Réttarhöldin sem hófust sl. miðvikudag (24.2.) eiga sér langan aðdraganda. Fimm menn, fjórir þeirra sænskir ríkisborgarar og sá fimmti franskur, eru ákærðir fyrir að undirbúa rán hjá fyrirtækinu Loomis í Taastrup, skammt fyrir vestan Kaupmannahöfn. Loomis er fyrirtæki sem geymir, og flytur, seðla og mynt fyrir banka og verslanir. Loomis starfar í mörgum löndum og er með rúmlega átta þúsund starfsmenn.
Nöfn fjögurra manna sem nú eru fyrir réttinum hafa ekki verið gefin upp en fimmti maðurinn er Tayeb Si M´Rabet. Nafnið kemur almenningi kannski ekki kunnuglega fyrir sjónir en danska lögreglan og dómstólar þar í landi þekkja þennan fimmtuga Frakka hinsvegar mætavel. Hann hefur hlotið marga dóma fyrir rán og gripdeildir víða í Danmörku. Hann var aðalmaðurinn og skipuleggjandi eins stærsta ráns í sögu Danmerkur og rétt er að rifja upp áður en lengra er haldið.
Stóra ránið 2008
Snemma morguns 10. ágúst árið 2008 var stórri traktorsgröfu ekið á vegg seðlageymslu og flutningafyrirtækisins Dansk Værdihåndtering í Brøndby, skammt vestan við Kaupmannahöfn. Traktorsgröfunni hafði verið rænt frá verktakafyrirtæki í nágrenninu.
Nokkru áður hafði lögreglan fengið veður af að „eitthvað stæði til“ eins og einn yfirmanna lögreglunnar komst að orði. Vart hafði orðið mannaferða í nágrenni Dansk Værdihåndtering og ýmislegt fleira hafði vakið grunsemdir lögreglu.
Vel undirbúnir
Þótt mennirnir sem athöfnuðu sig inni í seðlageymslum Dansk Værdihåndtering væru aðeins fjórir var ljóst að þeir voru ekki einir að verki. Og ránið var vel undirbúið. Ræningjarnir vissu nákvæmlega hvar seðlageymslurnar voru og hver væri auðveldasta leiðin (ef hægt er að orða það svo) þangað inn. En eitt er að brjótast inn og krækja í seðlana og annað að komast undan. Ræningjarnir höfðu ekki gleymt þeim þætti í skipulagningunni. Þeir höfðu stolið 11 stórum bílum, vörubílum, strætisvagni og sorpbílum. Þessum bílum höfðu þeir lagt þversum á nokkrum götum í nágrenni næstu lögreglustöðvar, og einum bílnum hafði verið lagt þvert fyrir útkeyrsluna á bílageymslu lögreglunnar. Til að bæta um betur kveiktu þeir í bílunum. Ennfremur höfðu þeir stráð naglalykkjum (caltrop) á nokkrar umferðargötur til að tefja enn frekar fyrir lögreglunni.
Undirbúningur ræningjanna skilaði sér. Þegar lögreglan, seint og um síðir, kom á staðinn voru ræningjarnir á bak og burt. Horfnir eins og jörðin hefði gleypt þá. Þrátt fyrir mikla eftirgrennslan fann lögreglan hvorki tangur né tetur. Ekki ræningjana, ekki peningana, ekki bílana sem höfðu sést á eftirlitsmyndavélunum. Ekkert. Vitað var að ræningjarnir höfðu á flóttanum notast við þrjá stolna Audi bíla, þeir fundust ekki þrátt fyrir mikla leit.
Lögreglan kemst á sporið
Áfram hélt leit lögreglunnar. Og loks gerðist eitthvað, lögreglan fékk ábendingu. Hún leiddi til þess að Audi bílarnir þrír fundust. Þeir voru lokaðir inni í gámum í malarnámu í Sengeløse, smábæ vestan við Kaupmannahöfn. Lögreglan fylgdist með gámunum og eftir nokkra daga bar biðin árangur. Lögreglunni tókst þannig að hafa hendur í hári ræningjanna, en það sama verður ekki sagt um peningana. Það eina sem enn hefur fundist af milljónunum 62 sem ræningjarnir höfðu á brott með sér voru 4 milljónir, sem forsprakkinn hafði falið undir svölunum við hús fyrrverandi kærustu sinnar í Óðinsvéum á Fjóni. Þessi forsprakki var Tayeb Si M´Rabet, einn þeirra sem nú hefur verið ákærður fyrir að undirbúa rán.
14 menn dæmdir fyrir ránið
15. september 2010 féll í undirrétti dómur yfir 14 mönnum sem staðið höfðu að ráninu í Dansk Værdihåndtering. Samtals hlutu mennirnir yfir 100 ára fangelsisdóm, þyngsta dóminn hlaut forsprakki hópsins, Tayeb Si M´Rabet.
Hann var dæmdur í 10 ára fangelsi, og brottvísun úr landi að afplánun lokinni. Sex úr hópnum áfrýjuðu til Eystri Landsréttar (í Danmörku eru þrjú dómstig) sem staðfesti dóm undirréttar í janúar 2012. Fjórir úr hópnum voru Danir, hinum 10 var vísað úr landi þegar afplánun lauk.
Stórt rán í undirbúningi
Haustið 2019 komst lögreglan á snoðir um að hópur manna væri að undirbúa rán hjá seðlageymslu og peningaflutningafyrirtækinu Loomis í Taastrup. Hjá Loomis er meðal annars geymdur seðlaforði Danska Seðlabankans og um það bil 70 prósent allra seðla í landinu er að finna í geymslum Loomis.
Eftir að lögreglan fékk ábendinguna voru settar upp nokkrar myndavélar í nágrenni Loomis og staðsettar þannig að þær sæjust ekki auðveldlega. 12. nóvember 2019 sást á myndavél hvar fjórir menn stigu út úr bíl við hliðslá við Loomis. Þeir lyftu upp slánni og óku innfyrir. Lögregla sá skrásetningarnúmerið á bílnum, í ljós kom að sænskur maður hafði leigt bílinn á Kastrup flugvelli. Sænska lögreglan bar kennsl á mennina sem sést höfðu við hliðslána. Slóð lögreglu lá að leiguíbúð í Herlev við Kaupmannahöfn. Ákveðið var að gera þar húsleit en þegar lögreglan kom inn í íbúðina, sem talið var að væri mannlaus, kom í ljós að kona var þar innandyra. Þá beið lögregla ekki boðanna en handtók Svíana fjóra sem höfðu haldið til í íbúðinni og sést höfðu á upptökum við áðurnefnda hliðslá. Í íbúðinni fannst ýmis búnaður, lambhúshettur, gríma með hárkollu, tæki sem ruglar staðsetningarbúnað og fleira.
Mætti Tayeb Si M‘Rabet á götu í Kaupmannahöfn
Þegar þarna var komið sögu vissi lögreglan að sá sem stjórnaði undirbúningi hins fyrirhugaða ráns var „gamall kunningi“ ef svo mætti segja. Nefnilega Tayeb Si M´Rabet, maðurinn sem hafði skipulagt og stjórnað ráninu hjá Dansk Værdihåndtering árið 2008. Hann var nú laus eftir afplánun en lögregla var viss um að hann væri í Danmörku, þótt honum hafi verið vísað úr landi eftir að hann losnaði úr fangelsi. Lýst var eftir Tayeb Si M´Rabet 26. nóvember 2019 en tveimur dögum síðar mætti lögreglan honum á reiðhjóli í Kaupmannahöfn. Hann var handtekinn á staðnum en þegar hann sá lögregluþjónana kastaði hann frá sér símanum, sem hann hélt á. Lögreglan fann símann og þar voru meðal annars kort af Loomis og nágrenni. Sums staðar höfðu verið teiknuð strik þvert yfir götur, þar taldi lögregla að ætlunin hafi verið að koma fyrir stórum bílum til að loka götum. Margs konar aðrar upplýsingar fann lögreglan á síma Tayeb Si M´Rabet. Hann neitaði í fyrstu að eiga símann, hann hefði verið beðinn fyrir hann og átt að koma honum til annars manns.
Lögreglan gaf lítið fyrir þessar skýringar og Tayeb Si M´Rabet hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn.
Líkist mjög ráninu hjá Dansk Værdihåndtering
Réttarhöldin yfir Tayeb Si M´Rabet og samverkamönnum hans hófust eins og áður sagði fyrir nokkrum dögum. Lögregla segir undirbúning ránsins, miðað við gögn sem hún hefur undir höndum, minna mjög á ránið hjá Dansk Værdihåndtering árið 2008. Enda skipuleggjandinn sá sami.
Gert er ráð fyrir að réttarhöldin standi í tvær vikur og dómur verði kveðinn upp 26. mars næstkomandi.
Hér í lokin má geta þess að 1. apríl 2008 var framið rán hjá Loomis fyrirtækinu. Þá komust ræningjar undan með um það bil 60 milljónir danskra króna. Aldrei hefur fundist tangur né tetur af þeim peningum. Sex Svíar voru síðar handteknir en lögreglu tókst ekki að færa fram næg sönnunargögn og sexmenningarnir fengu greiddar bætur. Yfirmaður i dönsku lögreglunni sagði í viðtali að „Svíarnir hefðu örugglega skemmt sér vel yfir því að fá greitt fyrir að fremja rán“.