Mynd: Bára Huld Beck

Umboðsmaður Alþingis segir afstöðu fjármálaráðuneytisins ekki í samræmi við lög

Tveir forstöðumenn ríkisstofnana voru óánægðir með hvar fjármála- og efnahagsráðherra raðaði þeim á launakvarða. Þeir óskuðu eftir rökstuðningi en fengu ekki þar sem ráðuneytið taldi ákvörðunina ekki heyra undir stjórnsýslulög. Forstöðumennirnir kvörtuðu til umboðsmanns Alþingis sem hefur birt álit í málinu. Niðurstaða þess er skýr: afstaða ráðuneytisins var ekki í samræmi við lög.



Sú afstaða fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins að hafna kröfu tveggja for­stöðu­manna rík­is­stofn­ana sem vildu fá rök­stuðn­ing fyrir ákvörðun um laun sín var ekki í sam­ræmi við lög. Þetta er nið­ur­staða setts umboðs­manns Alþingis í áliti sem birt var í morgun, en er dag­sett 30. des­em­ber 2020. 

Ráðu­neytið taldi sig ekki þurfa að veita rök­stuðn­ing fyrir ákvörð­un­inni, né afhenda öðrum for­stöðu­mann­inum gögn sem hann fal­að­ist eft­ir, þar sem um væri að ræða stjórn­valds­fyr­ir­mæli, ekki stjórn­valds­á­kvörð­un, og því félli hún ekki undir stjórn­sýslu­lög. 

Umboðs­maður er ósam­mála þess­ari túlkun og segir að stjórn­sýslu­lög gildi um ákvörðun fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra um laun for­stöðu­mann­anna tveggja. „Af því leiðir að það er jafn­framt álit mitt að afstaða ráðu­neyt­is­ins um að slíkar ákvarð­anir séu stjórn­valds­fyr­ir­mæli sé ekki í sam­ræmi við lög“.

Auglýsing

Í áliti sínu beinir umboðs­maður því til fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins að taka erindi for­stöðu­mann­anna tveggja til með­ferðar að nýju, fari þeir fram á það, og leysi úr þeim í sam­ræmi við þau sjón­ar­mið sem hann setur fram í áliti sínu. „Jafn­framt beini ég því til ráðu­neyt­is­ins að taka fram­vegis mið af þeim sjón­ar­miðum sem koma fram í álit­in­u.“

Afleið­ing af því að kjara­ráð var lagt niður

Málið á rætur sínar að rekja til deilna um kjara­ráð.

Í októ­ber 2016 hækk­­­uðu laun for­­­­­­­­­seta Íslands, þing­far­­­­­­­­­ar­­­­­­­­­kaup alþing­is­­­­­­­­­manna og laun ráð­herra. Laun þing­­­­­­­­­­manna hækk­­­­­­­­­­uðu hlut­­­­­­­­­­falls­­­­­­­­­­lega mest við ákvörðun kjara­ráðs, eða um 44,3 pró­­­­­­­­­­sent. Þessar launa­hækk­­­an­ir, sem voru úr öllum takti við almenna launa­­­þró­un, voru harð­­­lega gagn­rýnd­­­ar.

Afleið­ingin var sú að ákveðið var að leggja niður kjara­ráð, sem tók ákvörðun um hækk­an­irn­ar, niður með lög­um. Í fram­hald­inu var hlut­verk þess fært til fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins (til sér­stakrar stofn­unar innan þess sem kall­ast Kjara- og mannauðs­sýsla rík­is­ins).

Auglýsing

Fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra ákveður föst laun fyrir dag­vinnu í sam­ræmi við grunn­mat starfs við­kom­andi for­stöðu­manns og önnur laun er starf­inu fylgja. Ráð­herra ákveður líka hverjar skuli vera for­sendur grunn­mats og er þar einkum horft til umfangs og ábyrgð­ar. Því eru launa­á­kvarð­anir þeirra sem heyrðu áður undir kjara­ráð nú und­ir­orpnar póli­tískum ráð­herra. Auk kjör­inna full­trúa, aðstoð­ar­manna þeirra og starfs­manna ráðu­neyta ná þær ákvarð­anir líka yfir laun for­stöðu­manna rík­is­stofn­ana, en þeir semja ekki um laun sín heldur eru þau ákveðin ein­hliða af ráðu­neyt­inu. Þeir hafa enn fremur ekki verk­falls­rétt og því fá önnur úrræði, séu þeir óánægðir með kjör sín, en að kvarta til ráðu­neyt­is­ins.

Töldu að stjórn­sýslu­lög ættu við

Þær ákvarð­anir sem teknar hafa verið um laun þeirra sem áður heyrðu undir kjara­ráð hafa ekki verið síður verið umdeildar eftir að þær voru færðar inn í fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­ið, og frá ráð­in­u. 

Launa­hækk­unum þing­manna og ráð­herra hefur til að mynda tví­vegis verið frestað á umliðnum árum í kjöl­far and­stöðu við þær á meðal kjör­inna full­trúa og hjá aðilum vinnu­mark­að­ar­ins. Báðar launa­hækk­an­irnar tóku þó á end­anum gildi, sú síð­ari um liðin ára­mót. Sam­kvæmt henni hækk­uðu laun for­sæt­is­ráð­herra um 73 þús­und krónur í 2.149.200 krónur og laun ráð­herra um 66 þús­und krón­ur. 

Það voru fleiri sem fettu fingur út í þá aðferð­ar­fræði sem þróuð var í fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­inu til að ákveða kjör. Og tveir for­stöðu­menn rík­is­stofn­ana kvört­uðu yfir ákvörðun Bjarna Bene­dikts­son­ar, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, um laun þeirra. 

Í áliti setts umboðs­manns Alþing­is, Kjartan Bjarna Björg­vins­son­ar, eru for­stöðu­menn­irnir skil­greindir sem for­stöðu­maður A og for­stöðu­maður B. Sá fyrri leit­aði til umboðs­manns 20. des­em­ber 2019 og sá síð­ari 30. mars 2020. 

Í báðum kvört­un­unum eru gerðar athuga­semdir við þá afstöðu ráðu­neyt­is­ins að stjórn­sýslu­lög eigi ekki við um ákvarð­anir um laun for­stöðu­manna, auk þess gerðar eru athuga­semdir við máls­með­ferð ráðu­neyt­is­ins og efni ákvarð­ana.

Raðað á kvarða

Umboðs­maður afmark­aði athugun sína við þá afstöðu ráðu­neyt­is­ins að stjórn­sýslu­lög ættu ekki við um ákvarð­anir um laun fyrir störf for­stöðu­manna rík­is­stofn­ana. Í áliti hans, sem birt var í morg­un, seg­ir: „Í ljósi afstöðu ráðu­neyt­is­ins og þess fyr­ir­komu­lags sem það hefur komið á fót í þessum efnum hefur athugun mín einkum beinst að því hvort ákvörðun fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra um laun fyrir starf for­stöðu­manns rík­is­stofn­unar sé stjórn­valds­á­kvörðun og hvort sá sem gegnir starf­inu þegar slík ákvörðun er tekin telj­ist aðili máls.“

Auglýsing

Eftir að ákvörðun um laun for­stöðu­manna rík­is­stofn­ana var færð til ráðu­neyt­is­ins byggir launa­röðun emb­ætta á því sem það kallar heild­stætt sam­ræmt mats­kerfi. Í því felst að fjórir þættir – færni, stjórn­un, ábyrgð og umfang – eru metnir með til­liti til inn­byrðis röð­unar innan kerf­is­ins. Þetta ferli leiðir til þess að störf for­stöðu­manna rað­ast á kvarða sem ákvarðar hver laun þeirra séu. 

Stjórn­valds­á­kvörðun sem stjórn­sýslu­lög gilda um

Þeir tveir for­stöðu­menn sem kvört­uðu til umboðs­manns Alþingis voru óánægðir með hvar þeir lentu á kvarð­an­um. Þeir töldu sig eiga að fá hærri laun. Áður en þeir kvört­uðu til umboðs­manns höfðu þeir leitað eftir leið­rétt­ingu á kjörum sínum hjá fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­inu, án árang­urs. Þeir leit­uðu einnig eftir því að fá rök­stuðn­ing á ákvörð­un­inni, líkt og stjórn­sýslu­lög segja til um, en var hafnað á þeim grund­velli að ákvörðun væri ekki stjórn­valds­á­kvörðun heldur stjórn­valds­fyr­ir­mæli. 

Í áliti umboðs­manns Alþingis segir meðal ann­ars að þegar stjórn­vald taki „ein­hliða ákvörðun um laun rík­is­starfs­manns, sem byggir á lögum en ekki samn­ingi, hefur um ára­tuga­skeið verið lagt til grund­vallar í störfum umboðs­manns Alþingis að stjórn­sýslu­lögin gildi um slíkar ákvarð­an­ir.“

Kjartan Bjarni Björgvinsson er settur umboðsmaður Alþingis.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Það er nið­ur­staða umboðs­manns að „ákvörðun um reglu­bundin heild­ar­laun for­stöðu­manns sé stjórn­valds­á­kvörðun í skiln­ingi stjórn­sýslu­laga og að við­kom­andi for­stöðu­maður eigi aðild að máli um þá ákvörð­un.“ 

For­dæm­is­gef­andi fyrir aðra for­stöðu­menn

Því telur umboðs­maður stjórn­sýslu­lög gilda um ákvörðun fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra um laun for­stöðu­mann­anna tveggja. „Af því leiðir að það er jafn­framt álit mitt að afstaða ráðu­neyt­is­ins um að slíkar ákvarð­anir séu stjórn­valds­fyr­ir­mæli sé ekki í sam­ræmi við lög“.

Af því leiði að ákvarð­anir ráðu­neyt­is­ins um að synja beiðnum for­stöðu­mann­anna tveggja um rök­stuðn­ing fyrir ákvörðun sinni, og ann­ars þeirra um aðgang að gögnum máls­ins, hefði byggst á „röngum laga­grund­velli.“

Umboðs­maður beinir því til fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins að taka erindi for­stöðu­mann­anna tveggja til með­ferðar að nýju, fari þeir fram á það, og leysi úr þeim í sam­ræmi við þau sjón­ar­mið sem hann setur fram í áliti sínu. „Jafn­framt beini ég því til ráðu­neyt­is­ins að taka fram­vegis mið af þeim sjón­ar­miðum sem koma fram í álit­in­u.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar