var á eldútbreiðslunni og sú staðreynd að fólk var fast inni í húsinu gerði slökkviliðinu erfitt fyrir. Þá voru á vettvangi lífshættulega slasað fólk, slasað fólk og margir sjónarvottar í miklu uppnámi,“ segir í opinberri skýrslu um atburðinn. Reykurinn berst í gegnum miðbæinn og hann smýgur inn um glugga Alþingishúsins. Alþingismenn láta loka gluggunum. Að kvöldi hins skelfilega dags, hins óbærilega dags, dags hins mikla harmleiks fer forsætisráðherra á Twitter og skrifar færslu fulla af fögnuði yfir sigri fóboltaliðs í útlöndum. Í ljós kemur að árum saman var fullkomin vitneskja um það allsstaðar í búrókrasínunni að húsið væri óíbúarhæft. Ekkert var þó að gert af þeim sem með völdin fara. Enginn gerði neitt, það var gríðarlegt og magnað samræmi í aðgerðarleysi allra. 

Í sumarlok kemur félagsmálaráðherra á fjölmennan fund formanna verkalýðsfélaga. Þar lýsir hann því yfir að von sé á langþráðri viðbót við starfskjaralög, þeirri viðbót er lofað var við undirritun Lífskjarasamningsins. Textinn er alveg að koma, ég lofa því, segir hann. Samtök atvinnulífsins hafa fram að þessu lagst mjög gegn því að launaþjófnaður verði upprættur en nú er textinn alveg að koma, samkvæmt ráðherra. Textinn sem um ræðir á að vera um févíti. Hann á að fjalla um að loksins muni það bera afleiðingar á Íslandi að stela launum frá vinnuaflinu. Fyrir verka- og láglaunafólk er þetta stórkostlega mikilvægt mál. Mörg hundruð milljónum er stolið á hverju ári af fólkinu sem vinnur vinnuna, einna helst aðfluttu verkafólki, án afleiðinga. Besti vinnumarkaðurinn á besta landinu þar sem við erum öll í þessu saman. Ég lofa því að þetta er alveg að koma, segir félagsmálaráðherra. 

Ekkert kemur. Um miðjan desember berast af því fregnir að loksins sé textinn alveg að verða tilbúinn. Afrakstur vinnu sem staðið hefur yfir frá því árið 2019, vinnu sem tilkomin er vegna afdráttarlausrar kröfu vinnuaflsins um að launaþjófnaður verði upprættur á Íslandi er samkvæmt fregnunum eitthvað á þessa leið: Ef þú verður fyrir launaþjófnaði þarftu fyrst að láta verkalýðsfélagið þitt vita. Það lætur þá Vinnumálastofnun vita. Vinnumálastofnun hugsar sig um. Þegar Vinnumálastofnun er búin að hugsa sig um lætur hún kannski sérstaka nefnd vita. Ef sérstaka nefndin sér ástæðu til mun sérstaka nefndin hugsa sig um. Að því loknu tekur sérstaka nefndin kannski ákvörðum um að þú fáir eitthvað að því sem stolið var af þér. Ekki gleyma, við erum öll í þessu saman. Samstaðan er svo mikilvæg, manstu?

Fréttir berast af því að aldrei hafi fleiri leitað á náðir íslenskra hjálparsamtaka vegna allsleysis. Þau sem strituðu á lágmarkslaunum eru nú án vinnu og eiga ekkert. Þau gátu aldrei lagt fyrir af sínum lágu launum, allt fór í að borga leigu og kaupa mat. Nú eiga þau ekki lengur fyrir mat. Talsmenn hjálparsamtaka stíga fram hver á fætur öðrum: „Ástandið er hræðilegt, við höfum aldrei upplifað annað eins. Atvinnuleysið hefur orsakað neyðarástand.“ Fulltrúar vinnandi fólks krefjast þess að bætur verði hækkaðar. En þá heyrist blásið í herlúðra í Húsi atvinnulífsins: Ekki kemur til greina að hækka bætur. Því sjáiði til: Ef að þær verða hækkaðar er ekki lengur hvati til atvinnuleitar. Vesalingarnir leggjast þá í leti. Við þurfum öll að vera saman í að koma í veg fyrir þann harmleik.

Meðlimir Lúðrasveitar arðræningja flytja ýmis verk sín við hvert tækifæri og um tíma heyrist lítið annað en ofsafenginn trumbusláttur og lúðraþytur fremstu hljóðfæraleikara sveitarinnar. Lagið „Við erum öll í þessu saman, haltu kjafti og hlýddu, fíflið þitt“ nær gríðarlegum vinsældum og kemst í efsta sæti spilunar-lista allra helstu ljósvakamiðla. Til að tryggja að fólk verði ekki þreytt á laginu eru kallaðir til ýmsir gestaflytjendur sem tvinna við textann að vild en viðlagið er ávallt hið sama: „Ekkert mun bjarga Íslandi nema að verka- og láglaunafólk samþykki að afsala sér kjarasamningsbundnum launahækkunum.“ Þau sem ekki taka undir með Hallelúja hrópum gospel-kórsins og gestasöngavaranna eru samstundis kölluð ógeðslegir geðsjúklingar sem hata Ísland. Á endanum samþykkir ríkisstjórnin að borga 25 milljarða og þá er lagið tekið úr stöðrugri spilun. Það heyrist þó enn spilað við og við. Eitthvað verða menn að hressa sig við á þessum erfiðu tímum. 

„This shit is where we are“, hér erum við saman komin. Enn ein sölu-sýningin á verkinu „Hverjir eiga og mega“ að klárast. Það er of seint að standa upp og ganga út. Það er of seint að púa á flytjendur, hrekja þá af sviðinu. Við þurfum ekki að klappa en það er of seint að stoppa vitleysuna. Uppsetningin var öllsömul óforsvaranlegt verkefni, verri og ömurlegri en þær sem settar hafa verið upp síðustu ár og voru þær þó slæmar. Við sáum í gegnum hana en við sátum í gegnum hana engu að síður. Því miður.

Það er of seint að breyta því sem orðið er. Það vitum við öll, lífsreynd og fullorðin. En við getum sett upp sýningu til höfuðs þeirri sem við höfum verið látin taka þátt ár eftir ár eftir ár. Enda er hún úrelt og ömurlegt drasl, óbærileg að öllu leyti. Við getum tekið yfir sýningarstjórnina. Við getum sett upp sýningu á verki sem við sjálf semjum, byltingarkenndu og framúrstefnulegu. Við getum sjálf samið eigin línur, sjálf samið eigin frásögn. Við gerum kollvarpað því helsjúka gangverki sem við höfum verið látin taka þátt í. Við getum sjálf ákveðið forgangsröðunina, gildin. Við getum sjálf ákveðið verðmætamatið. Við gerum sjálf ákveðið virði okkar sjálfra. Við getum sjálf ákveðið hvað við eigum skilið. Við gerum sett upp verkið „Aðgerðasinnar gegn arðráni“, bæði samið handritið og stýrt uppsetningunni. Við öll sem þekkjum arðránið af eigin persónulegu reynslu, getum öll verið saman í því. Og ég treysti mér til að fullyrða: Það væri sannarlega tilraunarinnar virði. Á þessum tímapunkti er nákvæmlega ekkert annað meira virði en nákvæmlega það. 

Höfundur er formaður Eflingar

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sjókvíaeldi hefur aukist hratt á síðustu árum
Sjókvíaeldi hefur 13-faldast á sex árum
Umfang laxeldis hefur margfaldast á síðustu árum og útlit er fyrir að það muni vaxa enn frekar í náinni framtíð. Gangi spár eftir mun sjókvíaeldi á laxi árið 2023 verða tæplega helmingi meira en það var samanlagt á árunum 2010-2018.
Kjarninn 7. maí 2021
Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars síðastliðinn.
„Nýr ógnvaldur“ við heilsu manna kominn fram á suðvesturhluta Íslands
Lungnalæknir segir að lítið sé vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu. Nauðsynlegt sé að rannsóknir hefjist sem fyrst.
Kjarninn 7. maí 2021
Viðsnúningur Bandaríkjanna í óþökk lyfjarisa
Óvænt og fremur óljós stefnubreyting Bandaríkjanna varðandi afnám einkaleyfa af bóluefnum gegn COVID-19 hefur vakið litla kátínu í lyfjageiranum. Deildar meiningar eru um hvort afnám einkaleyfa kæmi til með að hraða framleiðslu bóluefna.
Kjarninn 7. maí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Ísland skoðar að kaupa 100 þúsund skammta af Spútnik V og vill fá þorra þeirra fyrir 2. júní
Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra sem framleiða og markaðssetja hið rússneska Spútnik V bóluefni. Ísland myndi vilja fá að minnsta kosti 75 þúsund skammta fyrir 2. júní.
Kjarninn 7. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Sonos fær uppreist æru og Framsóknarmaður vill aldurstakmark á snjalltæki
Kjarninn 7. maí 2021
Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Meira úr sama flokkiÁlit