Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefur ákveðið að vísa skipulagstillögum vegna fyrirhugaðrar Einbúavirkjunar í Skjálfandafljóti til heildarskoðunar á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem nú er í vinnslu. Ákvörðunin var tekin í gær og felur í sér stefnubreytingu því um miðjan janúar samþykkti sveitarstjórn að auglýsa tillögurnar í samræmi við skipulagslög að undangenginni kynningu fyrir íbúum og öðrum hagsmunaaðilum.
Sá kynningarfundur var haldinn í félagsheimilinu Kiðagili 28. janúar og streymt í gegnum Facebook. Líkt og Kjarninn greindi frá kom þar fram hörð gagnrýni á hina fyrirhuguðu framkvæmd sem og á tilhögun kynningarfundarins sem umhverfis- og skipulagsnefnd sveitarfélagsins boðaði til en sveitarstjórnarmenn voru ekki til svara á. Um kynninguna sáu alfarið framkvæmdaaðilar og fulltrúar verkfræðistofunnar Verkís sem vann bæði umhverfismat virkjunarinnar sem og skipulagstillögurnar.
Í ljósi þeirra athugasemda sem fram komu á kynningarfundinum og í kjölfar hans hefur sveitarstjórnin ákveðið að halda fund með landeigendum að Skjálfandafljóti „og ræða nýtingaráform og framtíðarsýn varðandi fljótið,“ líkt og segir í bókun sveitarstjórnar frá fundi gærdagsins. Jafnframt áformar sveitarstjórn fleiri almenna kynningarfundi um málefnið. Arnór Benónýsson, oddviti Þingeyjarsveitar, sagði í samtali við RÚV í gær að sveitarstjórn vilji gefa málinu meiri tíma og dýpka umræðuna. Hann segir tilefni til að ræða heildstætt um Skjálfandafljót frá „upptökum til ósa“.
Ein helsta gagnrýnin sem kom fram á fundinum í Kiðagili á dögunum var sú að of lítið samráð hefði verið haft við íbúa og að samfélagsleg áhrif af virkjuninni óljós. Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, bóndi í Svartárkoti í Bárðardal, sagði á fundinum að Einbúavirkjun væri ekkert meðal dalbúanna. Hún velti því upp hvort að það væri ekki einmitt rík ástæða til að ræða málin, „jafnvel þó að þau séu erfið“. Guðrún sagðist telja að ein helsta ástæða þess að fyrirhuguð Einbúavirkjun hafi ekki verið rædd sé hvernig viðbrögðin urðu í aðdraganda Svartárvirkjunar „Við erum svo góð í því að ákveða að láta ekki eitthvað svona eyðileggja samfélagið okkar að við ræddum þetta einfaldlega aldrei. Þetta var sett til hliðar.“
Einbúavirkjun ehf., félag í eigu Hilmars Ágústssonar og Kristjáns Gunnars Ríkharðssonar, hefur áform um að reisa 9,8 MW virkjun í Skjálfandafljóti í landi jarðanna Kálfborgarár og Einbúa í Bárðardal.
Uppgangur aflminni virkjana
Engin virkjun er í Skjálfandafljóti í dag en tvær virkjanahugmyndir, Fljótshnúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjun, eru í verndarflokki 3. áfanga rammaáætlunar samkvæmt þingsályktunartillögu sem enn hefur ekki verið samþykkt á Alþingi, meira en fjórum árum eftir að hún var fyrst lögð fram. Einbúavirkjun fellur hins vegar ekki undir ákvæði laga um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) þar sem hún er undir 10 MW að uppsettu afli. Slíkar virkjanahugmyndir, sem stundum hafa verið nefndar smávirkjanir, m.a. af Orkustofnun, hafa í auknum mæli komið fram síðustu misseri og margar valdið deilum.
Skipulagsstofnun gaf álit sitt á matsskýrslu Einbúarvirkjunar síðasta sumar og komst m.a. að þeirri niðurstöðu að eldhrauni yrði raskað sem sýna þyrfti fram á brýna nauðsyn til sem stofnunin taldi ekki til staðar.
Í greinargerð aðalskipulags Þingeyjarsveitar, sem samþykkt var árið 2011, kemur fram sú stefna sveitarfélagsins að nýta vatnsafl innan þess, sé það til hagsbóta fyrir íbúa og í samræmi við sjálfbæra þróun. „Þingeyjarsveit telur eftirsóknarvert að kanna frekar framtíðarmöguleika á og kosti þess að byggja fleiri virkjanir til einkanota sem og orkusölu á frjálsum raforkumarkaði, en sveitarfélagið er á móti hugmyndum um að virkja Skjálfandafljót.“
Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, sagði við Kjarnann fyrr í vikunni að engin sérstök tímamörk væru á því kynningarferli sem skipulagsáform Einbúavirkjunar væru nú í þar sem auglýsingaferli væri ekki hafið.
Skipulagsferlið hófst hins vegar fyrir rúmu ári. Þá samþykkti sveitarstjórn með fimm atkvæðum af sjö að gerð yrði skipulags- og matslýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi í samræmi við óskir framkvæmdaraðila. Á þeim tíma lá frummatsskýrsla Einbúavirkjunar ehf. fyrir. Í júlí var skipulags- og matslýsingin auglýst en á kynningartímanum, sem stóð til 6. ágúst, birti Skipulagsstofnun álit sitt á matsskýrslu framkvæmdaaðila um virkjunina.
Sameiningarviðræður standa nú yfir milli Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps.
Settu skilyrði
Á sveitarstjórnarfundinum nú í janúar, þegar Einbúavirkjun var til umfjöllunar skipulagstillögurnar samþykktar til auglýsingar að undangenginni kynningu var það gert með þeim skilyrðum „að skýrt verði að frárennslisgöng séu skilyrði samkvæmt valkosti A í skipulagstillögunum“. Er þetta skilyrði í samræmi við þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að jarðgöng hefðu minni umhverfisáhrif en opinn veituskurður á þeim 2,6 kílómetra kafla sem vatni yrði veitt úr farvegi Skjálfandafljóts eins og gert er ráð fyrir í öðrum valkostum.
Að mati Skipulagsstofnunar ætti að gera ráð fyrir þeim jarðgangakosti sem aðalvalkosti, sýni rannsóknir á jarðlögum fram á að slíkt sé gerlegt. „Ætti framkvæmdaraðili að leggja fram gögn sem sýna fram á að slíkt sé ekki hægt, verði það raunin,“ sagði í áliti Skipulagsstofnunar. „Það er jafnframt hlutverk sveitarfélags, í samvinnu við framkvæmdaraðila að fylgja þessu atriði eftir við deiliskipulagsgerð og undirbúning framkvæmdaleyfis.“
Náttúruverndin fagnar
Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, SUNN, fagna þeirri ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar að setja ferli skipulagsbreytinga vegna Einbúavirkjunar á bið. Í fréttatilkynningu segir að samtökin hafi verið „uggandi vegna áforma um virkjun Skjálfandafljóts“ og hafi talað afdráttarlaust gegn þeim. Mikið fagnaðarefni sé að sveitarstjórn bregðist við þeirri umræðu sem hefur skapast vegna málsins undanfarið.
Ef Einbúavirkjun yrði að veruleika yrðu stórir opnir skurðir grafnir í landslagið við bakka Skjálfandafljóts og virkjunin yrði nálægt einni af skilgreindum gáttum inn í fyrirhugaðan hálendisþjóðgarð. Telja samtökin mikla náttúruverndarhagsmuni fólgna í því að vernda allt Skjálfandafljót fyrir virkjunum. „Möguleikar á raforkuframleiðslu á þegar röskuðum svæðum eru til staðar og ættu alltaf að njóta forgangs þegar og ef orkuþörf kallar á frekari framleiðslu,“ segir í fréttatilkynningu samtakanna. „Einbúavirkjun hefði ekkert gert fyrir samfélagið í Bárðardal.“