Óflokkað

Leið evrópskra fótboltamanna til Englands þrengdist vegna Brexit

Frjálst flæði evrópsks vinnuafls til Bretlands heyrir sögunni til. Það á einnig við um fótboltamenn, sem nú þurfa að uppfylla ákveðnar gæðakröfur til að fá atvinnuleyfi. Kjarninn rýndi í breytingarnar og kannaði hvort draumar ungra Íslendinga um að spila í enska boltanum hafi ef til vill fjarlægst.

Um ára­mótin lauk aðlög­un­ar­ferl­inu í langri og strangri útgöngu Bret­lands úr Evr­ópu­sam­band­inu. Brexit raun­gerð­ist, alveg, loks­ins. Á einum degi breytt­ist ýmis­legt í sam­bandi Bret­lands við ESB og ríkin sem eru á Evr­ópska efna­hags­svæð­inu, margt smátt en annað stórt. 

Tölu­verðar breyt­ingar fylgja Brexit í heimi fót­bolt­ans. Nýjar reglur um félaga­skipti hafa verið settar og frá 1. jan­úar hafa ensk fót­boltalið ekki mátt semja við erlenda leik­menn sem eru 18 ára eða yngri. Eins hefur verið þrengt tölu­vert að því hvaða evr­ópsku leik­menn geta fengið atvinnu­leyfi í land­in­u. 

Frjálst flæði evr­ópsks vinnu­afls til Bret­lands heyrir sög­unni til, líka í fót­bolt­an­um.

Búið er að taka upp stiga­kerfi með nokkuð flóknu reglu­verki. Evr­ópskir knatt­spyrnu­menn, karlar og kon­ur, sem áður gátu stundað sitt fag í Bret­landi eins og ann­ars staðar innan EES þurfa nú að upp­fylla ákveðin við­mið um fyrri reynslu og gæði áður en þeir fá atvinnu­leyfi. Evr­ópskir knatt­spyrnu­stjórar sömu­leið­is.

Auglýsing

Sama kerfið gildir nú um alla erlenda knatt­spyrnu­menn og þjálf­ara, hvort sem þeir koma frá Evr­ópu eða öðrum heims­álf­um, en svipað kerfi hafði áður verið í lýði fyrir leik­menn utan EES-­svæð­is­ins. Hægt er að kynna sér regl­urnar sem tóku gildi 1. jan­úar í smá­at­riðum á vef enska knatt­spyrnu­sam­bands­ins.

Þessar breyt­ingar hafa það í för með sér að leiðin í enska bolt­ann, þann stað sem ungum leik­mönnum dreymir flestum um að spila á, verður torfarn­ari fyrir evr­ópska leik­menn. 

Teemu Pukki og Gylfi Þór Sig­urðs­son, jafn­vel Sol­skjær

Í breskum miðlum hafa verið tekin nokkur dæmi um leik­menn sem hafa gert það gott í enska­bolt­anum og hefðu ekki getað fengið atvinnu­leyfi á sínum tíma sam­kvæmt í þessum nýja veru­leika. Þar er nafn finnska fram­herj­ans Teemu Pukki nefnt, en hann kom til Norwich frá danska lið­inu Bröndby árið 2018. Síðan hefur hann skorað yfir 50 mörk í 100 keppn­is­leikjum fyrir Kanarí­fugl­ana, eins og liðið er stundum kall­að. Einnig hefur verið nefnt að Ole Gunnar Sol­skjær, norskur þjálf­ari Manchester United og fyrr­ver­andi leik­maður félags­ins, hefði ólík­lega fengið atvinnu­leyfi.

Teemu Pukki hefði ekki getað farið til Norwich á sínum tíma, samkvæmt nýju reglunum.
Norwich
Ferill Gylfa Þórs hefði verið með öðrum hætti ef sömu reglur hefðu gilt þegar hann var 16 ára og gera nú.
EPA

Aug­ljós­asta dæmið um íslenskan knatt­spyrnu­mann sem hefur gert það gott í Bret­landi eftir að hafa farið þangað ungur að aldri er Gylfi Þór Sig­urðs­son. Sextán ára gam­all fór hann til enska liðs­ins Rea­d­ing og náði þar að stimpla sig ræki­lega inn, áður en hann var seldur til þýska liðs­ins Hof­fen­heim. Síðar sneri hann aftur í enska bolt­ann þar sem stjarna hans hefur skinið skært.

Knatt­spyrnu­fer­ill hans yrði ljós­lega með öðru sniði ef hann væri að stíga sín fyrstu skref í dag. Eng­land gæti ekki orðið áfanga­staður númer eitt.

Sterkir leik­menn sem hafa afrekað eitt­hvað kom­ast að

Kjarn­inn ræddi við tvo umboðs­menn knatt­spyrnu­manna, þá Bjarka Gunn­laugs­son og Magnús Agnar Magn­ús­son, sem báðir starfa hjá umboðs­skrif­stof­unni Stell­ar, um þessar breyt­ing­ar. Stellar er með um fjöru­tíu íslenska atvinnu­menn á sínum snærum, bæði leik­menn sem eru að stíga sín fyrstu skref og aðra sem hafa verið lengur í atvinnu­mennsku.

„Ég hef engar sér­stakar áhyggjur af þessu,“ segir Bjarki við blaða­mann, spurður hvort þessar reglu­breyt­ingar gætu gert það að verkum að færri íslenskir leik­menn nái að upp­fylla drauma sína um að spila fyrir ensk lið.

Bjarki Gunnlaugsson Mynd: KSÍ

„Premier League og Champ­ions­hip eru bara það sterkar deildir að þú ert að fara þangað sem til­bú­inn leik­maður sem er búinn að afreka eitt­hvað,“ bætir hann við.

Hefði Bjarki sjálfur fengið atvinnu­leyfi?

Bjarki var sjálfur atvinnu­maður hjá lið­inu Preston North End í næstefstu deild í Englandi frá 1999-2002 og lék 45 leiki fyrir félag­ið. Hann kom þangað frá KR, eftir að hafa áður spilað meðal ann­ars í Þýska­landi og á Norð­ur­lönd­un­um.

Áhuga­vert er að velta því upp, sem sýni­dæmi, hvort Bjarki sjálfur eða leik­maður með sama feril og hann gæti kom­ist að í enska bolt­anum núna árið 2021, sam­kvæmt þeim 15 stiga kvarða sem settur hefur verið upp í Englandi.

Deild og spila­tími - 3 stig

Horft til þess í hvaða deildum leik­menn spila. Að koma beint frá liði á Íslandi eins og Bjarki gerði gefur leik­mönnum afar fá stig á þeim kvarða sem enska knatt­spyrnu­sam­bandið hefur sett upp.

Íslenska deildin er í sjötta og neðsta styrk­leika­flokki enska sam­bands­ins, sem þýðir að leik­maður sem spilar nær alla leiki liðs á Íslandi eins og Bjarki gerði fær tvö stig í sarp­inn. 

Til við­bótar er gefið eitt stig fyrir að verða lands­meist­ari og KR urðu Íslands­meist­arar 1999. Bjarki hefði því fengið þrjú stig fyrir þátt­töku sína í deild­ar­keppn­inni með KR.Bestu deildirnar gefa mörg stig, þær lakari færri.
Skjáskot úr regluverki enska knattspyrnusambandsins.Það fást fá stig fyrir að spila í lak­ari deild­um. Áhuga­vert er að deildir í Skand­in­avíu eins og sú sænska og norska, sem margir íslenskir leik­menn hafa notað sem stökk­pall inn í sterk­ari deild­ir, eru í sama styrk­leika­flokki og íslenska deildin og sú fær­eyska. Danska deildin er flokki ofar.

Bæði Bjarki og Magnús Agnar segja við blaða­mann að þeir telji lík­legt að Norð­menn og Svíar séu ekki hopp­andi kátir með þetta. „Það er klárt mál að eitt­hvað munu þessar deildir berj­ast fyrir sín­u,“ segir Magn­ús.

Leik­menn sem spila alla eða flesta leiki fyrir lið í öðrum af bestu deildum Evr­ópu, svo sem á efstu deildum á Spáni, Ítalíu og Þýska­landi, fá 12 stig fyrir að spila flesta eða alla leiki og fara því langt með að fylla upp í 15 stiga kvarð­ann. Ensk lið munu því áfram geta sótt skær­ustu stjörnur álf­unnar án nokk­urra vand­kvæða.

Evr­ópu­keppni - 5 stig

Litið til þess hvort leik­mað­ur­inn hafi verið að spila og ná ein­hverjum árangri í Evr­ópu­keppnum félags­liða með liði sínu fyrir félaga­skipt­in. KR, með Bjarka inn­an­borðs, lék í Evr­ópu­keppni félags­liða, for­vera keppn­innar sem í dag heitir Evr­ópu­deildin árið 1999. Sú keppni er skil­greind sem milli­ríkja­keppni í flokki 2, sam­kvæmt nýja atvinnu­leyfa­kerf­inu.

Hér flækj­ast málin ögn, því sam­kvæmt enska kerf­inu er bæði er hægt að fá stig fyrir að taka þátt í evr­ópu­keppn­inni og síðan stig að auki fyrir árang­ur­inn sem félags­liðið náð­i. 

Bjarki sést hér í baráttu um knöttinn á síðum Morgunblaðsins í ágúst 1999.
Morgunblaðið 13. ágúst 1999 - Tímarit.is

Bjarki spil­aði með KR gegn skoska lið­inu Kilmarnock í for­keppni Evr­ópu­deild­ar­innar og var sam­kvæmt Mogg­anum „að­al­mað­ur­inn í öllum sókn­ar­að­gerð­unum og olli miklum usla“ í fyrri leik lið­anna hér á Íslandi.

Sam­kvæmt lestri blaða­manns á enska reglu­verk­inu um atvinnu­leyfi er ekki gerður neinn grein­ar­munur á því hvort leik­menn spila ein­ungis í for­keppn­inni eða hvort lið þeirra kemst áfram í riðla­keppn­ina eða lengra, þegar stig eru veitt fyrir hlut­fall spil­aðra mín­útna í Evr­ópu­keppnum félags­liða.

Því skulu Bjarka veitt 5 stig hér, fyrir þátt­töku sína í leikj­unum gegn Kilmarnock. Það var einmitt í þeirri rimmu sem David Moyes, þáver­andi þjálf­ari Preston, eða ein­hverjir á hans veg­um, komu auga á Bjarka.

Lands­liðið - 0 stig

Einnig er horft til þess hvort leik­menn séu lands­liðs­menn og það er kannski það sem er opn­asta leiðin fyrir Íslend­inga að því að fá atvinnu­leyfi í Bret­landi, upp­fylli þeir ekki önnur skil­yrði. Alla­vega á meðan að lands­liðið heldur áfram að ná árangri.

Allir leik­menn sem hafa á und­an­förnum tveimur árum tekið þátt í yfir 70 pró­sent keppn­i­s­leikja fyrir lands­lið sem er eitt af þeim 50 bestu í heimi sam­kvæmt styrk­leika­lista FIFA fá sjálf­krafa atvinnu­leyfi. Ef lands­liðin eru á meðal þeirra allra bestu í heim­inum þarf ein­ungis að hafa spilað lítið hlufall leikja, eins og sjá má í töfl­unni hér að neð­an.Lítið er að græða á landsliðsreynslu ef landsliðið er utan topp 50 á styrkleikalista FIFA.
Skjáskot úr regluverki enska knattspyrnusambandsins.Svo við komum aftur að sýni­dæm­inu, þá var Bjarki við­loð­andi íslenska lands­liðið fram til árs­ins 2000. Hann spil­aði þó bara tvo lands­leiki árið 1998 og engan árið 1999. Ísland byrj­aði árið 1999 númer 60 á heims­lista FIFA en skaust upp í 43. sæti fyrir lok árs. Því fengi hann ekk­ert stig í sarp­inn fyrir lands­liðs­þátt­töku sína.

Nið­ur­staða Bjarka eru því 8 stig af þeim 15 sem til þarf.

Mögu­lega hefði Preston North End getað reynt að leita til sér­stakrar nefndar enska knatt­spyrnu­sam­bands­ins sem metur vafa­at­riði – þó að það úrræði sé reyndar aðal­lega hugsað fyrir þá leik­menn sem kom­ast mjög nálægt því að fylla upp í 15 stiga kvarð­ann.

Fáir hafa náð í gegn í Englandi

Bjarki segir við Kjarn­ann, sem áður seg­ir, að hann telji reglu­breyt­ing­arnar í Englandi ekki hafa veru­lega mikil áhrif nema þá á ung­linga­starf ensku lið­anna. Hann nefnir einnig að jafn­vel sé betra fyrir unga íslenska knatt­spyrnu­menn að byrja feril sinn ann­ars staðar en í ung­linga­aka­dem­íum enskra liða, þar sem sam­keppnin er hörð og fáir leik­menn ná að brjót­ast upp í aðal­lið­ið.

„Gylfi er sá eini sem hefur náð í gegn frá aka­dem­í­unn­i,“ segir Bjarki og bendir á að Eng­lend­ingar séu í raun alveg að taka fyrir það að ensku liðin fylli ung­linga­lið sín af aðkeyptum strákum frá Evr­ópu, eins og reyndin hefur verið und­an­farin ár.

Gylfi Þór Sigurðsson í landleik gegn Albaníu fyrir nokkrum árum.
Birgir Þór Harðarson

Íslenskir strákar sem mögu­lega hefðu vakið athygli enskra liða fara þá ann­að, sem Bjarki sér að sé „í sjálfu sér engin hörm­ung, því saga íslenskra leik­manna sem hafa verið í Englandi er ekk­ert æðis­leg.“

„Ég held að þetta sé bara hið besta mál í raun og veru. Leik­menn fara þá bara aðrar leið­ir,“ segir Bjarki, en bætir við að hann telji enda­markið hjá öllum­ungum leik­mönnum vera að kom­ast í ensku úrvals­deild­ina, einn dag­inn. „N­íu­tíu og níu pró­sent myndu segja að þeir væru til í að vera í Premier League. Allir vilja kom­ast þang­að, en milli­skrefin eru mis­jöfn og mis­mörg.“

Auglýsing

Hann bendir á að í svo­kall­aðri gull­kyn­slóð íslenskra knatt­spyrnu­manna sem nú er skriðin inn á fer­tugs­ald­ur­inn eftir að hafa leitt íslenska karla­lands­liðið inn á EM 2016 og HM 2018 hafi það ein­ungis verið Aron Einar Gunn­ars­son, Jóhann Berg Guð­munds­son og áður­nefndur Gylfi Þór sem hafi náð að festa sig í sessi í þess­ari sterk­ustu fót­bolta­deild í heimi.

Ensku liðin muni ekki vilja missa af bestu bit­unum

Bjarki seg­ist telja að reynsla muni kom­ast á kerfið og und­an­þág­urnar sem eru í því, til dæmis fyrir leik­menn sem séu taldir með ein­staka hæfi­leika, en upp­fylli ekki skil­yrði um atvinnu­leyfi – enn­þá.

„Fót­bolta­heim­ur­inn, þó hann sé stór þá er hann lít­ill,“ segir Bjarki, en hann telur að ef fram komi ein­hver ótrú­legur leik­maður sem öll lið Evr­ópu vilji fá en upp­fylli ekki ensku regl­urnar muni Eng­lend­ingar ekki sitja hjá og láta hæfi­leik­ana leita ann­að. „Von­andi kemur það upp fyrr en seinna með íslenska leik­menn.“

Hann bendir á að fyrir marga fót­bolta­menn hafi reynst heilla­væn­legt að taka fer­il­inn í minni skrefum og nefnir lands­liðs­fram­herj­ann Alfreð Finn­boga­son sem spilar með þýska lið­inu Augs­burg sem dæmi um það. Hann hefur nú spilað í bæði spænsku og þýsku úrvals­deild­unum eftir hafa leikið í Belg­íu, svo Sví­þjóð og síðar Hollandi, áður en hann tók skref inn á stærra svið.

„Þú finnur þitt „level“ á end­an­um,“ segir Bjarki, en segir vissu­lega alltaf mark­mið sinnar stétt­ar, umboðs­mann­anna, að koma fleiri leik­mönnum í stærri deild­irn­ar. Leið­irnar þangað eru hins vegar marg­ar.

Stýr­ing sem gæti haft ófyr­ir­séðar afleið­ing­ar 

Magnús Agnar Magn­ús­son kollegi og sam­starfs­maður Bjarka segir áhuga­vert að sjá hvernig breyt­ing­arnar komi til með að hafa áhrif á enska bolt­ann. Eng­lend­ingar eru að von­ast til þess að fleiri ungir og upp­renn­andi Eng­lend­ingar fái tæki­færi til að spreyta sig hjá ensku lið­un­um, sem komi þá til með að styrkja enska lands­liðið til fram­tíð­ar.

Magnús Agnar Magnússon umboðsmaður. Mynd: Stellar

Sam­kvæmt regl­unum sem tóku gildi um ára­mót mega ensk fót­boltalið nú ein­ungis semja við sex erlenda leik­menn sem eru yngri en 21 árs á hverju tíma­bili.

„Mark­miðið virð­ist vera að þeir geti sorterað út leik­menn sem eru ekki að spila í topp­deildum eða topp­lands­lið­um. Ég held að við þurfum aðeins að sjá til, þegar rykið fell­ur, hvort að þetta sé gott fyrir þá,“ segir Magnús Agn­ar. 

Hann nefnir að mið­stýr­ing eins og þessi gæti haft ófyr­ir­séð á mark­að­inn fyrir fót­bolta­menn og brenglað við­skiptaum­hverfi fót­boltalið­anna.

Í Rúss­landi til dæm­is, þar sem sú regla var tekin upp fyrir þónokkrum árum að hvert lið má að hámarki tefla fram 8 erlendum leik­mönnum í hverjum leik, hafi það haft í för með sér að kaup­verðið á rúss­neskum leik­mönnum hafi rokið upp. 

Mögu­lega sam­keppn­is­for­skot fyrir íslenska lands­liðs­menn?

Eitt sem Magnús Agnar telur að gæti mögu­lega orðið fylg­is­fiskur breyt­ing­anna í Englandi er að íslenskir lands­liðs­menn standi framar leik­mönnum frá stærri fót­bolta­þjóðum þegar kemur að því að fá atvinnu­leyfi, þrátt fyrir að vera ef til vill á sama getu­stigi. Íslenskir leik­menn eru þannig í að svamla um í minni tjörn, ef svo má segja.

Sem dæmi nefnir hann að leið íslensks knatt­spyrnu­manns að atvinnu­leyfi í Englandi væri greið­ari, hafi hann náð að festa sig í sessi með lands­lið­inu, en svip­aðs leik­manns að gæðum með franskt rík­is­fang, sem ekki hefði spilað lands­leiki með stjörnu­prýddu liði heims­meist­ara Frakka.

Að þetta geti veitt eitt­hvað for­skot fyrir íslenska leik­menn er þó háð því að lands­liðið haldi áfram að ná árangri og verði áfram á meðal þeirra 50 bestu í heim­in­um, sam­kvæmt styrk­leika­röðun FIFA.

Fyrir þá sem vilja fræð­ast frekar um nýja fyr­ir­komu­lagið í Bret­landi og heyra vanga­veltur um mögu­leg áhrif þess er hægt að mæla með nýlegum þætti af Foot­ball Weekly frá Guar­di­an.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar