Á upplýsingasíðu flutninga- og greiningafyrirtækisins VesselsValue er að finna margskonar upplýsingar varðandi vöruflutninga og skipaferðir um öll heimsins höf. Upplýsingarnar sem þar má nálgast sýna, svo ekki verður um villst, þau gríðarlegu áhrif sem kórónuveiran hefur haft á vöruflutninga landa og heimsálfa á milli. Á vefsíðu Vessels Value kemur fram að núna lóni um það bil 500 fullhlaðin gámaflutningaskip úti fyrir höfnum víðsvegar í heiminum. Flest eru þessi skip mjög stór og samkvæmt upplýsingum Vessels Value eru næstum 300 milljónir 20 feta (kallaðir standard) gáma um borð í þessum skipum, eða bíða á hafnarbökkum víðsvegar í heiminum. Og skipunum, sem hvorki kemst lönd né strönd, fjölgar með degi hverjum. Sem dæmi um það má nefna að í síðustu viku fjölgaði skipum sem bíða fyrir utan Ningbo-Zhoushan, eina stærstu inn- og útflutningshöfn Kína um 48%.
Hvað er í öllum þessum gámum?
Svarið við þessari spurningu er einfalt: allt milli himins og jarðar. Leikföng, bílavarahlutir, fatnaður, húsgögn, matvörur, reiðhjól, prentarablek, gönguskór, raftæki, snyrtivörur o.s.frv.
Kórónuplágan breytti neyslunni
Þegar kórónuveiran braust út brugðust framleiðendur og eigendur verslana við. Dregið var úr framleiðslunni og verslanir drógu úr innkaupum, til að minnka lagerinn. Þetta mat reyndist hinsvegar rangt. Neysla og innkaup almennings jókst. Ferðalög lögðust að mestu leyti af en sala á búsáhöldum, innréttingum, málningu, hreinlætistækjum, húsgögnum og fatnaði jókst. Skýrasta dæmið hér á Íslandi var líklega stóraukin sala á „pallatimbri“. Margir gripu í tómt í timburverslunum þegar ráðast átti í framkvæmdir. Sala á „heitum“ pottum margfaldaðist sömuleiðis.
Erfitt að bregðast við
Þegar verksmiðjueigendur og verslunarmenn áttuðu sig á því að þeir hefðu misreiknað sig reyndu þeir að bregðast við. Það hefur ekki reynst auðvelt. Stór hluti alls kyns neysluvarnings sem fluttur er til Evrópu og Bandaríkjanna er framleiddur í Asíu og fluttur þaðan sjóleiðis. Í mörgum Asíulöndum herjar kórónuveiran enn og það hefur orðið til þess að mörg framleiðslufyrirtæki geta ekki starfað með eðlilegum hætti. Vegna veirunnar hafa margar hafnir í Asíu verið lokaðar og það orsakar flöskuháls í flutningunum.
Fleira kemur til
Þótt kórónuveiran hafi sett stórt strik í „vörustreymisreikninginn“ kemur fleira til. Í Taívan er stærsta verksmiðja tölvukubba (microchips) í heiminum. Fyrr á þessu ári herjuðu þar miklir þurrkar og það olli því að verksmiðjan gat engan veginn annað eftirspurninni. Þetta hefur haft mjög mikil áhrif, meðal annars í bílaiðnaðinum. Bílaverksmiðjur í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum reiða sig á kubbana frá Taívan og þegar þeir eru ekki fáanlegir er fátt til ráða. „Tölvubúnaður af ýmsu tagi stjórnar í raun öllu sem gerist, sama hvað er“ sagði aðstoðarframkvæmdastjóri samtaka danskra iðnfyrirtækja í viðtali við danska sjónvarpið fyrir nokkrum dögum. Hann sagðist jafnframt telja að ástandið verði ekki komið í eðlilegt horf fyrr en um mitt næsta ár, kannski síðar.
Sýnir hve framleiðslu- og flutningskeðjan er viðkvæm
Mörgum er eflaust í fersku minni þegar flutningaskipið Ever Given sat fast í Súez skurðinum í Egyptalandi í mars á þessu ári, með um 20 þúsund gáma innanborðs, á leið til Hollands. Strandið varð til þess að fjöldinn allur af skipum komst ekki leiðar sinnar en sex sólarhringar liðu áður en tókst að losa Ever Given og opna skurðinn fyrir umferð á ný.
Þessi atburður opnaði augu margra fyrir því hve hagkerfi heimsins er í raun viðkvæmt og má við litlu. Afleiðingar kórónuplágunnar hafa svo leitt þetta enn betur í ljós á síðustu vikum og mánuðum. Um það bil 70% af öllum vörum sem framleiddar eru í heiminum eru fluttar með gámum frá framleiðslustað til neytenda. Og að treysta á viðkvæmt flutningakerfi getur haft margskonar erfiðleika í för með sér. Meðal þeirra fyrirtækja sem kórónuveiran hefur haft mikil áhrif á er IKEA. Peter Langskov vörustjóri fyrirtækisins í Danmörku sagði í viðtali við DR, að venjulega kæmu daglega um það bil 45 flutningabílar með vörur í verslanir IKEA í Danmörku, núna er eru þeir iðulega 35 og stundum færri. IKEA hafi brugðið á það ráð að flytja vörur frá Asíu með lest og hafi keypt tóma gáma og sé að undirbúa að leigja gámaskip til vöruflutninga. Peter Langskov telur augljóst að verð á flestum ef ekki öllum vörum muni hækka. Venjuleg vörulest getur flutt 40 – 42 gáma, skip er auðvitað lengur á leiðinni en það getur flutt 10 þúsund gáma eða jafnvel helmingi fleiri.
Verð hefur hækkað og mun hækka enn meira
Peter Langskov sagði í áðurnefndu viðtali augljóst að verð á flestum ef ekki öllum vörum muni hækka. Kaupmenn og forsvarsmenn fyrirtækja tóku allir undir þetta í viðtölum við blaðamenn dagblaðanna Politiken og Berlingske og nefndu sem dæmi að kostnaðurinn við að flytja gám frá Asíu til Evrópu hafi fjórfaldast að undanförnu. Hann bætist ofan á verðhækkanir frá framleiðendum.
Gætu þurft að endurskoða jólagjafalistann
Nú nálgast sá tími sem verslunareigendur nefna gjarna jólavertíðina. Flestir þeirra hafa fyrir löngu gengið frá pöntunum á jólavarningnum. En það er ekki nóg að panta, það þarf líka að fá vörurnar heim og koma þeim í hillurnar. Einn danskur kaupmaður sagðist eiga 30 þúsund jólaálfa (nisse) á hafnarbakkanum í einni stærstu höfn Kína. „Við höfum borgað heilmikið til að fá þá flutta hingað heim, en það eru alltaf einhverjir sem bjóða betur, svo við vitum ekkert hvað verður. Það er nefnilega einskonar verðstríð í gangi, allir vilja fá sínar vörur fluttar og það hleypir flutningskostnaðinum upp.“ Margir kaupmenn eru búnir að láta prenta jólagjafabæklinginn þótt þeir séu engan veginn vissir um að allt sem þar má sjá verði yfirleitt í boði. Blaðamaður Berlingske gerði sér ferð í nokkrar verslanir sem selja íþrótta- og útivistarfatnað. Hann spurði um hlaupaskó frá Adidas eða Nike, hvorugir fengust í hans stærð. Sömu sögu var að segja af íþróttabuxum, þær fengust ekki. Blaðamaðurinn gat ekki heldur fengið dekk sem passaði á reiðhjólið. Í einni búsáhaldaverslun vildi hann kaupa pott af tiltekinni stærð og gerð, rauðan. „Rauðan“ sagði starfsmaðurinn „hann eigum við ekki til en við eigum grænan“. Hann vildi blaðamaðurinn ekki.
Áður en jólavertíð kaupmanna hefst gengur yfir önnur vertíð, einskonar undanfari. Það er Black Friday. Síðasti föstudagur nóvembermánaðar ár hvert, ber í ár uppá 26. nóvember. Black Friday er oft talinn marka upphaf jólaverslunarinnar, með alls kyns tilboðum. Nafnið er dregið af því að bókhaldstölur verslana breytast úr rauðum (hallarekstri) í hagnað. Þótt margir kaupmenn vonist eftir mikilli sölu hafa þeir jafnframt áhyggjur af að erfitt geti reynst að útvega vörur fyrir jólin. Af þessum sökum verða einhverjir hugsanlega að breyta jólagjafalistanum, Jói frændi fær kannski rafmagnstannbursta en ekki skeggsnyrtitækið sem til stóð að gefa honum.
Kannski rétt að líta sér nær
Fyrir nokkrum árum las skrifari þessa pistils viðtal við Lars Larsen (1948 – 2019). Lars þessi var einn ríkasti maður Danmerkur. Dyne Larsen, eins og hann var iðulega kallaður, var stofnandi og eigandi JYSK, sem áður hét Jysk sengetøjslager (Rúmfatalagerinn). Í þessu viðtali var Lars Larsen tíðrætt um þá þversögn, eins og hann komst að orði, að flytja húsgögn, og reyndar flestar vörur, yfir hálfan hnöttinn. Það hlyti að breytast. Hann nefndi líka að það tæki langan tíma að flytja vörur frá Asíulöndum til Evrópu „í dag vill fólk fá hlutina sem fyrst, helst í dag. Og af því að verslanir og heildsalar vilja hafa sem minnstan lager kæmi sér betur ef framleiðandinn væri ekki hinum megin á hnettinum“.
Undir þessi orð geta líklega margir tekið í dag.