Fjölmiðla- og fjarskiptafélagið Sýn tapaði 405 milljónum króna á síðasta ári. Það er töluvert minna tap en félagið skilaði af sér árið 2019, þegar það tapaði 1.748 milljónum króna. Samanlagt tap samstæðunnar á tveimur árum er því tæplega 2,2 milljarðar króna.
Þetta kemur fram í ársreikningi Sýnar vegna 2020 sem birtur var í gær.
Árið 2019 réð mestu að virðisrýrnun viðskiptavildar vegna fjölmiðla samstæðunnar var færð niður um tæplega 2,5 milljarða króna, en á móti kom líka einskiptissöluhagnaður vegna sölu á færeyska félaginu P/F Hey upp á 872 milljónir króna.
Tekjur félagsins jukust um tæpan milljarð króna á milli ára og voru í heild 20,8 milljarðar króna á síðasta ári. Í fyrra féllu allar nýjar tekjur Sýnar til vegna dótturfélagsins Endor, upplýsingafyrirtækis í hýsingar- og rekstrarlausnum sem stýrir ofurtölvum, sem Sýn keypti í lok árs 2019, og kom inn í samstæðureikning félagsins á árinu 2020. Kaupverðið á Endor var 618 milljónir króna en getur enn tekið breytingum eftir afkomu þess, og tekjur þess voru 2,4 milljarðar króna í fyrra. Ef Endor hefði ekki komið inn í samstæðureikninginn í fyrra hefðu tekjur dregist saman um 1,4 milljarða króna.
Mesti samdrátturinn í fjölmiðlatekjum
Allir aðrir tekjustofnar Sýnar drógust enda saman á milli ára.
Mestur var samdrátturinn í fjölmiðlahluta Sýnar, en tekjur hans drógust saman um 559 milljónir króna á milli ára. Frá lokum árs 2018 hafa tekjur vegna fjölmiðla Sýnar lækkað um rúmlega einn milljarð króna.
Þorri samdráttarins er vegna þess að auglýsingatekjur drógust saman um 11 prósent milli ára. Tekjur af sjónvarpsdreifingu jukust hins vegar um 18 prósent. Í tilkynningu sem send var til Kauphallar Íslands vegna uppgjörsins er haft eftir Heiðari Guðjónssyni, forstjóra Sýnar og eins stærsta hluthafa félagsins, að með breyttu vöruframboði hafi tekist að fjölga viðskiptavinum Stöðvar 2 um 14 prósent á árinu 2020. „„Við höfum stöðugt lækkað verð frá því tókum yfir fjölmiðlareksturinn. Verð á Stöð 2 Sport hefur helmingast á síðustu 3 árum og nú bjóðum við upp á að kaupa áskrift að Stöð 2 Ísland og Stöð 2 Erlent á áður óþekktum verðpunkti, eða á 3.990 kr.“
Í fjárfestakynningu sem fylgdi ársreikningnum segir meðal annars að áskrifendum Stöð 2 Sport hafi fjölgað um 26 prósent á milli desember 2019 og 2020. Efnisveitan Stöð 2 + hafi sömuleiðis fjölgað áskrifendum um níu prósent og fullyrt er að hlutdeild Stöðvar 2 á markaði sé nú orðin sú sama og hún var áður en hinum svokallaða opna glugga, sem innihélt fréttir stöðvarinnar og Ísland í dag, var lokað í síðasta mánuði.
Fyrirhugað að selja óvirka innviði
Á eftir samdrættinum í fjölmiðlun kemur samdráttur í farsímatekjum upp á 390 milljónir króna milli ára og tekjur vegna internets, sem dragast saman um 254 milljónir króna.
Lækkun tekna vegna farsíma skýrist aðallega að 64 prósent samdrætti í reikitekjum milli ára. Sýn fullyrðir hins vegar að jákvæð þróun hafi verið í fjölda viðskiptavina milli ára.
Í uppgjöri Sýnar kemur fram að félagið sé langt komið með að selja svokallaða óvirka farsímainnviði félagsins. Ætlaður söluhagnaður vegna þessa er um sex milljarðar króna. Sýn mun svo leigja innviðina til 20 ára af nýjum eiganda, félagið í stýringu bandaríska framtakssjóðsins Digital Colony. Heiðar segir í tilkynningunni til Kauphallar Íslands að stjórn félagsins hafi veitt stjórnendum umboð til að undirrita nauðsynleg skjöl á þeirri forsendu að skjalagerð verði að fullu lokið í síðasta lagi fyrir birtingu árshlutareiknings 1. fjórðungs 2021, en stefnt sé að því að undirritun samninga takist vel fyrir þann tíma.
Ef uppgjör Sýnar eru skoðuð tvö ár aftur í tímann, og leiðrétt er fyrir einskiptishagnaðinum vegna sölunnar á P/F Hey í byrjun árs 2019, þá hefur félagið skilað tapi á öllum ársfjórðungum áranna 2019 og 2020 nema einum. Á þriðja ársfjórðungi ársins 2020 skilaði það átta milljón króna hagnaði.