Svíar eru óumdeilanlega stórþjóðin í hópi Norðurlandanna. Þeir eru fjölmennastir, Volvoinn er sænskur eins og Gustavsberg og Abba. Svo er það IKEA og Astrid Lindgren, Stig Larsson og Ingmar Bergman. Allt þetta og ótalmargt annað sameinast í þessu norræna stórveldi: Svíþjóð. Danir með H.C Andersen, Arne Jacobsen og Mads Mikkelsen, Norðmenn með Edvard Munch, Henrik Ibsen og Holmenkollen, Finnarnir með Jean Sibelius, Kalevala og Múmínálfana og við Íslendingar með Halldór Laxness, Björk og Sigurrós, höfum ekki roð við Svíum. Þeir eru stærstir og mestir okkar í norðrinu.
Svíar og orðsporið
Á einu sviði eru Svíar þó ekki óumdeildir Norðurlandameistarar, þeir hafa sjaldan verið taldir sérstakir snillingar á sviði matargerðar. Margir Íslendingar sem dvalist hafa í Svíþjóð, einkum kannski sem námsmenn, þekkja vel korv, sænsku pylsuna. Korv var á 18. öld kallað fátækramatur, ástæðan sú að pylsurnar voru ódýrar. Uppistaðan í pylsunum, sem oftast eru reyktar, er hakkað kjöt, iðulega feitt. Efnaðra fólk vildi sjaldnast leggja sér korv til munns og það orðspor fylgdi pylsunum lengi.
Í uppskriftabók sem notuð var í höll Svíakonungs á löngum valdatíma Gustavs V, 1907- 1950, eru 400 uppskriftir, meðal þeirra er engin sem gerir ráð fyrir korv. Í könnun sem gerð var árið 1976 kom fram að korv væri mun oftar á borðum láglaunafólks en þeirra betur launuðu. En korv er ekki bara eitthvað eitt, til eru fjölmargar bækur fyrir þá sem vilja spreyta sig á pylsugerðinni og enn fleiri uppskriftabækur.
Hér á undan var nefnt að Svíar hafi ekki verið taldir til snillinga í matargerð. Það er vitaskuld alhæfing. Í Stokkhólmi eru til dæmis 13 svonefndir Michelin veitingastaðir, staðir sem komast á blað í þekktustu bók í heimi, á sínu sviði: Michelin Guide. Þótt sú bók sé ekki óbrigðul er hún leiðarvísir og veitingastaðir sem hljóta náð fyrir augum Michelin hreykja sér af því í auglýsingum. Við Íslendingar getum ekki hreykt okkur hátt í þessum efnum, höfum einungis einu sinni komist á blað í stjörnugjöf Michelin.
Derringur í Dönum
Danir gera gjarna grín að Svíum þegar talið berst að mat og matargerð. Fussa og sveia yfir sænska korvinu sem að þeirra mati stenst ekki samanburð við dönsku pylsurnar, og súrsíldinni (surströmning) fúlsa þeir við. Sænsku kjötbollurnar segja Danir ekki jafnast á við hinar dönsku frikadeller, að maður nefni nú ekki smurbrauðið. Það jafnast einfaldlega ekkert á við ekta danskt „smørrebrød“, að mati Dana sjálfra.
Hér skal enginn dómur lagður á slíkt, en svo mikið er víst að þegar minnst er á danskan mat eru það pylsurnar, purusteikin og smurbrauðið sem fyrst kemur upp í hugann. Danir telja sig sem sagt lítið þurfa til annarra að sækja þegar matur er annars vegar.
Bolla bolla
Í bókinni „Kogebog for smaa Husholdninger“ sem kom út árið 1837, og er sögð fyrsta matreiðslubók sem út kom í Danmörku, ætluð almenningi er uppskrift að því sem höfundur kallaði „fastelavnsboller“. Hráefnið í þessum bollum er hveiti, rúsínur, appelsínubörkur, kardimommur og creme (eins og það er orðað). Orðið fastelavn þýðir föstuinngangur, en upphaf föstunnar sjálfrar miðaðist við miðvikudag 40 dögum fyrir páska (á öskudegi).
Föstuinngangurinn, fastelavn, er sem sé mánudagur, bolludagur. Siðurinn að baka brauð í tilefni dagsins, fastelavnsboller, er talinn hafa borist til Danmerkur frá Þýskalandi og svo frá Dönum til Íslands, seint á 19. öld. Hér á landi voru bollurnar upphaflega kallaðar langaföstusnúðar. Þegar séra Matthías Jochumsson þýddi „Sögur herlæknisins“ eftir Zacharias Topelius um aldamótin 1900 kallaði hann bollurnar föstuinngangssnúða. Fróðlegt væri að vita hvaða svar fengist í bakaríum nútímans ef beðið væri um slíkt brauðmeti!
Bollur í tugþúsundatali
Annríkinu í kringum „jólavertíðina“ hjá dönskum bökurum var varla farið að linna þegar undirbúningur næsta annríkistímabils „bolluvertíðarinnar“ hófst. Þótt fastelavn, bolludagurinn, sé ekki fyrr en á morgun (15.2.) er bollusalan löngu hafin. Eins og iðulega í kringum fastelavn er talsvert fjallað um bollur, mismunandi tegundir og tískustrauma í „bollubransanum“ í dönskum fjölmiðlum.
Bakarar sem danskir fjölmiðlar hafa tekið tali segja að bollusalan í ár sé langtum meiri en nokkru sinni fyrr. Engar skýringar kunna þeir á þessari miklu aukningu en benda á að salan hafi á undanförnum árum aukist jafnt og þétt en ekkert í líkingu við það sem nú stefni í.
Bakari í litlu bakaríi í Kaupmannahöfn sagðist í viðtali við Danska útvarpið DR eiginlega ekki geta bakað annað en bollur þessa dagana og suma daga hafi hann selt næstum 3 þúsund bollur. Hann bjóst við við selja rúmlega 50 þúsund bollur á meðan „vertíðin“ stendur yfir.
Fjölmörg afbrigði
Úrvalið af bollum í dönskum bakaríum er fjölbreytt, og eykst stöðugt. Í grófum dráttum má skipta bollunum í þrjá flokka: vatnsdeigsbollur, gerbollur og smjördeigsbollur. Úrvalið af kremi og rjóma sem bollurnar eru fylltar með, ásamt sultu, er fjölbreytt og svo er spurning um glassúr súkkulaði eða eitthvað annað á toppinn.
Svo eru það þær sænsku
Eins og fyrr var nefnt er bolluúrvalið í dönskum bakaríum stöðugt að aukast og bakarar reyna sífellt að koma með nýjungar, þótt þær séu flestar í kringum sama stefið ef svo mætti segja. Það nýjasta á þessu sviði er hins vegar aðeins öðruvísi. Á allra síðustu árum er nefnilega kominn sænskur gestur í bolluboðið. Sá heitir Semla.
Semlan er gerdeigsbolla, hol að innan. Þar skal setja blöndu af brauði sem skafið er innan úr bollunni, marsipani, flórsykri, smávegis mjólk og kardimommu. En alls ekki sultu. Ofan á þetta kemur svo þeyttur rjómi og lokið af bollunni efst. Lokið er svo notað eins og skeið til þess að borða rjómann og sem mest a blöndunni áðurnefndu. Það sem þá er eftir er svo borðað eins og „håndmad“, það er að segja ekki með hníf og gaffli. Sænskur semlu sérfræðingur var spurður hvort maður gæti ekki borðað semluna eins og maður væri með hamborgara á milli handanna. Sá sænski sagði jú það væri vissulega hægt en slíkt gera bara viðvaningar sem ekki kunna sig að þessu leyti.
Þegar spurt var hver væri helsti munurinn á semlu og þeim bollum sem Danir eru vanir var svarið það að dönsku bollurnar væru klessulegri, deigið innihéldi meira smjör og væri þar af leiðandi feitara.
Eftirsóttar
Enn sem komið er eru semlurnar ekki fáanlegar í öllum dönskum bakaríum og kannski langt í að það verði. En þar sem semlurnar eru fáanlegar seljast þær eins og heitar lummur, eins og sagt er. Bakari á Austurbrú í Kaupmannahöfn, sem bakað hefur semlur í nokkur ár, sagði í viðtali að salan væri sífellt að aukast. Enn þá væru einungis fá bakarí sem væru með semlurnar til sölu en með vaxandi vinsældum myndi það breytast. Þegar bakarinn var spurður hvort það væru ekki bara Svíar í Kaupmannahöfn sem kæmu til að kaupa semlurnar svaraði hann því til að hann hefði athugað það sérstaklega en sér sýndist þetta fyrst og fremst vera Danir.
Fyrir þá sem vilja spreyta sig á semlubakstri fylgir hér hlekkur á eina semluuppskrift:
https://www.dr.dk/mad/opskrift/semlor-svensk-fastelavnsbolle