Alls höfðu 11.780 manns verið án atvinnu í lengri tíma en sex mánuði hérlendis í lok janúarmánaðar. Þeim fjölgaði um 902 á milli mánaða og hafa aldrei verið fleiri frá því að mælingar Vinnumálastofnunar á atvinnuleysi hófust. Í janúar 2020 höfðu 3.920 manns verið án atvinnu í að minnsta kosti sex mánuði. Því hefur fjölgað um 200 prósent í þessum hópi á einu ári.
Af þeim sem voru atvinnulausir um síðustu mánaðamót höfðu 4.508 verið án atvinnu í meira en eitt ár, sem er aukning um 155 prósent frá því í janúar í fyrra. Þeim sem hafa verið atvinnulausir í sex til tólf mánuði hefur fjölgað um 240 prósent á einu ári.
Þetta má lesa út úr tölum sem Vinnumálastofnun birti í nýliðinni viku.
Alls voru 21.809 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok janúarmánaðar og 4.594 voru á hlutabótaleiðinni svokölluðu. Það þýðir að samtals voru 26.403 atvinnulausir að hluta eða öllu leyti um síðustu mánaðamót. Samanlagt atvinnuleysi í almenna bótakerfinu og minnkaða starfshlutfallinu var 12,8 prósent í janúar.
Atvinnuleysi á meðal erlendra orðið 26 prósent
Erlenda vinnuaflið sem mannaði störf á Íslandi í síðasta góðæri er ekki að fara aftur til upprunalanda sinna. Þvert á móti hefur erlendum ríkisborgurum á Íslandi fjölgað frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á.
Alls voru 51.367 erlendir ríkisborgarar skráðir á Íslandi í byrjun desember 2020. Í lok síðasta mánaðar mældist atvinnuleysi á meðal þeirra um 24 prósent, enda 8.794 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu, á meðan að almennt atvinnuleysi í landinu var 11,6 prósent. Að teknu tilliti til þeirra sem voru á hlutabótum var heildaratvinnuleysi erlendra ríkisborgara nálægt 26 prósent. Rúmlega 40 prósent allra sem voru atvinnulausir að öllu leyti voru því erlendir ríkisborgarar.
Flestir erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá án minnkaðs starfshlutfalls komu frá Póllandi eða 4.284 sem er tæpur helmingur allra erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá. Því næst koma Litháar, Lettar og Rúmenar en færri af öðrum þjóðernum.
Erfitt að láta enda ná saman
Kjarninn greindi í liðinni viku frá niðurstöðu könnunar sem lögð var fyrir félaga í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og BSRB í nóvember og desember 2020 þar sem staða launafólks var könnuð.
Könnunin var gerð af Vörðu, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, sem ASÍ og BSB settu á fót í fyrra.
Þar kom fram að um fjórðungur launafólks á erfitt með að láta enda ná saman sem stendur og fimmtungur þess getur ekki mætt óvæntum útgjöldum. Þeir sem eru atvinnulausir eiga erfiðast með að láta enda ná sama og fleiri í hópi þeirra hafa þegið matar- eða fjárhagsaðstoð og líða efnislegan skort en í öðrum hópum.
Fjárhagsstaða innflytjenda er verri en þeirra sem teljast til innfæddra Íslendinga. Þeir eiga erfiðara með að láta enda ná saman, líða frekar efnislegan skort en innfæddir og hafa þegið matar- og/eða fjárhagsaðstoð í meira mæli.
Andlegt heilsufar innflytjenda mældist líka verra en innfæddra en líkamlegt heilsufar þeirra betra. Þá sýndi könnunin að atvinnulausir innflytjendur sýni almennt meiri virkni og sveigjanleika en innfæddir og að það eigi sérstaklega við atvinnulausar konur.