453 einstaklingar og lögaðilar eiga fleiri en sex íbúðir á Íslandi
Á fimmta þúsund einstaklingar og lögaðilar eiga fleiri en eina íbúð á Íslandi. Framboð íbúða er í lágmarki, verð þeirra hefur hækkað gríðarlega og hlutfall ráðstöfunartekna verst settu hópa landsins sem fer í húsnæðiskostnað er orðið þannig að það flokkast sem íþyngjandi.
Alls eiga 71 einstaklingar og 382 lögaðilar fleiri en sex íbúðir, 155 einstaklingar og 101 lögaðilar eiga fimm íbúðir og 579 einstaklingar og 165 lögaðilar eiga fjórar íbúðir. Fjöldi þeirra einstaklinga sem eiga þrjár íbúðir er 2.974 og fjöldi lögaðila sem eiga sama magn íbúða er 285. Þá eiga 16.501 einstaklingur og 688 lögaðilar tvær íbúðir.
Þetta kemur fram í svari Þjóðskrár við fyrirspurn Kjarnans um málið. Vert er að taka fram að einstaklingur eða lögaðilar geta verið eigendur að sömu eignunum.
Þjóðskrá hóf að birta upplýsingar um eignarhald íbúða í síðasta mánuði. Í þeim tölum sem stofnunin birtir á heimasíðu sinni má sjá hversu margar þeirra þeirra 148.425 íbúða sem teljast fullbúnar á Íslandi voru í eigu einstaklinga eða lögaðila sem áttu bara eina íbúð og hversu margar voru í eigu aðila sem áttu fleiri en eina íbúð.
Mikil breyting frá því fyrir hrun
Í tölunum má sjá að 35,1 prósent íbúða var í eigu einstaklinga eða lögaðilar sem áttu fleiri en eina íbúð, alls 52.079 íbúðir. Það hlutfall hefur haldist nokkuð stöðugt á síðustu árum en hefur hækkað skarpt frá því sem var fyrir 15 árum, þegar 28,5 prósent íbúða voru í eigu aðila sem áttu fleiri en eina íbúð.
Íbúðir sem eru í eigu einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð, og þar af leiðandi eignir umfram þá sem þeir búa í, eru nú 30.713. Þeim hefur fjölgað um 9.031 frá árinu 2006, eða 41 prósent. Ef horft er lengra aftur, til ársins 2000, hefur þeim fjölgað um 13.838, eða 82 prósent.
Til samanburðar hefur þeim einstaklingum sem eiga eina íbúð fjölgað um tólf prósent frá árinu 2006 og um tæplega 22 prósent frá aldamótum.
Íbúðir sem eru í eigu lögaðila sem eiga fleiri en eina íbúð, til að mynda leigufélaga, eru nú 21.366 talsins. Árið 2006 voru þær 12.503 og því hefur þeim fjölgað um 71 prósent á 15 árum. Frá aldarmótum hefur þeim fjölgað um 12.213, eða 133 prósent.
Hátt í fimm þúsund kennitölur eiga fleiri en tvær íbúðir
Eftir að Þjóðskrá hóf að birta tölurnar um þá sem áttu fleiri en eina íbúð óskaði Kjarninn eftir því að fá upplýsingar um frekara niðurbrot á þeim þannig að hægt væri að sjá hversu margir ættu fleiri en tvær íbúðir.
Í svörum stofnunarinnar kom fram að 3.779 einstaklingar ættu slíkt magn af íbúðum og 933 lögaðilar. Alls áttu 226 einstaklingar fleiri en fimm íbúðir og 483 lögaðilar.
Ljóst er þó að í einhverjum tilvikum eiga einstaklingar og lögaðilar sömu íbúðina saman. Það getur til að mynda verið þannig að einstaklingur eigi hlut í henni á eigin kennitölu en svo á lögaðili, sem sami einstaklingur getur sannarlega átt en hefur aðra kennitölu, átt það sem upp á vantar í eigninni.
Þannig eru fjöldi kennitalna sem eiga íbúðir á Íslandi 186.327 talsins en fullbúnar íbúðir á landinu eru, líkt og áður sagði, 148.425. Af því má ráða að 37.902 íbúðir séu í eigu fleiri en eins aðila.
Þær kennitölur sem eru skráðar fyrir fleiri en einni íbúð eru alls 21.901 en fjöldi íbúða sem eru í eigu aðila sem eiga fleiri en eina íbúð eru 52.079.
Greiðslubyrði sem teljast má íþyngjandi
Í árlegri könnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) á íslenska leigumarkaðnum, sem framkvæmd var frá júní til september 2021 og nær til einstaklinga 18 ára og eldri sem eru á leigumarkaði á landinu öllu, kom fram að hlutfall ráðstöfunartekna allra leigjenda sem fer í leigu sé nú 45 prósent. Það var 40 prósent 2019. Samkvæmt HMS gefur það hlutfall til kynna mjög mikla greiðslubyrði að meðaltali sem teljast megi íþyngjandi. Í umfjöllun um könnunina er þó tekið fram að aukninguna á hlutfallinu megi að hluta til skýra með því að tekju- og eignameiri leigjendur náðu að komast af leigumarkaði og yfir í eigið húsnæði á tímabilinu.
Í sömu könnun kom fram að leigjendur hjá einkareknum leigufélögum og einstaklingum á almennum markaði voru með næsthæsta hlutfall þeirra sem greiddu 70 prósent eða meira af ráðstöfunartekjum sínum í leigu, eða 13 prósent. Einungis leigjendur á stúdentagörðum, að uppistöðu námsmenn með lágar tekjur, voru með hærra hlutfall þeirra sem greiddu svo stóran hluta ráðstöfunartekna í leigu, eða 15 prósent.
Hlutfall þeirra sem greiddi helming eða meira af ráðstöfunartekjum sínum í leigu var hins vegar langhæst hjá einkareknum leigufélögunum, samtals 44 prósent. Til samanburðar var það hlutfall 26 prósent hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum og 23 prósent hjá þeim sem leigðu af ættingjum eða vinum.
Kalla eftir stórátaki í húsnæðismálum
Í umsögn sinni um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp kallar Alþýðusamband Íslands (ASÍ) eftir stórátaki í húsnæðismálum og lýsir yfir verulegum vonbrigðum með litla umfjöllun og skort á aðgerðum til að bregðast við stöðunni á húsnæðismarkaðnum. Þar segir að íslenskur leigumarkaður sé óskipulagður og hlutfall óhagnaðardrifins húsnæðis lítið, leigjendur njóti takmarkaðrar verndar og hafa veika samningstöðu. Í yfirlýsingu stjórnvalda til stuðnings kjarasamningum 2019 hafi verið boðaðar umbótaaðgerðir á leigumarkaði sem ekki hafi verið fylgt eftir.
ASÍ segir frumvarpið gera einungis ráð fyrir 2,9 prósent aukningu í húsnæðisstuðning og að ekki séu gerðar breytingar á fyrirliggjandi forsendu um fjármögnun uppbyggingu óhagnaðardrifinna leiguíbúða, þrátt fyrir að allir stjórnmálaflokkar hafi verið sammála fyrir kosningar um þörfina á auknum framlögum til almenna íbúðakerfisins. „Fyrirséð er að leigumarkaður verði fyrir áhrifum hækkunar húsnæðisverðs, aukins hagvaxtar, fjölgunar ferðamanna og auknum búferlaflutningum. Leiguverð hækkaði þannig umfram verðlag á árunum 2011- 2019, og umfram vísitölu launa.
Samkvæmt tölum frá OECD sem vitnað er í í umsögn ASÍ eru um 43 prósent af leigjendum í neðsta tekjufimmtungi að glíma við íþyngjandi húsnæðiskostnað.
Lestu meira:
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði
-
24. desember 2022Segja verðtryggða íbúðalánavexti mögulega vera orðna hagkvæmari en óverðtryggða
-
23. desember 2022Allir helstu lánveitendur búnir að hækka íbúðalánavexti eftir ákvörðun Seðlabankans
-
20. desember 2022Hvers vegna Efling þarf öðruvísi samning
-
17. desember 2022Ríkasta 0,1 prósentið skuldaði nánast ekkert en átti eignir upp á 330 milljarða
-
14. desember 2022Biðst afsökunar á að tilkynning um 30 prósent leiguhækkun hafi ekki verið nærgætnari
-
12. desember 2022Borgin eignast og endurselur 19 íbúðir af 81 í nýju fjölbýli í Laugarnesi
-
10. desember 2022Umdeilt leigufélag ratar enn og aftur í fréttir vegna frásagna af okri á leigjendum
-
30. nóvember 2022Leigufélagið Bríet gefur 30 prósent afslátt af leigu í desember