Óflokkað

Leið evrópskra fótboltamanna til Englands þrengdist vegna Brexit

Frjálst flæði evrópsks vinnuafls til Bretlands heyrir sögunni til. Það á einnig við um fótboltamenn, sem nú þurfa að uppfylla ákveðnar gæðakröfur til að fá atvinnuleyfi. Kjarninn rýndi í breytingarnar og kannaði hvort draumar ungra Íslendinga um að spila í enska boltanum hafi ef til vill fjarlægst.

Um áramótin lauk aðlögunarferlinu í langri og strangri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Brexit raungerðist, alveg, loksins. Á einum degi breyttist ýmislegt í sambandi Bretlands við ESB og ríkin sem eru á Evrópska efnahagssvæðinu, margt smátt en annað stórt. 

Töluverðar breytingar fylgja Brexit í heimi fótboltans. Nýjar reglur um félagaskipti hafa verið settar og frá 1. janúar hafa ensk fótboltalið ekki mátt semja við erlenda leikmenn sem eru 18 ára eða yngri. Eins hefur verið þrengt töluvert að því hvaða evrópsku leikmenn geta fengið atvinnuleyfi í landinu. 

Frjálst flæði evrópsks vinnuafls til Bretlands heyrir sögunni til, líka í fótboltanum.

Búið er að taka upp stigakerfi með nokkuð flóknu regluverki. Evrópskir knattspyrnumenn, karlar og konur, sem áður gátu stundað sitt fag í Bretlandi eins og annars staðar innan EES þurfa nú að uppfylla ákveðin viðmið um fyrri reynslu og gæði áður en þeir fá atvinnuleyfi. Evrópskir knattspyrnustjórar sömuleiðis.

Auglýsing

Sama kerfið gildir nú um alla erlenda knattspyrnumenn og þjálfara, hvort sem þeir koma frá Evrópu eða öðrum heimsálfum, en svipað kerfi hafði áður verið í lýði fyrir leikmenn utan EES-svæðisins. Hægt er að kynna sér reglurnar sem tóku gildi 1. janúar í smáatriðum á vef enska knattspyrnusambandsins.

Þessar breytingar hafa það í för með sér að leiðin í enska boltann, þann stað sem ungum leikmönnum dreymir flestum um að spila á, verður torfarnari fyrir evrópska leikmenn. 

Teemu Pukki og Gylfi Þór Sigurðsson, jafnvel Solskjær

Í breskum miðlum hafa verið tekin nokkur dæmi um leikmenn sem hafa gert það gott í enskaboltanum og hefðu ekki getað fengið atvinnuleyfi á sínum tíma samkvæmt í þessum nýja veruleika. Þar er nafn finnska framherjans Teemu Pukki nefnt, en hann kom til Norwich frá danska liðinu Bröndby árið 2018. Síðan hefur hann skorað yfir 50 mörk í 100 keppnisleikjum fyrir Kanarífuglana, eins og liðið er stundum kallað. Einnig hefur verið nefnt að Ole Gunnar Solskjær, norskur þjálfari Manchester United og fyrrverandi leikmaður félagsins, hefði ólíklega fengið atvinnuleyfi.

Teemu Pukki hefði ekki getað farið til Norwich á sínum tíma, samkvæmt nýju reglunum.
Norwich
Ferill Gylfa Þórs hefði verið með öðrum hætti ef sömu reglur hefðu gilt þegar hann var 16 ára og gera nú.
EPA

Augljósasta dæmið um íslenskan knattspyrnumann sem hefur gert það gott í Bretlandi eftir að hafa farið þangað ungur að aldri er Gylfi Þór Sigurðsson. Sextán ára gamall fór hann til enska liðsins Reading og náði þar að stimpla sig rækilega inn, áður en hann var seldur til þýska liðsins Hoffenheim. Síðar sneri hann aftur í enska boltann þar sem stjarna hans hefur skinið skært.

Knattspyrnuferill hans yrði ljóslega með öðru sniði ef hann væri að stíga sín fyrstu skref í dag. England gæti ekki orðið áfangastaður númer eitt.

Sterkir leikmenn sem hafa afrekað eitthvað komast að

Kjarninn ræddi við tvo umboðsmenn knattspyrnumanna, þá Bjarka Gunnlaugsson og Magnús Agnar Magnússon, sem báðir starfa hjá umboðsskrifstofunni Stellar, um þessar breytingar. Stellar er með um fjörutíu íslenska atvinnumenn á sínum snærum, bæði leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref og aðra sem hafa verið lengur í atvinnumennsku.

„Ég hef engar sérstakar áhyggjur af þessu,“ segir Bjarki við blaðamann, spurður hvort þessar reglubreytingar gætu gert það að verkum að færri íslenskir leikmenn nái að uppfylla drauma sína um að spila fyrir ensk lið.

Bjarki Gunnlaugsson Mynd: KSÍ

„Premier League og Championship eru bara það sterkar deildir að þú ert að fara þangað sem tilbúinn leikmaður sem er búinn að afreka eitthvað,“ bætir hann við.

Hefði Bjarki sjálfur fengið atvinnuleyfi?

Bjarki var sjálfur atvinnumaður hjá liðinu Preston North End í næstefstu deild í Englandi frá 1999-2002 og lék 45 leiki fyrir félagið. Hann kom þangað frá KR, eftir að hafa áður spilað meðal annars í Þýskalandi og á Norðurlöndunum.

Áhugavert er að velta því upp, sem sýnidæmi, hvort Bjarki sjálfur eða leikmaður með sama feril og hann gæti komist að í enska boltanum núna árið 2021, samkvæmt þeim 15 stiga kvarða sem settur hefur verið upp í Englandi.

Deild og spilatími - 3 stig

Horft til þess í hvaða deildum leikmenn spila. Að koma beint frá liði á Íslandi eins og Bjarki gerði gefur leikmönnum afar fá stig á þeim kvarða sem enska knattspyrnusambandið hefur sett upp.

Íslenska deildin er í sjötta og neðsta styrkleikaflokki enska sambandsins, sem þýðir að leikmaður sem spilar nær alla leiki liðs á Íslandi eins og Bjarki gerði fær tvö stig í sarpinn. 

Til viðbótar er gefið eitt stig fyrir að verða landsmeistari og KR urðu Íslandsmeistarar 1999. Bjarki hefði því fengið þrjú stig fyrir þátttöku sína í deildarkeppninni með KR.


Bestu deildirnar gefa mörg stig, þær lakari færri.
Skjáskot úr regluverki enska knattspyrnusambandsins.


Það fást fá stig fyrir að spila í lakari deildum. Áhugavert er að deildir í Skandinavíu eins og sú sænska og norska, sem margir íslenskir leikmenn hafa notað sem stökkpall inn í sterkari deildir, eru í sama styrkleikaflokki og íslenska deildin og sú færeyska. Danska deildin er flokki ofar.

Bæði Bjarki og Magnús Agnar segja við blaðamann að þeir telji líklegt að Norðmenn og Svíar séu ekki hoppandi kátir með þetta. „Það er klárt mál að eitthvað munu þessar deildir berjast fyrir sínu,“ segir Magnús.

Leikmenn sem spila alla eða flesta leiki fyrir lið í öðrum af bestu deildum Evrópu, svo sem á efstu deildum á Spáni, Ítalíu og Þýskalandi, fá 12 stig fyrir að spila flesta eða alla leiki og fara því langt með að fylla upp í 15 stiga kvarðann. Ensk lið munu því áfram geta sótt skærustu stjörnur álfunnar án nokkurra vandkvæða.

Evrópukeppni - 5 stig

Litið til þess hvort leikmaðurinn hafi verið að spila og ná einhverjum árangri í Evrópukeppnum félagsliða með liði sínu fyrir félagaskiptin. KR, með Bjarka innanborðs, lék í Evrópukeppni félagsliða, forvera keppninnar sem í dag heitir Evrópudeildin árið 1999. Sú keppni er skilgreind sem milliríkjakeppni í flokki 2, samkvæmt nýja atvinnuleyfakerfinu.

Hér flækjast málin ögn, því samkvæmt enska kerfinu er bæði er hægt að fá stig fyrir að taka þátt í evrópukeppninni og síðan stig að auki fyrir árangurinn sem félagsliðið náði. 

Bjarki sést hér í baráttu um knöttinn á síðum Morgunblaðsins í ágúst 1999.
Morgunblaðið 13. ágúst 1999 - Tímarit.is

Bjarki spilaði með KR gegn skoska liðinu Kilmarnock í forkeppni Evrópudeildarinnar og var samkvæmt Mogganum „aðalmaðurinn í öllum sóknaraðgerðunum og olli miklum usla“ í fyrri leik liðanna hér á Íslandi.

Samkvæmt lestri blaðamanns á enska regluverkinu um atvinnuleyfi er ekki gerður neinn greinarmunur á því hvort leikmenn spila einungis í forkeppninni eða hvort lið þeirra kemst áfram í riðlakeppnina eða lengra, þegar stig eru veitt fyrir hlutfall spilaðra mínútna í Evrópukeppnum félagsliða.

Því skulu Bjarka veitt 5 stig hér, fyrir þátttöku sína í leikjunum gegn Kilmarnock. Það var einmitt í þeirri rimmu sem David Moyes, þáverandi þjálfari Preston, eða einhverjir á hans vegum, komu auga á Bjarka.

Landsliðið - 0 stig

Einnig er horft til þess hvort leikmenn séu landsliðsmenn og það er kannski það sem er opnasta leiðin fyrir Íslendinga að því að fá atvinnuleyfi í Bretlandi, uppfylli þeir ekki önnur skilyrði. Allavega á meðan að landsliðið heldur áfram að ná árangri.

Allir leikmenn sem hafa á undanförnum tveimur árum tekið þátt í yfir 70 prósent keppnisleikja fyrir landslið sem er eitt af þeim 50 bestu í heimi samkvæmt styrkleikalista FIFA fá sjálfkrafa atvinnuleyfi. Ef landsliðin eru á meðal þeirra allra bestu í heiminum þarf einungis að hafa spilað lítið hlufall leikja, eins og sjá má í töflunni hér að neðan.


Lítið er að græða á landsliðsreynslu ef landsliðið er utan topp 50 á styrkleikalista FIFA.
Skjáskot úr regluverki enska knattspyrnusambandsins.


Svo við komum aftur að sýnidæminu, þá var Bjarki viðloðandi íslenska landsliðið fram til ársins 2000. Hann spilaði þó bara tvo landsleiki árið 1998 og engan árið 1999. Ísland byrjaði árið 1999 númer 60 á heimslista FIFA en skaust upp í 43. sæti fyrir lok árs. Því fengi hann ekkert stig í sarpinn fyrir landsliðsþátttöku sína.

Niðurstaða Bjarka eru því 8 stig af þeim 15 sem til þarf.

Mögulega hefði Preston North End getað reynt að leita til sérstakrar nefndar enska knattspyrnusambandsins sem metur vafaatriði – þó að það úrræði sé reyndar aðallega hugsað fyrir þá leikmenn sem komast mjög nálægt því að fylla upp í 15 stiga kvarðann.

Fáir hafa náð í gegn í Englandi

Bjarki segir við Kjarnann, sem áður segir, að hann telji reglubreytingarnar í Englandi ekki hafa verulega mikil áhrif nema þá á unglingastarf ensku liðanna. Hann nefnir einnig að jafnvel sé betra fyrir unga íslenska knattspyrnumenn að byrja feril sinn annars staðar en í unglingaakademíum enskra liða, þar sem samkeppnin er hörð og fáir leikmenn ná að brjótast upp í aðalliðið.

„Gylfi er sá eini sem hefur náð í gegn frá akademíunni,“ segir Bjarki og bendir á að Englendingar séu í raun alveg að taka fyrir það að ensku liðin fylli unglingalið sín af aðkeyptum strákum frá Evrópu, eins og reyndin hefur verið undanfarin ár.

Gylfi Þór Sigurðsson í landleik gegn Albaníu fyrir nokkrum árum.
Birgir Þór Harðarson

Íslenskir strákar sem mögulega hefðu vakið athygli enskra liða fara þá annað, sem Bjarki sér að sé „í sjálfu sér engin hörmung, því saga íslenskra leikmanna sem hafa verið í Englandi er ekkert æðisleg.“

„Ég held að þetta sé bara hið besta mál í raun og veru. Leikmenn fara þá bara aðrar leiðir,“ segir Bjarki, en bætir við að hann telji endamarkið hjá öllumungum leikmönnum vera að komast í ensku úrvalsdeildina, einn daginn. „Níutíu og níu prósent myndu segja að þeir væru til í að vera í Premier League. Allir vilja komast þangað, en milliskrefin eru misjöfn og mismörg.“

Auglýsing

Hann bendir á að í svokallaðri gullkynslóð íslenskra knattspyrnumanna sem nú er skriðin inn á fertugsaldurinn eftir að hafa leitt íslenska karlalandsliðið inn á EM 2016 og HM 2018 hafi það einungis verið Aron Einar Gunnarsson, Jóhann Berg Guðmundsson og áðurnefndur Gylfi Þór sem hafi náð að festa sig í sessi í þessari sterkustu fótboltadeild í heimi.

Ensku liðin muni ekki vilja missa af bestu bitunum

Bjarki segist telja að reynsla muni komast á kerfið og undanþágurnar sem eru í því, til dæmis fyrir leikmenn sem séu taldir með einstaka hæfileika, en uppfylli ekki skilyrði um atvinnuleyfi – ennþá.

„Fótboltaheimurinn, þó hann sé stór þá er hann lítill,“ segir Bjarki, en hann telur að ef fram komi einhver ótrúlegur leikmaður sem öll lið Evrópu vilji fá en uppfylli ekki ensku reglurnar muni Englendingar ekki sitja hjá og láta hæfileikana leita annað. „Vonandi kemur það upp fyrr en seinna með íslenska leikmenn.“

Hann bendir á að fyrir marga fótboltamenn hafi reynst heillavænlegt að taka ferilinn í minni skrefum og nefnir landsliðsframherjann Alfreð Finnbogason sem spilar með þýska liðinu Augsburg sem dæmi um það. Hann hefur nú spilað í bæði spænsku og þýsku úrvalsdeildunum eftir hafa leikið í Belgíu, svo Svíþjóð og síðar Hollandi, áður en hann tók skref inn á stærra svið.

„Þú finnur þitt „level“ á endanum,“ segir Bjarki, en segir vissulega alltaf markmið sinnar stéttar, umboðsmannanna, að koma fleiri leikmönnum í stærri deildirnar. Leiðirnar þangað eru hins vegar margar.

Stýring sem gæti haft ófyrirséðar afleiðingar 

Magnús Agnar Magnússon kollegi og samstarfsmaður Bjarka segir áhugavert að sjá hvernig breytingarnar komi til með að hafa áhrif á enska boltann. Englendingar eru að vonast til þess að fleiri ungir og upprennandi Englendingar fái tækifæri til að spreyta sig hjá ensku liðunum, sem komi þá til með að styrkja enska landsliðið til framtíðar.

Magnús Agnar Magnússon umboðsmaður. Mynd: Stellar

Samkvæmt reglunum sem tóku gildi um áramót mega ensk fótboltalið nú einungis semja við sex erlenda leikmenn sem eru yngri en 21 árs á hverju tímabili.

„Markmiðið virðist vera að þeir geti sorterað út leikmenn sem eru ekki að spila í toppdeildum eða topplandsliðum. Ég held að við þurfum aðeins að sjá til, þegar rykið fellur, hvort að þetta sé gott fyrir þá,“ segir Magnús Agnar. 

Hann nefnir að miðstýring eins og þessi gæti haft ófyrirséð á markaðinn fyrir fótboltamenn og brenglað viðskiptaumhverfi fótboltaliðanna.

Í Rússlandi til dæmis, þar sem sú regla var tekin upp fyrir þónokkrum árum að hvert lið má að hámarki tefla fram 8 erlendum leikmönnum í hverjum leik, hafi það haft í för með sér að kaupverðið á rússneskum leikmönnum hafi rokið upp. 

Mögulega samkeppnisforskot fyrir íslenska landsliðsmenn?

Eitt sem Magnús Agnar telur að gæti mögulega orðið fylgisfiskur breytinganna í Englandi er að íslenskir landsliðsmenn standi framar leikmönnum frá stærri fótboltaþjóðum þegar kemur að því að fá atvinnuleyfi, þrátt fyrir að vera ef til vill á sama getustigi. Íslenskir leikmenn eru þannig í að svamla um í minni tjörn, ef svo má segja.

Sem dæmi nefnir hann að leið íslensks knattspyrnumanns að atvinnuleyfi í Englandi væri greiðari, hafi hann náð að festa sig í sessi með landsliðinu, en svipaðs leikmanns að gæðum með franskt ríkisfang, sem ekki hefði spilað landsleiki með stjörnuprýddu liði heimsmeistara Frakka.

Að þetta geti veitt eitthvað forskot fyrir íslenska leikmenn er þó háð því að landsliðið haldi áfram að ná árangri og verði áfram á meðal þeirra 50 bestu í heiminum, samkvæmt styrkleikaröðun FIFA.

Fyrir þá sem vilja fræðast frekar um nýja fyrirkomulagið í Bretlandi og heyra vangaveltur um möguleg áhrif þess er hægt að mæla með nýlegum þætti af Football Weekly frá Guardian.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar