Beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna skipunar dómara í Landsrétt, sem var dæmd ólögmæt af Hæstarétti og Mannréttindadómstól Evrópu, er 140.952.843 krónur. Þá er ekki taldar með skaðabætur sem Eiríkur Jónsson, einn þeirra fjögurra sem Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað að leggja ekki til að yrði skipaður í réttinn þrátt fyrir að dómnefnd hafi talið hann á meðal hæfustu umsækjenda. Auk þess vantar kostnað af starfi dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti dómara og starfsmanns hennar, kostnað vegna auglýsinga og annar slíkur kostnaður sem til féll á undirbúningsstigi. Þá vantar inn í tölurnar kostnað vegna vinnu ríkislögmanns vegna málsins, en sá kostnaður hefur aldrei fengist uppgefinn. Því má ætla að endanlegur kostnaður vegna málsins verði mun hærri.
Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um kostnað íslenska ríkisins vegna málsins, sem birt var á vef Alþingis í dag.
Tók fjóra út og setti aðra fjóra inn
Í aðdraganda þess að Landsréttur var settur á laggirnar, en hann hóf störf í byrjun árs 2018, þurfti að skipa 15 dómara við nýja millidómsstigið. Sérstök hæfisnefnd mat Eirík þá sjöunda hæfastan af þeim sem sóttu um og Jón Höskuldsson var einnig á meðal 15 hæfustu að mati hennar. Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað hins vegar að taka út fjóra þeirra sem hæfisnefndin hafði metið á meðal 15 hæfustu og setja aðra, sem nefndin hafði metið minna hæfa, inn á lista yfir þá sem hún vildi skipa. Eiríkur og Jón voru báðir þar á meðal. Alþingi samþykkti svo lista Sigríðar.
Auk þess komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu í málinu að dómararnir fjórir sem voru færðir upp á lista Sigríðar væru ólöglega skipaðir, og geti þar með ekki fellt dóma yfir þeim sem fyrir þá koma, enda hafi þeir ekki hlotið réttláta málsmeðferð. Í kjölfar þess að dómur Mannréttindadómstólsins féll þá sagði Sigríður af sér embætti dómsmálaráðherra.
Tveir stefndu og vildu bætur
Þeir Eiríkur og Jón höfðuðu ekki sambærilegt mál og Ástráður og Jóhannes. Jón sendi hins vegar kröfu á íslenska ríkið eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir þar sem hann krafði það um skaða- og miskabætur vegna skipunar í Landsrétt. Þeirri kröfu var ekki svarað og í kjölfarið höfðaði Jón sem hann vann sigur í fyrir Hæstarétti fyrr í þessum mánuði.
Jón krafðist þess að fá bætt mismun launa, lífeyrisréttinda og annarra launatengdra réttinda dómara við Landsrétt annars vegar og héraðsdómara hins vegar. Jón krafðist þess að fá þennan mun greiddan út starfsævi sína, eða í níu ár.
Eiríkur ákvað að fylgja í fótspor Jóns stefndi ríkinu. Hann er fæddur árið 1977 og átti því um 27 ár eftir á vinnumarkaði þegar skipað var í Landsrétt miðað við hefðbundinn eftirlaunaaldur.
Eiríkur sótti aftur um stöðu dómara við Landsrétt og var skipaður í það embætti síðsumars 2019. Jón sótti sömuleiðis um lausa stöðu við Landsrétt í fyrra og var skipaður í september 2020.
Sinnti ekki rannsóknarskyldu
Í dómsorði Hæstaréttar í málum Eiríks og Jóns sagði meðal annars að Sigríði hafi verið að gera tillögu til Alþingis um skipun annars eða annarra umsækjenda en þeirra sem dómnefnd hafði metið hæfasta, að því tilskildu að þeir fullnægðu almennum hæfisskilyrðum laganna. „Tillaga ráðherra um að víkja frá áliti dómnefndar og leggja til aðra umsækjendur en þá sem dómnefnd hafði metið hæfasta varð hins vegar að byggja á málefnalegum sjónarmiðum og vera reist á fullnægjandi rannsókn, samanburði og rökstuðningi fyrir breyttri tillögu um það hver eða hverjir umsækjenda væru að mati ráðherra hæfastir til að gegna dómaraembætti öndvert áliti dómnefndar. Að fenginni slíkri tillögu frá ráðherra væri það síðan hlutverk Alþingis að hafa eftirlit með því að tillaga ráðherra fullnægði þessum kröfum[...]Af hálfu gagnáfrýjanda hefur ekki verið gerð viðunandi grein fyrir því hvaða samanburður fór fram af hálfu ráðherra á aðaláfrýjanda og öðrum umsækjendum og hvernig innbyrðis mati á þeim var háttað, en dómnefnd hafði samkvæmt stigatöflu raðað aðaláfrýjanda í ellefta sæti yfir 15 hæfustu umsækjendurna. Þá hefur Hæstiréttur eins og í héraðsdómi greinir þegar hafnað sjónarmiðum um að þeir annmarkar hafi verið á dómnefndarálitinu að tilefni hafi verið fyrir ráðherra að víkja frá því.“
Af þessu leiði að vafi sé um það hvort fullnægjandi rannsókn málsins, og að öðru leyti lögmæt meðferð þess af hálfu ráðherra, hefði leitt til annarrar niðurstöðu um hæfni Eiríks og Jóns en dómnefnd hafði komist að. Það verði að túlka þeim í hag.
Einn enn í leyfi
Hæsti kostnaðurinn vegna málsins féll til vegna settra dómara í fjarveru þeirra fjögurra dómara sem þurftu að fara í leyfi frá Landsrétti eftir að skipan þeirra var dæmd ólögmæt. Þrír þeirra hafa nú verið endurskipaðir og sá fjórði, Jón Finnbogason, sótti um lausa stöðu við réttinn í lok síðasta árs. Fyrr í þessari viku komst dómnefnd um hæfi umsækjenda hins vegar að þeirri niðurstöðu að Símon Sigvaldason, dómstjóri í Héraðsdómi Reykjavíkur, væri hæfasti umsækjandinn um það starf. Þegar upphaflega var skipað í Landsrétt hafði Jón lent í 30. sæti af 33 umsækjendum á hæfnislista dómnefndar, en Sigríður ákvað samt sem áður að skipa hann. Kostnaður Landsréttar vegna leyfis dómaranna var rúmlega 73 milljónir króna í lok síðasta árs og hann heldur væntanlega áfram að hækka á meðan að Jón er í leyfi.
Dæmdur málskostnaður vegna mála er tapast hafa fyrir íslenskum dómstólum var 10,6 milljónir króna og málskostnaður fyrir Mannréttindadómstól Evrópu 20 þúsund evrur, eða 3,1 milljón króna.
Dæmdar miska- og/eða skaðabætur er íslenska ríkinu bar samkvæmt dómum að greiða umsækjendum um dómarastarf voru samtals 19,7 milljónir króna en inn í þá tölu vantar skaðabætur Eiríks Jónssonar, sem fékk viðurkennda skaðabótaskylda íslenska ríkisins gagnvart sér með dómi Hæstaréttar fyrr í febrúar.
Sérfræðiráðgjöf til dómsmálaráðuneytisins í aðdraganda og í kjölfar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu og yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu kostaði samtals um 36,1 milljón króna og íslensk þýðing dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu kostnaði um 1,1 milljón króna. Þýðing á íslenskum dómum, nefndarálitum og öðrum gögnum kostaði samtals um 5,3 milljónir króna.
Hér er ótalinn kostnaður af starfi dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti dómara og starfsmanns hennar, kostnaður vegna auglýsinga og annar slíkur kostnaður sem til féll á undirbúningsstigi.