Samfélagsmiðillinn Twitter lokaði í gær aðgang Bandaríkjaforseta Donald Trump, en forsetinn hefur notað miðilinn óspart til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á síðustu árum. Til viðbótar við Trump hefur Twitter lokað aðgöngum fjölmargra fylgismanna hans sem trúa á samsæriskenninguna QAnon síðasta sólarhringinn í svokölluðum „hreinsunaraðgerðum“.
Samkvæmt tilkynningu frá forsvarsmönnum miðilsins stafar hætta á því að Twitter-færslur Trump leiði til meira ofbeldis, en fimm manns eru nú látin eftir að stuðningsmenn hans réðust inn í bandaríska þinghúsið síðasta miðvikudag.
Aðgerðir forsvarsmanna Twitter eru ekki einsdæmi, en fjölmargir miðlar hafa ákveðið að loka aðgöngum tengdum Trump og fylgismönnum hans af ótta við að þeir leiði til ofbeldis. Vefmiðillinn Axios tók saman alla þá miðla, en að meðtöldum Twitter þeir eru 12 talsins.
Twitch
Streymismiðillinn Twitch hefur bannað rás forsetans, sem rekin hefur verið af framboðsteyminu hans síðan í október 2019. Þar hafa birst myndbönd af framboðsfundum Trump, en rásinni var einnig lokað tímabundið síðasta sumar eftir að rasísk ummæli forsetans birtust þar, samkvæmt The Verge. Í viðtali við Axios sögðust forsvarsmenn Twitch telja lokunina vera nauðsynlega til þess að koma í veg fyrir að miðillinn yrði notaður til þess að ýta undir frekara ofbeldi.
Samfélagsmiðillinn Reddit hefur einnig lokkað einu af stærstu stjórnmálaspjallborðum síðunnar sem er tileinkað umræðum um forsetann, r/DonaldTrump. Í samtali við Axios segja forsvarsmenn Reddit að síðan banni allt efni sem ýtir undir hatur eða ofbeldi gagnvart einstaklingum eða hópum fólks.
Youtube
Þá hefur myndbandasíðan Youtube sömuleiðis hert notendareglur sínar í kjölfar innrásar stuðningsmanna Trump í þinghúsið. Nú verða notendur síðunnar settir í tímabundið bann ef þeir hlaða inn myndbandi þar sem því er haldið fram að Trump hafi í raun og veru unnið forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Ef notendur síðunnar brjóta af sér með þessum hætti í þrígang verði þeir settir í varanlegt bann. Samkvæmt Axios hefur Youtube einnig fjarlægt fyrstu yfirlýsingu Donald Trump vegna innrásarinnar sem birtist síðasta miðvikudag, en í því fordæmdi hann ekki innrásina beint, heldur sagðist hann elska þá sem að baki henni stóðu.
Facebook og Instagram
Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook og Instagram, lýsti því svo yfir á fimmtudaginn að Trump væri í tímabundnu banni á báðum miðlunum þangað til að Joe Biden tekur við forsetaembættinu 20. janúar. Í yfirlýsingu sinni sagði Zuckerberg áhættuna af því að leyfa forsetanum að tjá sig í gegnum miðlana vera einfaldlega allt of mikla. Rétt eins og Youtube ákvað Facebook líka að fjarlægja umrætt myndband sem Trump birti á sama dag og ráðist var inn í þinghúsið.
Snapchat
Samfélagsmiðillinn Snapchat ákvað að læsa aðgangi Trump strax á miðvikudaginn. Í viðtali við Axios sagði talsmaður Snapchat að miðillinn teldi forsetann dreifa hatri og hvetja til ofbeldis. Miðillinn læsti einnig aðgangi Trump tímabundið í fyrrasumar í kjölfar óeirða vegna lögregluofbeldis og kynþáttahaturs í Bandaríkjunum.
Tiktok
Miðillinn Tiktok, sem birtir stutt myndbönd frá notendum sínum brást einnig við atburðum miðvikudagsins með því að banna myndbönd sem innihéldu ákveðin myllumerki. Merkið #stormthecapitol, sem hvatti til innrásar í þinghúsið, var bannað, sem og merkið #patriotparty, en talsmaður miðilsins sagði að öll myndbönd sem hvöttu til ofbeldis yrðu fjarlægð í viðtali við Axios.
Discord
Til viðbótar við þetta greindi blaðamaðurinn Casey Newton frá því að samskiptamiðillinn Discord hafi bannað spjallsvæði innan þess undir nafninu The Donald, sem tileinkað var umræðum um forsetann. Talsmenn miðilsins segja svæðið hafa skýra tengingu við annað spjallsvæði sem er notað til að hvetja til ofbeldis.
Parler
Apple og Google hafa einnig sent frá sér yfirlýsingar varðandi samskiptamiðilinn Parler sem var í vefverslun fyrirtækjanna tveggja, en samkvæmt frétt Axios er miðillinn mikið notaður af íhaldsmönnum og öfgahægrimönnum. Google fjarlægði miðilinn úr vefverslun sinni stuttu eftir að óeirðirnar hófust, en Apple hótaði einnig að gera slíkt hið sama í gær ef miðillinn hyggst ekki ætla að sporna gegn hatursorðræðu sjálfur.
Shopify
Sölutorgið Shopify hefur einnig fjarlægttvær verslanir sem seldu varning tengdum Trump og framboði hans, þar sem fyrirtækið telur að forsetinn ali á ofbeldi. „Shopify líður ekki gjörðir sem hvetja til ofbeldis. Í ljósi nýliðinna atburða teljum við að Donald J. Trump Bandaríkjaforseti brjóti okkar notendaskilmála, sem leggur blátt bann við stofnanir og fólk sem hvetja til ofbeldis til að ná fram málstaðnum sínum,“ sagði fyrirtækið í samtali við Axios.
Pinterest
Að lokum hefur samfélagsmiðillinn Pinterest takmarkað notkun á ákveðnum myllumerkjum sem stuðningsmenn Trump hafa notað, líkt og #Stopthesteal, sem vísar til meintra kosningasvika í nýliðnum forsetakosningum. Trump hefur ekki sjálfur aðgang að miðlinum, en talsmenn fyrirtækisins segjast munu fylgjast með öllu efni sem birtist þar og fjarlægja það sem tengist samsæriskenningum sem gætu hvatt til ofbeldis.