Allar hagspár sem gerðar hafa verið af ríkisstjórninni, bönkum og hagsmunasamtökum eftir að faraldurinn skall á af fullum þunga ofmátu samdrátt í landsframleiðslu í fyrra, miðað við bráðabirgðartölur Hagstofu. Sömuleiðis ofmátu þau samdráttinn í einkaneyslu og íbúðafjárfestingu, en vanmátu samdráttinn í opinberum fjárfestingum.
Frá apríllokum á síðasta ári hafa Íslandsbanki, Landsbankinn, Arion banki, Seðlabankinn, Hagstofa, fjármálaráðuneytið, Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Viðskiptaráð gefið út samtals 15 hagspár sem reynt hafa að meta efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins í fyrra. Þar af voru sex þeirra gefnar út stuttu eftir að fyrsta bylgja faraldursins hafði skollið á, en níu þeirra komu út eftir að ljóst var að bylgjurnar yrðu fleiri en ein.
Töluverður munur er á hagspánum eftir því hvenær þær voru gerðar. Í fyrravor og byrjun sumars gerðu flestir greiningaraðilar ráð fyrir mjög snarpri kreppu vegna faraldursins, en töldu þó að efnahagslífið myndi taka fljótt við sér í ár. Enginn þeirra gerði ráð fyrir að veiran myndi blossa upp aftur í líklegustu spám sínum, en sumir bættu þó við þeim möguleika í dekkri sviðsmyndum sínum.
Síðasta haust höfðu svo forsendur breyst nokkuð, þar sem ljóst var fáir ferðamenn myndu heimsækja landið á seinni hluta ársins. Hins vegar bentu hagtölur þá til þess að áhrif vaxtalækkana á neyslu og íbúðafjárfestingu væru nokkuð umfram væntingar og voru greiningaraðilar því bjartsýnni á þróun þeirra undirflokka eftir því sem leið á árið.
Viðskiptaráð sker sig úr
Samkvæmt haglíkani Viðskiptaráðs, sem birt var 27. apríl í fyrra, hefði mátt búast við 13 prósenta samdrætti í landsframleiðslu í fyrra, gengi grunnsviðsmynd þeirra upp. Vegna mikillar óvissu um horfur í efnahagsmálum bætti ráðið þó við bjartari sviðsmynd,sem gerði ráð fyrir 8 prósenta samdrætti, og dekkri sviðsmynd, sem gerði ráð fyrir 18 prósenta samdrætti. Viðskiptaráð hefur nú fjarlægt dökku sviðsmyndina af vef sínum, en enn er hægt að nálgast hinar tvær hér.
Á mynd hér að ofan má sjá samanburð á spáðri breytingu í landsframleiðslu, einkaneyslu og verðbólgu í fyrra í grunnsviðsmyndum allra greiningaraðila, miðað við bráðabirgðartölur Hagstofu sem birtust fyrr í vikunni. Á henni sést að hagspá Viðskiptaráðs sker sig úr í væntum breytingum í einkaneyslu og hagvexti, en enginn annar greiningaraðili var nálægt því að spá svona miklum samdrætti.
Verðbólga og útflutningur í samræmi við spár
Langflestar hagspárnar innihéldu þann fyrirvara að þær gætu verið ónákvæmar þar sem vænt efnahagsþróun færi fyrst og fremst eftir framvindu heimsfaraldursins, sem mikil óvissa hefur ríkt um.
Hins vegar var þróun ýmissa hagstærða í góðu samræmi við flestar spárnar. Mest var nákvæmnin í verðbólguspám, þar sem allar 15 hagspárnar gerðu ráð fyrir því að verðlag myndi að meðaltali hækka um 2,2 til 2,9 prósent á árinu. Samkvæmt Hagstofu var verðbólgan í fyrra innan þeirra marka, eða um 2,8 prósent.
Einnig var samdrátturinn í útflutningi í ágætu samræmi við flestar spárnar. Ef frá eru taldar tvær spár var gert ráð fyrir því að útflutningur vöru og þjónustu myndi dragast saman um 28 til 32 prósent. Samkvæmt bráðabirgðartölum Hagstofu nam samdrátturinn 30,5 prósent, sem er nokkurn veginn í miðjunni á því spábili. Samanburðinn á væntum breytingum á verðbólgu og útflutningi má sjá á mynd hér að ofan.
Íbúðafjárfesting vanmetin
Aftur á móti áttu greiningaraðilarnir erfiðara með að spá fyrir um íbúðafjárfestingu og fjárfestingu hins opinbera, líkt og sjá má á mynd hér að neðan. Búist var við 7 til 25 prósenta samdrætti í íbúðafjárfestingu, en nýjustu tölur benda til þess að hún hafi aðeins dregist saman um eitt prósent. Eftir sem áður spáði Viðskiptaráð mesta samdrættinum.
Fjárfesting hins opinbera ofmetin
Einnig var mikið misræmi milli spá- og raungilda í opinberri fjárfestingu. Í fyrstu spám sem birtar voru í vor var búist við „myndarlegri“ aukningu í virði fjárfestinga hins opinbera, líkt og ríkisstjórnin sagðist ætla að ráðast í í fjármálaáætlun sinni. Hins vegar kom í ljós eftir því sem leið á árið að minna myndi verða af fjárfestingunum heldur en yfirvöld höfðu lofað og gerðu nýjustu hagspárnar sem gerðar voru í byrjun þessa árs fyrir 6 til 7 prósenta samdrætti í málaflokknum. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu dróst þó opinber fjárfesting enn meira en talið var.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kenndi sveitarfélögum um samdrátt í opinberri fjárfestingu í óundirbúnum fyrirspurnartíma í síðustu viku. Hins vegar sýnir greining frá Samtökum iðnaðarins að mesta misræmi milli framkvæmdaáætlana og raunverulegra framkvæmda hafi verið hjá Vegagerðinni, ISAVIA og Orku náttúrunnar, auk þess sem aðgerðir Landspítalans, Faxaflóahafna og Landsvirkjunar voru töluvert undir áætlunum.
Uppfært kl. 16:04: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar stóð að mesta misræmið á milli yfirlýsinga og framkvæmda hafi verið hjá Vegagerðinni, ISAVIA og Landspítalanum. Misræmið var þó meira hjá Orku náttúrunnar en hjá Landspítalanum.