„Á sjónarmið hans að vega hærra eða stjórnvalda?“
Ákvarðanir um að synja hópi Palestínumanna um alþjóðlega vernd voru teknar „áður en yfirstandandi átök brutust út á Gaza,“ segir Íris Kristinsdóttir, sviðsstjóri verndarsviðs Útlendingastofnunar og að stríðið þar hafi „ekki endilega áhrif“ á flutning þeirra úr landi sem nú standi fyrir dyrum. „Við förum ekki út í þessar aðgerðir að gamni okkar,“ segir hún um þá ákvörðun að stöðva framfærslu til mannanna og vísa þeim út á götu eftir að þeir neituðu að fara í sýnatöku. „Það er búið að reyna að vinna með þeim.“
Ástandið á Gaza akkúrat núna, hefur ekki endilega áhrif á flutning þessara einstaklinga úr landi beint – þegar kemur að framkvæmdinni,“ segir Íris Kristinsdóttir, sviðsstjóri verndarsviðs Útlendingastofnunar, um hvort stofnunin hafi íhugað að fresta brottvísun Palestínumanna, sem hingað hafa komið síðustu mánuði og óskað eftir alþjóðlegri vernd, í ljósi stríðsins sem geisar í þeirra heimalandi og hefur sett þá í ennþá viðkvæmari stöðu en áður.
Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi stofnunarinnar, segir að vissulega séu „sérstakar aðstæður“ í Palestínu en að þangað sé ekki verið að vísa þeim heldur aftur til Grikklands þar sem þeir hafi þegar fengið dvalarleyfi. Hún viðurkennir þó að ástandið í því landi sé ekki gott, á því leiki enginn vafi. En efnahagslegar ástæður á borð við húsnæðis- eða atvinnuleysi, eru að sögn Írisar ekki nægjanlegar einar og sér svo að mál hælisleitenda séu tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi.
Fá enga þjónustu
Útlendingastofnun hefur lokað fyrir þjónustu við að minnsta kosti níu Palestínumenn síðustu daga og vísað þeim út úr húsnæði stofnunarinnar. Lokaákvörðun er komin í þeirra hælisumsóknir og niðurstaða stjórnvalda sú að þeim eigi að vísa úr landi.
Þeir neituðu að fara í sýnatöku fyrir brottför og hafa sagt í samtölum við Kjarnann að það geri þeir vegna þess að þeir treysti sér ekki aftur til Grikklands, þar bíði þeirra ekkert annað en gatan. Enga vinnu sé að fá og nær ómögulegt að fá húsnæði.
Blaðamaður Kjarnans fór til fundar við Írisi sviðsstjóra Útlendingastofnunar og Þórhildi upplýsingafulltrúa í fyrradag og hitti þá fyrir tilviljun fimm Palestínumenn fyrir utan gistihúsnæði stofnunarinnar í Bæjarhrauni. Þeir sögðust í mikilli vanlíðan vegna stríðsástandsins í heimalandinu, að erfitt væri að fá fréttir af ástvinum þeirra á Gaza og að þeir myndu frekar vilja deyja á íslenskri götu en að fara aftur til Grikklands.
Ég hitti unga menn frá Palestínu hér fyrir utan sem sögðu mér að þeir hefðu verið beðnir að yfirgefa húsnæði sem þeir voru í og framfærslan tekin af þeim. Hvað býr að baki þessari ákvörðun?
„Já, ég get sagt þér, í stórum dráttum, af hverju við erum komin hingað,“ segir Íris. „Þetta eru einstaklingar sem eru komnir með lokasynjun á sinni hælisumsókn á Íslandi. Kærunefnd útlendingamála er búin að staðfesta frávísun Útlendingastofnunar, að þeir eigi að yfirgefa Ísland og fara til Grikklands þar sem þeir hafa fengið dvalarleyfi, eins og þeir hafa sjálfir greint frá í fjölmiðlum.“
Íris segir að stoðdeild Ríkislögreglustjóra sé nú komin með málið í sínar hendur. Það sé hennar að framkvæma ákvörðun yfirvalda. „Þá fara ákveðnir verkferlar í gang,“ útskýrir hún. „Í tilviki þessara manna þá hefur stoðdeildin samband við þá og tilkynnir þeim að þar sem loka niðurstaða sé komin í þeirra mál eigi þeir að yfirgefa landið.“
Fyrst sé þeim boðið að yfirgefa landið sjálfviljugir. Íris segir stoðdeildina leggja áherslu á samtal og að hafa framkvæmdina „eins þægilega“ og unnt sé, „þó að þetta sé auðvitað aldrei þægileg framkvæmd, það er verið að vísa fólki úr landi. En ákvörðunin er þessi og lögreglan þarf að framfylgja henni.“
Hafi þeir ekki efni á flugmiða sé þeim boðinn slíkur. „En ef einstaklingurinn vill ekki fara þá leið þá er þvingaður flutningur eina úrræðið sem eftir er.“ Það þýði að lögreglumenn fari með viðkomandi í flugið og afhenti hann, í þessu tilviki grískum yfirvöldum.
Vilja ekki „vinna með stjórnvöldum“
Palestínumennirnir, sem flestir komu hingað á síðustu mánuðum ársins í fyrra höfðu verið í húsnæði á vegum sveitarfélaga og notið þjónustu þeirra. Fyrir helgi var sveitarfélögunum hins vegar tilkynnt að þeim bæri að láta þá vita að þeir ættu að flytja sig í húsnæði Útlendingastofnunar í Bæjarhrauni í Hafnarfirði og fá þjónustu þar.
„Við ræddum við þá með aðstoð túlks og útskýrðum fyrir þeim að til þess að geta farið í flutning þurfi að taka COVID-próf,“ segir Íris. „Það er grundvallarforsenda fyrir því að fara úr landi í dag. Við gerðum þeim grein fyrir því að ef þeir ætluðu sér ekki að vinna með stjórnvöldum í þessum efnum, og víkja sér undan framkvæmd með þessum hætti, gæti það haft þær afleiðingar í för með sér að þeir misstu þjónustu.“
Íris segir að Palestínumennirnir hafi svo fengið tækifæri til að hugsa sig um, ræða við lögmenn sína eða aðra.
Voru einhverjir þeirra sem ákváðu eftir samtöl við ykkur að fara úr landi?
„Ekki í þessum hópi en það hefur gerst í nokkur skipti að einstaklingar hafa valið að halda þjónustunni og fara í þetta próf og úr landi. Við gerðum [Palestínumönnunum] náttúrlega grein fyrir því að að sjálfsögðu megi þeir fá áfram þjónustu ef þeir vinna með stjórnvöldum og undirgangist þetta próf og fari úr landi eins og niðurstaðan segir til um. En í þessu tilviki vildu þeir það ekki þannig að þetta er ákvörðunin sem var tekin.“
Íris segir að í lögum um útlendinga sé að finna ákveðnar þvingunarheimildir fyrir lögregluna til að framkvæma ákvarðanir yfirvalda. „Reglugerð um útlendinga heimilar líka að leggja niður þjónustu í ákveðnum tilvikum.“
Teljið þið ykkur hafa styrka stoð til þessara aðgerða í lögum um útlendinga og reglugerð um útlendinga?
„Já, við teljum að það sé heimild í reglugerðinni til að fella niður þjónustu við ákveðnar aðstæður. Og reglugerðin á sér stoð í lögum um útlendinga.“
Þórhildur segir þjónustuna vera fyrir þá sem á henni þurfi að halda á meðan umsókn þeirra hjá stofnuninni sé í vinnslu. „Henni lýkur þegar ákvörðun kemur til framkvæmdar. Í þessum tilvikum er um að ræða ákvarðanir sem er búið að vísa til framkvæmdar hjá lögreglu. Þegar einstaklingarnir gera samt sem áður eitthvað til að koma í veg fyrir að framkvæmdin geti átt sér stað þá er réttur til þjónustu í raun fallinn niður.“
Þið eruð að taka þessar ákvarðanir og beita þessu þegar tvenns konar óvissa er til staðar. Í fyrsta lagi er heimsfaraldur og hann er vissulega í rénun hér en hann hefur haft mikil áhrif í Grikklandi og á flóttafólk þar. Svo er náttúrlega, það er óhætt að kalla það, stríð í þeirra heimalandi.
„Það er enginn að tala um að senda þá til Palestínu,“ segir Þórhildur og bætir við að sá misskilningur hafi heyrst í umræðunni. Senda eigi mennina til Grikklands.
En þeir velja náttúrlega ekki að fara til Grikklands, þeir verða að fara þangað, það er eini viðkomustaðurinn sem þeir geta haft á flótta frá Palestínu þar sem ástandið er svona. Hafið þið ekki staldrað við þetta tvennt þegar þið ákveðið að framkvæma svona aðgerð; annars vegar hvernig staðan er í Grikklandi í þriðju bylgjunni þar og síðan að það sé stríð í þeirra heimalandi og þeir því í sérstaklega viðkvæmri stöðu?
„Allt sem þú ert að nefna með COVID er mat sem hefur farið fram í ákvörðunum, bæði hjá Útlendingastofnun og hjá kærunefndinni,“ svarar Íris. „Þar er farið í ítarlegt mat á aðstæðum á Grikklandi með tilliti til heimsfaraldursins til dæmis. Sú niðurstaða fékkst í þessi mál að COVID væri ekki að hafa þau áhrif að það eitt og sér ætti að stöðva endursendingu. Þannig að það er vissulega hugsað um þessa hluti. Við förum ekki út í þessar aðgerðir að gamni okkar. Þetta er algjörlega síðasta úrræðið sem við notum. Það er búið að reyna að vinna með þeim.“
Við meðferð málsins hjá stofnuninni er að sögn Þórhildar metið hvort að aðstæður hvers og eins einstaklings, sem njóti þegar réttinda á Grikklandi, séu með þeim hætti að rétt sé á grundvelli útlendingalaga að mál hans sé tekið til efnismeðferðar hér á landi. Búið sé að framkvæma þetta einstaklingsbundna mat í tilviki Palestínumannanna og búið að endurskoða það af kærunefnd útlendingamála sem staðfesti niðurstöðu Útlendingastofnunar.
Skiptir engu máli hvaðan þeir koma, hvert þeirra heimaland er? Aðeins staða þeirra í Grikklandi?
„Lögin segja að við þurfum ekki að fjalla efnislega um ástæður flótta frá heimaríki þegar um er að ræða einstaklinga með vernd í öðru landi,“ svarar Íris. „Við þurfum ekki að spyrja af hverju ertu að flýja Palestínu því við vitum að búið er að fjalla um það á Grikklandi og búið að veita viðkomandi vernd þar. En lögin gera hins vegar kröfu um að við skoðum hvernig þessi flótti hefur haft áhrif á viðkomandi. Við spyrjum spurninga um hvort viðkomandi hafi lent í aðstæðum sem hafi mótað þá og þeirra heilsu, til dæmis. Þetta er mat sem stjórnvöld þurfa að taka.“
En finnst ykkur ekki óheppilegt að þið séuð að gera þetta, að setja unga Palestínumenn á götuna, á meðan þessir atburðir eru að eiga sér stað á Gaza? Í þessum töluðu orðum?
„Þetta eru ungir Palestínumenn sem hafa flúið Palestínu vegna ástandsins þar og hafa þegar fengið veitta vernd í Evrópuríki,“ ítrekar Þórhildur. Íris bætir við að það sem kom fyrir viðkomandi í hans heimalandi og á hans flótta sé tekið til mats hjá stofnuninni. Ákvarðanir um synjun hafi hins vegar verið teknar „áður en yfirstandandi átök brutust út á Gaza“.
En það sem skiptir þá máli núna er hvernig ástandið er í þeirra heimalandi, sem þeir hafa eflaust væntingar til að snúa aftur til einhvern tímann. Og þetta eru sérstaklega erfiðar aðstæður akkúrat núna þessa dagana. Var staldrað við og hugsað um að fresta þessum aðgerðum í því ljósi?
„Þetta er búið að vera langt ferli,“ svarar Íris. „Þetta er ekki að gerast á einhverjum einum eða tveimur dögum. Það er búið að taka öll þau skref sem hægt er að taka í þessum málum, gagnvart þessum einstaklingum, þegar kemur að framkvæmdinni. Á einhverjum tímapunkti neyðast stjórnvöld til þess að bregðast við, eins og í þessu tilviki. Við erum að tala um þvingaðan flutning sem er alltaf erfitt.“
Við erum líka að tala um ástand á Gaza sem hefur ekki verið síðan 2014.
„Ástandið á Gaza akkúrat núna, hefur ekki endilega áhrif á flutning þessara einstaklinga úr landi beint – þegar kemur að framkvæmdinni,“ segir Íris. „Þetta er allt sem er tekið tillit til í ákvörðuninni og nú er komin loka niðurstaða og þessir einstaklingar eru í raun búnir að tæma sínar leiðir innan kerfisins. Stofnunin er bundin af þeim lögum og reglum sem eru í gildi á hverjum tíma. Þetta eru reglurnar sem við þurfum að vinna eftir.“
En hefði verið hægt að fresta þessari aðgerð í nokkrar vikur? Eru heimildir til að fresta ákvörðunum í ljósi mjög sérstakra aðstæðna sem koma upp?
„Það eru vissulega sérstakar aðstæður í þeirra heimalandi en það er ekki verið að vísa þeim þangað,“ endurtekur Þórhildur. „Það er hægt að ímynda sér að ef einhverjar aðstæður kæmu upp þar sem þyrfti hugsanlega að skoða. En það er ekki verið að vísa þeim til lands þar sem eru átök.“
Þeir hafi rétt til að vinna á Grikklandi „en við vitum að það er erfitt að fá vinnu þar og ástandið er að mjög mörgu leyti ekki jafn gott og hér. Við erum ekki að draga það í efa. En þeir njóta þar verndar og þess vegna er litið til ástandsins þar en ekki ástandsins í Palestínu.“
Þórhildur bendir á að tilfelli hafi komið upp þar Útlendingastofnunar meti aðstæður fólks sem njóti þegar verndar í Grikklandi leiði með þeim hætti að ekki skuli senda það aftur þangað. „Inn í það spilar flóttinn, uppruni, áföll, heilsufar og fleira í samhengi við þær aðstæður sem bíða viðkomandi á Grikklandi.“ Sé niðurstaðan sú að ekki þyki forsvaranlegt að senda viðkomandi til Grikklands sé mál hans tekið til efnislegrar meðferðar.
Það var hins vegar ekki niðurstaðan í einstaklingsbundnu mati Útlendingastofnunar á málum Palestínumannanna sem nú hafa misst þjónustu hjá stofnuninni.
Þegar þið segið að þið metið aðstæður á Grikklandi þannig að þær séu öruggar. Hvaðan fáið þið þær upplýsingar?
„Það fer fram mjög ítarlegt mat hjá lögfræðingum stofnunarinnar,“ segir Íris. Í viðtölum séu umsækjendum um vernd m.a. gefið tækifæri til að útskýra sínar aðstæður og upplifun sína af því að dvelja á Grikklandi. Einnig fari fram rannsókn á heilsufari umsækjenda og þeir fái auk þess tækifæri til að leggja fram gögn. Í kjölfarið séu aðstæður á Grikklandi svo skoðaðar eftir mörgum leiðum. Til dæmis sé stuðst við fjölmargar alþjóðlegar skýrslur, m.a. um félagslega kerfið og heilbrigðiskerfið. Að sögn Írisar eru margar skýrslurnar frá því í ár og í þeim séu nýjar og uppfærðar upplýsingar. Einnig eigi lögfræðingarnir samskipti við grísk yfirvöld, svo dæmi séu tekin.
Þið teljið þessi gögn það ný og það góð að það sé óyggjandi í ykkar huga að það sé öruggt, til dæmis fyrir þessa ungu Palestínumenn, að fara til Grikklands?
„Já, það er mat stofnunarinnar í þeim tilvikum þegar komist er að þeirri niðurstöðu að synja eigi einstaklingi um efnislega meðferð, að það sé öruggt að fara þangað,“ svarar Íris. „Að það sé ekki brot á mannréttindasáttmálanum til dæmis.“
Þeir segjast sumir hafa búið á götunni og aðrir jafnvel á ruslahaugum á Grikklandi. Er það ásættanlegt?
„Eitt af því sem er skoðað er hvar einstaklingurinn hefur dvalið og hvaða tækifæri einstaklingurinn færi til að aðlagast grísku samfélagi,“ segir Íris. „En lögin, og reglugerðin reyndar líka, kveða á um að efnahagslegar ástæður séu einar og sér ekki nægjanlegar til þess að málið fái hér efnislega málsmeðferð.“ Efnahagslegar ástæður séu t.d. atvinnu- og húsnæðisleysi. „Það þarf að koma eitthvað meira til.“
En þeir segjast einmitt hafa þetta val; að vera hér á götunni eða á götunni í Grikklandi. Þeir velji íslenska götu. Hvernig hljómar það í þínum eyrum? Hvað finnst þér það segja um stöðu þeirra?
„Þeir vilja ekki fara til baka og það er sjónarmið út af fyrir sig,“ segir Íris. „Og maður skilur það alveg. Þessir einstaklingar eru komnir hingað og þeir vilja vera hérna. En svo er hitt sjónarmiðið, að hér erum við komin með niðurstöðu sem segir að viðkomandi eigi að fara úr landi og þá er það bara spurningin: Á sjónarmið hans að vega hærra eða stjórnvalda?“
Þórhildur bætir við að enginn dragi það í efa að aðstæður þeirra á Grikklandi séu bágbornar „og að þeir séu komnir hingað í leit að betri kjörum og betri tækifærum. Á því hafa allir skilning. En það sem þeir eru að sækja um hér á landi er hins vegar alþjóðleg vernd sem er neyðarkerfi fyrir fólk á beinum flótta frá átökum og ofsóknarástandi“.
Eru þeir ekki á beinum flótta þó að þeir hafi haft viðkomu í ákveðnu landi? Palestínumenn geta ekki flúið beint til Íslands.
„Nei, en það er verið að tala um einstaklinga sem njóta nú þegar alþjóðlegrar verndar í Evrópuríki og þar af leiðandi geta þeir ekki komið til Íslands eða annars lands og fengið sambærilega stöðu og þeir sem hingað koma með enga vernd í Evrópu.“
Nú eru þeir komnir á götuna og hafa hvorki húsnæði né framfærslu. Hafið þið ekki áhyggjur af því? Útlendingastofnun hefur hingað til viljað vita hvar hælisleitendur eru, dæmin sýna það. Af hverju á það ekki við núna?
„Auðvitað er þetta ekki ákjósanleg staða,“ segir Íris. „Það er enginn að halda því fram að við viljum hafa þetta svona. En staðreyndin er sú að við erum komin hingað í þessu tilviki.“ Hún bendir á stoðdeild Ríkislögreglustjóra hafi heimildir til að setja á ákveðna tilkynningaskyldu til að vita hvar fólk sé á hverjum tíma. Hins vegar geti hún ekki svarað fyrir hvað lögreglan geri í málum Palestínumannanna. „En það eru vissulega leiðir til að tryggja að við týnum ekki einstaklingunum í samfélaginu.“
Þórhildur segir þá ekki verða þvingaða í COVID-próf en að fallist þeir á að fara í það geti þeir aftur fengið þjónustu hjá Útlendingastofnun.
Og farið úr landi?
„Já,“ svarar Þórhildur. „Að vera frekar á götunni hér en í Grikklandi, eins og þeir segja, er samt í raun ekki val sem einstaklingar eiga þegar fyrir liggur framkvæmdarhæf ákvörðun.“ Ef ekki væri fyrir COVID-prófin væri búið að flytja þá úr landi. Það hafi verið gert fyrir faraldurinn þegar fólk neitaði að yfirgefa landið í samræmi við niðurstöðu yfirvalda.
Ástandið í Grikklandi er ekki gott
Síðustu tvö ár eða svo hefur umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi frá fólki sem þegar nýtur verndar á Grikklandi fjölgað mjög, að sögn Þórhildar. „Það er ekkert nýtt að einstaklingar vilji ekki fara aftur til Grikklands þótt að við höfum auðvitað mikla samúð með fólki frá Palestínu og vitum að það hlýtur að vera hörmulegt að eiga þar ættingja í þeim aðstæðum sem þar eru núna.“
Lögmenn sumra þessara Palestínumanna hafa sagt að það sé ekki tilviljun að svo margir sem þegar hafi fengið stöðu flóttamanna á Grikklandi séu að sækja um vernd hér. Að þeir sem fengið hafi vernd í öðrum löndum séu ekki að flykkjast hingað. Vekur þetta ekki spurningar um aðstæðurnar á Grikklandi?
„Við vitum, við sjáum það í fjölmiðlum, að ástandið á Grikklandi er ekki gott,“ svarar Þórhildur. „Það er erfitt á Grikklandi. Það er enginn vafi um það.“ Hins vegar komi einnig hingað einstaklingar sem fengið hafi vernd í öðrum löndum, t.d. í Ungverjalandi og á Ítalíu, en þó alls ekki í sama mæli. Íris segir að allt séu þetta lönd sem séu við landamæri annarra heimsálfa og fái því „mesta þungan“ þegar komi að straumi fólks á flótta. „Og eðli málsins samkvæmt hafa skapast þar erfiðar aðstæður. Það leiðir til þess að einstaklingarnir leita annað.“
Vissulega veki það upp spurningar að hennar sögn hversu margir sem fengið hafi vernd á Grikklandi leiti nú hingað. „Það er ástæðan fyrir því að við gerum gríðarlega nákvæmt mat á aðstæðunum þar.“
Grísk stjórnvöld hafi kallað eftir aðstoð annarra Evrópuríkja til að létta á ástandinu. „Það eru mörg lönd sem hafa svarað því ákalli. Meðal annars Ísland.“
Hvernig sérðu fyrir þér að mál Palestínumannanna fari? Einstaklinga sem eru ekki lengur í ykkar þjónustu og ekki með íslenska kennitölu?
„Ég held að það hljóti að enda með því að þeim verði vísað frá landinu í samræmi við niðurstöðu yfirvalda og þá með þvinguðum flutningi á vegum lögreglunnar. Ég sé ekki fyrir mér að annað en það gerist.“ Þeir verði þó ekki þvingaðir í sýnatöku.
En þeir komast ekki úr landi án þess að fara í COVID-próf?
„Eins og staðan er núna,“ svarar Íris.
Er verið að skoða að fá undanþágur frá því?
„Stoðdeildin er í samskiptum við þessi lönd og þeirra að svara því.“
Yfirvöld í nágrannaríkjum Íslands séu í sömu sporum. „Löndin hafa hins vegar mjög misjafnt regluverk. Sum eru með þetta svokallaða varðhald sem er stundum beitt í þessum tilvikum. Aðrir fella niður þjónustu.“
Miðað við það sem Palestínumennirnir segja núna munu þeir ekki fallast á að fara í skimun og til Grikklands. Hvað getur það ástand varað lengi?
„Það er erfitt að segja,“ svarar Íris. „Þeir eru að velja að koma sér undan framkvæmd. Hvað þeir eru tilbúnir að gera það lengi, ég get ekki svarað fyrir þá. Það eru þá væntanlega ákveðnar leiðir sem stoðdeildin þarf að fara. Þeir hafa aðrar heimildir en við.“