Láland er fjórða stærsta eyja Danmerkur og iðulega kölluð pönnukökueyjan. Ástæðan er einföld: eyjan er marflöt, hæsti punktur er einungis 25 metrum yfir sjávarmáli. Íbúar eru 41 þúsund og hefur fækkað jafnt og þétt um langt árabil. Ástæðan er fyrst og fremst skortur á atvinnu, en atvinnuleysi er hvergi meira í landinu. Ungt fólk hefur ekki séð neina framtíðarmöguleika og leitað á brott. Það hefur sem sé ekki blásið byrlega á Lálandi. En nú er breyting í vændum.
Ekki ný hugmynd
Sú hugmynd að tengja saman Danmörku og Þýskaland yfir Femernsund er ekki ný af nálinni. Árið 1863 fékk Friðrik VII kóngur í hendur uppdrátt. Það var byggingameistari hirðarinnar, G.V.A. Krühnke, sem sýndi kónginum uppdráttinn og útskýrði hugmyndina. Hún var sú að leggja járnbraut stystu leið frá Kaupmannahöfn til Hamborgar. Yfir Femernsundið yrði lagður eins konar flóðgarður,eða brú. Þremur árum síðar fékk byggingameistarinn samþykki konungs, og fjárveitingu, til að leggja járnbrautarteina og gera höfn við Rødby á Lálandi. Sú framkvæmd gekk vel en lengra náði málið ekki.
Árið 1920 náðist samkomulag milli stjórnenda þýsku og dönsku járnbrautanna um að tengja saman löndin tvö og leggja einhverskonar brú yfir Femernsundið. Enn liðu árin og það var ekki fyrr en 1955 að samningur um fastar ferðir lestarferja var samþykktur. Brúarhugmyndin hafði þá verið lögð á hilluna. Enn liðu átta ár og fastar ferðir yfir Femernsund, með járnbrautatengingum beggja vegna, hófust árið 1963. Þá var öld liðin frá því að byggingameistarinn Krühnke sýndi Friðriki VII teikningar sínar.
Brúarhugmyndin lifnar við en breytist í göng
Árið 1985 var aftur farið að ræða hugmyndir um tengingu yfir Femernsund. Fátt gerðist þó fyrr en árið 2008 að ráðherrar samgöngumála í Þýskalandi og Danmörku undirrituðu samkomulag um gerð tengingar yfir sundið, þjóðþing beggja landa staðfestu samkomulagið. Svo þurfti að reikna og teikna. Tvö ráðgjafarfyrirtæki voru fengin til verksins. Þau skiluðu skýrslum sínum árið 2011.
Bæði fyrirtækin mæltu með að í stað brúar, milli Rødby og Puttgarden, yrðu lögð göng undir Femernsundið. Rökin fyrir þessu voru einkum tvenn: göng yrðu óháð veðri en mjög vindasamt er á þessum slóðum og því fyrirséð að brú yrði lokuð margsinnis á hverju ári. Hitt atriðið sem réði tillögum ráðgjafanna var að tækni við lagningu ganga hefur fleygt mjög fram, í stað þess að bora eru göng undir sjó eins konar risarör, samsettar steyptar einingar, sem liggja á botninum. Þótt „rörið“ sé dýrara en brú er munurinn langtum minni en ef boruð væru göng. Samtals yrðu rörbútarnir, sem hver um sig vegur 73.500 tonn, 89 talsins, hver þeirra um það bil 200 metra langur, 40 metra breiður og 9 metra hár. Danskir fjölmiðlar hafa greint frá því að til greina komi að hver rörbútur yrði mun styttri en 89 metrar en þá yrðu þeir að sama skapi fleiri. Tvær akreinar verða í hvora átt, fyrir bíla, og tvöfaldir lestarteinar.
Margs konar tafir
Bæði ráðgjafarfyrirtækin töldu, árið 2011, að hægt yrði að opna göngin árið 2020, miðað við að framkvæmdir hæfust strax. Þeim yfirsást hins vegar nokkrir veigamiklir þættir: Margskonar flókin samningagerð, kærumál og fjármögnun. Kærumálin, sem urðu samtals 30 þúsund tók langan tíma að leiða til lykta. Umhverfis- og útboðsmál voru þar fyrirferðarmikil og komu sum þeirra til kasta Evrópudómstólsins. Í mars í fyrra (2020) hafði flestum hindrunum verið rutt úr vegi og í byrjun nóvember kom hið endanlega græna ljós á framkvæmdina. Og verkið er þegar hafið, bæði Þýskalands- og Danmerkurmegin.
Fjármagnað með gjaldi notenda
Samið var um að Þjóðverjar borgi allt sín megin við Femernsundið en Danir allt sín megin, svo og göngin sjálf. Kostnaður Dana er áætlaður um 60 milljarðar danskra króna (1238 milljarða íslenska). Þar við bætist kostnaðurinn sem fellur á Þjóðverja. Áætlaður heildarkostnaður við þessa framkvæmd er áætlaður um 100 milljarðar danskra króna (2060 milljarðar íslenskir). Þegar þessi fyrirhugaða stórframkvæmd var kynnt sagði danski samgönguráðherrann að þetta yrði kostnaðarsamasta verkefni sem Danir hefðu nokkru sinni ráðist í. Innheimt verður veggjald, sem Danir fá allar tekjur af. Upphæð þess hefur ekki verið ákveðin en áætlanir gera ráð fyrir að fullt gjald fyrir fólksbíl verði um það bil 500 krónur danskar (rúmar 10 þúsund íslenskar) fyrir hverja ferð. Gert er ráð fyrir að göngin verði greidd upp á 36 árum, en það veltur á umferðinni, sem ómögulegt er að spá um. Femern a/s, félagið sem annast þessa miklu framkvæmd er í eigu danska ríkisins.
Göngin eiga að endast í að minnsta kosti 120 ár. Áætlanir gera ráð fyrir að hægt verði að fara um göngin árið 2029. Þá verður vegalengdin milli Kaupmannahafnar og Hamborgar 370 kílómetrar, svipað og frá Reykjavík til Akureyrar.
Mikil lyftistöng
Reiknað er með að störf við göngin og allt sem þeim tilheyrir, Danmerkurmegin, verði á byggingartímanum um það bil 6 þúsund. Þetta er mikil lyftistöng fyrir íbúa Lálands, en eins og nefnt var framar í þessum pistli eru íbúar þar 41 þúsund. Borgarstjórinn á Lálandi, Holger Schou Rasmussen sagði í viðtali við danska útvarpið, DR, að nú taki við nokkurs konar gullöld á eyjunni næsta áratug eða svo. Hann sagði að meðal verkefna sem við blasi sé að sjá til þess að hægt verði að hýsa allan þann mannfjölda sem brátt mun streyma til Lálands. Borgarstjórinn sagði að eftir að framkvæmdum lýkur megi búast við að starfsfólk við göngin og ýmis konar þjónustu tengdri þeim skipti hundruðum. „Við viljum gera allt sem við getum til þess að þetta fólk setjist hér að. Nú erum við að skipuleggja og undirbúa byggingalóðir og úthluta, slíkt hefur ekki gerst hér í rúm 15 ár. Nánast daglega fáum við fyrirspurnir frá fyrirtækjum og einstaklingum sem vilja setja upp gáma hús og gámahótel. Slíkum fyrirspurnum svörum við neitandi.
Við viljum ekki að hér verði reistur einhverskonar gámabær þar sem tjaldað er til einnar nætur og breytist svo í draugaborg þegar framkvæmdum við Femern lýkur“.
Vegna framkvæmdanna er verið að setja upp fullkomna steypustöð, borgarstjórinn sagði hana dæmi um fyrirtæki sem æskilegt væri að halda í eftir að gangagerðinni lýkur, og reyndar væri unnið að því. Borgarstjórinn benti á að meðal Þjóðverja sé löng hefð fyrir því að ferðast til Danmerkur og verja þar sumarleyfinu. Þjóðverjastraumurinn hefur fram til þessa einkum verið til Jótlands „Það er mikilvægt að við hugsum til framtíðar, við þurfum að hugsa fyrir og skipuleggja afþreyingu fyrir sumardvalargesti“. Ætlunin er að útbúa, í tengslum við gangagerðina baðströnd, jafnvel fleiri en eina, og alvöru skemmtigarð sagði borgarstjórinn. „Svo þurfum við náttúrlega veitingastaði, bensín- og hleðslustöðvar og fleira og fleira. En, þótt við sjáum fram á hálfgerða gullöld næstu árin þurfum við að gæta þess að ekki renni á okkur gullæði. Slíkt endar sjaldnast vel“.