Á einu ári hefur ásókn fjárfesta í fyrirtækið Tesla, sem þekktast er fyrir rafbílaframleiðslu sína, aukist gríðarlega og gert það að langverðmætasta bílaframleiðanda heimsins.
Þrátt fyrir það eru sölutölur fyrirtækisins agnarsmáar miðað við helstu keppinauta þess, en miklar vonir eru bundnar við hraðan vöxt bílaframleiðandans á næstu misserum. Aftur á móti er óvíst hversu lengi rekstur fyrirtækisins geti verið arðbær, en greiningaraðilum greinir á hvort það sé í miðri hlutabréfabólu eða ekki.
Á heimasíðunni companiesmarketcap.com er listi yfir verðmætustu bílaframleiðendur heimsins, samkvæmt markaðsvirði þeirra í kauphöllum heimsins. Þar er Tesla langefst með markaðsvirði sem nemur tæpum 700 milljörðum Bandaríkjadala.
Í öðru sæti kemur Toyota, en markaðsvirði þess nær ekki einum þriðja af virði rafbílaframleiðandans. Raunar er virði Tesla meira en samanlagt virði allra sjö bílaframleiðanda sem eru í öðru til áttunda sæti listans, þ.e. Toyota, Volkswagen, BYD, NIO, Daimler, General Motors, Ferrari og BMW.
Mikil aukning í sölu
Háu markaðsvirði fyrirtækisins má að hluta til rekja til jákvæðrar rekstrarniðurstöðu þess á undanförnum misserum. Á síðasta ársfjórðungi náði Tesla að selja um 180 þúsund bíla, en með því sló fyrirtækið eigið sölumet sem náðist á ársfjórðungnum þar á undan með sölu tæplega 140 þúsund bíla. Til samanburðar seldi fyrirtækið aðeins um 20 þúsund bíla á hverjum ársfjórðungi árin 2016 og 2017, eins og sjá má á mynd hér að neðan.
Hins vegar eru sölutölur Tesla ekki ýkja stórar ef þær eru miðaðar við aðra stóra bílaframleiðendur. Til að mynda seldi Volkswagen 2,6 milljónir bíla á þriðja fjórðungi síðasta árs, sem er tæplega 19 sinnum meira en Tesla gerði á sama tímabili.
Samkvæmt umfjöllun The Detroit News um málið binda fjárfestar fyrirtækisins miklar vonir við framtíðarhorfur þess, en hlutabréfaverð Tesla hefur hækkað allhratt á síðustu mánuðum. Nú stendur virði hlutabréfanna í 738 Bandaríkjadölum á hlut og er það rúmlega sjöfalt meira en í byrjun síðasta árs.
Til viðbótar við mikla söluaukningu á síðustu misserum telur miðillinn upp aðra þætti sem gætu haft áhrif á framtíðarvæntingar fyrirtækisins, líkt og gott uppgjör fimm ársfjórðunga í röð, auk þess sem það sé leiðandi í þróun rafhlaðna og stýrikerfa fyrir rafbíla á heimsvísu. Þar að auki er bent á að áhugi fjárfesta á fyrirtækinu hafi aukist eftir að ákveðið var að lækka nafnverð hlutabréfa þess með því að fjölga hlutum í ágúst síðastliðnum.
Mengunarkvótar bjarga rekstrinum
Hins vegar er óvíst hversu lengi rekstrarniðurstaða Tesla haldist jafn jákvæð og hún hefur gert síðustu misseri, en samkvæmt Detroit News gengur fyrirtækinu illa að skila hagnaði á sölum bifreiða þess.
Fyrirtækið myndi myndi skila taprekstri ef ekki væri fyrir sérstakan mengunarkvóta sem það framselur öðrum bílaframleiðendum, en framleiðendurnir þurfa að kaupa slíkan kvóta ef þeir ná ekki yfirlýstum markmiðum bandarískra stjórnvalda um framleiðslu á rafbílum.
Í viðtali við Detroit News segir Erik Gordon, prófessor við Michigan-háskóla, að þessi tekjulind muni minnka í framtíðinni, þar sem rafbílaframleiðsla sé að aukast hjá öðrum bílaframleiðendum. „ Á einhverjum tímapunkti mun Tesla þurfa að sanna sig sem fyrirtæki, ekki bara sem fyrirbæris á hlutabréfamarkaðnum,“ segir Gordon.
Bóla eða ekki bóla?
Hröð og mikil verðhækkun Tesla á hlutabréfamarkaði hefur vakið umtal í bandarísku kauphöllinni á Wall Street og eru sumir greiningaraðilar vissir um að núverandi hlutabréfaverð sé stórlega ofmetið. Meðal þeirra er fjármálafyrirtækið JPMorgan, sem taldi virði fyrirtækisins vera einungis 13 prósent af markaðsvirði þess í síðasta mánuði. Fyrirtækið RBC Capital Markets telur einnig að Tesla sé í miðri hlutabréfabólu, en verðmat þess á bílaframleiðandann var helmingi lægra en núverandi markaðsvirði.
Hins vegar eru aðrir ekki sammála. Goldman Sachs telur fyrirtækið vera nokkuð rétt verðlagt, þar sem bankinn býst við að rafbílanotkun muni aukast hraðar í náinni framtíð en áður var búist við. Sömu sögu er að segja um fyrirtækin Wedbush Securities og CFRA Research, sem hvorug hvetja viðskiptavini sína til að selja hlutabréf í Tesla.
Tesla stock price is too high imo
— Elon Musk (@elonmusk) May 1, 2020
Forstjóri Tesla, Elon Musk, sagði sjálfur að hann teldi hlutabréfaverð í Tesla vera of hátt í Twitter-færslu í maíbyrjun síðasta árs. Frá því að færslan, sem sjá má hér að ofan, birtist, hefur markaðsvirði fyrirtækisins svo nær fimmfaldast.