Óflokkað

Leið evrópskra fótboltamanna til Englands þrengdist vegna Brexit

Frjálst flæði evrópsks vinnuafls til Bretlands heyrir sögunni til. Það á einnig við um fótboltamenn, sem nú þurfa að uppfylla ákveðnar gæðakröfur til að fá atvinnuleyfi. Kjarninn rýndi í breytingarnar og kannaði hvort draumar ungra Íslendinga um að spila í enska boltanum hafi ef til vill fjarlægst.

Um ára­mótin lauk aðlög­un­ar­ferl­inu í langri og strangri útgöngu Bret­lands úr Evr­ópu­sam­band­inu. Brexit raun­gerð­ist, alveg, loks­ins. Á einum degi breytt­ist ýmis­legt í sam­bandi Bret­lands við ESB og ríkin sem eru á Evr­ópska efna­hags­svæð­inu, margt smátt en annað stórt. 

Tölu­verðar breyt­ingar fylgja Brexit í heimi fót­bolt­ans. Nýjar reglur um félaga­skipti hafa verið settar og frá 1. jan­úar hafa ensk fót­boltalið ekki mátt semja við erlenda leik­menn sem eru 18 ára eða yngri. Eins hefur verið þrengt tölu­vert að því hvaða evr­ópsku leik­menn geta fengið atvinnu­leyfi í land­in­u. 

Frjálst flæði evr­ópsks vinnu­afls til Bret­lands heyrir sög­unni til, líka í fót­bolt­an­um.

Búið er að taka upp stiga­kerfi með nokkuð flóknu reglu­verki. Evr­ópskir knatt­spyrnu­menn, karlar og kon­ur, sem áður gátu stundað sitt fag í Bret­landi eins og ann­ars staðar innan EES þurfa nú að upp­fylla ákveðin við­mið um fyrri reynslu og gæði áður en þeir fá atvinnu­leyfi. Evr­ópskir knatt­spyrnu­stjórar sömu­leið­is.

Auglýsing

Sama kerfið gildir nú um alla erlenda knatt­spyrnu­menn og þjálf­ara, hvort sem þeir koma frá Evr­ópu eða öðrum heims­álf­um, en svipað kerfi hafði áður verið í lýði fyrir leik­menn utan EES-­svæð­is­ins. Hægt er að kynna sér regl­urnar sem tóku gildi 1. jan­úar í smá­at­riðum á vef enska knatt­spyrnu­sam­bands­ins.

Þessar breyt­ingar hafa það í för með sér að leiðin í enska bolt­ann, þann stað sem ungum leik­mönnum dreymir flestum um að spila á, verður torfarn­ari fyrir evr­ópska leik­menn. 

Teemu Pukki og Gylfi Þór Sig­urðs­son, jafn­vel Sol­skjær

Í breskum miðlum hafa verið tekin nokkur dæmi um leik­menn sem hafa gert það gott í enska­bolt­anum og hefðu ekki getað fengið atvinnu­leyfi á sínum tíma sam­kvæmt í þessum nýja veru­leika. Þar er nafn finnska fram­herj­ans Teemu Pukki nefnt, en hann kom til Norwich frá danska lið­inu Bröndby árið 2018. Síðan hefur hann skorað yfir 50 mörk í 100 keppn­is­leikjum fyrir Kanarí­fugl­ana, eins og liðið er stundum kall­að. Einnig hefur verið nefnt að Ole Gunnar Sol­skjær, norskur þjálf­ari Manchester United og fyrr­ver­andi leik­maður félags­ins, hefði ólík­lega fengið atvinnu­leyfi.

Teemu Pukki hefði ekki getað farið til Norwich á sínum tíma, samkvæmt nýju reglunum.
Norwich
Ferill Gylfa Þórs hefði verið með öðrum hætti ef sömu reglur hefðu gilt þegar hann var 16 ára og gera nú.
EPA

Aug­ljós­asta dæmið um íslenskan knatt­spyrnu­mann sem hefur gert það gott í Bret­landi eftir að hafa farið þangað ungur að aldri er Gylfi Þór Sig­urðs­son. Sextán ára gam­all fór hann til enska liðs­ins Rea­d­ing og náði þar að stimpla sig ræki­lega inn, áður en hann var seldur til þýska liðs­ins Hof­fen­heim. Síðar sneri hann aftur í enska bolt­ann þar sem stjarna hans hefur skinið skært.

Knatt­spyrnu­fer­ill hans yrði ljós­lega með öðru sniði ef hann væri að stíga sín fyrstu skref í dag. Eng­land gæti ekki orðið áfanga­staður númer eitt.

Sterkir leik­menn sem hafa afrekað eitt­hvað kom­ast að

Kjarn­inn ræddi við tvo umboðs­menn knatt­spyrnu­manna, þá Bjarka Gunn­laugs­son og Magnús Agnar Magn­ús­son, sem báðir starfa hjá umboðs­skrif­stof­unni Stell­ar, um þessar breyt­ing­ar. Stellar er með um fjöru­tíu íslenska atvinnu­menn á sínum snærum, bæði leik­menn sem eru að stíga sín fyrstu skref og aðra sem hafa verið lengur í atvinnu­mennsku.

„Ég hef engar sér­stakar áhyggjur af þessu,“ segir Bjarki við blaða­mann, spurður hvort þessar reglu­breyt­ingar gætu gert það að verkum að færri íslenskir leik­menn nái að upp­fylla drauma sína um að spila fyrir ensk lið.

Bjarki Gunnlaugsson Mynd: KSÍ

„Premier League og Champ­ions­hip eru bara það sterkar deildir að þú ert að fara þangað sem til­bú­inn leik­maður sem er búinn að afreka eitt­hvað,“ bætir hann við.

Hefði Bjarki sjálfur fengið atvinnu­leyfi?

Bjarki var sjálfur atvinnu­maður hjá lið­inu Preston North End í næstefstu deild í Englandi frá 1999-2002 og lék 45 leiki fyrir félag­ið. Hann kom þangað frá KR, eftir að hafa áður spilað meðal ann­ars í Þýska­landi og á Norð­ur­lönd­un­um.

Áhuga­vert er að velta því upp, sem sýni­dæmi, hvort Bjarki sjálfur eða leik­maður með sama feril og hann gæti kom­ist að í enska bolt­anum núna árið 2021, sam­kvæmt þeim 15 stiga kvarða sem settur hefur verið upp í Englandi.

Deild og spila­tími - 3 stig

Horft til þess í hvaða deildum leik­menn spila. Að koma beint frá liði á Íslandi eins og Bjarki gerði gefur leik­mönnum afar fá stig á þeim kvarða sem enska knatt­spyrnu­sam­bandið hefur sett upp.

Íslenska deildin er í sjötta og neðsta styrk­leika­flokki enska sam­bands­ins, sem þýðir að leik­maður sem spilar nær alla leiki liðs á Íslandi eins og Bjarki gerði fær tvö stig í sarp­inn. 

Til við­bótar er gefið eitt stig fyrir að verða lands­meist­ari og KR urðu Íslands­meist­arar 1999. Bjarki hefði því fengið þrjú stig fyrir þátt­töku sína í deild­ar­keppn­inni með KR.



Bestu deildirnar gefa mörg stig, þær lakari færri.
Skjáskot úr regluverki enska knattspyrnusambandsins.



Það fást fá stig fyrir að spila í lak­ari deild­um. Áhuga­vert er að deildir í Skand­in­avíu eins og sú sænska og norska, sem margir íslenskir leik­menn hafa notað sem stökk­pall inn í sterk­ari deild­ir, eru í sama styrk­leika­flokki og íslenska deildin og sú fær­eyska. Danska deildin er flokki ofar.

Bæði Bjarki og Magnús Agnar segja við blaða­mann að þeir telji lík­legt að Norð­menn og Svíar séu ekki hopp­andi kátir með þetta. „Það er klárt mál að eitt­hvað munu þessar deildir berj­ast fyrir sín­u,“ segir Magn­ús.

Leik­menn sem spila alla eða flesta leiki fyrir lið í öðrum af bestu deildum Evr­ópu, svo sem á efstu deildum á Spáni, Ítalíu og Þýska­landi, fá 12 stig fyrir að spila flesta eða alla leiki og fara því langt með að fylla upp í 15 stiga kvarð­ann. Ensk lið munu því áfram geta sótt skær­ustu stjörnur álf­unnar án nokk­urra vand­kvæða.

Evr­ópu­keppni - 5 stig

Litið til þess hvort leik­mað­ur­inn hafi verið að spila og ná ein­hverjum árangri í Evr­ópu­keppnum félags­liða með liði sínu fyrir félaga­skipt­in. KR, með Bjarka inn­an­borðs, lék í Evr­ópu­keppni félags­liða, for­vera keppn­innar sem í dag heitir Evr­ópu­deildin árið 1999. Sú keppni er skil­greind sem milli­ríkja­keppni í flokki 2, sam­kvæmt nýja atvinnu­leyfa­kerf­inu.

Hér flækj­ast málin ögn, því sam­kvæmt enska kerf­inu er bæði er hægt að fá stig fyrir að taka þátt í evr­ópu­keppn­inni og síðan stig að auki fyrir árang­ur­inn sem félags­liðið náð­i. 

Bjarki sést hér í baráttu um knöttinn á síðum Morgunblaðsins í ágúst 1999.
Morgunblaðið 13. ágúst 1999 - Tímarit.is

Bjarki spil­aði með KR gegn skoska lið­inu Kilmarnock í for­keppni Evr­ópu­deild­ar­innar og var sam­kvæmt Mogg­anum „að­al­mað­ur­inn í öllum sókn­ar­að­gerð­unum og olli miklum usla“ í fyrri leik lið­anna hér á Íslandi.

Sam­kvæmt lestri blaða­manns á enska reglu­verk­inu um atvinnu­leyfi er ekki gerður neinn grein­ar­munur á því hvort leik­menn spila ein­ungis í for­keppn­inni eða hvort lið þeirra kemst áfram í riðla­keppn­ina eða lengra, þegar stig eru veitt fyrir hlut­fall spil­aðra mín­útna í Evr­ópu­keppnum félags­liða.

Því skulu Bjarka veitt 5 stig hér, fyrir þátt­töku sína í leikj­unum gegn Kilmarnock. Það var einmitt í þeirri rimmu sem David Moyes, þáver­andi þjálf­ari Preston, eða ein­hverjir á hans veg­um, komu auga á Bjarka.

Lands­liðið - 0 stig

Einnig er horft til þess hvort leik­menn séu lands­liðs­menn og það er kannski það sem er opn­asta leiðin fyrir Íslend­inga að því að fá atvinnu­leyfi í Bret­landi, upp­fylli þeir ekki önnur skil­yrði. Alla­vega á meðan að lands­liðið heldur áfram að ná árangri.

Allir leik­menn sem hafa á und­an­förnum tveimur árum tekið þátt í yfir 70 pró­sent keppn­i­s­leikja fyrir lands­lið sem er eitt af þeim 50 bestu í heimi sam­kvæmt styrk­leika­lista FIFA fá sjálf­krafa atvinnu­leyfi. Ef lands­liðin eru á meðal þeirra allra bestu í heim­inum þarf ein­ungis að hafa spilað lítið hlufall leikja, eins og sjá má í töfl­unni hér að neð­an.



Lítið er að græða á landsliðsreynslu ef landsliðið er utan topp 50 á styrkleikalista FIFA.
Skjáskot úr regluverki enska knattspyrnusambandsins.



Svo við komum aftur að sýni­dæm­inu, þá var Bjarki við­loð­andi íslenska lands­liðið fram til árs­ins 2000. Hann spil­aði þó bara tvo lands­leiki árið 1998 og engan árið 1999. Ísland byrj­aði árið 1999 númer 60 á heims­lista FIFA en skaust upp í 43. sæti fyrir lok árs. Því fengi hann ekk­ert stig í sarp­inn fyrir lands­liðs­þátt­töku sína.

Nið­ur­staða Bjarka eru því 8 stig af þeim 15 sem til þarf.

Mögu­lega hefði Preston North End getað reynt að leita til sér­stakrar nefndar enska knatt­spyrnu­sam­bands­ins sem metur vafa­at­riði – þó að það úrræði sé reyndar aðal­lega hugsað fyrir þá leik­menn sem kom­ast mjög nálægt því að fylla upp í 15 stiga kvarð­ann.

Fáir hafa náð í gegn í Englandi

Bjarki segir við Kjarn­ann, sem áður seg­ir, að hann telji reglu­breyt­ing­arnar í Englandi ekki hafa veru­lega mikil áhrif nema þá á ung­linga­starf ensku lið­anna. Hann nefnir einnig að jafn­vel sé betra fyrir unga íslenska knatt­spyrnu­menn að byrja feril sinn ann­ars staðar en í ung­linga­aka­dem­íum enskra liða, þar sem sam­keppnin er hörð og fáir leik­menn ná að brjót­ast upp í aðal­lið­ið.

„Gylfi er sá eini sem hefur náð í gegn frá aka­dem­í­unn­i,“ segir Bjarki og bendir á að Eng­lend­ingar séu í raun alveg að taka fyrir það að ensku liðin fylli ung­linga­lið sín af aðkeyptum strákum frá Evr­ópu, eins og reyndin hefur verið und­an­farin ár.

Gylfi Þór Sigurðsson í landleik gegn Albaníu fyrir nokkrum árum.
Birgir Þór Harðarson

Íslenskir strákar sem mögu­lega hefðu vakið athygli enskra liða fara þá ann­að, sem Bjarki sér að sé „í sjálfu sér engin hörm­ung, því saga íslenskra leik­manna sem hafa verið í Englandi er ekk­ert æðis­leg.“

„Ég held að þetta sé bara hið besta mál í raun og veru. Leik­menn fara þá bara aðrar leið­ir,“ segir Bjarki, en bætir við að hann telji enda­markið hjá öllum­ungum leik­mönnum vera að kom­ast í ensku úrvals­deild­ina, einn dag­inn. „N­íu­tíu og níu pró­sent myndu segja að þeir væru til í að vera í Premier League. Allir vilja kom­ast þang­að, en milli­skrefin eru mis­jöfn og mis­mörg.“

Auglýsing

Hann bendir á að í svo­kall­aðri gull­kyn­slóð íslenskra knatt­spyrnu­manna sem nú er skriðin inn á fer­tugs­ald­ur­inn eftir að hafa leitt íslenska karla­lands­liðið inn á EM 2016 og HM 2018 hafi það ein­ungis verið Aron Einar Gunn­ars­son, Jóhann Berg Guð­munds­son og áður­nefndur Gylfi Þór sem hafi náð að festa sig í sessi í þess­ari sterk­ustu fót­bolta­deild í heimi.

Ensku liðin muni ekki vilja missa af bestu bit­unum

Bjarki seg­ist telja að reynsla muni kom­ast á kerfið og und­an­þág­urnar sem eru í því, til dæmis fyrir leik­menn sem séu taldir með ein­staka hæfi­leika, en upp­fylli ekki skil­yrði um atvinnu­leyfi – enn­þá.

„Fót­bolta­heim­ur­inn, þó hann sé stór þá er hann lít­ill,“ segir Bjarki, en hann telur að ef fram komi ein­hver ótrú­legur leik­maður sem öll lið Evr­ópu vilji fá en upp­fylli ekki ensku regl­urnar muni Eng­lend­ingar ekki sitja hjá og láta hæfi­leik­ana leita ann­að. „Von­andi kemur það upp fyrr en seinna með íslenska leik­menn.“

Hann bendir á að fyrir marga fót­bolta­menn hafi reynst heilla­væn­legt að taka fer­il­inn í minni skrefum og nefnir lands­liðs­fram­herj­ann Alfreð Finn­boga­son sem spilar með þýska lið­inu Augs­burg sem dæmi um það. Hann hefur nú spilað í bæði spænsku og þýsku úrvals­deild­unum eftir hafa leikið í Belg­íu, svo Sví­þjóð og síðar Hollandi, áður en hann tók skref inn á stærra svið.

„Þú finnur þitt „level“ á end­an­um,“ segir Bjarki, en segir vissu­lega alltaf mark­mið sinnar stétt­ar, umboðs­mann­anna, að koma fleiri leik­mönnum í stærri deild­irn­ar. Leið­irnar þangað eru hins vegar marg­ar.

Stýr­ing sem gæti haft ófyr­ir­séðar afleið­ing­ar 

Magnús Agnar Magn­ús­son kollegi og sam­starfs­maður Bjarka segir áhuga­vert að sjá hvernig breyt­ing­arnar komi til með að hafa áhrif á enska bolt­ann. Eng­lend­ingar eru að von­ast til þess að fleiri ungir og upp­renn­andi Eng­lend­ingar fái tæki­færi til að spreyta sig hjá ensku lið­un­um, sem komi þá til með að styrkja enska lands­liðið til fram­tíð­ar.

Magnús Agnar Magnússon umboðsmaður. Mynd: Stellar

Sam­kvæmt regl­unum sem tóku gildi um ára­mót mega ensk fót­boltalið nú ein­ungis semja við sex erlenda leik­menn sem eru yngri en 21 árs á hverju tíma­bili.

„Mark­miðið virð­ist vera að þeir geti sorterað út leik­menn sem eru ekki að spila í topp­deildum eða topp­lands­lið­um. Ég held að við þurfum aðeins að sjá til, þegar rykið fell­ur, hvort að þetta sé gott fyrir þá,“ segir Magnús Agn­ar. 

Hann nefnir að mið­stýr­ing eins og þessi gæti haft ófyr­ir­séð á mark­að­inn fyrir fót­bolta­menn og brenglað við­skiptaum­hverfi fót­boltalið­anna.

Í Rúss­landi til dæm­is, þar sem sú regla var tekin upp fyrir þónokkrum árum að hvert lið má að hámarki tefla fram 8 erlendum leik­mönnum í hverjum leik, hafi það haft í för með sér að kaup­verðið á rúss­neskum leik­mönnum hafi rokið upp. 

Mögu­lega sam­keppn­is­for­skot fyrir íslenska lands­liðs­menn?

Eitt sem Magnús Agnar telur að gæti mögu­lega orðið fylg­is­fiskur breyt­ing­anna í Englandi er að íslenskir lands­liðs­menn standi framar leik­mönnum frá stærri fót­bolta­þjóðum þegar kemur að því að fá atvinnu­leyfi, þrátt fyrir að vera ef til vill á sama getu­stigi. Íslenskir leik­menn eru þannig í að svamla um í minni tjörn, ef svo má segja.

Sem dæmi nefnir hann að leið íslensks knatt­spyrnu­manns að atvinnu­leyfi í Englandi væri greið­ari, hafi hann náð að festa sig í sessi með lands­lið­inu, en svip­aðs leik­manns að gæðum með franskt rík­is­fang, sem ekki hefði spilað lands­leiki með stjörnu­prýddu liði heims­meist­ara Frakka.

Að þetta geti veitt eitt­hvað for­skot fyrir íslenska leik­menn er þó háð því að lands­liðið haldi áfram að ná árangri og verði áfram á meðal þeirra 50 bestu í heim­in­um, sam­kvæmt styrk­leika­röðun FIFA.

Fyrir þá sem vilja fræð­ast frekar um nýja fyr­ir­komu­lagið í Bret­landi og heyra vanga­veltur um mögu­leg áhrif þess er hægt að mæla með nýlegum þætti af Foot­ball Weekly frá Guar­di­an.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar