Í upphaflegri útgáfu þessarrar fréttaskýringar kom fram að Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar úr Norðvesturkjördæmi, væri sá þingmaður sem var með mestan aksturskostnað á árinu 2020. Eftir að hún birtist hefur Alþingi staðfest að rangar tölur hafi birst um aksturskostnað Guðjóns á síðasta ári. Hægt er að lesa um það hér. Fréttaskýringin hefur verið uppfærð með þessum upplýsingum.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, er sá þingmaður sem er með mestan samanlagðan aksturskostnað á árinu 2020. Hann var með heildarkostnað upp á 2.218 þúsund krónur. Hann fór ekki fram á neina endurgreiðslu fyrir notkun á eigin bifreið á árinu 2020 heldur notaði bílaleigubíla.
Í öðru sæti var Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, með kostnað upp á tæpar tvær milljónir króna. Guðjón notaði sína eigin bifreið ekkert heldur er kostnaðurinn allur tilkominn vegna notkunar á bílaleigubílum og eldsneytiskostnaðar.
Aksturkostnaður Ásmundar dregst umtalsvert saman milli ára, en hann var 3,8 milljónir króna árið 2019, rúmlega 320 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Það var fyrsta árið sem allur akstur Ásmundar fór fram á bílaleigubílum en árin á undan hafði hann að mestu keyrt um landið á eigin bifreið og fengið kostnað vegna þess endurgreiddan frá Alþingi. Frá því að Ásmundur settist á þing árið 2013 hefur samanlagður aksturskostnaður hans verið 31,4 milljónir króna.
Mestur var hann árið 2014, þegar Ásmundur fékk alls um 5,4 milljónir króna endurgreiddar vegna keyrslu á eigin bifreið, eða 450 þúsund krónur á mánuði.
Í þriðja sæti á listanum yfir þá þingmenn sem voru með mesta aksturskostnað í fyrra er Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, sem keyrði fyrir 1.827 þúsund krónur á árinu, eða 152 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Allur sá akstur fór fram á bílaleigubílum.
Kostnaðurinn dróst saman um fimmtung
Samtals keyrðu þingmenn landsins fyrir 23,2 milljónir króna í fyrra. Það er umtalsvert minna en árið 2019 þegar akstur þeirra sem greiddur var úr sameiginlegum sjóðum kostaði 30,2 milljónir króna. Kostnaðurinn var mjög svipaður árið 2018, eða 30,7 milljónir króna, og árið 2017, þegar hann var 29,2 milljónir króna. Hann dróst því saman um rúmlega 20 prósent á árinu 2020 miðað við árið áður.
Líklegt verður að teljast að kórónuveirufaraldurinn, sem hefur leitt af sér umfangsmiklar samkomutakmarkanir og kröfur um ýmis konar sóttvarnaráðstafanir þegar fólk hittist, skipti þar miklu. Þingmenn hafa ekki getað hitt væntanlega kjósendur á sama hátt og áður. Það hefur hluti nefndarstarfa farið fram í gegnum fjarfundarbúnað sem gerir það að verkum að viðvera landsbyggðarþingmanna í höfuðborginni hefur ekki verið jafn knýjandi og áður.
Alls keyrðu ellefu þingmenn fyrir eina milljón króna eða meira á síðasta ári. Þeir eru:
- Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokki 2.217.867 krónur
- Guðjón S. Brjánsson Samfylkingunni tæplega tvær milljónir krónur
- Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir Vinstri græn 1.827.141 krónur
- Vilhjálmur Árnason Sjálfstæðisflokki 1.694.043 krónur
- Birgir Þórarinsson Miðflokki 1.653.749 krónur
- Sigurður Páll Jónsson Miðflokki 1.643.859 krónur
- Haraldur Benediktsson Sjálfstæðisflokki 1.580.226 krónur
- Lilja Rafney Magnúsdóttir Vinstri grænum 1.390.240 krónur
- Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki 1.283.788 krónur
- Albertína Friðbjört Elíasdóttir Samfylkingunni 1.124.066 krónur
- Líneik Anna Sævarsdóttir Framsóknarflokki 1.069.035 krónur
Fjölmiðlar reyndu árum saman reynt að fá upplýsingar um hvaða þingmenn fái endurgreiðslu vegna aksturs, en án árangurs. Kjarninn fjallaði til að mynda um málið í fréttaskýringu árið 2015 þar sem fram kom að alls 28 þingmenn hefðu fengið endurgreiðslu á árinu 2014, þar af 18 yfir eina milljón króna. Ekki var hins vegar hægt að fá upplýsingar um hvaða þingmenn var að ræða. Þær upplýsingar þóttu þá of persónulegar.
Í byrjun febrúar 2018 svaraði forseti Alþingis fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Píratar, um aksturskostnað. Í svari forseta var greint frá því hversu háar greiðslur þeir tíu þingmenn sem fengu hæstu skattlausu endurgreiðslurnar þáðu á síðustu fimm árum. Ekki var hins vegar greint frá nafni þeirra. Í tölunum mátti þó sjá að fjórir þingmenn sem þáðu hæstu endurgreiðslurnar fengu samtals 14 milljónir króna, eða tæplega helming allra endurgreiðslna vegna aksturs.
Upplýsingarnar vöktu upp mikla reiði og ásakanir um mögulega sjálftöku þingmanna. Sérstaklega þegar fyrir lá að Ásmundur Friðriksson hafði sagst keyra 47.644 kílómetra á árinu 2017 einu saman vegna vinnu sinnar sem þingmaður, og fékk kostnað vegna þeirrar keyrslu endurgreiddan, alls 4,6 milljónir króna.
Krafa um að allt kæmi upp á borðið
Í kjölfarið varð það krafa þings, þjóðar og fjölmiðla að allar greiðslur vegna aksturs yrðu gerðar opinberar og að þær yrðu persónugreinanlegar. Þá varð það einnig krafa að allar aðrar greiðslur sem þingmenn fá vegna starfa sinna yrðu gerðar opinberar, sundurliðaðar og mörg ár aftur í tímann. Hvort sem um væri að ræða húsnæðisstyrk, greiðslur vegna flugs eða kostnaður vegna bílaleigubíla. Allt ætti að koma upp á borðið.
Forsætisnefnd ákvað að bregðast við og allar upplýsingar um kostnað sem fylgir störfum þingmanna er nú birtur mánaðarlega. Auk þess var ákvæði í reglum um þingfarakostnað, sem fjallar um bílaleigubíla, gert skýrara til að tryggja að slíkir séu frekar teknir en að þingmenn séu að nota eigin bifreiðar. Breytingarnar náðu einkum til þingmanna sem falla undir svokallaðan heimanakstur, þ.e. akstur til og frá heimili daglega um þingtímann. Það eru þingmenn sem búa í nágrenni Reykjavíkur (á Suðurnesjum, Vesturlandi, Árnessýslu o.s.frv.). Akstur á eigin bifreiðum, sem kemur til endurgreiðslu, varð eftir breytingarnar bundinn hámarki við 15.000 km. Eftir þann kílómetrafjölda á skrifstofa Alþingis láta umræddum þingmanni í té bílaleigubíl.
Mesta breytingin sem orðið hefur síðastliðin ár er því sú að þingmenn keyra nú mun meira á bílaleigubílum en áður. Sú tilhneiging hefur stökkbreyst eftir að akstursgreiðslurnar voru opinberaðar í fyrsta sinn í byrjun árs 2018.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars