Kostnaður ríkissjóðs vegna flugferða þingmanna innanlands á síðasta ári var 9,5 milljónir króna. Hann dróst saman um næstum þriðjung frá árinu 2019 þegar flugkostnaðurinn var rúmlega 14 milljónir króna. Þetta má lesa út úr tölum um greiðslur til þingmanna á síðasta ári, en þær voru uppfærðar í lok síðustu viku.
Kórónuveirufaraldurinn hefur án efa spilað stóra rullu í því að þingmenn flugu minna innanlands en áður enda að mestu um að ræða ferðir landsbyggðarþingmanna til og frá heimahögum sínum. Faraldurinn hefur enda takmarkað störf þingmanna eins og annarra landsmanna og til að mynda gert það að verkum að flestir nefndarfundir hafa farið fram í gegnum fjarfundarbúnað.
Bjarkey flaug mest
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, er sá þingmaður sem safnaði upp mestum kostnaði vegna innanlandsflugs á síðasta ári, eða um 1,5 milljónum króna. Næst á eftir henni kemur Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, með 1,3 milljónir króna og í þriðja sæti var Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, með tæplega 1,1 milljón króna. Þessi þrjú, sem öll eru þingmenn Norðausturkjördæmis, eru einu þingmennirnir sem flugu innanlands fyrir meira en eina milljón króna á síðasta ári.
Aksturskostnaður dróst saman um fimmtung
Kjarninn greindi frá því um helgina að aksturskostnaður þingmanna hafi líka dregist töluvert saman á síðasta ári. Samtals keyrðu þingmenn landsins fyrir 23,9 milljónir króna í fyrra. Árið 2019 kostaði akstur þeirra sem greiddur var úr sameiginlegum sjóðum 30,2 milljónir króna. Kostnaðurinn var mjög svipaður árið 2018, eða 30,7 milljónir króna, og árið 2017, þegar hann var 29,2 milljónir króna. Hann dróst því saman um rúmlega 20 prósent á árinu 2020 miðað við árið áður.
Líklegt verður að teljast að kórónuveirufaraldurinn, sem hefur leitt af sér umfangsmiklar samkomutakmarkanir og kröfur um ýmis konar sóttvarnaráðstafanir þegar fólk hittist, skipti þar miklu á sama hátt og þegar kemur að flugkostnaði. Auk fjölgunar fjarfunda hafa þingmenn ekki getað hitt væntanlega kjósendur á sama hátt og áður.
Bjarkey með mestan sameiginlegan kostnað
Sá þingmaður sem var með mestan aksturskostnað í fyrra var Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, sem leitt hefur lista yfir aksturskostnað á undanförnum árum. Frá því að Ásmundur settist á þing 2013 hefur aksturskostnaður hans verið 31,4 milljónir króna.
Upprunalega var greint frá því að Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, hefði verið í fyrsta sæti. Það reyndist ekki rétt, mistök voru gerð á fjármálaskrifstofu Alþingis sem leiddu til þess að kostnaður vegna aksturs Guðjóns á árunum 2018 og 2019 var gjaldfærður í fyrra.
Í þriðja sæti á listanum yfir þá þingmenn sem keyrðu mest var svo Bjarkey, sem keyrði fyrir rúmlega 1,8 milljónir króna á síðasta ári. Hún er eini þingmaðurinn sem kemst í efstu sætin yfir bæði þá þingmenn sem flugu og keyrðu mikið. Samanlagður aksturs- og flugkostnaður hennar sem greiddur var úr ríkissjóði var á síðasta ári var 3.329 þúsund krónur, eða fyrir 227 þúsund krónur á mánuði.
Vert er að taka fram að í þessum tölum, um flug- og aksturskostnað, er ekki fastur ferðakostnaður í kjördæmi. Hann var 360 þúsund krónur í fyrra.
Bjarkey er líka sá þingmaður sem er í efsta sæti yfir allan annan kostnað en launagreiðslur og fastar kostnaðargreiðslur sem Alþingi greiðir til þingmanna. Alls nam annar kostnaður hennar 4.160 þúsund krónur í fyrra. Auk flug- og aksturskostnaðar er þar um að ræða starfskostnaður, ferðakostnað utanlands, síma og netkostnað og gisti- og fæðiskostnað innanlands.
Það þýðir að annar kostnaður Bjarkeyjar, fyrir utan laun og fastar kostnaðargreiðslur, var 346.683 krónur á mánuði að meðaltali í fyrra, eða rúmri einni milljón meira en annar kostnaður flokksystur hennar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, sem var 3,1 milljónir króna. Guðjón S. Brjánsson og Ásmundur Friðriksson voru svo saman með annan kostnað upp á um 2,9 miljónir króna.