Gríðarleg hreyfing hefur verið á stuðningi við stjórnmálaflokka það sem af er ári. Píratar halda áfram að bæta við sig fylgi og fá nú 37,5 prósent fylgi, samkvæmt nýjustu könnun Fréttablaðsins. Það er eina könnunin sem gerð hefur verið eftir að stjórnvöld kynntu áætlun um losun hafta fyrr í mánuðinum. Framsóknarflokkurinn nýtur þessara áforma ekki neitt og mælist með 8,5 prósent. Samfylking, VG og Björt framtíð græða ekkert á þessu fylgistapi Framsóknarflokks, en eini flokkurinn utan Pírata sem bætir við sig fylgi er Sjálfstæðisflokkurinn.
Kjarninn skoðaði framboðslista flokkanna út frá könnun Fréttablaðsins til að sjá hvaða núverandi þingmenn myndu missa sæti sín miðað við könnunina.
Suðvesturkjördæmi: Fjórir þingmenn dyttu út
Framsóknarflokkurinn myndi tapa tveimur af sínum fjórum þingmönnum í kjördæminu og Sjálfstæðisflokkurinn myndi tapa einum af sínum fimm. Öll þrjú þingsætin sem stjórnarflokkarnir myndu tapa færu til Pírata, sem næðu inn fimm mönnum, en eru nú með einn. Það er Birgitta Jónsdóttir. Síðasta þingsæti Pírata kæmi frá Bjartri framtíð, sem myndi tapa sínum manni í kjördæminu rétt eins og annars staðar. Björn Leví Gunnarsson, Hákon Einar Júlíusson, Árni Þór Þorgeirsson og Berglind Ósk Bergsdóttir skipuðu þessi fjögur sæti í kosningunum árið 2013.
Þingmenn framsóknar sem færu út af þingi eru Willum Þór Þórsson og Þorsteinn Sæmundsson. Elín Hirst næði ekki inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Guðmundur Steingrímsson dytti út af þingi fyrir Bjarta framtíð.
Þingflokkur Bjartrar framtíðar myndi þurrkast út miðað við könnun Fréttablaðsins í dag.
Suðurkjördæmi: Framsókn myndi missa þrjá af fjórum
Framsóknarflokkurinn fékk fjóra menn kjörna í síðustu kosningum en samkvæmt könnun Fréttablaðsins í dag myndi flokkurinn nú fá einn. Sá þingmaður í dag er Sigurður Ingi Jóhannsson, en Silja Dögg Gunnarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson og Haraldur Einarsson myndu öll detta út af þingi.
Páll Valur Björnsson myndi líka detta út af þingi en hann er eini þingmaður Bjartrar framtíðar í kjördæminu. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin héldu sínum þingmönnum í kjördæminu miðað við könnunina, og VG næði ekki manni inn frekar en í síðustu kosningum. Píratar, sem náðu ekki inn manni í kosningunum, myndu fá fjóra þingmenn í suðurkjördæmi. Þeir Smári McCarthy, Halldór Berg Harðarson, Björn Þór Jóhannesson og Svafar Helgason skipuðu þessi fjögur sæti í síðustu kosningum.
Frosti Sigurjónsson og Vigdís Hauksdóttir leiddu lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Hvorugt myndi ná inn nú.
Reykjavík suður: Píratar í stórsókn og Vigdís Hauks félli af þingi
Píratar eru í stórsókn í báðum Reykjavíkurkjördæmunum. Þeir eru nú með einn þingmann í Reykjavík suður, en það er Jón Þór Ólafsson. Samkvæmt könnunum fengi flokkurinn hins vegar sex þingmenn ef kosið yrði nú. Þessir fimm þingmenn koma frá Samfylkingu, Framsóknarflokki og Bjartri framtíð. Ásta Helgadóttir, Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, Sigríður Fossberg Thorlacius, Arnaldur Sigurðarson og Birkir Fannar Einarsson skipuðu þessi fimm sæti hjá Pírötum í kosningunum síðast.
Björt framtíð fékk þá Róbert Marshall og Óttar Proppé kjörna í kosningunum en þeir myndu báðir missa sæti sitt. Samfylkingin myndi missa annað af sínum tveimur sætum, sætið sem Helgi Hjörvar skipar nú. Framsóknarflokkurinn þurrkast út í Reykjavík suður líkt og Björt framtíð, sem þýðir að hvorki Vigdís Hauksdóttir né Karl Garðarsson væru þingmenn. VG og Sjálfstæðisflokkurinn halda sínum mönnum í kjördæminu.
Reykjavík norður: Allir nema Sjálfstæðismenn tapa þingmönnum til Pírata
Eins og í hinu Reykjavíkurkjördæminu myndi Framsóknarflokkurinn ekki ná neinum þingmanni inn ef kosið yrði nú. Nú eru þingmenn kjördæmisins þau Frosti Sigurjónsson og Sigrún Magnúsdóttir. Björt Ólafsdóttir væri ekki á þingi fyrir Bjarta framtíð, og Samfylkingin myndi tapa sæti Valgerðar Bjarnadóttur og hafa aðeins einn þingmann í kjördæminu. Vinstri græn myndu líka tapa öðrum af sínum tveimur þingmönnum, sæti Steinunnar Þóru Árnadóttur. Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínum þremur þingmönnum.
Píratar myndu fá sex þingmenn kjörna, rétt eins og í Reykjavík suður. Nú er þar einn þingmaður flokksins, Helgi Hrafn Gunnarsson. Halldóra Mogensen, Bjarni Rúnar Einarsson, Salvör Kristjana Gissurardóttir, Þórður Sveinsson og Haukur Ísbjörn Jóhannsson voru á eftir honum á lista Pírata fyrir kosningarnar.
Ásmundur Einar Daðason næði ekki sæti á þingi miðað við könnun Fréttablaðsins.
Norðvesturkjördæmi: Ásmundur Einar myndi detta út
Sjálfstæðisflokkurinn myndi bæta við sig manni í Norðvesturkjördæmi ef marka má skoðanakönnun Fréttablaðsins. Miðað við núverandi lista flokksins myndi það þýða að Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir kæmi inn á þing. Vinstri græn myndu tapa sínum eina manni, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur.
Framsóknarflokkurinn myndi tapa þremur af þeim fjórum mönnum sem hann fékk kjörna í síðustu kosningum. Eini þingmaðurinn sem héldi velli væri Gunnar Bragi Sveinsson, en Ásmundur Einar Daðason, Elsa Lára Arnardóttir og Jóhanna María Sigmundsdóttir myndu öll detta út. Samfylkingin myndi halda sínum eina manni, Guðbjarti Hannessyni.
Píratar hafa engan þingmann í kjördæminu en myndu hins vegar fá tvo miðað við skoðanakannanir. Í fyrstu sætunum á framboðslista í síðustu kosningum voru Hildur Sif Thorarensen og Herbert Snorrason.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir næði ekki sæti fyrir Vinstri græn, og ekki heldur Lilja Rafney Magnúsdóttir sem sést í fyrir aftan.
Norðausturkjördæmi: Sjálfstæðismenn bæta við sig manni og Sigmundur Davíð héldi velli
Hér myndi Sjálfstæðisflokkurinn einnig bæta við sig manni miðað við kannanir. Það væri þriðji þingmaður flokksins í kjördæminu en fyrir eru Kristján Þór Júlíusson og Valgerður Gunnarsdóttir. Ásta Kristín Sigurjónsdóttir skipar þriðja sæti listans.
Vinstri græn myndu tapa öðru af sínum tveimur þingsætum í kjördæminu, en það er sætið sem Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir situr í nú. Samfylkingin héldi sínum eina þingmanni, Kristjáni Möller, en Brynhildur Pétursdóttir væri ekki á þingi fyrir Bjarta framtíð.
Framsóknarflokkurinn færi úr fjórum þingmönnum í tvo, sem þýðir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Höskuldur Þór Þórhallsson héldu sínum sætum en ekki Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir. Píratar fengju þrjú þingsæti í kjördæminu, en skipa ekkert núna. Þessi þrjú sæti skipuðu Aðalheiður Ámundadóttir, Þórgnýr Thoroddsen og Helgi Laxdal.