Sú afstaða fjármála- og efnahagsráðuneytisins að hafna kröfu tveggja forstöðumanna ríkisstofnana sem vildu fá rökstuðning fyrir ákvörðun um laun sín var ekki í samræmi við lög. Þetta er niðurstaða setts umboðsmanns Alþingis í áliti sem birt var í morgun, en er dagsett 30. desember 2020.
Ráðuneytið taldi sig ekki þurfa að veita rökstuðning fyrir ákvörðuninni, né afhenda öðrum forstöðumanninum gögn sem hann falaðist eftir, þar sem um væri að ræða stjórnvaldsfyrirmæli, ekki stjórnvaldsákvörðun, og því félli hún ekki undir stjórnsýslulög.
Umboðsmaður er ósammála þessari túlkun og segir að stjórnsýslulög gildi um ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra um laun forstöðumannanna tveggja. „Af því leiðir að það er jafnframt álit mitt að afstaða ráðuneytisins um að slíkar ákvarðanir séu stjórnvaldsfyrirmæli sé ekki í samræmi við lög“.
Í áliti sínu beinir umboðsmaður því til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að taka erindi forstöðumannanna tveggja til meðferðar að nýju, fari þeir fram á það, og leysi úr þeim í samræmi við þau sjónarmið sem hann setur fram í áliti sínu. „Jafnframt beini ég því til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í álitinu.“
Afleiðing af því að kjararáð var lagt niður
Málið á rætur sínar að rekja til deilna um kjararáð.
Í október 2016 hækkuðu laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra. Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun kjararáðs, eða um 44,3 prósent. Þessar launahækkanir, sem voru úr öllum takti við almenna launaþróun, voru harðlega gagnrýndar.
Afleiðingin var sú að ákveðið var að leggja niður kjararáð, sem tók ákvörðun um hækkanirnar, niður með lögum. Í framhaldinu var hlutverk þess fært til fjármála- og efnahagsráðuneytisins (til sérstakrar stofnunar innan þess sem kallast Kjara- og mannauðssýsla ríkisins).
Fjármála- og efnahagsráðherra ákveður föst laun fyrir dagvinnu í samræmi við grunnmat starfs viðkomandi forstöðumanns og önnur laun er starfinu fylgja. Ráðherra ákveður líka hverjar skuli vera forsendur grunnmats og er þar einkum horft til umfangs og ábyrgðar. Því eru launaákvarðanir þeirra sem heyrðu áður undir kjararáð nú undirorpnar pólitískum ráðherra. Auk kjörinna fulltrúa, aðstoðarmanna þeirra og starfsmanna ráðuneyta ná þær ákvarðanir líka yfir laun forstöðumanna ríkisstofnana, en þeir semja ekki um laun sín heldur eru þau ákveðin einhliða af ráðuneytinu. Þeir hafa enn fremur ekki verkfallsrétt og því fá önnur úrræði, séu þeir óánægðir með kjör sín, en að kvarta til ráðuneytisins.
Töldu að stjórnsýslulög ættu við
Þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um laun þeirra sem áður heyrðu undir kjararáð hafa ekki verið síður verið umdeildar eftir að þær voru færðar inn í fjármála- og efnahagsráðuneytið, og frá ráðinu.
Launahækkunum þingmanna og ráðherra hefur til að mynda tvívegis verið frestað á umliðnum árum í kjölfar andstöðu við þær á meðal kjörinna fulltrúa og hjá aðilum vinnumarkaðarins. Báðar launahækkanirnar tóku þó á endanum gildi, sú síðari um liðin áramót. Samkvæmt henni hækkuðu laun forsætisráðherra um 73 þúsund krónur í 2.149.200 krónur og laun ráðherra um 66 þúsund krónur.
Það voru fleiri sem fettu fingur út í þá aðferðarfræði sem þróuð var í fjármála- og efnahagsráðuneytinu til að ákveða kjör. Og tveir forstöðumenn ríkisstofnana kvörtuðu yfir ákvörðun Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um laun þeirra.
Í áliti setts umboðsmanns Alþingis, Kjartan Bjarna Björgvinssonar, eru forstöðumennirnir skilgreindir sem forstöðumaður A og forstöðumaður B. Sá fyrri leitaði til umboðsmanns 20. desember 2019 og sá síðari 30. mars 2020.
Í báðum kvörtununum eru gerðar athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að stjórnsýslulög eigi ekki við um ákvarðanir um laun forstöðumanna, auk þess gerðar eru athugasemdir við málsmeðferð ráðuneytisins og efni ákvarðana.
Raðað á kvarða
Umboðsmaður afmarkaði athugun sína við þá afstöðu ráðuneytisins að stjórnsýslulög ættu ekki við um ákvarðanir um laun fyrir störf forstöðumanna ríkisstofnana. Í áliti hans, sem birt var í morgun, segir: „Í ljósi afstöðu ráðuneytisins og þess fyrirkomulags sem það hefur komið á fót í þessum efnum hefur athugun mín einkum beinst að því hvort ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra um laun fyrir starf forstöðumanns ríkisstofnunar sé stjórnvaldsákvörðun og hvort sá sem gegnir starfinu þegar slík ákvörðun er tekin teljist aðili máls.“
Eftir að ákvörðun um laun forstöðumanna ríkisstofnana var færð til ráðuneytisins byggir launaröðun embætta á því sem það kallar heildstætt samræmt matskerfi. Í því felst að fjórir þættir – færni, stjórnun, ábyrgð og umfang – eru metnir með tilliti til innbyrðis röðunar innan kerfisins. Þetta ferli leiðir til þess að störf forstöðumanna raðast á kvarða sem ákvarðar hver laun þeirra séu.
Stjórnvaldsákvörðun sem stjórnsýslulög gilda um
Þeir tveir forstöðumenn sem kvörtuðu til umboðsmanns Alþingis voru óánægðir með hvar þeir lentu á kvarðanum. Þeir töldu sig eiga að fá hærri laun. Áður en þeir kvörtuðu til umboðsmanns höfðu þeir leitað eftir leiðréttingu á kjörum sínum hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, án árangurs. Þeir leituðu einnig eftir því að fá rökstuðning á ákvörðuninni, líkt og stjórnsýslulög segja til um, en var hafnað á þeim grundvelli að ákvörðun væri ekki stjórnvaldsákvörðun heldur stjórnvaldsfyrirmæli.
Í áliti umboðsmanns Alþingis segir meðal annars að þegar stjórnvald taki „einhliða ákvörðun um laun ríkisstarfsmanns, sem byggir á lögum en ekki samningi, hefur um áratugaskeið verið lagt til grundvallar í störfum umboðsmanns Alþingis að stjórnsýslulögin gildi um slíkar ákvarðanir.“
Það er niðurstaða umboðsmanns að „ákvörðun um reglubundin heildarlaun forstöðumanns sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga og að viðkomandi forstöðumaður eigi aðild að máli um þá ákvörðun.“
Fordæmisgefandi fyrir aðra forstöðumenn
Því telur umboðsmaður stjórnsýslulög gilda um ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra um laun forstöðumannanna tveggja. „Af því leiðir að það er jafnframt álit mitt að afstaða ráðuneytisins um að slíkar ákvarðanir séu stjórnvaldsfyrirmæli sé ekki í samræmi við lög“.
Af því leiði að ákvarðanir ráðuneytisins um að synja beiðnum forstöðumannanna tveggja um rökstuðning fyrir ákvörðun sinni, og annars þeirra um aðgang að gögnum málsins, hefði byggst á „röngum lagagrundvelli.“
Umboðsmaður beinir því til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að taka erindi forstöðumannanna tveggja til meðferðar að nýju, fari þeir fram á það, og leysi úr þeim í samræmi við þau sjónarmið sem hann setur fram í áliti sínu. „Jafnframt beini ég því til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í álitinu.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars